05.12.1952
Neðri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég flutti við 2. umr. málsins tvær brtt., sem þá voru felldar. Ég vil nú freista þess að koma fram með brtt. við 3. gr., um ákveðna tilslökun í tekjuskattinum, sem er að nokkru leyti öðruvísi, en sú till. var, sem ég flutti þá, þó að hún að vísu ekki nema að nokkru leyti gangi skemmra. Till., sem ég flutti við 2. umr., var um, að það yrði sleppt öllum tekjuskatti á þeim, sem hefðu 30 þús. kr. í hreinar tekjur, miðað við konu og eitt barn á framfæri. Í þessari till. minni miða ég við 29 þús. kr. Hins vegar hef ég gert þá breyt. þar á, að í staðinn fyrir það, að áður fór eftirgjöfin stigminnkandi á milli 30 og 40 þús. kr., miðað við 30–40 þús. kr. tekjur, þá læt ég hana nú fara stigminnkandi að sama leyti frá 29 þús. upp í 50 þús. Ég hef sent þessa till. í prentun, en því miður er hún ekki komin úr prentun enn þá. Og satt að segja, þá er kannske dálítið erfitt að greiða atkv. um hana eins og hún er, því að hún er mjög löng, og eins og flestar þessar till., sem snerta tekjuskattinn, þá er hún tiltölulega torskiljanleg. Það hefði því kannske verið æskilegra, ef það hefði a.m.k. verið hægt að fresta atkvgr. um hana á eftir, enda auðséð, að hæstv. ríkisstj. stendur svo tæpt í d., miðað við slæma sókn ráðh., að það er aldrei að vita nema hún falli á einhverjum svona till., ef ekki er höfð því meiri aðgæzla af hálfu hæstv. forseta, án þess að ég hins vegar mundi nú harma það neitt. Till. hljóðar á þessa leið:

„Við 3. gr. Greinin orðist svo: Veita skal sérstaka tilslökun í tekjuskatti af hreinum tekjum, álögðum 1953, sem hér segir: Tekjuskattur gjaldanda með 29 þús. kr. eða lægri hreinar árstekjur og konu og eitt barn á framfæri, miðað við Reykjavík, skal falla niður. — Tekjuskattur gjaldanda með 29.001–36.000 kr. hreinar árstekjur og konu og eitt barn á framfæri, miðað við Reykjavík, skal falla niður að 3/4 hlutum. — Tekjuskattur gjaldanda með 36.001–43.000 kr. hreinar árstekjur og konu og eitt barn á framfæri, miðað við Reykjavík, skal falla niður að hálfu leyti. — Tekjuskattur gjaldanda með 43.001–50.000 kr. hreinar árstekjur og konu og eitt barn á framfæri, miðað við Reykjavík, skal falla niður að 1/4 hluta. — Þessi sérstaka tilslökun skal framkvæmd þannig, að tekjur manns að frádregnum skatti skulu aldrei verða lægri en þess, sem greiðir lægri skatt. — Þeirrar hlutfallslækkunar á tekjuskatti, sem þessi gjaldandi fær, skulu allir þeir njóta, sem jafnháan eða lægri tekjuskatt hafa, þó aðeins þeir, er hljóta niðurfærslu tekna samkv. 14. gr. laga nr. 20 1942.“

Ég hef flutt mín rök fyrir nauðsyninni á þessum breyt. og réttmæti þeirra, enda eru þær almennt viðurkenndar. Ég flutti þær við 2. umr. málsins, og ég gerði þá líka grein fyrir, að hve miklu leyti þetta yrði auðveldara fyrir ríkissjóðinn, heldur en hækkun persónufrádráttarins og kæmi þannig lágtekjumönnum miklu meira að gagni, heldur en hækkun persónufrádráttarins jafnvel mundi gera.

Ég vil svo, eins og ég hef tekið fram við hæstv. forseta, biðja hann að leita afbrigða fyrir þessari till.