18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Út af brtt. hv. þm. Barð. vil ég segja það, að þær eru út af fyrir sig í rétta átt, og ég tel þörf á því, að söluskatturinn verði endurskoðaður, en þar sem kunnugt er, að þær till., sem ríkisstj. hefur borið fram til lausnar á núverandi vinnudeilum og engin deila er um, að séu í rétta átt, þótt sumir segi, að ekki séu þær fullnægjandi, byggjast á því, að tekjur ríkissjóðs verði alls ekki skertar frá því, sem nú er, þá treysti ég mér ekki til þess að verða með þessum brtt. nú eins og sakir standa. Það er ekki hægt að gera allt fyrir sömu peningana, og þó að það væri þörf á því að leiðrétta söluskattinn, þá er enn þá meiri nauðsyn á því að reyna að koma á vinnufriði hér í landinu, og það eru sízt ýkjur, að ríkisstj. hefur lagt fram till., sem hafa í sér fólgin svo mikil framlög frá ríkissjóði, að þar er vissulega teflt á tæpasta vað og má alls ekki tæpara vera, svo að nokkurt vit sé í. Þess vegna verð ég að segja, að þó að ég sé sammála því, sem hv. þm. Barð. segir að meginefni varðandi hans till., þá treysti ég mér því miður ekki nú til þess að vera hans till. fylgjandi, en vil mjög taka undir það með honum, að ég tel þörf á því að endurskoða söluskattinn.

Ég verð að segja út af því, sem hv. 1. landsk. þm. sagði, að það væri hart að ætlast til þess af stjórnarandstöðunni, að hún semdi fjárl. fyrir ríkisstj., að það er enginn, sem ætlast til þess, enda mundi það verða óskapnaður, jafnvel þótt þeir semdu fjárl. fyrir sjálfa sig, hvað þá heldur fyrir aðra. Til hins verður að ætlast af stjórnarandstöðunni, og engum frekar, en stjórnarandstöðunni, að þeir bendi á raunhæfar till. til sparnaðar. Það ættu engir að hafa betri aðstöðu, heldur en þeir til þess að benda á, hversu raunverulega er ofeytt úr ríkissjóði. En því fer fjarri, að þeir hafi á þetta bent. Þeir skjóta sér ætíð undan þessari skyldu, og eru einmitt hinar aumlegu upptalningar þeirra ærið gott vitni þess, hversu þetta stendur í þeim, þegar til á að taka.

Hv. þm. heldur því fram, að það sé hægt að falla frá söluskattinum, sem mun nema kringum 80 millj. kr., og benti á nokkur atriði, sem hægt . væri að spara þar á móti.

Fyrsta dæmið, sem hann nefndi, held ég að hafi verið Evrópuráðið. Til þess eru ætlaðar 60 þús. kr., svo að ekki hrekkur það nú langt.

Þá kemur Atlantshafsbandalagið. Það eru að vísu lagðar til þess beinlínis 263 þús. í fjárlfrv. Við vitum, að andstaða hv. þm. gegn Atlantshafsbandalaginu kemur ekki af fjáreyðslunni til bandalagsins, heldur vegna þess, að hann hefur fyrirmæli frá hinum mikla Stalin, sem var með honum á hinu „dýrðlega“ kommúnistaþingi á dögunum, um það að vera þessu bandalagi andvígur.

Bezta sönnunin fyrir því, að þessir menn séu ekki að horfa í peninginn í utanríkismálunum, kemur fram í því, að þeirra talsmaður í útvarpsumræðum á dögunum gerði það að sérstöku árásarefni á mig, að sendiráðið í Moskva hefði verið lagt niður, og hélt þm. því fram, að það hefði verið lagt niður og sendiherrann kallaður burt frá Moskva, eins og hann orðaði það, eftir að Rússar hefðu verið búnir að gera við okkur stærsta verzlunarsamning, sem gerður hefði verið við Ísland. Sannleikurinn var sá, að sendiherrann var látinn hætta að hafa fasta dvöl í Moskva, áður en ég varð utanríkisráðherra og einmitt meðan hv. 1. landsk. var ráðherra. Og maðurinn, sem fór austur til Moskva ásamt þáverandi sendiherra til þess að semja um það, að þar væri hætt að hafa fastan sendiherra, — maðurinn, sem sendur var til þess, var enginn annar, en Einar Olgeirsson. Hann var sendur til þess og átti tal við utanríkisráðherra eða varautanríkisráðherra Rússlands um það, að við hættum að hafa þar fastan sendiherra. Svo leyfa þessir menn, sem áttu sjálfir þátt í því og fóru austur til Moskva til þess að semja um það, að við hefðum ekki fastan sendiherra þar, sér að gera árásir á okkur hina fyrir þá ráðstöfun, sem þeir sjálfir gerðu og voru ekki aðeins ábyrgir fyrir, meðan þeir voru í stjórn, heldur fór þessi hv. 2. þm. Reykv. (EOl) alla leið austur til Moskva til þess að taka þátt í samningum um þetta.

Það stóð svo þannig um hríð eftir þessa ákvörðun, sem tekin var í stjórnartíð hv. þm., 1. landsk., og með atbeina hv. 2. þm. Reykv. (EOl), að sendiherrann í Moskva hafði aðsetur annars staðar, en við höfðum opið sendiráð í Moskva með einum sendifulltrúa. En þá kom í ljós, að jafnvel þótt ekki væri búsettur sendiherra í Moskva, heldur aðeins sendifulltrúi, þá var það síðast orðið þannig, að það kostaði yfir eina millj. kr. á ári að halda þessum eina aðstoðarmanni austur í Moskva, aðstoðarmanni, sem bókstaflega hafði ekki neitt að gera, af því að Rússar voru búnir að fella niður öll viðskipti við Íslendinga, þannig að þessari einni millj. kr. var gersamlega kastað á glæ. Enda kom það glögglega á daginn, þegar íslenzki sendifulltrúinn þar gekk á fund rússneskra stjórnarembættismanna og spurði um það, hvort þeim stæði ekki á sama, þó að ætlunin væri að leggja niður skrifstofuna í Moskva og það yrði sendiherrann í Stokkhólmi, sem yrði látinn annast sendiherrastörfin í Moskva, að þá lét hinn rússneskí stjórnarembættismaður ekki uppi neina athugasemd aðra en þá, að hann spurði um það, hvort þetta hefði í för með sér, að rússneska sendiráðinu í Reykjavík yrði lokað. Þegar kom á daginn, að það stóð ekki til að loka rússneska sendiráðinu í Reykjavík, þá var þessi góði rússneski stjórnarembættismaður hæstánægður. Hann kærði sig ekki vitund um að hafa þennan Íslending austur í Moskva, en honum var af einhverjum ástæðum umhugað um að hafa fleiri umboðsmenn á Íslandi, heldur en hv. 1. landsk. þm., vildi hafa þar reglulegan Rússa við hliðina á honum. Hv. 1. landsk. þm. og hans flokksbræður býsnast sí og æ yfir því, að þessu sendiráði í Moskva, sem kostaði yfir eina millj. kr. og gerði bókstaflega ekki nokkurt gagn, hafi verið lokað, samtímis því sem þeir segja: Er ekki hægt að loka tveimur sendiráðum á Norðurlöndum ? — Sannleikurinn er sá, að öll sendiráðin á Norðurlöndum, sem veita þúsundum Íslendinga fyrirgreiðslu á hverju einasta ári, kosta minna, en þessi eina skrifstofa austur í Moskva með einum aðstoðarmanni hefði kostað nú, ef henni hefði verið haldið áfram opinni. Það getur vel verið, að hv. þm. hefði viljað hafa íslenzkt sendiráð sér til fyrirgreiðslu, þegar hann kom þangað austur á dögunum, þó að hann vildi að vísu ekki láta íslendinga heyra um það, fyrr en eftir á, að hann hefði verið þar á ferðinni. Það getur líka verið, að Kínafararnir hefðu líka viljað koma þar inn og fá kaffibolla eða eitthvað annað, en ég get ekki séð, að þessi skrifstofa hefði haft nokkurn skapaðan hlut annan að gera, heldur en að sinna þessum göfugu gestum.

Nei, þessir hv. þm. ættu ekki að vera að tala um sparnað í sambandi við utanríkisþjónustuna, allra sízt ættu þeir að vera að finna að því, þó að þessi sendiráð séu höfð opin á Norðurlöndum, því að til viðbótar við allt annað var búið að ákveða, meðan hv. þm. var í ríkisstj., að opna sendiráðið í Osló, sem var þriðja sendiráðið. Það var búið að þreifa fyrir sér hjá norsku stjórninni um það, hver ætti að verða sendiherra í Osló, meðan þessi hv. þm. var í ríkisstj. Það er ekki sparnaðurinn, sem þarna er um að ræða, heldur allt annað.