02.12.1952
Neðri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér þá að flytja þessa brtt. mína sem skriflega brtt. og óska eftir leyfi forseta til þess að mega gera grein fyrir henni, en till. er í prentun. Ég hef afhent hæstv. forseta till., en mun nú gera grein fyrir henni.

Þessi till., sem ég og tveir aðrir þm. flytjum, hv. 5. landsk. (ÁS) og þm. Siglf. (ÁkJ), er á þá leið, að gert er ráð fyrir því, að nokkur hluti af söluskattinum eða 1/4 hluti söluskattsins renni í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og skiptist eftir þar til settum reglum á milli bæjar- og hreppsfélaga. Þessi till. er nákvæmlega sú sama sem hér lá fyrir hv. Alþ. í fyrra í sambandi við afgreiðslu þessa máls þá. Þá hafði Nd. fallizt á þessa ráðstöfun söluskattsins og tekið þessi ákvæði upp í frv., en hins vegar fékkst ekki samkomulag um það þá í Ed., að málið skyldi afgreitt á þennan hátt, og þessi ákvæði voru þá felld niður aftur. Eins og ég lýsti hér í minni fyrri ræðu um þetta mál, er nú þörf bæjar- og hreppsfélaganna sízt minni, en hún var þá. Fjárhagsvandræði þeirra eru ábyggilega enn þá meiri í ár, heldur en þau voru í fyrra. Fulltrúar þessara aðila hafa verið nýlega hér á fundi í Reykjavík og hafa enn á ný ítrekað þessa beiðni sína, og hér er í rauninni eins hóflega í sakirnar farið og frekast er unnt, þar sem gert er ráð fyrir því, að ríkissjóður haldi áfram 3/4 hlutum af þessum stóra skatti, en aðeins 1/4 gangi til bæjar- og sveitarfélaga. Þá er einnig á það að minnast, að í þessari till. er það ákvæði, að þegar þannig stendur á, að ábyrgðarskuldbindingar, sem ríkissjóður stendur í fyrir bæjar- og sveitarfélög, falla á ríkissjóð vegna greiðslufalls frá hendi bæjar- eða sveitarfélaga, þá hefur ríkisstj. rétt til þess að taka af þessum hluta af söluskattinum, sem hér er gert ráð fyrir að renni til bæjar- og sveitarfélaganna, til þess að mæta þeim afborgunum og vöxtum, sem viðkomandi sveitarfélag hefur ekki getað staðið í skilum með, en ríkissjóður þurft að greiða vegna þess. Nú eru orðin mikil brögð að því, að ríkissjóður verður til lengri eða skemmri tíma að leggja út afborganir og vexti af slíkum lánum fyrir sveitarfélögin, og sýnist því ekki nema sjálfsagt mál að verða við því að samþ. þessa brtt. mína, sem m.a. felur þetta í sér, en mundi hins vegar gera bæjar- og sveitarfélögunum fært að standa betur í skilum með þau lán, sem þau eiga erfitt með að standa í skilum með nú við sjálfan ríkissjóð. Ég þarf ekki að hafa mitt mál langt til útskýringar á þessari till. Ég veit það, að flestir hv. þdm. kannast vel við þetta mál. Það hefur verið hér áður, og þeir munu allir hafa myndað sér ákveðna skoðun á því og vita, hvaða rök liggja að því, að þetta mál er flutt. En ég vildi vænta þess, að hæstv. ríkisstj. sæi sér nú fært, þó að hún hafi ekki talið það mögulegt á s.l. ári, að verða við þessari sanngjörnu ósk fulltrúa sveitarfélaganna, sem felst í þessari brtt.

Vænti ég svo, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari till. og sjái um, að hún geti komið til atkvgr. nú við 2. umr. málsins.