11.12.1952
Neðri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

174. mál, jafnvirðiskaup og vöruskipti

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað vera viðstaddur, þegar þetta mál var afgr. Ég ræddi nokkuð um það við 1. umr., en eins og ég skýrði frá í sambandi við það mál, sem fyrir lá áðan, þá var þessi fundur haldinn snemma morguns dagana, sem útvarpsumr. stóðu yfir, og ég gat því miður ekki komið þá.

Það, sem ég hefði fyrst og fremst álitið, að breyta þyrfti í sambandi við þetta mál, var að hækka ábyrgðina, sem um er að ræða. Hún er þarna miðuð við 50 millj. kr., en mér er alveg ljóst, að möguleikarnir til sölu á okkar afurðum til þessara landa, sem við yrðum að verzla við á jafnvirðis- og vöruskiptagrundvelli, skipta hundruðum milljóna króna. Og það hefði þess vegna verið æskilegt, að að minnsta kosti það stæði ekki í vegi fyrir, að það væri næg ríkisábyrgð fyrir hendi, ef bankarnir á annað borð væru til í að gera slíka samninga. Ég býst við, að allir hv. þm. þekki það vel varfærni, við skulum segja t.d. bankastjórnar Landsbanka Íslands, að það væri engin hætta á því að, að svo miklu leyti sem sú bankastjórn gerði samninga við þjóðbanka annarra landa, þá væri ekki hæstv. ríkisstj. óhætt að ganga í ábyrgð fyrir þeim viðskiptum. Landsbankinn fer ekki of djarft í hlutina, þegar um slíkt er að ræða.

Ég hefði þess vegna í fyrsta lagi álitið, að þessi ábyrgð hefði mátt vera mun hærri, og held, að það sé ákaflega nauðsynlegt, einmitt vegna þess, hve erfitt okkur gengur að selja okkar afurðir nú, en hins vegar er vitanlegt, að möguleikarnir til þess að selja okkar annars óseljanlegu afurðir, hvort heldur það er freðfiskur, lýsi, ísfiskur eða hvað sem er, eru nægir, en aðeins gegn vörum.

Í öðru lagi álít ég, að það hefði verið heppilegt í sambandi við þetta frv., að þessi réttur væri veittur fleirum, en Landsbanka Íslands, að ríkissjóður tæki á sig þessa ábyrgð ekki aðeins gagnvart Landsbankanum, heldur einnig gagnvart Útvegsbanka Íslands h/f og gagnvart Búnaðarbanka Íslands. Úr því að við á annað borð höfum það kerfi í landinu að hafa marga ríkisbanka, þá álít ég, að það sé eðlilegt, miðað við það þjóðfélagsfyrirkomulag, sem við höfum, að þessir bankar séu látnir standa jafnara að vígi, en nú er. Og slíkt er tilgangur löggjafarinnar. Ég vil minna hv. þm. á, að eftir löggjöfinni er starfandi einn seðlabanki í landinu, seðlabanki Íslands, en þrír viðskiptabankar, Landsbanki Íslands, þ.e. sparisjóðsdeild, Útvegsbanki Íslands h/f og Búnaðarbanki Íslands. Og þessir 3 bankar, sem sé sparisjóðsdeild Landsbanka Íslands, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn, eiga eftir lagafyrirmælum að vera jafnréttháir gagnvart seðlabanka Íslands, og það veit ég, að enginn hv. þm. efast um, sem þekkir okkar bankalöggjöf. Seðlabankastjórnin á að standa sem eins konar yfirbankastjórn, sem hugsar jafnt um hag allra þessara þriggja aðila, sparisjóðsdeildar Landsbankans, Útvegsbankans og Búnaðarbankans. Það á ekki eftir l. að gera neinn mun, þótt svo vilji til og það hafi þótt praktískt, að sömu mennirnir séu bankastjórar seðlabankans og bankastjórar sparisjóðsdeildar Landsbanka Íslands. Hins vegar hefur þarna orðið sá misbrestur, að bankastjórn Landsbanka Íslands hættir við að gleyma því, að hún sé stjórn seðlabankans, sem á að taka jafnmikið tillit til hvort sem er Búnaðarbankans, Úfvegsbankans eða sparisjóðsdeildar Landsbankans. Og það hefur verið allt of mikil tilhneiging — og það er ákaflega mannleg tilhneiging — hjá stjórn seðlabankans að hugsa of mikið um sparisjóðsdeild Landsbankans, að líta svo á sem það væri að einhverju leyti einhver heiður fyrir Landsbanka Íslands, að það verði sem mest viðskipti gegnum hann, og það ætti frekar að halda viðskiptum að honum, heldur en að Búnaðarbankanum eða Útvegsbankanum. Þetta er algerlega rangt og verkar bókstaflega truflandi á þjóðfélagið. Ástandið er sem sé orðið þannig, að tveir ríkisbankarnir eru settir hjá og einn, ein deild úr Landsbanka Íslands „favouriseruð“. Þetta er óeðlilegt. Og hér á Alþingi er staðurinn til þess að gagnrýna þetta fyrirkomulag.

Hér er um að ræða ábyrgð á innstæðum. Nú veit ég, að út af fyrir sig er það langeðlilegast, að seðlabanki Íslands semji við þjóðbanka annarra landa. Og ég vil taka það fram, og það vona ég, að menn skilji, að sparisjóðsdeild Landsbankans er ekki seðlabanki Íslands og ekki þjóðbanki Íslands. Það er út af fyrir sig ákaflega eðlilegt, að seðlabankinn semji við þjóðbanka annarra landa og ætti raunverulega að annast slíka milliríkjasamninga við aðrar þjóðir, þó því aðeins að það sé öruggt, að seðlabankinn láti jafnt yfir aðra þá banka ganga, sem hafa rétt til þess að sinna gjaldeyrisviðskiptum. Nú hefur þetta ekki orðið. Það hefur meira að segja orðið svo, að Landsbankinn hefur einn haft viðskipti við ákveðin lönd, sem við höfum jafnvirðiskaup við, og það er náttúrlega ekki eðlilegt. Við skulum segja, að nú er eftir l. frá Alþingi ákveðin skipting á gjaldeyri milli Útvegsbankans og Landsbankans. Landsbanki Íslands hefur sína viðskiptamenn, Útvegsbanki Íslands hefur sína viðskiptamenn. Það er ákaflega eðlilegur hlutur, að við skulum segja kaupmenn og kaupfélög, sem hafa viðskipti við Útvegsbankann, vilji geta verzlað við hvaða land sem er. Það hafa þeir, að minnsta kosti á vissu tímabili, ekki getað, vegna þess að Landsbankinn hefur einn látið jafnvirðiskaupin ganga í gegnum sig. Ég er ekki að segja þetta vegna þess, að það sé neitt lakara að skipta við Landsbankann, síður en svo. Þegar menn á annað borð eru með viðskipti við þessa banka, þá er ágætt við þá báða að eiga, en hitt er annað mál, að það á ekki að hafa áhrif á viðskipti borgaranna í þjóðfélaginu, og ákveðið verzlunarfirma, hvort það er nú kaupmaður eða kaupfélag, á að geta verzlað, ef það hefur sín ákveðnu föstu bankaviðskipti, við hvaða land sem er í gegnum sinn banka. Ég segi þetta vegna þess, að það er algerlega óeðlilegt, að Landsbankinn noti þá aðstöðu, að seðlabankinn skuli vera sá raunverulegi þjóðbanki Íslands, til þess svo að segja að skapa sér eins konar samkeppni við aðra banka og bæta sína aðstöðu í samkeppni við þá. En fyrst þetta er svona, þá hefði það verið eðlilegur hlutur, að öðrum þeim bönkum, sem vilja hafa viðskipti við þau lönd, sem verzla á jafnvirðis- og vöruskiptagrundvelli, hefði verið gert það mögulegt. Reksturinn í okkar þjóðfélagi er miðaður við það, að það sé svo kölluð frjáls verzlun, það sé sem sé almennur kapítalískur rekstur. Það þýðir, að til þess að þjóðfélagið sé rekið og atvinnureksturinn gangi, þá byggjum við fyrst og fremst á framtaki einstaklingsins, framtaki einstaklinga og félaga. Við byggjum á því sem grundvelli, að áhugi hjá mönnum fyrir verzlun og viðskiptum sé þar ráðandi afl. Það þýðir, að við verðum að leyfa þessu ráðandi afli að njóta sín, meðan við á annað borð tökum ekki upp annað skipulag, þar sem við setjum annað afl í staðinn.

Ef nú ákveðin firmu, sem hafa áhuga fyrir útflutningi og innflutningi, segja: Ég get selt til þessa og þessa lands, og ég hef mín viðskipti

— við skulum segja við Búnaðarbankann –eða Útvegsbankann — eða Landsbankann, —þá er það það eðlilega lögmál í viðskiptalífinu, að þetta firma, sem hefur möguleika og áhuga á viðskiptum við ákveðin lönd, eigi þá að geta í gegnum sinn banka skapað þessi viðskipti og knúið þau fram. Það á ekki að vera hægt að segja við það firma: Ja, ef þú ætlar að skipta við þennan banka þarna, hvort það heitir Útvegsbanki eða Búnaðarbanki, þá getur þú ekki gert þessi viðskipti. Ef þú ferð í Landsbankann og ef hann vill, þá geturðu gert þessi viðskipti. — Þetta getur ekki gengið í landi, sem byggir að einhverju leyti á því, að það sé framtak einstaklinga og félaga, sem á að drífa atvinnureksturinn áfram. Eins og ástandið er þarna, þá held ég, að það væri miklu heppilegra, að það væru fleiri en Landsbankinn, sem þarna væri ábyrgzt fyrir.

Að vísu mundi þetta ekki koma að sök, ef seðladeild Landsbankans skapaði þetta jafnrétti á annan hátt, sem sé á þann hátt, að þeim öðrum bönkum, sem rétt hefðu eða vildu þarna skipta, væri gert það fyllilega mögulegt, m.a. með lánum úr seðladeildinni til viðkomandi banka. Og ég veit það sem sitjandi í landsbankanefnd, að sparisjóðsdeild Landsbanka Íslands er „favouriseruð“ fram yfir Búnaðarbankann og Útvegsbankann hvað lán snertir. Það er bókstaflega enginn samanburður þar á, hvað seðladeildin lánar sparisjóðsdeildinni, og ber henni þó ekki skylda til að lána sparisjóðsdeildinni hlutfallslega eyri meira en t.d. Búnaðarbankanum eða Útvegsbankanum.

Ég held þess vegna, að þarna hefði verið heppilegt, með tilliti til þess raunverulega ástands, sem er, að aðrir þeir bankar, sem rétt hefðu til gjaldeyrisverzlunar við önnur lönd, hefðu haft þarna sama rétt. Ég hef minnzt á Búnaðarbankann, þó að ég viti, að hann hefur ekki slíkan rétt samkv. lögum nú. Eins og menn víta, þá hefur Landsbankinn 2/3 af gjaldeyrinum og Útvegsbankinn 1/3. En ég hef minnzt á Búnaðarbankann vegna þess, að mér fyndist það ekki óeðlilegt, að Búnaðarbankinn hefði slíkan rétt. Slíkt hefur einu sinni áður verið samþ. hér í Nd., og það er talað um það nú, að landbúnaðurinn muni þurfa að fara að flytja út vörur. Og það væri ekkert óeðlilegt, að Búnaðarbankinn hefði rétt til slíkra viðskipta. Það er yfirleitt ekkert óeðlilegt, fyrst við á annað borð rekum þrjá banka, að það sé sköpuð á jafnréttisgrundvelli samkeppnisaðstaða milli þessara banka. Okkar kerfi, eins og það nú er, byggir á því, að betur sjá augu en auga, og ef það eru margir menn, sem keppa hver við annan um það að skapa markað fyrir íslenzkar afurðir og kaupa sem ódýrast inn vörur í staðinn, þá nýtist krafturinn bezt með því, að þeir fái að keppa þarna um og hafi til þess alveg jafna aðstöðu. Hv. þm. vita, að ég er mjög fylgjandi öðru skipulagi á slíkum hlutum, en meðan við höfum þetta skipulag, þá eigum við að láta þá kosti, sem í því eru, njóta sín. Þess vegna mundi ég í öðru lagi mjög vilja leggja til, að aðrir bankar fengju þarna sama rétt.

Þá vildi ég að síðustu segja það viðvíkjandi þessu máli, að það er út af fyrir sig góðra gjalda vert og rétt stefna hjá hæstv. ríkisstj., sem hún fer inn á í þessu frv., að greiða þannig fyrir viðskiptunum við þessi lönd, en það er ekki nægilegt að gera það með þessu móti. Það þarf að greiða fyrir viðskiptunum við þessi lönd með því að gera viðskiptin frjálsari, með því að leyfa mönnum að selja til þeirra. Ég hef sagt það hér ár eftir ár á þingi, og ég segi það enn. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvað er það, sem gerir það að verkum, að hún neitar Íslendingum um frelsi til þess að mega skipta við þessi lönd? Meiri hl. fjhn. hefur lagt á móti því frv., sem ég hef flutt hér þing eftir þing um sölu og útflutning á íslenzkum vörum, en ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Er enginn möguleiki til? — Þegar hún sjálf segir, að við liggjum með yfir 100 millj. kr. virði af fiskafurðum, sem við getum ekki selt, þegar hún segir, að ekki sé hægt að selja t.d. þorskalýsið, — og ég veit, að það er hægt að selja það, — þegar hún segir, að útlit fyrir næsta ár bæði hvað snertir saltfisk og allt saman sé hræðilegt, og ég veit; að það er hægt að selja þetta allt saman. Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj.: Getur hún staðið hér þing eftir þing og baríð höfðinu við steininn og neitað Íslendingum um frelsi til þess að mega selja vörurnar? Og ég vil mega spyrja hana í öðru lagi: Þyrði hún þá að minnsta kosti og vildi, þó að hún vildi halda sínum járnklóm og sinnar einokunarklíku um öll þau lönd, sem Ísland selur til nú, — þyrði hún að gefa Íslendingum frjálst að selja til allra þeirra landa, sem við höfum ekkert selt til á síðasta ári, og kaupa inn aftur í staðinn? Hvað er í veginum fyrir því? Hvað gengur hæstv. ríkisstj. til? Það eru markaðir í öllum álfum heims, og það bíður fólk í öllum álfum heims eftir þeim ágætu vörum, sem Ísland framleiðir og landið er að kikna undir. Og það er eingöngu hæstv. ríkisstj. og engum öðrum aðila að kenna, að allar þessar vörur eru ekki seldar. Ef hún vill endilega láta þessa einokunarhringa, sem hún þjónar, gúkna yfir öllum þeim mörkuðum, sem Ísland hefur núna; hví þorir hún þá að minnsta kosti ekki að gefa okkur Íslendingum frjálst að selja til allra þeirra landa, sem ekki hefur verið selt til fyrir einn einasta eyri á síðasta ári? Er hún svona hrædd við að gefa frjálsan vöruinnflutninginn í staðinn? Það er ekki lengur það ástand á Íslandi, eins og hæstv. ríkisstj. sjálf hefur réttilega lýst, að ef menn fari að kaupa einhverjar vörur í öðru landi, þá séu peningarnir fengnir fyrir hana hérna heima. Þvert á móti. Það er ægileg áhætta fyrir hvern mann að kaupa vörur í öðru landi núna vegna þess, hve íslenzki markaðurinn fyrir innfluttar vörur er slæmur. Það veit hver einasti hv. þm., að það kaupir enginn maður í dag, — ég meina enginn verzlunarmaður með verzlunarviti, — útlendar vörur í öðru landi fyrir fisk héðan, nema hann þykist nokkurn veginn öruggur með að geta selt þær hérna heima. Ég get ekki skilið, hvað hæstv. ríkisstj. gengur til, ef það er þá ekki beinlínis það að hindra atvinnu Íslendinga, að hún skuli neita svona harðvítuglega um frelsi landsmanna til þess að mega selja vörur til annarra landa og kaupa vörur í staðinn. Að vísu fær maður dálitla innsýn í, hvernig þetta er, í sambandi við þau vöruskipti, sem nú er verið að ræða um við Austur-Þýzkaland, þau vöruskipti, sem nú eru þremur árum á eftir tímanum, vöruskipti, sem ég lagði hér fyrir hæstv. ríkisstj. og Alþingi 1950, að hægt væri að framkvæma þá. Þar er verið að selja freðfisk fyrir um 18 millj. íslenzkra króna, kaupa vefnaðarvöru, raftæki og ýmsar aðrar nauðsynjavörur í staðinn, en það stóð að minnsta kosti í Viði, að það væri hægt að selja miklu meira til Austur-Þýzkalands. En mér er grunur á, að þeir aðilar, sem slegið hafa sér saman í eins konar einokunarhring um innkaupin á þessum þýzku vörum fyrir 18 millj. kr., muni reyna að hindra það, að fleiri slíkar vörur séu fluttar inn í landið og meira sé selt af íslenzkum afurðum til þessa lands. Ég hef spurt hæstv. ríkisstj. að því hér, hvort hún ætli að einhverju leyti að stuðla að slíkri einokun eða leyfa Landsbankanum að stuðla að því með því að hindra, að selt sé meira af fiski þangað, hindra, að keypt sé meira af íslenzkum vörum, og gefa þeim mönnum, sem kaupa nú þarna eitthvað af vefnaðarvöru og öðrum slíkum vörum, einokun hérna. Slíkt næði vitanlega ekki nokkurri átt. Auðvitað ber okkur að selja eins mikið til þessara landa og við getum, og það mun verða á ábyrgð þeirra aðila, sem kaupa vörurnar frá viðkomandi löndum, hvort þeir geta selt þær eða ekki. Þeir verða að þola það að standa hér í samkeppni um þær. Þeir eiga ekki að fá neina einokunaraðstöðu með það. Það væri hart, ef t.d. kaupfélögum landsins væri neitað um það að mega í sambandi við fiskimenn selja út sinn fisk og kaupa vefnaðarvörur og annað slíkt í staðinn og selja hér á frjálsum markaði.

Þetta eru hlutir, sem hæstv. ríkisstj. ætti að fást til að svara, ef hún hefði engu að leyna í þessu máli. Ef hún hefði ekki því að leyna, að hún vill skipuleggja í fyrsta lagi einokun á allri framleiðslu Íslendinga í þeim tilgangi að halda okkar atvinnulífi niðri og skapa atvinnuleysi um allt land, til þess að reka Íslendinga um allt land burt frá sínum fiskiskipum og suður á Keflavíkurflugvöll í þrælavinnu hjá Ameríkönum. Það hefði einhvern tíma verið talað um af Framsfl. hér á árunum, að það væri verið að taka menn frá framleiðsluvinnunni með þeim hundruðum manna, sem nú eru að vinna þar suður frá og þakka fyrir það í neyðinni að fá þá vinnu, neyðinni, sem ríkisstj. hefur skapað. Það hefði einhvern tíma verið talað um, að það væri hart að taka menn þannig frá framleiðsluvinnunni, en það fer að verða skiljanlegra, þegar hæstv. ríkisstj. er sjálf aðalþröskuldurinn fyrir því, að Íslendingar fái að framleiða og selja fisk. Í öðru lagi er ríkisstj. með sinni afstöðu hvað einokunarverzlunina snertir að halda verndarhendi sinni yfir lítilli klíku manna hér heima. Og á sama tíma er svo þeim mönnum, sem fiskútgerð stunda, neitað um leyfi til þess að selja fiskinn út úr landinu. Það er algerlega rangt, sem hv: 2. varaþm. Eyf. sagði í útvarpsumr., að t.d. hv. 2. landsk. hefði fengið leyfi til þess að selja fiskinn út úr landinu. Því hefur alltaf mjög staðfastlega verið neitað, eins og yfirleitt sú einokunarklíka, sem ræður ríkisstj., hefur neitað Íslendingum, þótt allt sé að brotna saman undan óseldum fiski, um frelsi til þess að mega selja fisk og kaupa nauðsynjar í staðinn. Þetta er mál, sem eðlilegt er, að komi til umr. í sambandi við þetta mál, sem hér er um að ræða, þó að ég hins vegar muni ekki flytja neina brtt. í þá átt, enda liggur það fyrir í öðru frv. frá mér, sem því miður gengur alltaf ákaflega erfiðlega að fá afgr. hér.

Ég er hins vegar fylgjandi þessu frv. sjálfu, en hefði ákaflega gjarnan kosið, ef hægt hefði verið að gera á því þessa breyt., sem ég gat um, hækka fjárhæðina og gefa fleirum, en Landsbankanum þennan rétt. Því miður gat ég ekki verið á fundi fjhn., þegar málið var afgr., og ég vil ekki vera að flytja brtt. um þetta, sízt af öllu án þess að hafa getað talað við meðnm. mína um málið áður. Ég vil þess vegna freista þess að ræða við þá milli 2. og 3. umr. þessa máls, því að ég vil engan veginn neitt draga afgreiðslu þess eða mælast til þess, að henni sé frestað núna. Þetta er bara 2. umr. En ég mun reyna á milli umr., hvort nokkur kostur er að fá þarna fram breyt. Hitt hefði mér verið kært, að hæstv. ríkisstj. hefði sagt nokkuð, hvað hún hyggst fyrir um þetta, en ég veit, að hennar fyrirætlanir í því þola ekki dagsins ljós, þannig að ég geng út frá, að þær komi þess vegna ekki hér fram.