15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

11. mál, tekjuskattsviðauki

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Það má sjá það á mörgu, að jólin nálgast nú óðfluga. Maður þarf ekki annað, en að líta á litlu börnin, þau eru að gægjast eftir jólasveinunum og sjá, hvort þeir koma ekki ofan af fjöllunum til þess að færa þeim eitthvað fyrir jólin. Hæstv. ríkisstj. er líka að búast við sínum árlega jólasveini. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til umræðu, er gamall húsgangur á hv. Alþ. og hefur verið framlengt mörg ár í röð, og undir hver áramót leggja hæstv. ríkisstj. mikla áherzlu á það að fá þetta frv. afgr., svo að ríkissjóðurinn geti fengið þær tekjur, sem frv. er ætlað að færa honum. Ríkissjóður þarf á sínum jólaglaðningi að halda eins og litlu börnin.

Fyrir nokkrum árum var samþ. hér á hv. Alþ. þáltill., þar sem þeirri hæstv. ríkisstj., sem þá var, var falið að láta endurskoða skattalöggjöfina. Í þetta verk var fyrir nokkrum árum skipuð sérstök n. Hún lauk starfi á tiltölulega mjög skömmum tíma og afhenti þáverandi hæstv. ríkisstj. ýtarlegt frv. um endurskoðaða skattalöggjöf. Það var búizt við því, að þetta frv. mundi verða borið fram á Alþ., sem kom saman næst eftir þetta, til þess að ekki þyrfti oftar að endurnýja hinar mörgu bráðabirgðabreytingar, sem gerðar höfðu verið á skattalögunum og haldið var við, frá ári til árs. Á þessu frv. bólaði þó ekki. Það kom aldrei fram, og verð ég að harma það mikið, því að í því frv. fólust margar og mjög gagnlegar breytingar á núverandi skattalöggjöf, og þau atriði, sem á milli bar hjá þeim mönnum, sem að samningu þess frv. stóðu, voru ekki þess eðlis, að ástæða væri til þeirra vegna að láta frv. ekki koma fram.

Hæstv. ríkisstj., sú er nú situr, skipaði svo aftur aðra n. til þess að endurskoða lögin um tekjuskatt, tekjuskattsviðauka, eignarskatt og fleira í því sambandi. Verkið, sem fyrir þeirri n. lá, í þeirri mynd, sem hægt er að búast við, að hún leysi það af hendi, var ekki meira, en það, að með sæmilegum vinnubrögðum hefði verið hægt að ljúka því á fáum vikum með hliðsjón af þeim grundvelli, sem að n. var réttur frá þeirri n., sem endurskoðaði þetta mál á undan henni. Ég skal að vísu viðurkenna, að þessari nýju n. var falið að athuga ýmsa hluti og ýmsar breytingar í sambandi við skatta- og útsvarslög, sem hefði tekið mjög mikinn tíma að leysa af hendi, ef unnt hefði átt að vera að fullnægja því verkefni til fulls. Sú n., sem starfaði á undan þessari seinni n., hafði einnig fengizt við þetta verkefni og lagt að því nokkurn grundvöll, og mér er ekki grunlaust um, að árangurinn af' starfi þessarar nýju n. muni verða mjög svipaður og árangurinn af starfi hinnar fyrri að því er þetta aukna og víðtækara starfssvið varðar, þannig að ég hef ekki á því sérlega mikla trú, að frá hinni nýju n. komi annað eða meira, en endurskoðun á l. um tekjuskatt, tekjuskattsviðauka, stríðsgróðaskatt og annað þess háttar. Það, að endurskoða þau lög og koma fram með þær breytingar, sem nauðsynlegastar verður að telja og til bóta horfa, er ekki meira verk, en svo, að hægt hefði verið að leysa það af höndum á fáum vikum, ef raunverulega hefði verið til staðar vilji til þess að fá málið afgreitt á þessu þingi, en eins og hv. þm. Barð. tók réttilega fram, þá virðist sá vilji ekki hafa verið til staðar, og því fór sem fór.

Það hefur verið mikið um það rætt og margoft á það bent, að sú skattalöggjöf, sem við eigum nú við að búa, sé að mörgu leyti svo stórgölluð, að nauðsyn sé þar endurbóta, og að þær endurbætur megi ekki dragast. Mér sýnist hins vegar, að það ætli að verða nokkuð sameiginlegt hjá öllum ríkisstj. að hafa nokkra tilhneigingu til þess að fresta þeim breytingum á skattalögjöfinni, sem mest er kallað eftir, og ég hef mikla tilhneigingu til þess að taka undir það með hv. þm. Barð., að það er varthægt að framlengja bráðabirgðaákvæði eins og þau, sem hér eru lögð fyrir, nema ríkisstj. sé gefið alveg nauðsynlegt aðhald til þess að láta ekki dragast lengur, en orðið er að koma fram með nauðsynlegar breytingar á skattalöggjöfinni.

Ég ætla ekki að ræða það frv., sem hér liggur fyrir, í einstökum atriðum. Þó vil ég leyfa mér að vekja alveg sérstaklega athygli á, að þetta frv. viðheldur einum af hinum meinlegri göllum, sem verið hafa á skattalöggjöfinni núna um áratug, en það er það óréttlæti, sem gildir í sambandi við umreikninginn. Núgildandi tekjuskattstigi er miðaður við það ástand, sem hér var í peningamálum fyrir um það bil 10 árum. Síðan sá skattstigi varð til, hefur, eins og allir vita, orðið mikil breyting á gildi peninganna og þeir hafa stórum fallið í verði. Þannig fá menn nú handanna á milli margfalt fleiri krónur en þeir áður fengu, þó að verðgildi þess fjár, sem menn hafa nú handa á milli, sé sízt meira en var fyrir 10 árum. Ef ekki væru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að mæta þessu aukna peningamagni, þá hefur það löngum verið ljóst, að menn mundu fá miklu hærri skatta en eðlilegt væri, vegna þess að menn færðust ofar í skattstiga. Til þess að mæta þessu var tekin upp og lögfest fyrir þó nokkuð löngu umreikningsreglan, sem byggð er á þeirri hugsun, að menn fari ekki ofar í skala en þeir eiga að fara miðað við það, að krónutalan hefur aukizt, án þess að raunveruleg breyting hafi orðið á tekjum. Sú tala, sem tekin hefur verið upp til þess að umreikna með og nú er ákveðin í þessu frv., 459, er raunverulega alveg út í bláinn. Hún hefur raunverulega ekkert að gera með það verðfall, sem hefur orðið á peningunum. Þetta er ekki dýrtíðarvísitalan, og þetta er ekki kauplagsvísitalan. Hún er í algeru ósamræmi við báðar þessar tölur, heldur er hún búin til að langsamlega mestu leyti algerlega út í loftið, og hún er talsvert lægri, en hún ætti að vera samkvæmt því verðfalli, sem raunverulega hefur orðið á peningunum, þannig að þrátt fyrir þessa umreikningstölu lenda menn til muna ofar í skattstiganum en þeir ættu að lenda samkvæmt þeirri hugsun, sem hann var byggður á í upphafi. Það er því brýnasta nauðsyn, að þessi vísitala sé tekin til endurskoðunar og einhverjum hlutlausum aðila falið að reikna út heilbrigða og sanngjarna umreikningsvísitölu. Slíkt verk er ekki hægt að fela neinum öðrum, en Hagstofu Íslands, sem öllum stofnunum öðrum er betur treystandi til þess að framkvæma hér það eitt, sem rétt er og sanngjarnt. Ég vil því leggja til, ásamt hv. 4. þm. Reykv., að 4. gr. þessa frv. verði breytt á þann hátt, að í staðinn fyrir að ákveða umreikningsvísitölu í frv. sjálfu, verði Hagstofu Íslands falið að reikna út vísitölu, er sýni þá breytingu á almennu kaupgjaldi, er orðið hefur síðan 1941, og að tekjuskatturinn og tekjuskattsviðaukinn fyrir 1953 verði síðan ákveðinn á grundvelli umreiknings samkvæmt þessari vísitölu og að svo verði einnig gert í framtiðinni. Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta brtt. um þetta, við 4. gr., og ég vænti, að hún fái að koma hér til umr. og atkvgr.