15.01.1953
Efri deild: 49. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þegar þessari umr. var frestað, þá var það eftir ósk frá n. til að athuga till. þm. Barð. á þskj. 485. - Þetta frv., sem komið var frá ríkisstj., hefur ekki tekið breyt., fyrr en þessar brtt. koma hér fram, að undanteknum nokkrum breyt. í Nd. N. hefur síðan haldið tvo smáfundi um málið. Á fyrri fundinum voru hv. þm. Seyðf. (LJóh), hv. 8. þm. Reykv. (RÞ) og ég. Þá varð að samkomulagi, að ég skyldi hafa tal af þeim mönnum, sem undirbjuggu frv. fyrir ríkisstj. hönd, en það voru Gunnar Böðvarsson og dr. Gunnlaugur Þórðarson. Ég hef svo náð í þá og talað við þá um þessar brtt. Þeir segja, að 250 kw. sé miðað við það, að á nokkrum stöðum hafa verið byggðar stórbyggingar, sem rúma allt upp undir 20 fjölskyldur, og komið sér upp eigin hitaveitu, og þegar lagt hefur verið í slíkt stórt verk á einhverjum stað, þar sem síðar á að koma sameiginleg hitaveita, þá fannst okkur ekki ástæða til annars, ef ekki var brýn þörf á öðru, en að lofa þessum hitaveitum að vera áfram. Og þess vegna settum við þessa heimild inn í l., að það þyrfti ekki að vera með, en ef aftur ástæður liggja þannig við framkvæmd verksins, að það reynist nauðsynlegt að hafa þær með, þá er möguleiki til þess eftir 6. gr. að taka þær með. Ef við aftur förum niður í 50 kw., þá er þetta orðið fyrir eitt hús með 4 íbúðum, og það er svo lítið, að slík undanþága í l. hefur ekki nokkra einustu þýðingu og er til bölvunar, því að þá getur hvert einstakt hús út af fyrir sig að heita má fengið slíka undanþágu. Þess vegna sögðust þeir vera alveg ákveðnir á móti því, að það væri breytt til með þetta og 250 fært niður í 50, — það væri til þess að geta svo mörgum einstaklingum tækifæri til að standa utan við, þegar sameiginleg hitaveita væri gerð. Og þó að þá væri möguleiki eftir 6. gr. til að taka þá með, þá væri það svo mikið umstang og alveg ástæðulaust, því að slíkar smáhitaveitur ættu alls staðar að vera með í sameiginlegu hitaveitunni. Það væri einungis þegar um stærri hitaveiturnar væri að ræða, sem slíkt kæmi til greina. Þess vegna leggja þeir á móti þessu, og n. var öll sammála um að leggja á móti því, að 1. till. væri samþ. — Á seinni fundinum, sem haldinn var, var Steingrímur Aðalsteinsson, 4. landsk. þm., líka, en einn nm. hefur mætt á hvorugum nefndarfundinum, þ.e. hv. 6. landsk.

Gagnvart seinni brtt. er ýmislegt, sem mælir með henni, og annað, sem mælir á móti henni. Og þeir sögðu, Gunnlaugur og Gunnar, sem undirbjuggu frv., að þeir hefðu rætt þetta bæði sín á milli, við Jakob Gíslason og við ráðh. og ekki fundizt ástæða til að taka þetta upp. Það, sem mælir með því að taka þetta inn í l., er það, að þá vita þeir fyrir fram, sem í hitaveitu vilja ráðast, að þeir eiga þetta víst. Það er það, sem mælir með því, og það er náttúrlega út af fyrir sig viss styrkur fyrir þá til að hefja undirbúning og annað, sem að hitaveitunni lýtur. Það, sem mælir á móti því, er náttúrlega fyrst og fremst það, að þá tekur ríkið á sig ábyrgðir, sem maður veit ekki fyrir sig fram neitt um, hverjar verða, og í öðru lagi, að það er viða svo, að það er ákaflega hæpið, hvort það er hægt að ráðast í hitaveitur og hvort það á að örva menn til þess að ráðast í þær, þar sem aðstæðurnar liggja þannig, að um mikil vafaatriði er að ræða. Ég skal nefna sem dæmi Hrísey og Dalvík. Hrísey hefur laug í fjöruborðinn, sem kemur upp í stórstraumi og er 40 stiga heit. Þar eru, ef ég man rétt, 304 manneskjur. Það er ákaflega hæpið, hvort það á að örva þá í það að fara að bora og gera aðrar ráðstafanir til þess að reyna að koma upp hitaveitu með því að segja við þá: Þið eigið fyrir fram víst, að ríkissjóður ábyrgist 85% af því láni, sem þið þurfið að taka fyrir hitaveituna. — Það mundi örva þá til þess að fara í þær framkvæmdir. Þeir mundu annars verða að gera undirbúning sjálfir og rannsaka málið vel, áður en þeir gætu komið til þingsins og fengið sína ábyrgð, sem er þó líklegt að þeir fengju, ef málið eftir 1., 2. og 3. gr. reyndist þannig vaxið, að það teldist rétt að leggja fé í hitaveituna. Dalvík hefur heita laug, miklu heitari en Hrísey, og þarf lítið að auka þar við hita, en nokkuð langt frá, svo að það er löng leiðsla og dýr, sem þarf. Það mætti taka ýmis fleiri dæmi. Hérna í Reykjavík þarf náttúrlega að stækka hitaveituna eða taka nýja hitaveitu, sem þeir gizkuðu á í umr. við mig í gær að mundi kosta mikið á annað hundrað millj., — það veit nú enginn, þó að þeir gizki á það. Og þeir töldu, að það væri um svo fáa staði að ræða og svo misjöfn aðstaða til þess, að það væri ekki rétt að setja inn í l. þessa 2. brtt. um 85% ábyrgðina.

N. tók enga afstöðu til málsins. Mér skildist, að við þrjú í n., ég, 8. þm. Reykv. og þm. Seyðf., teldum ekki ástæðu til að taka þetta inn í l., en aftur skildist mér á 4. landsk., að hann fyrir sitt leyti teldi betur fara, að það væri í l., heldur en að það þyrfti að sækja um það í hverju einstöku tilfelli, en annars sá hann ekki verulegan mismun á því.

Ég hef með þessu reynt að segja bæði það, sem ég tel að mæli með því, að 85% ábyrgðarheimild sé tekin inn í l., það verður til uppörvunar til að leggja í rannsóknir og tilraunir til að koma á hjá sér hitaveitu, — og eins það, sem ég tel að mæli móti því að taka ábyrgðina í lögin, og það er það, að tilfellin eru heldur fá og koma svo strjált á næstu árum til Alþ. til að biðja um ábyrgðir, sem Alþ. þá kæmi til með að meta í hverju einstöku tilfelli, hvort rétt væri að veita eða ekki, en að hinu leytinu er það ráðh., sem gerir það. Og ef það er komið inn í l., þá tel ég, að það sé allt að því að vera víst, jafnvel þó að málið sé vafasamt í heild.

Ég fyrir minn part legg þess vegna á móti báðum brtt. Öll n. leggur á móti þeirri fyrri, en einn nm. af þeim, sem í hefur náðst, lætur málið annaðhvort hlutlaust eða greiðir atkv. með annarri brtt.