15.01.1953
Efri deild: 49. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú heyrt rök hv. frsm. fyrir því, að hann mælir með því, að brtt. mínar á þskj. 485 verði ekki samþ., og skal aðeins fara um það nokkrum orðum.

Fyrri brtt. er m.a. borin fram til þess, að allir þeir staðir, sem hefðu skilyrði til þess að koma upp hitaveitu, þó að ekki væri um að ræða nema 5–6 hús, gætu orðið aðnjótandi m.a. þeirra ákvæða, sem felast í brtt. minni undir tölulið 2, svo að þessar tvær till. hanga nokkuð saman. Ef frv. á hins vegar aðeins að ná yfir hitaveitu, sem er 250 kw., eins og farið er fram á hér í frv. á þskj. 373, þá eru enn skildir eftir margir aðilar, sem engin lög ná yfir í sambandi við hitaveitur. Ég hygg, að það sé ekki fjarri sanni að áætla, að á hverja 100 m2 í húsi, sem er sæmilega byggt, þurfi engan veginn meira en 5 kw. til hitunar, og þá er hér um að ræða, að 25 slík hús, sem hefðu aðstöðu til þess að geta komið á hjá sér hitaveitu, væru fyrir utan þessi lagaákvæði. Það er það, sem mér þykir skorta á hjá hv. n., að hafa ekki rannsakað það mál. Lagaákvæðin verða því ákaflega lítils virði, þegar gengið er frá þeim þannig, að slíkir hópar eru ekki teknir með. Ég vil m.a. benda á, að ef ætti að koma upp hitaveitu á Reykhólum, þar sem nú eru 6–8 hús, þá mundi sú hitaveita ekki falla undir þessi lagafyrirmæli hér, hvorki á einn né annan hátt. Ég tel því frv. lítils virði, ef það er samþ. eins og það liggur fyrir, og legg því mjög til, að mínar till. verði samþ.

Hvað viðvíkur kostum og löstum við að samþ. 2. till. mína, þá viðurkenndi hv. frsm., að með því vissu menn, að hverju þeir gætu gengið, og það þykir ákaflega mikill kostur í sambandi við þessi mál. Það hefur þótt alveg sjálfsagt og nauðsynlegt í sambandi við hafnargerðir, í sambandi við vatnsveitur og í sambandi við rafmagnsmál. Ég get satt að segja ekki skilið, hvers vegna sveitarfélagi væri gefin slík ábyrgð eða slík fríðindi til þess að koma upp 250 kw. rafmagnssamstæðu, hvort heldur hún væri rekin með vatnsafli eða dieselmótor, sem ef til vill notaði meginhlutann af þessu rafmagni til þess að hita upp hús, en samtímis vildi ekki sama stofnun gefa sömu fríðindi til hinna, sem gætu á ódýrari hátt hitað upp hús sín með heitu vatni. Ég held, að það verði ekki hægt að færa nein rök fyrir því, að það sé nein sanngirni í því. Hann telur, að það, sem mæli á móti þessu, sé sú ábyrgð, sem ríkið taki á sig og enginn viti hver verður. Þetta á ekkert frekar við um þetta fyrirtæki heldur en hafnir, nema miklu síður sé, því að menn vita miklu síður um, hvað kostar að fullgera hafnir og hvaða tekjur þær kunna að hafa o.s.frv., og menn geta heldur ekkert sagt um þetta frekar hvorki um vatnsveitur né um rafmagnsstöðvar, svo að ég hygg, að þessi rök séu nú ekki veigamikil, auk þess sem það er alveg fyrir fram ákveðið, að það á að gera ákveðnar rannsóknir áður en ábyrgðin er veitt, og það á að gerast allt undir eftirliti ákveðinna manna. Ég sé því ekki annað, en að þessar mótbárur, sem bornar eru fram hér, séu fullkomlega falskar í sambandi við þetta mál. — Ég læt það alveg afskiptalaust, ef mínar till. verða felldar, hvort frv. er samþ. eða ekki, en ég tel frv. ákaflega lítils virði, ef það er samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 373. Og framtíðin mun sanna, að það verður ekki langt þangað til það verða þá gerðar á því mjög verulegar breytingar, vegna þess að reynslan mun sýna, að það sé ómögulegt að starfa undir þeim fyrirmælum, sem þar eru, óbreyttum.