29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

7. mál, innheimta

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Fjhn. d. hefur athugað þetta frv. og hefur lagt með því, að það væri samþ. Einn nm. hefur þó skrifað undir með fyrirvara.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um að innheimta ýmis gjöld með viðauka nú á n.k. ári. Frv. sjálft er nákvæmlega og eiginlega stafrétt samhljóða l. þeim, sem staðfest voru hér á síðasta þingi um sams konar efni, aðeins þessi eina breyt., sem ég sé á frv., er það, að í 3. gr. er hér 1953 í staðinn fyrir 1952. Ég tel það — og við í nefndinni, að engin ástæða sé nú að fella niður þennan viðauka við gjöldin, því að frekar sækir það í þá áttina, að hækka heldur en að lækka, þessi gjöld. Þótti rétt nú að leggja til, að samþ. væri þetta frv., enda þótt núna liggi fyrir hér í d. ný frv., sem þessi sama n., fjhn., hefur flutt að beiðni stjórnarinnar um breyt. á aukatekjugjöldum og stimpilgjöldum. Þar sem nú eru engar líkur til að þessi frv. muni vera búin að öðlast gildi fyrir áramót, þá er sjálfsagt að taka þetta frv. og samþ. það. Má þá, ef svo skyldi fara, að frv. þessi yrðu samþ. hér á þinginu eftir áramót, fella frá þeim tíma úr gildi það frv., sem hér er farið fram á að verði að lögum, svo að það er ekki nein hætta við það að samþ. það nú, enda þótt það kunni að breytast á næsta ári, sem ég tel þó ólíklegt.

Að svo mæltu vil ég fyrir n. hönd, eða meiri hl. hennar, leggja það til, að hv. d. samþykki frv. þetta.