04.12.1952
Neðri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 303, leggur meiri hl. fjhn. til, að frv. þetta verði samþ. eins og það liggur fyrir. Hins vegar hefur minni hl. ekki skilað nál., en fyrir liggja brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. og einnig frá tveimur hv. þm. úr Alþfl.

1. gr. þessa frv. er um tekjuskattsviðauka, og eru þau ákvæði alveg samhljóða þeim lagafyrirmælum, sem gilt hafa um þetta efni um mörg undanfarin ár. Aðrar greinar frv. eru líka nákvæmlega samhljóða þeim l., sem nú gilda, að því undanskildu, að í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að skattar verði á næsta ári umreiknaðir miðað við umreikningstölu 457, en umreikningstalan, sem notuð var á þessu ári, var 406, og stafar þessi breyt. af þeirri hækkun, sem orðið hefur á vísitölunni. Nú skal ég geta þess, að ég hef fengið upplýsingar um það, að frá því að þetta frv. var samið í þingbyrjun, varð nokkur hækkun á vísitölunni, þannig að rétt mun að reikna á næsta ári með 459 í stað 457 eins og er í frv., og mun meiri hl. fjhn. flytja leiðréttingartill. um þetta atriði fyrir 3. umr. málsins.