02.12.1952
Neðri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég býst við, að flestir þeirra, sem hlusta á umr. hér í hv. þingdeild núna, hafi að minnsta kosti að nokkuð miklu leyti lesið Tímann á styrjaldarárúnum allt fram undir árið 1947, og ég býst við, að þeir minnist þess einnig, að þá var það eitt atriði, sem sérstaklega var um rætt í því merka blaði, og það var verðbólgan. Ég held, að ég þori að fullyrða, að það hafi ekki ein einasta síða í Tímanum á þeim árum birzt svo, að ekki hafi verið verðbólguuppsláttur á einhverri grein og stundum öllu, sem á síðunum stóð. Þá virtist það, sem Framsfl. óttaðist mest af öllu í þjóðfélaginu, vera það fyrirbrigði, sem var þá kallað verðbólga, en nú er ekki minnzt á af fulltrúum stjórnarflokkanna, ríkisstjórninni eða blöðum þeirra. Þess vegna vildi ég með fáum orðum benda á það, hvernig þráun í verðlagsmálum hefur orðið hér þessi ár, sem liðin eru síðan núverandi stjórnarflokkar tóku við völdum í ársbyrjun 1947.

Það er einnig kunnugt, að á stríðsárunum var byrjað að reikna út mánaðarlega vísitölu, og var samþ. í byrjun stríðsins að greiða kaupgjald eftir þeirri vísitölu. 1947 var framfærsluvísitalan í landinu í ársbyrjun um það bil 310 stig samkv. útreikningi hagstofunnar, og það var sú verðbólga, sem þá var mest um rætt í blöðum Framsfl. og sagt, að væri algerlega að sliga atvinnuvegina og fjárhagskerfi þjóðfélagsins allt saman. En hvernig hefur svo þróunin verið í þessum málum síðan? Ég vil raunar bæta því við, að í þeim stjórnarsamningi, sem gerður var, þegar sú stjórn, sem tók við völdum 8. febr. 1947, settist í ráðherrastólana, var lýst yfir, að eitt af aðalverkefnum hennar ætti að vera það að vinna bug á þessari ófreskju í atvinnu- og efnahagslífinu, verðbólgunni.

Það hefur þó farið svo, að þegar bornar eru saman tölurnar, sem mældu dýrtíðina og verðbólguna í ársbyrjun 1947, og aftur þær tölur sambærilegar, sem mældu hana núna á síðastliðnu sumri, eða við getum sagt í byrjun október s.l., þá hafa þær nákvæmlega hækkað um helming. Í staðinn fyrir 310 stiga framfærsluvísitölu í ársbyrjun 1947 var sú sama framfærsluvísitala reiknuð eftir sömu reglum orðin 620 stig 1. okt. s.l. Þetta er árangurinn af því viðreisnarstarfi, sem hefur verið rekið þessi ár, og baráttunni gegn þeim vágesti, sem mikið var um rætt í blöðum Framsfl. árin fyrir þennan tíma, og þetta er m.a. ástæðan til þess ástands, sem núna er í þjóðfélaginu, þess ástands, sem hefur skapað þær vinnudeilur, sem nú eru byrjaðar. En um þetta verður vitanlega ekki rætt, nema komið sé að verulegu leyti inn á þær aðferðir, sem hafa verið notaðar til þess að skapa þessa verðbólgu. Ein þeirra hefur verið rædd hérna í þessum umr. núna, það er söluskatturinn, og ég vil bæta við það nokkrum orðum og benda á, hvernig þróunin hefur stöðugt gengið áfram.

Hæstv. fjmrh. hélt mjög með söluskattinum í þeirri örstuttu ræðu, sem hann hélt áðan. Hún var ekki löng um svo mikið mál sem hér er um að ræða, því að það er orðin tízka hér hjá hæstv. ráðh. að ræða alls ekki um þau mál, sem mestu máli skipta fyrir þjóðina sem heild. Ákvarðanir um þau eru teknar bak við allar umr. í þinginn, og yfirleitt forðast þeir að minnast á þau. Hann hélt því fram, að ef söluskatturinn yrði afnuminn, þá yrði svo mikill halli á ríkisbúskapnum, að við það yrði alls ekki unað. Ég vil benda á það, að það er fleira en halli á ríkisbúskapnum, sem hér kemur til greina. Það þarf fleira að hugsa um, en taka þær tölur einar út af fyrir sig. Það má t.d. athuga það nokkuð, hvaða áhrif það hefði á útgjöld ríkisins, ef söluskatturinn væri afnuminn. Ég hef að vísu ekki núna þær tölur fyrir hendi hér, og það væri sannarlega ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að láta reikna það nákvæmlega út. En ég get gefið þær upplýsingar, að fyrir einu ári, þegar forstjórar tveggja ríkisstofnana, póstsins og símans, voru til viðræðna í fjárveitinganefnd Alþ., þá gáfu þeir þær upplýsingar, sem bentu eindregið í þá átt, að ef söluskatturinn hefði verið afnuminn á síðasta þingi og ekki innheimtur á þessu ári, þá mundi það hafa numið um 2 millj. kr. sparnaði í rekstri þessara tveggja stofnana, póstsins og símans. Ég sé ekki ástæðu til þess að rengja þessar upplýsingar þessara hv. forstjóra, og ég vil benda hæstv. fjmrh. á það, að það væri full ástæða fyrir hann að láta gera ýtarlega athugun á því, hvaða áhrif þetta hefði á allan rekstur ríkisins, ef skattur sem söluskatturinn væri afnuminn.

Það hafa nú töluvert verið færð rök að því hér af þeim mönnum, sem hafa talað hér á undan mér, að þegar söluskatturinn var fyrst samþ. með l. hér, þá var beinlínis fram tekið, að hann ætti að fara til þess að greiða fiskábyrgðina, sem hafði verið þá í gildi frá árinu 1946. Það var mikið búið í blöðum beggja núverandi stjórnarflokka að skamma og fjargviðrast út af þeirri ábyrgð, fiskábyrgðinni, sem óneitanlega varð þó til þess að tryggja útflutningsframleiðsluna, tryggja það, að svo að segja hver einasta fleyta, sem sjófær var, fór á fiskveiðar á hverju ári.

Og þessi ríkisábyrgð kostaði ríkissjóð þó ekki meira en rúmar 50 millj. kr. samtals í 3 ár. Mest var þetta að vísu síðasta árið, en það var einmitt það árið, sem söluskatturinn var ákveðinn 36 millj. kr. samkv. þeim l., sem nú er verið að framlengja viss ákvæði úr. Og það ár mun söluskatturinn, þessar 36 millj. kr., meir en hafa nægt til þess að greiða fiskábyrgðina. En svo fóru fram kosningar haustið 1949. Þeir menn a.m.k., sem þá börðust fyrir Framsfl. í þeim kosningum, hömruðu á því, að það væri gersamlega ómögulegt fyrir ríkissjóð að standa lengur undir þessu ægilega gjaldi, sem fiskábyrgðin væri, það yrði að finna aðrar leiðir út úr þessum vandræðum. Og leiðin var fundin strax á þinginu 1949–50, og sú leið var gengisbreytingin. En þá brá bara svo einkennilega við, að um leið og gengisbreytingin var samþ. til þess að losa ríkissjóð við þessi ægilegu útgjöld, sem af fiskábyrgðinni leiddi, þurfti jafnframt að hækka söluskattinn um 11 millj. kr., og árið 1950 var hann áætlaður 47 millj., í staðinn fyrir 36 millj. áður, og það þrátt fyrir það að þá væri búið að breyta genginu til þess að mæta þeim útgjöldum, sem ríkissjóður hafði áður haft vegna þessara greiðslna. Sagan er þó ekki nema hálfsögð hér enn þá, því að á næsta ári, 1951, þ.e. á árinu í fyrra, var það búið að sýna sig enn fremur, að gengisbreytingin dugði ekki til þess að bjarga sjávarútveginum, ekki nándar nærri því eins vel og fiskábyrgðin hafði gert áður. Og þá var enn tekið annað ráð, að vísu ekki á þinginu, heldur, eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram hér áðan, daginn eftir að þingið var sent heim. Þá var tekið upp bátagjaldeyrisfyrirkomulagið, sem hefur orðið til þess að bæta að minnsta kosti um það bil 100 millj. kr. skatti á vöruverðið í landinu til þess að leysa úr því viðfangsefni, sem söluskatturinn annaði á sínum tíma og gengisbreytingin átti að taka við af honum að gera. En jafnframt því sem enn var farin þessi leið til að bjarga við þessum málum, sem söluskatturinn átti að gera á sínum tíma, þá þurfti enn að hækka söluskattinn. Nú var ekki nóg á fjárlögum árið 1951, að hann væri áætlaður 47 millj., eins og hafði verið á árinu 1950, eða 36 millj., eins og dugði þó sannarlega árið 1949. Nei, nú var hann hækkaður enn þá upp í 55 millj. Og hann var meir en hækkaður á áætlun fjárlaganna, það var innheimt milli 90 og 100 millj., eða upp undir helmingi hærri upphæð en fiskábyrgðargreiðslurnar höfðu samtals numið í 3 ár.

Þá kem ég að því, sem hæstv. fjmrh. lagði svo mikla áherzlu á, að það mundi verða stórkostlegur halli á ríkisbúskapnum, ef afnema ætti þennan skatt núna. Það kom nefnilega í ljós, þegar farið var að athuga fjármálaástand ríkissjóðs í byrjun síðasta þings, eða í október 1951, að þá var síður en svo að liti út fyrir, að það yrði halli á ríkisbúskapnum. Þá kom í ljós, að það var að verða stórkostlegur hagnaður af ríkisbúskapnum. Tekjur ríkissjóðs umfram áætlanir námu 115 millj. kr. og rúmlega það, m.ö.o. nokkru hærri, líklega 20 millj. kr. hærri en söluskatturinn var innheimtur á því ári, og ekki minna en að minnsta kosti 60 millj. kr. hærri en söluskatturinn var áætlaður. Það liggur þess vegna alveg ljóst fyrir núna, að á árinu 1951 hefði enginn halli orðið á ríkisbúskapnum, þó að enginn söluskattur hefði verið innheimtur það ár, því að það er alveg hægt að fullyrða, að það hefði orðið sá sparnaður í útgjöldum ríkisins það ár, sem nam því, sem greiðslur fóru fram úr áætlun.

Því miður liggja ekki fyrir neinar nákvæmlega útreiknaðar tölur um það, hversu margir milljónatugir hafa bætzt ofan á vöruverð í landinu samkvæmt öllum þessum ráðstöfunum, samkvæmt hækkuðum söluskatti, samkvæmt gengisbreytingunni, samkvæmt bátagjaldeyrinum, en það skiptir áreiðanlega hundruðum milljóna, og það er þess vegna engin furða, þó að svo sé komið, eins og ég benti á áðan, að hin raunverulega framfærsluvísitala er orðin helmingi hærri núna, en hún var í ársbyrjun 1947.

Þessi aðferð, sem ég hef lýst hér og líka hefur verið lýst í ræðum tveggja hv. þm. á undan mér, í fyrsta lagi að leggja á milljónatuga gjald til þess að greiða fiskábyrgðina, afnema hana með l. og hætta að tryggja útflutninginn með því gjaldi, breyta genginu til þess að koma í staðinn fyrir það, taka síðan bátagjaldeyrinn í viðbót með líklega núna um það bil 100 millj. kr. álagi á vöruverðið, — það er sú meistaralegasta framkvæmd á því atriði að búa til verðbólgu, sem hægt er að hugsa sér. Það mætti jafnvel halda, að þær ríkisstjórnir, sem þessu hafa ráðið, hafi ekki álitið sitt hlutverk vera annað og meira en það að skapa verðbólgu á Íslandi. Væri fróðlegt að bera reynslu þessa saman við gömlu ummælin og gömlu loforðin um það að vinna á móti þessum vágesti efnahagslífsins, sem verðbólga hefur verið kölluð.

Í sambandi við þetta vil ég minna á annað, sem gerzt hefur hér á Alþ. og hæstv. fjmrh. ætti nú raunar að vera minnugur, því að það sýnir bezt, hvernig ekki aðeins einstaklingarnir, heldur einnig atvinnulífið og sveitarfélögin eru farin að stynja undir þessu ástandi. Það er sú stóra deila, sem átti sér stað hér á síðasta þingi og næstum því virtist lita út fyrir að ætlaði að rjúfa stjórnarsamvinnuna. Fyrri hluta vetrar 1951–52 var haldinn hér fundur bæjarstjóra frá bæjarfélögum landsins, hann var haldinn hér í Reykjavík. Sá fundur samþykkti einróma kröfur um það, að bæjarfélögin fengju verulegan hluta af söluskattinum til sinna þarfa, vegna þess að þau rísa ekki lengur undir þeim erfiðleikum, sem þetta ástand hefur valdið þeim. Það muna nú allir hv. þm., hvernig fór um þau mál hér í þinginu. Það var búið að samþ. frv. um þetta hér í Nd. Alþingis og var komið til Ed., og þá skeði það, að hæstv. fjmrh. hótaði að segja af sér, ef þetta yrði samþ., þ.e. ef ætti að láta nokkurn hluta af þessu fé til sveitarfélaganna. Endirinn varð svo sá, að jafnvel sjálfir flm. þessa frv. urðu að láta undan og sitja hjá við síðustu atkvgr. um það og láta það þannig verða fellt hér í þinginu. Núna fyrir fáum dögum stóð hér einnig yfir bæjarstjórafundur, sem gerði enn þá sömu kröfur. Það stóð yfir annar fundur um sama leyti. Það var fundur fulltrúa frá sveitarfélögunum almennt, og hann gerði einnig svipaðar kröfur. Og það er alveg sýnilegt, að Alþ. getur ekki skotið sér hjá því til lengdar að athuga þessi mál á einhvern hátt. Það er orðið það ástand hjá einstaklingum, hjá atvinnufyrirtækjunum og hjá sveitarfélögunum, að Alþ. getur ekki skotið sér hjá því, eins og það gerði á síðasta þingi, að taka þessi mál til einhverrar athugunar. Æskilegasta lausnin væri vitanlega sú að lækka verðlagið í landinu eitthvað. Má óhætt fullyrða það, að ef reynt hefði verið að fara þá leið á síðasta þingi, m.a. með því að afnema þennan söluskatt að öllu eða að minnsta kosti að einhverju leyti, sem hefði munað einhverju um lækkun á verðlaginn, þá hefði það sennilega komið algerlega í veg fyrir þær vinnudeilur, sem nú eru nýhafnar.

Á síðasta þingi, þegar það lá ljóst fyrir, að ríkið hefði verulegan tekjuafgang, þá var einmitt sérstaklega heppilegt tækifæri til þess að reyna að snúa eitthvað við á þessari braut. Þrátt fyrir till. um það fékkst því ekki framgengt hér í þinginu, og afleiðingin er sú, að nú er ástandið mun verra, en þá var. Ég veit vel, hvaða rök það eru, sem hæstv. fjmrh. mun bera fram hér, ef hann talar hér aftur, gegn því, að vit hefði verið í því að afnema söluskattinn á síðasta þingi. Það eru þau rök, sem maður hefur heyrt oft og margsinnis áður og hann nefndi sjálfur í ræðu sinni áðan, að þá mundi ríkið ekki geta sinnt framlögum til verklegra framkvæmda eins og áður. En ég vil benda á viss atriði í sambandi við þetta. Söluskatturinn er svo þungur baggi á öllum rekstri atvinnuveganna, eins og sá þm., sem talaði hér næstur á undan, benti á í sérstökum dæmum, að það væri virkilegur hagur fyrir margan smáan og stóran atvinnurekanda að fá söluskattinn afnuminn, þó að hann yrði jafnframt að fórna einhverju af öðrum fríðindum í staðinn. Ég skal benda á t.d., að á ekki stærri hlut, en einni lítilli heimilisdráttarvél, sem inn er flutt núna, er söluskatturinn milli 3 og 4 þús. kr. Smáatvinnurekendur eins og bændur landsins er ekki lengi að muna um slíka upphæð. Og þetta sýnir bezt, hversu brjálæðiskennt það ástand er að hlaða sífellt, — og það er sú aðferð, sem er mest notuð, - auknum útgjöldum á atvinnulífið, en veita svo eitthvert svolitið brot af þeim aftur í einhvers konar styrkjum og í einhvers. konar aðstoð, sem raunverulega engan munar um.