18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Frv. þetta er framlenging á gildi lagaákvæða frá 1948 með breyt., sem á þeim voru gerðar 1950 og jafnan síðan hafa verið framlengdar til eins árs í senn. Er frv. samhljóða sams konar l. og sett voru á síðasta þingi að öðru leyti en því, að framlengingin nær til ársloka 1953, en í gildandi l. er að sjálfsögðu miðað við yfirstandandi ár. Eins og menn vita, er aðalefni frv. það að framlengja söluskattinn. Fjhn. hefur klofnað um málið. Vill minni hl., hv. 1. landsk. þm., láta fella frv., án þess að hann bendi þó á aðrar tekjuöflunarleiðir í staðinn eða geri, svo að vitað sé, till. um að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Meiri hl. n., 4 nm., sem skrifa undir nál. á þskj. 473, líta svo á, að ríkissjóður geti ekki með nokkru móti misst þær tekjur, sem frv. gerir ráð fyrir, og leggja því til, að það verði samþ.

Eins og ég sagði áðan, voru lög samhljóða þessu frv. samþ. í fyrra, og mun þó ekki gera betur, en að tekjur og gjöld yfirstandandi árs standist á. Það er ekkert, sem bendir á, að ríkissjóður komist af með minni tekjur næsta ár. Fjárlfrv. er komið til 3. umr., og er niðurstaða þess sú, að tekjuafgangur er sama og enginn. Mætti eftir venju búast við, að útgjöldin hækkuðu þó eitthvað við 3. umr., jafnvei þó að ekkert óvenjulegt væri á seyði, en nú bætist það við, að víðtækt verkfall stendur yfir, eins og allir vita. Til þess að reyna að finna lausn á því hefur ríkisstj. beitt sér fyrir tilboði um allstórfellda lækkun dýrtíðar. Gert er að vísu ráð fyrir, að sú lækkun yrði á kostnað ýmissa annarra aðila, en ríkissjóðs, svo sem bænda, kaupfélaga, kaupmanna, skipafélaga og olíufélaga. Samt er svo ráð fyrir gert, að ríkissjóður leggi sinn skerf fram, og mundi hann aldrei verða minni en um 12 millj. kr. samkv. tilboði ríkisstj. Nú hefur þessu tilboði að vísu verið hafnað, að því er sagt er, en búast má þó við því, að lausn verkfallsins, sem hlýtur nú að líða að, kosti á einhvern hátt ríkissjóðinn a.m.k. þá upphæð, sem ég nefndi, ef ekki meira, því þó að lausnin yrði sú, sem ég þó geri ekki ráð fyrir, að gengið yrði að þeim kröfum óskorað, sem bornar hafa verið fram, þá mundi það kosta ríkissjóðinn a.m.k. þessa upphæð í hækkuðum launum opinberra starfsmanna. Það er því auðsætt, að ríkissjóður getur enn síður en áður misst þær tekjur, sem frv. gerir ráð fyrir, og — að því er ég álít — því aðeins staðizt ný útgjöld í þessu skyni eða öðru, að hér verði góðæri á næsta ári, og í þeirri von — von um góðæri — hlýtur tilboð hæstv. ríkisstj. að vera gert og aðrar þær till. til hækkunar frá því, sem nú er, sem fram kunna að koma.

Eins og segir í nál. meiri hl. á þskj. 473, hafa einstakir nm. áskilið sér óbundið atkv. um brtt., og hefur einn þeirra, hv. þm. Barð., borið fram brtt. á þskj. 474. Á þessu stigi mun ég hvorki ræða þá till.brtt. hv. 1. landsk. þm. á þskj. 478. Vil ég aðeins lýsa yfir því fyrir sjálfs mín hönd, og ég hygg, að a.m.k. 2 nm. séu mér sammála um það atriði, að ég get ekki samþ. neina brtt., sem ég tel að hafi lækkun á tekjum ríkissjóðs í för með sér, án þess að aðrar jafnmiklar komi þá í staðinn.

Mín till. er því sú á þessu stigi, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.