18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú nota tækifærið til þess að leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. í sambandi við þetta mál. Hann sagði, að söluskatturinn væri ekki lagður á þessi fyrirtæki, heldur á kaupendurna. Það er náttúrlega hreinn misskilningur, því að þessi hluti söluskattsins, sem lagður er á framleiðslu iðnaðarins, er ekki lagður á neina aðra en þá, sem framleiða, þegar um er að ræða, að hann er ekki lagður jafnt á allar framleiðsluvörur. Þegar ein framleiðsluvara ber aðeins 2% í söluskattinum, en önnur verður að bera 5% í söluskattinum, eins og hér um ræðir og ég hef lýst áður, þá er sú vara ekki samkeppnisfær á markaðnum við hina vöruna, þótt hún sé jafngóð, nema því aðeins að viðkomandi aðili hafi getað framleitt vöruna á einhvern ódýrari hátt, og þá er það einnig tekið úr hans vasa. Það er einmitt þess vegna, sem ég hef borið þetta fram, að ég vil fá þessa leiðréttingu á þessu sérstaka atriði, þar sem framleiðandinn verður að greiða skattinn, en ekki kaupandinn, eins og sýnilegt er hér og er alveg gagnstætt því, sem hæstv. ráðh. hélt fram.

Svo sagði hæstv. ráðh., að spurningin sé aðallega hér um það, hvort iðnaðurinn hafi nægilega tollvernd. Það er ekki spurningin um það hér í sambandi við mína till. Það er spurningin um það, hvort sömu lög eigi að ganga yfir alla þegna þjóðfélagsins eða hvort nokkur hluti þjóðfélagsþegnanna á að búa við önnur og betri og hagkvæmari lagafyrirmæli heldur en aðrir. Og það er áreiðanlega fórnandi þó nokkru fé úr ríkissjóði til þess að ná því takmarki, að allir búi við sömu lög.

Hæstv. ráðh. sagði einnig, að hann gæti ekkert samþ. hér í hv. Alþ., sem minnkaði tekjur ríkissjóðs í sambandi við þetta mál. En á sama tíma lýsir hæstv. ráðh. því yfir, að hann ætli sér að bera fram hér nýtt frv. um tollalöggjöf í sambandi við iðnaðinn, þar sem hann ætlar að létta allmiklum tollum af iðnaðinum. Á hvers kostnað á það að gerast? Á það að gerast á kostnað einhverra annarra, en ríkissjóðs? Mér finnst skjóta hér nokkuð skökku við hjá hæstv. ráðh. Sannleikurinn er sá, að þegar. hæstv. ráðh. er að láta undirbúa slíkt frv., þá gerir hann það í þeirri fullu vissu, þá spáir hann því, eins og hv. þm. S–Þ. hefur verið að tala um hér áðan, að þessi tilslökun á innflutningstollum af iðnaðarvörunum, komi aftur í ríkissjóðinn í meiri framleiðslu. Ef hann ekki tryði því, þá dytti honum ekki í hug að bera fram þetta frv. Hann er þess fullviss, að einmitt þessi tilslökun á innflutningstollunum af hráefni til iðnaðarins verði til þess að auka viðskiptalífið í landinu, skapa atvinnu og gefa meiri tekjur í ríkissjóð, — nákvæmlega sömu rökin og ég er að bera fram í mínum spilaspádómi í sambandi við tekju- og eignarskattslögin, eins og hv. þm. S–Þ. hefur hvað eftir annað fullyrt. Getur hann þá lagt á okkur báða sama mælikvarðann. Og það er því einkennilegra, eftir að hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir hér, að hann skuli einnig á sama tíma lýsa því yfir, að hann vilji ekki láta gera sömu leiðréttingu í sambandi við söluskattinn, sem miðar þó nákvæmlega að sama takmarki.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það væru sömu till., sem ég bæri fram, og hv. 1. landsk. þm. flytur. Þetta er hreinn misskilningur. Ef síðari till. á þskj. 478 er samþykkt, þá er fellt niður hvort tveggja í senn 3% gjaldið af iðnaðinum og 2% smásölugjaldið af iðnaðinum, og það er allmikill munur á því. (Gripið fram í.) Ja, það veit ég, þegar það er borið saman. Það er ekki heimilt, eftir að búið er að samþ. þessa till., að taka söluskatt í smásölunni af íslenzkum iðnaðarvörum, fremur en af mjólk eða öðrum landbúnaðarvörum. Það hef ég ekki lagt til. Ég hef aðeins lagt til, að millistigið sé fellt niður, og meira að segja gengið svo langt að leggja til, að það sé þó ekki fellt að öllu leyti niður, heldur sé leyft að taka það af vinnunni, í staðinn fyrir að taka það aftur í annað skipti af hráefninu.

Hv. þm. sagði einnig, að það væri viss sanngirni í því að samþ. mína till., og það er alveg rétt. En hann sagði, að það væri líka sanngirni í því að lækka kaffitoll og sykurtoll. Það er bara allt annars eðlis. Það er ekki verið að leiðrétta neitt ranglæti á milli tveggja atvinnuvega eða milli tveggja atvinnurekenda, þó að allur kaffitollurinn sé lækkaður. Með því er ekki verið að leiðrétta neitt ranglæti. Það er ekki verið að mismuna þegnum þjóðfélagsins með því, vegna þess að flestir eða allir þegnar þjóðfélagsins drekka kaffi eða éta sykur. Þeir eru þá sjálfráðir, hvort þeir vilja koma sér undan þessum skatti, alveg eins og menn eru sjálfráðir, hvort þeir vilja greiða til ríkisins með því að drekka brennivín eða ekki. Það er undir þeirra eigin vali, en iðnaðurinn á hér enga völ nema hætta starfseminni, og hvaða böl væri það ekki fyrir þjóðina? Ég er nú eiginlega alveg hissa á því, að þessi ágæti þingmaður, jafnrökfastur og hann er í hverju máli, skuli vera að bera þetta saman.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði samþ. í fyrra þessi sömu lög, og það er alveg rétt. En er það einhver alveg ófrávíkjanleg skylda, þó að þm. hafi einhvern tíma samþ. lög, ef reynslan sýnir, að þessi lög þurfa lagfæringar við, að þá megi ómögulega lagfæra þau á næsta þingi, þegar tækifæri gefst? Ég er hræddur um, að þá væri orðið eitthvað skrýtið í sambandi við tryggingalöggjöfina, ef það hefði átt að halda þessari föstu reglu þar, að af því að tryggingalöggjöfin var samþ. 1946 á þingi, þá mætti ekki hreyfa nokkurn staf í henni síðar meir. Ég veit ekki betur, en að við höfum verið að samþ. breytingu á þessari löggjöf á hverju einasta þingi, af því að lífið hefur kennt okkur, að það væri ranglátt að breyta ekki þessu og breyta ekki hinu. Og það nákvæmlega sama gildir hér. Reynslan hefur sýnt okkur, að það er megnasta ranglæti að taka 3% skattinn af iðnaðarframleiðslunni. Og það er meira en það, það er stórkostlegt tjón fyrir atvinnulífið í landinu og einnig stórkostlegt tjón fyrir ríkissjóðinn, ef það hefur þau áhrif, að framleiðslan minnkar. Þær tölur, sem hv. frsm. minntist hér á, 14 millj. kr., eru algerlega út í bláinn, hafa ekki við nokkurn skapaðan hlut að styðjast. Heildarframleiðslan í iðnaðinum hefur verið talin á s.l. ári 310 millj. kr., og ef tekið er af því alls 3%, þá geta það þó aldrei orðið nema rétt rúmlega 9 millj. kr. Nú er engin sönnun fyrir því, að það sé hægt undir hvaða kringumstæðum sem er að ná öllum þessum skatti hér. En þrátt fyrir það þótt honum öllum væri náð, þá gæti hann aldrei farið yfir það. Það getur aldrei kostað neinar 14 millj. að lækka, eins og ég legg til, skattinn þannig, að ekki sé lengur tekið af nema allri vinnunni. Það getur aldrei kostað nema einhvern hluta af þeim 9 millj., sem hér um ræðir, hve mikið get ég að sjálfsögðu ekki sagt í dag, en þó þætti mér ekkert ólíklegt, að hráefnið væri undir flestum kringumstæðum eitthvað nálægt því að vera helmingurinn af kostnaði vörunnar, og fer þó nokkuð eftir því, hvaða vara unnin er. Þá væri þó ekki um að ræða hér undir neinum kringumstæðum, meira en 4–5 millj. kr., og ég þykist hafa eins mikið leyfi til þess að spá því, að framleiðslan aukist það mikið, að meginhluti af þeirri upphæð náist aftur með aukinni framleiðslu og auknum tollum á þá framleiðslu, eins og hæstv. ráðh. hyggur að hann geti náð tekjunum með því að slaka nokkuð til á innflutningstollum í iðnaðinum. Ég vil því enn vænta þess, að till. mínar í sambandi við þetta verði samþykktar.