21.01.1953
Neðri deild: 54. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

88. mál, hitaveitur utan Reykjavíkur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég fyrir mitt leyti get ósköp auðveldlega orðið við tilmælum hæstv. forsrh. um það að leita eftir því við hv. allshn. Ed., hvernig hún kann að líta á þessa breyt., sem við leggjum til að gerð verði á frv. Og ég efast ekkert um, að hv. meðnm. mínir mundu fúslega líka vilja verða við þessum tilmælum hæstv. forsrh. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að það geti orðið að ágreiningsefni, og get tekið undir það, sem hæstv. forsrh. segir, að þarna er ekki um svo mikla fjármuni að ræða, að það sé vert að gera slíkt að ágreiningsatriði, sízt af öllu ef það gæti orðið til þess að tefja framgang málsins. Ég fyrir mitt leyti get lýst því yfir af minni hálfu, og ég hygg, að þar megi ég tala fyrir munn hv. meðnm. minna, að við viljum einmitt gjarnan, að þetta mál nái fram að ganga. En þó að samkomulag náist alveg um þetta atriði, þá þarf málið samt sem áður að fara á milli d. Það gerir ákvæði 12. gr. frv. Því þarf að breyta. En vitaskuld getur slíkt ekki orðið til neinnar verulegrar tafar, þótt því verði breytt.

Ég get því lýst því yfir við hæstv. forseta, að honum er óhætt að fresta umræðunni vegna n. í þessari deild.