11.12.1952
Neðri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

7. mál, innheimta

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál mun hafa verið afgr. í fjhn. á þriðjudagsmorguninn, ef ég man rétt, þegar útvarpsumr. stóðu yfir, og ég gat því miður ekki mætt á þeim fundi. Þetta frv. er gamall kunningi, það er framlengt þing eftir þing.

Okkar athugasemdir, sósíalista, hafa fyrst og fremst verið við gjaldið af innlendum tollvörutegundum, og það er það, sem hefur gert, að við höfum að nokkru leyti verið andvígir þessu frv., þótt hins vegar ýmis af gjöldunum, sem fyrr eru talin í liðunum, hafi raunverulega eðlilega átt að hækka. Þess vegna hefði það nú verið æskilegt, ef mögulegt hefði verið, að nokkur lækkun hefði getað orðið á gjaldinu af tollvörutegundunum, en um það mun nú ekki vera að ræða. Ég get ekki fylgt þessu frv. af þessum ástæðum, og vildi ég með þessum orðum aðeins gera grein fyrir því.