21.01.1953
Neðri deild: 54. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Þetta mál mun hafa verið til meðferðar í gær hér á fundi og var frestað og þess óskað, að n., sem hafði það til meðferðar hér áður í d., tæki til athugunar þá breytingu, sem hafði verið gerð á frv. í hv. Ed., þ.e.4. gr. frv. eins og það nú liggur fyrir. Efni hennar er, að ríkisstj. er heimilt að ganga í ábyrgð fyrir það sveitar- eða bæjarfélag, sem vill koma á hitaveitu hjá sér. Ábyrgðarheimildin má ekki nema hærri upphæð en 85% af kostnaðarverði. Þessi grein kom inn í frv. í Ed. Þegar það var afgr. héðan frá hv. Nd., voru engin ákvæði í þessa átt. Þetta atriði bar á góma hjá okkur í allshn. Nd. á sínum tíma, en n. sá ekki ástæðu til þess þá að flytja brtt. um þetta, bjóst við, að í hvert sinn, ef þeir, sem að slíku mannvirki standa, þættust þurfa á því að halda, mundi verða leitað eftir ábyrgðinni, svo að hægt væri að koma verkinu áfram, ef menn hefðu ekki fjármuni til þess af eigin rammleik. En nú er þetta ákvæði komið inn í frv., og gegnir þá vitaskuld nokkuð öðru máli, heldur en á meðan það ekki var.

Viðvíkjandi þessum framkvæmdum ætla ég; að ríkið hafa ábyrgzt lántökur fyrir hlutaðeigandi bæjarfélög, sem hafa komið þessum hitaveitum á hjá sér, og ábyrgðarupphæðin hefur numið 80% af kostnaðarverði mannvirkisins. Hér er nú gert ráð fyrir í 4. gr. frv., að hún megi nema allt að 85%. Það var fundur í allshn. í morgun, en menn voru forfallaðir frá því sumir hverjir að mæta, svo að þá tókst ekki að ganga frá þessu, en ég hef borið mig saman við meiri hluta manna í nefndinni, sem ég hef náð til, og erum við sammála um að leggja til, að breytt verði upphæðinni, sem heimilt er að ábyrgjast, þannig að það megi ábyrgjast allt að 80% af kostnaðarverði. Er það í samræmi við það, sem gert hefur verið t.d. fyrir Ólafsfjörð og Sauðárkrók. Það teljum við, að sé nægilegt. Þess verður að vænta, að hæstv. ríkisstj., sem á að úrskurða um slíkar beiðnir, ef þær kunna að berast henni, hafi gát á því, eftir því sem hægt er, áður en ábyrgð er tekin á láni, sem verja á til þessara framkvæmda, að það fyrirtæki megi teljast fjárhagslega öruggt, að það geti staðið við sínar fjárhagslegu skuldbindingar, þegar mannvirkið er framkvæmt. Okkur sýndist ekki rétt, fyrst þetta er nú þarna komið, að fara að nema þetta burt úr frv., en það er gert af okkar hálfu í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma gæti fyllstu varfærni um þetta efni, áður en gengið er í ábyrgð fyrir slíkum lánum. Nefndin leggur þess vegna til, að þessu verði breytt, að í stað „85%“ komi: 80% .

Þá er sjálfsagt að leiðrétta 12. gr. frv. Það stendur nú í frv., að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1953. Það tímatakmark er nú liðið, og á ekki við, að það standi í frv. N. ber einnig fram brtt. um það. Þessum brtt., sem n. ber hér fram, mun ekki hafa verið útbýtt. Þær eru komnar fyrir nokkru í prentun, en ég hef ekki orðið þess var, að þeim hafi verið útbýtt. Þess vegna verð ég nú að leggja þessar brtt. fram skriflega af hálfu nefndarinnar. Tillögurnar eru frá allshn. og hljóða þannig:

„1. Við 4. gr. Fyrir „85%“ komi: 80%.

2. Við 12. gr. Greinin orðist þannig:

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég mun afhenda hæstv. forseta þessar skriflegu brtt. og óska eftir, að hann leiti afbrigða fyrir þeim, svo að þær megi koma hér til meðferðar.