18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. taldi, að mér væri mjög órótt í skapi, og það leyndi sér ekki heldur, af hverju hann taldi það vera. Hann sagði, að hugur minn dveldi svo oft austur í Moskva, og þegar ég hugleiddi mínar misgerðir við þá miklu menn, sem þar væru fyrir austan, hlyti mér að óróast í skapi. Það leynir sér ekki nú frekar en fyrr, að hv. 1. landsk. þm. (BrB) lítur á herrana austur í Moskva og dvalarstað þeirra sem — ef ekki guð almáttugan á himnum, þá a.m.k. englahjörðina á himnum kringum sjálfan hinn allsvaldandi, — og okkur hina, sem ekki höfum tekið þá sönnu trú, skoðar hann sem hinar glötuðu sálir í hinum heita stað, sem verði enn þá kvölum píndari, þegar þær í sínum slæmu kringumstæðum hugleiði, hvað þær hafi brotið á móti þessum blíðu drottnurum þarna austur frá.

Ástæðan til þess, að ég drap áðan á sendiráðið í Moskva, er sú, að afstaða hv. 1. landsk. til sendiráðsins þar sýnir mjög glögglega, að það er alls ekki sparnaður, sem hann og hans flokksbræður hafa í huga, þegar þeir eru að finna að of miklum útgjöldum í sambandi við utanríkisþjónustuna. Ég benti á það, að sendiráðið austur í Moskva með aðeins einum fulltrúa og sjálfum sendiherranum dveljandi annars staðar mundi nú kosta meira, en öll sendiráðin á Norðurlöndum. Þrátt fyrir það eru hv. 1. landsk. og hans flokksbræður mjög gramir yfir því, að sendiráðið í Moskva skuli hafa verið lagt niður, sendiráð, sem árum saman hafði engum störfum að sinna og mundi t.d. í ár, eins og ég tók fram, ekki hafa haft önnur þarfari verk að vinna, heldur en að leiðbeina hv. 1. landsk., þegar hann var á leyniferð sinni þar fyrir austan fyrir nokkrum mánuðum, og svo ef til vill að veita Kínanefndinni sælu einhverjar veitingar. Ég geri ráð fyrir því, að báðir þessir aðilar hafi verið í þeim höndum, sem þeir hefðu frekar kosið heldur en umsjá íslenzkra sendimanna þar fyrir austan, enda ætlaði hv. 1. landsk. að dylja ferð sína á hið dýrðlega kommúnistaþing, þangað til það upplýstist eftir öðrum leiðum, að hann hafði þar verið og haldið þar ræðu til lofs og dýrðar hinum „mikla“ Stalín, sem hann endaði með að biðja lengi að lifa.

Hv. þm. sagði raunar, að ef sendiráðinu í Moskva hefði ekki verið lokað, þá mundu enn þá hafa haldizt viðskipti við Rússland og þá mundi ekki þurfa að halda á bátagjaldeyri eða söluskatti. Og í því sambandi tók hann fram, að för sendiherrans sjálfs frá Moskva, sem hann gat ekki mælt á móti, að hefði verið ákveðin, meðan þm. sjálfur var ráðherra, og hefði verið talfærð austur í Moskva einmitt með atbeina hv. þm. Einars Olgeirssonar, — að för sendiherrans frá Moskva hefði alls ekki verið lokun sendiráðsins og hefði engin ill áhrif haft í þessu sambandi, heldur hefði það verið sú lokun, sem ég framkvæmdi löngu síðar. Hér stangast nú illilega á við það, sem hv. þm. Einar Olgeirsson hélt fram í útvarpsumræðunum á dögunum. Þá hélt hann því blákalt fram í eyru alþjóðar, að ég hefði lokað sendiráðinu í Moskva 1947, eftir að búið var að gera hinn stærsta viðskiptasamning á milli þjóðanna. Sannleikurinn er sá, að ég gerði enga breytingu á sendiráðinu 1947, og sú breyting, sem á því varð um þetta leyti, hafði einmitt verið gerð árið 1946, meðan hv. þm. Brynjólfur Bjarnason var í ríkisstj. og fyrir atbeina hv. þm. Einars Olgeirssonar, eins og ég sýndi fram á áðan. En síðustu viðskipti, sem Íslendingar gerðu við Rússa, önnur en þau óhugnanlegu viðskipti, sem hv. þm. Brynjólfur Bjarnason er milligöngumaður um, — ég á við síðustu venjuleg verzlunarviðskipti milli landanna, — þau áttu sér stað 1947, og það varð ekki að ráði að loka sendiráðinu í Moskva fyrr en 1951. Það var ekki fyrr en snemma á árinu 1951, sem við neyddumst til að kalla sendifulltrúa okkar burt úr Moskva og loka skrifstofunni þar, vegna þess að sendiráðið hafði bókstaflega ekki haft neitt að gera öll árin frá 1947, þannig að þeim peningum var gersamlega kastað á glæ. En hvernig vill nú hv. þm. rökstyðja það, sem hann þó sagði hér berum orðum áðan, að lokun sendiráðsins 1951 hefði getað orðið til þess, að ekki náðust verzlunarsamningar 1948, 1949 og 1950? Í þeim efnum hafa þá Rússar verið okkur hinum skarpskyggnari. Það mundi og koma einkennilega fyrir, ef þessi lokun sendiráðsins hefði átt að hafa nokkur áhrif í þessum efnum, bæði þegar á það er litið, að Rússar höfðu enga athugasemd við það að gera, að sendiráðsskrifstofunni væri lokað austur í Moskva, svo fremi við leyfðum rússneska sendiráðinu hér í Reykjavík að vera opnu áfram, — og þegar á það er litið, að þegar fyrst var rætt um það að taka upp stjórnmálaviðskipti við Rússa, sem mun hafa verið árið 1943, þá var beinlínis stungið upp á því af þáverandi fulltrúa Rússa í London, sem hafði milligöngu um þetta, sendiherranum Maisky, að við Íslendingar hefðum engan sendiherra í Rússlandi, heldur létum okkar sendiherra í London jafnframt annast sendiherrastörfin gagnvart Rússum, en Rússar fengju leyfi til þess að opna sendiráðsskrifstofu í Reykjavík. Þetta var fyrsta till. Rússa í þessum efnum, og segja má, að sá háttur, sem nú er á þessu hafður, sé mjög í samræmi við þessa fyrstu till., sem Rússar báru fram. Alþjóðlegar ástæður urðu til þess, að við um visst árabil töldum ástæðu til þess að hafa sendiráð opið í Moskva, en þegar það sýndi sig, að Rússar voru ófáanlegir til viðskipta við okkur og sendiráðið hafði bókstaflega ekkert að gera, þá var eðlilegt, að horfið yrði til þess ráðs, sem Rússar í fyrstu höfðu stungið upp á, þó að vísu með nokkuð viðkunnanlegri hætti, en þeirra till. var um. Það er því alveg fráleitt, þegar á öll atvík málsins er litið, að telja, að skipun okkar á þessum sendiráðsmálum austur þar lýsi nokkrum fjandskap okkar í garð rússnesku stjórnarinnar. En það er ástæða til þess að minna á þetta enn þá einu sinni vegna gagnstæðra fullyrðinga hv. 1. landsk. þm., fullyrðinga, sem algerlega brutu í bága við staðreyndir málsins og sannleikann, enda var það, sem honum gramdist í minni ræðu, ekki sú gremja, sem hann þóttist verða var við í orðum mínum og ekki var fyrir hendi, heldur þær staðreyndir, sem ég benti á og honum var og er og verður svaravant við.

Ég benti líka á það, að það situr allra sízt á þessum hv. þm. að finna að því, að það séu þrjú sendiráð á Norðurlöndum, vegna þess að það var beinlínis ráðið í hans stjórnartíð að hafa þessi sendiráð þrjú. Það var meðan hann var ráðh., að leitað var eftir því við stjórnina í Osló, hvaða skipun skyldi höfð á væntanlegu sendiráði þar. Það var því búið að ákveða það í raun og veru, þó að formleg ákvörðun lægi ekki fyrir, áður en ég varð ráðherra, að sendiráðin skyldu vera þrjú á Norðurlöndum. Öll þrjú kosta þessi sendiráð, eins og ég benti á áðan, minna en dvöl eins aðstoðarmanns mundi kosta austur í Moskva. Er þó ekki um að villast, að til annars staðarins koma aðeins nokkrar frelsaðar sálir á ári, sálir, sem eru þar í umhirðu annarra en Íslendinga, en til Norðurlandanna allra koma eins og ég sagði, þúsundir Íslendinga, venjulegra Íslendinga, manna, sem eru á ferðum eins og mennskir menn, en ekki frelsaðar sálir að leita heim til himnaföður sins, og því menn, sem taka mjög feginsamlega leiðbeiningu og aðstoð íslenzkra fulltrúa á þessum stöðum, auk þess sem þessi sendiráð hafa margvíslegum stjórnarerindum, viðskiptafyrirgreiðslu, menningartengslum og öðru slíku að gegna.

Það má auðvitað endalaust deila um, hvernig skipun þessara mála skuli varið í einstökum atriðum, en það er ákaflega einkennilegt, að þeir, sem hafa haft forustu um að koma núverandi skipun á og voru í stjórn, þegar hún var í meginefnum ráðin, eins og hv. 1. landsk., skuli vera að víta okkur, sem erum að framkvæma það, sem þá var ráðgert, víta okkur fyrir þá framkvæmd.

Hv. þm. lá alveg eins, þegar hann átti að fara að benda á önnur atriði, sem hægt væri að spara, að þá nefndi hann fjárhagsráð, þessa stofnun, sem einmitt var tekin upp úr þeim stjórnarsamningi, sem mjög nærri lá, að búið væri að gera, þegar verið var að ræða um endurreisn stjórnar Ólafs Thors veturinn 1946 og 1947. Þá voru það einmitt kommúnistar, sem lögðu megináherzlu á, að slíkri stofnun sem fjárhagsráði yrði komið upp, og töldu það þá vera allra meina bót. Nú skal ég játa, að fjárhagsráð hefur um margt reynzt verr, en skyldi og þó mun betur, en vænta hefði mátt, ef kommúnistar einir hefðu verið að verki, enda mun ástæðan til þess, að kommúnistar eru nú komnir á móti þessari stofnun, vera sú, að fjárhagsráð hefur þó ekki reynzt eins illa og ekki orðið sú plága á landslýðnum sem þeir höfðu vonað, að það yrði. En þó að það hafi, eins og ég segi, reynzt mun betur, situr það sízt á þessum mönnum, sem þarna áttu ekki sízt tillögurnar að, að finna að þessari stofnun og telja, að hún sé til óþurftar. Um fyrirkomulagsatriði fjárhagsráðs má að öðru leyti deila. Hinu verður ekki á móti mælt, að meðan jafnmögnuð ríkisafskipti eiga sér stað eins og nú eru hér á landi af ýmiss konar fjárhags- og atvinnumálum, þá er mjög erfitt að komast af án einhverrar hliðstæðrar stofnunar og fjárhagsráð er. Og það verður ekki lagt niður nema einhver önnur stofnun fái þá einhver tilsvarandi völd, nema menn vilji hverfa inn á nýjar brautir í þessum efnum og láta undan fallast þau miklu ríkisafskipti, sem svo mjög hafa magnazt undanfarin ár, en því miður eru litlar líkur til, að hægt sé að fá meiri hluta Alþ. fyrir því.

Þá lýsti það einnig glögglega heilindum eða réttara sagt óheilindum hv. þm., þegar hann tilneyddur af mér fór að nefna fleiri atriði, sem hægt væri að spara, að hann nefndi einmitt dómgæzlu og lögreglustjórn. Það er ósköp eðlilegt, að þessi hv. þm. vilji hafa sem minnsta dómgæzlu og lögreglustjórn í þessu landi, það er heilbrigð dómgæzla og örugg lögreglustjórn, sem greinir réttarríki frá annaðhvort löglausum hóp eða hreinu ofbeldisríki, eins og hann vili helzt kjósa. Það er því eðlilegt, að honum sé við fátt verr, en að dómgæzla og lögreglustjórn skuli vera með þeim hætti, sem er á okkar landi. Hitt mundi reynast, að ef kommúnistar fengju hér völdin, mundu þessir liðir verða miklu kostnaðarmeiri, en þeir eru nú, vegna þess að þá yrði lögregluliði komið upp til þess að kúga allan landslýðinn og dómgæzlan, í stað þess að vera hlutlaus, verða vopn í hendi hinnar kommúnistísku klíku til þess að halda við ógnarvaldi sínu yfir þjóðinni, svo sem dæmin berlega sanna og við höfum nú sorgleg dæmi um utan úr heimi nær hvern einasta dag. —Þm. talaði um, að kostnaður af þessum sökum hefði bólgnað mjög út, meðan ég hef verið ráðherra, og að það sýndi óstjórn mína í þessum efnum. Sannleikurinn er sá, að segja má, að það sé nær sami hundraðshluti sem er varið til þessara mála nú af heildarútgjöldum ríkisins eins og var 1946, og er þó á það að líta, að á fjárlögum 1952 var hundraðshlutinn ívið lægri, en hann reyndist 1946. Vil ég vekja athygli á því, að 1946 var ekki áætlað til landhelgisgæzlunnar meira en 3 millj. kr., en nú er áætlað til landhelgisgæzlunnar nær 11 millj. kr. En hvaða Íslendingur er það, sem ekki viðurkennir, að á fáu ríði okkur meira, en einmitt öruggri gæzlu landhelginnar, eins og nú horfir í þeim málum? Og það er glöggt vitni um þjóðhollustu þessa hv. þm., að hann skuli sérstaklega fara að telja eftir þau auknu útgjöld, sem til þeirrar lífsnauðsynlegu þjónustu íslenzku þjóðarinnar fara.