07.10.1952
Sameinað þing: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

1. mál, fjárlög 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. alþm. hafa fyrir framan sig aðalreikning ríkissjóðs fyrir árið 1951, og mun ég þess vegna ekki lesa reikninginn, en hins vegar ræða hann nokkuð. Samkv. reikningnum hafa tekjur ríkissjóðs á rekstrarreikningi orðið 413 milljónir, en voru áætlaðar 297. Ríkisútgjöldin hafa orðið á rekstrarreikningi 304 milljónir, en voru áætlaðar 261. Rekstrarafgangur hefur orðið 109 milljónir, en var áætlaður tæplega 37 milljónir. Umframgreiðslur gjaldamegin á rekstrarreikningi eru 431/2 milljón, en rekstrarafgangur er 72 milljónum hærri ,en gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Ég mun nú gera nokkra grein fyrir umframgreiðslunum og ástæðunum fyrir þeim. Eins og menn, ef til vill rekur minni til, voru umframgreiðslur á árinu 1950 sama sem engar, eða rúmlega 3 millj. kr. samtals á rekstrarreikningi. Hér hefur því breyting á orðið, sem á sér ýmsar ástæður, er ég mun ræða nánar.

Fyrst er nú það, að í fjárlagafrv. voru launagreiðslur allar og allir liðir, sem launagreiðslur hafa áhrif á, miðaðir við vísitölu 115. Meðalvísitala ársins varð hins vegar 131 stig. Að vísu voru settar 5 millj. kr. á 19. gr. til þess að vega upp þann mismun, en þær 5 milljónir hafa þó hvergi nærri hrokkið til þess, eins og að líkum lætur, og er hækkun vísitölunnar, sem hefur einnig áhrif á mjög marga aðra liði í fjárlögunum, ein aðalástæðan fyrir umframgreiðslunum.

Í öðru lagi fór svo, að í sambandi við Kóreustyrjöldina hækkaði gífurlega verð á aðfluttum vörum á árinu 1951, og hefur það einnig sagt til sín á mörgum útgjaldaliðum.

Í þriðja lagi er þess að geta, að viðhald þjóðvega fór stórkostlega fram úr áætlun, sumpart vegna óhagstæðrar veðráttu og að sumu leyti blátt áfram vegna þess, að ýmsir af þjóðvegunum voru svo illa farnir vegna skorts á viðhaldi á undanförnum árum, að vegamálastjórnin taldi sig verða úr því að bæta á árinu 1954. Fóru til viðhaldsins 6.440.000 krónum meira, en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þetta hefði vitanlega alls ekki verið hægt að gera og ekki komið til mála að gera, ef ekki hefðu verið ríflegri fjárráð þetta ár, en venja er til. Hefur vegamálastjórninni verið tilkynnt það svo greinilega, að ekki verður um villzt, að þótt það væri þolað í fyrra, að slík umframgreiðsla ætti sér stað í vegaviðhaldi, vegna þess, hvernig á stóð um fjármálin, þá verður vegamálastjórnin að takmarka viðhaldseyðsluna við fjárveitinguna á þessu ári og framvegis.

Ég mun þá víkja nánar að einstökum liðum. Alþingiskostnaður hefur orðið rúmlega 1 millj. kr. hærri, en áætlað var, og er þetta að verulegu leyti vegna verðlagsuppbótar og sumpart af því, að aðalþingið 1951 lauk ekki störfum fyrir jól, en þurfti að koma aftur til funda í janúar, og var sá kostnaður að sjálfsögðu færður með þinghaldskostnaði 1951.

10. gr. 1. stjórnarráðskostnaður, hefur farið eina millj. og 700 þús. fram úr áætlun, og er meira, en helmingur þeirrar fjárhæðar vegna vísitöluhækkunar. Sumpart stafar umframgreiðslan augljóslega af því, að þessi kostnaður hefur undanfarið verið settur of lágt í fjárlögum miðað við reynsluna.

Dómgæzla og lögreglustjórn á 11. gr. A. hefur farið 3 millj. og 600 þús. kr. fram úr áætlun. Um 1 millj. og 400 þús. af því eru umframgreiðslur á landhelgisgæzlunni, langmest vegna vísitöluhækkunar, en nokkuð vegna aukinnar landhelgisgæzlu, sem Alþingi ályktaði að skyldi eiga sér stað, eftir að búið var að ganga frá fjárveitingunni. Þá hefur kostnaður við saka- og lögreglumál og setu- og varadómarastörf farið talsvert fram úr áætlun og svo auðvitað allar launagreiðslur á greininni eins og annars staðar.

11. gr. C., kostnaður við innheimtu tolla og skatta, hefur farið 1 millj. 719 þús. kr. fram úr áætlun. Mest er þetta vegna vísitöluhækkunar, en þó hefur kostnaður við skattstofuna í Reykjavík aukizt meira, en sem því svarar frá því, sem fjárlögin gerðu ráð fyrir, og er það sumpart vegna mikilla umsvifa við stóreignaskattinn, sem enn þá áttu sér stað á árinu 1951, og sumpart fyrir það, að kostnaður við skattstofuna hefur undanfarið verið settur of lágt í fjárlögin, miðað við reikningana.

Þá eru það heilbrigðismál. Þau hafa farið 2 millj. og 400 þús. kr. fram úr áætlun. Halli ríkisspítalanna hefur aukizt mikið á árinu vegna vísitöluhækkunar og vegna hækkunar á verðlagi. Mestur hefur hallinn orðið á geðveikrahælinu á Kleppi umfram það, sem ráðgert var, og var þar meðal annars um óvenjulegan viðhaldskostnað að ræða eða réttara sagt endurbótakostnað á eldri spítalanum, sem fór fram á árinu. Enn fremur hefur styrkur til berklasjúklinga og til annarra sjúklinga og örkumlamanna farið fram úr áætlun um 560 þús. kr., en það eru algerlega lögboðin gjöld, og verður að greiða þá reikninga, sem koma um þann kostnað.

Ég kem þá að 13. gr. Fyrst er kostnaður við vegamál. Hann hefur farið fram úr áætlun um 7 millj. 478 þús. Viðhaldskostnaður fór fram úr áætlun um 6 millj. 440 þús. af ástæðum, sem ég hef þegar gert grein fyrir. Enn fremur varð umframgreiðsla tæp 1 millj. vegna brúargerða. Hallinn á strandferðunum varð nærri 3 millj. kr. meiri, en gert var ráð fyrir. Stafar þetta af stórhækkuðum útgerðarkostnaði á árinu vegna hækkunar á verðlagsuppbót og verðhækkununum miklu á ýmsum rekstrarvörum til skipanna. Það hefði að vísu verið hægt að lækka nokkuð þennan halla með því að hækka flutningsgjöldin með ströndum fram, en það hefur ekki þótt fært að vandlega athuguðu máli að ganga lengra í þá átt, en gert hefur verið. Fór því svo um framlögin til strandferða á árinu 1951, að þau urðu ekki í neinu samræmi við það, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum, eins og ég var að segja frá áðan.

Kostnaður við kennslumál hefur farið 6 millj. 284 þús. fram úr áætlun. Mest af þessu eru hækkaðar verðlagsuppbætur á laun kennara. Borgar ríkissjóður öllum barnakennurum og öllum gagnfræðaskólakennurum og hluta af rekstrarkostnaði allra barna- og gagnfræðaskóla fyrir utan allan kostnað allra þeirra skóla, sem ríkið rekur sjálft. Hér við bætist svo, að við samanburð á greiddum og áætluðum grunnlaunum kemur í ljós, að fræðslumálastjórnin hefur áætlað of lágt grunnlaunagreiðslu til kennara og skólakostnað, en á hennar áætlun voru byggðar tölurnar, sem í fjárlögin voru settar.

Greiðslur til landbúnaðarins á 16. gr. A. hafa farið 5 millj. 298 þús. kr. fram úr áætlun. Þessar umframgreiðslur eru nær eingöngu vegna þess, að lögboðin gjöld, sem áætluð eru í fjárlögum, hafa farið fram úr áætlun. Jarðræktarframlagið og framlag til skurðagerða hefur orðið 2 millj. 280 þús. hærra, en gert var ráð fyrir vegna meiri framkvæmda í jarðrækt en áður, og þá hefur framlagið til sauðfjársjúkdómavarna einnig farið fram úr áætlun um 2 millj. og 900 þús., eða tæpar 3 millj., sem stafar að verulegu leyti af því, að fyrir eindregnar áskoranir var mikið stækkað niðurskurðarsvæðið á árinu 1951 frá því, sem ráðgert hafði verið, þegar fjárlögin voru gerð. Nokkrir hreppar í Rangárvallasýslu voru teknir með til viðbótar því, sem fyrirhugað hafði verið.

Framlag til félagsmála á 17. gr. hefur farið fram úr áætlun um 3 millj. og 500 þús. Aðalfjárhæðin af þessu eru 2 millj. og 800 þús., sem hafa runnið til Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlaganna. Í fjárlögunum var Tryggingastofnuninni ætlað að fá 18 millj. 850 þús. Var þetta framlag að vísu nokkuð skorið við nögl, en þó ekki lögskylt að láta meira, en í fjárlögin var sett. Þetta framlag var þó látið standa óbreytt á Alþ. með ráði fjvn., en gefið undir fótinn fullkomlega um það, að ef mjög illa horfði um afkomu trygginganna, þá mundi þetta verða nokkuð bætt upp á árinu 1951. Þegar leið fram á árið, sýndi það sig, að afkoma Tryggingastofnunarinnar var mjög slæm og verri, en menn höfðu gert ráð fyrir, og var þá fallizt á að hækka þetta framlag um rúmar 2 millj. kr. En 700 þús. kr. er umframgreiðsla á framlagi til sjúkrasamlaga. Eru það hreinlega lögboðnar greiðslur eftir lögfestum reglum og hafa orðið hærri, en fyrir fram var gert ráð fyrir, aðallega vegna vísitöluhækkunarinnar, sem hér hefur einnig áhrif.

18. gr. hefur farið fram úr áætlun um 1 millj. 847 þús., og er það vegna hækkaðrar verðlagsuppbótar alveg eingöngu svo að segja.

Kem ég þá að greiðslum samkvæmt 22. gr. fjárlaga, þ.e.a.s. heimildagreininni, sérstökum lögum eða þingsályktunum, en allar eru þessar greiðslur borgaðar með fullri heimild frá hv. Alþ., en hins vegar ekki færðar á fjárlög. Samkvæmt heimildalögum eru greiddar yfir 2 millj. 282 þús. Eru þessir liðir helztir:

Til kaupa á húsi á Laufásvegi 7 vegna Tónlistarskólans 522.100 kr. Var húsið keypt og afhent skólanum leigulaust til afnota honum til styrktar, eins og hv. Alþ. ætlaðist til.

Til viðgerðar á brimbrjótnum í Bolungavík 808 þús. samkv. sérstakri heimild í 22. gr. fjárlaga, en þessi viðgerð öll mun að lokum kosta mikið á aðra millj. kr.

Til þess að grafa sundur malarrif í Þórshöfn 140 þús. kr. Er þetta tilraun, sem ætlar að takast vel.

Þá voru þarna færðir til gjalda 2/3 hlutar af andvirði Silfurtúns, Trésmiðju ríkisins, sem afhent var endurgjaldslaust S.Í.B.S. samkv. ákvörðun hv. Alþ. og átti að koma í stað tveggja ára styrks á fjárlögum, og nema þessir 2/3 hlutar, sem þarna eru færðir til gjalda, 802 þús.

Þá eru greiðslur samkv. sérstökum lögum samtals 2 millj. 795 þús. Stærsta greiðslan er 11/2 millj., sem lögð var til raforkusjóðs á árinu umfram það, sem sett var á fjárlögin. Stjórn raforkusjóðs hélt því fram, að sjóðurinn ætti þetta inni hjá ríkissjóði, þar sem aldrei hefði verið uppfyllt til fulls ákvæði laga frá 1946 um framlag til sjóðsins. Við athugun á þessu máli komst fjmrn. að þeirri niðurstöðu, að sjóðsstjórnin hefði rétt fyrir sér, og af því að fjárráð voru nokkur á árinu 1951, var notað tækifærið til þess að greiða þessa fjárhæð til raforkusjóðs.

Þá er þarna kostnaður við varnir gegn gin- og klaufaveiki 184 þús., kostnaður vegna laga um skuldaskilasjóð 440 þús. Aðrar fjárhæðir eru lægri, og tekur því ekki að nefna þær hér nú.

Þá komum við að greiðslum vegna væntanlegra fjáraukalaga, en það eru þær greiðslur, sem ekki eru beinlínis heimilaðar fyrir fram af hv. Alþ., og má því segja, að þær séu þær raunverulegu umframgreiðslur. Samtals eru þessar greiðslur 4 millj. Hér eru tvær fjárhæðir stærstar: Til atvinnuaukningar haustið 1951 1 millj. 367 þús. og kostnaður við fóðurkaup og fóðurflutninga til harðindasvæðanna síðari hluta vetrar og vorið 1951 1 millj. Þá er þarna árgjald til Atlantshafsbandalagsins, 263 þús., sem eiginlega hefði nú fremur átt að færa undir gjöld samkv. lögum eða þingsályktunum, vegna þess að það er skylt að inna það af hendi, af því að við erum í bandalaginu. Enn fremur gamall rekstrarhalli dýpkunarskipsins Grettis, sem óhjákvæmilegt var að hreinsa burt og greiða, 1/2 millj. Enn fremur nokkrar aðrar smærri fjárhæðir. Ég geri fastlega ráð fyrir, að hv. Alþ. muni líta svo á, að það hafi verið óhjákvæmilegt að leggja fram þessar nefndu fjárhæðir til fóðurflutninga og fóðurkaupa og til atvinnuaukningar, þótt ekki væru til fyrir því beinlínis heimildir, og svo mun einnig vera um aðrar þær smærri fjárhæðir, sem eru á þennan lið færðar.

Til frekara yfirlits um umframgreiðslurnar er hægt að setja upp lista yfir þær helztu, og yrði hann þá þannig: Alþingiskostnaður 1 millj., landhelgisgæzla 1 millj. og 400 þús., vegaviðhald 6 millj. og 400 þús., brúargerðir 1 millj. og 200 þús., strandferðahalli 3 millj., kennslumál 6 millj. 460 þús., jarðræktarframlag 2 millj. 280 þús., sauðfjársjúkdómakostnaður, aðallega fjárskiptakostnaður, 2 millj. og 900 þús., aflatryggingasjóður 400 þús., almannatryggingar 2 millj. og 800 þús., jöfnunarsjóður sveitarfélaga 300 þús., greitt samkv. heimildum á 22. gr. 2 millj. 280 þús., útgjöld samkv. sérstökum lögum 2 millj. 790 þús. og greitt upp á væntanleg fjáraukalög 4 millj., þar af atvinnuaukningarfé 1 millj. 367 þús. og vegna harðindanna rúm milljón.

Þessar helztu umframgreiðslur, sem ég hef gert grein fyrir, nema sem næst 37 millj. og 300 þús., en allar umframgreiðslur á rekstrarreikningi voru 43 millj. og 500 þús. Aðrar umframgreiðslur en þessar, sem ég hef talið, þ.e. mismunurinn, stafa að langmestu leyti af hækkun verðlagsuppbótar og verðlagshækkun.

Ég hef til fróðleiks athugað, hvað umframgreiðslurnar á rekstrarreikningi nema miklu af fjárlagaupphæðinni, og nema þær 16,6%. Ég hef einnig athugað þróun þessara mála áður allt til 1924, og kemur þá í ljós, að þetta eru lægri umframgreiðslur hlutfallslega, en oft hafa átt sér stað og langt undir meðallagi. Það var óumflýjanlegt, að verulegar umframgreiðslur yrðu á árinu 1951 vegna hinna öru verðlags- og kaupgjaldsbreytinga, sem urðu eftir að fjárlögin voru samin. Slíkar umframgreiðslur eru óumflýjanlegar, þegar þannig atvikast, og eiga ekkert skylt við það, þegar fé er eytt umfram heimildir.

Kem ég þá að heildarniðurstöðu ársins. Eins og áður segir, var tekjuafgangur á rekstrarreikningi 109 millj. Nú eru innborganir á 20. gr., eignahreyfingar, annað en geymslufé og lántökur, rúmar 10 millj. Þetta verða samtals 119 millj. Er þá að líta á útborunarhlið 20. gr., eignahreyfingar. Útborganir þær, sem til greina koma í þessu sambandi, þ.e.a.s. fjárfesting og slíkar útborganir, sem undir verður að standa af tekjum ríkissjóðs, nema sem næst 66 millj. og 400 þús. Þess ber þó að geta, að þar eru ekki taldar með 8 millj. og 400 þús. kr., sem lagðar hafa verið út af sérstökum hlaupareikningi í Landsbankanum vegna togaranna 10, sem fyrrverandi ríkisstj. festi kaup á. Samkv. þessu teist mér svo til, að greiðsluafgangur ársins hafi orðið um 52 millj kr., og er það nærri því nákvæmlega sama niðurstaða og áætlað var á s.l. hausti, þegar hv. Alþ. var að fjalla um afgreiðslu fjárlaganna fyrir árið, sem er að líða, og ráðstöfun væntanlegs greiðsluafgangs á árinu 1951. Þó ber þess að geta, að eins og ég sagði áðan, þá eru ekki taldar til gjalda þessar 8 millj. og 400 þús., sem lagðar hafa verið út af sérstökum reikningi í Landsbankanum vegna togaranna 10.

Ég sagði áðan, að greiðslur til fjárfestingar og aðrar útborganir af ríkistekjum, sem færðar eru á 20. gr., næmu samtals 66 millj. Þetta eru afborganir af föstum lánum ríkisins og aðrir fjárlagaliðir, eins og sést á reikningsyfirlitinu. Enn fremur nokkrir aðrir liðir, sem ástæða er til að skýra frá, og eru þessir helztir þar á meðal:

Til byggingar nýs varðskips eru greiddar 5 millj. 570 þús., en fjárveitingin á 20. gr. var 2 millj. 750 þús. kr. Varð að greiða á árinu 1951 það, sem eftir var ógreitt af andvirði varðskipsins, og reyndist það 3 millj. kr. meira en veitt var í fjárlögunum, en þá er þess líka að geta, að 2 millj. og 400 þús. eru veittar til varðskipsins á fjárlögum yfirstandandi árs, og kemur það þá upp í þessar 3 millj., sem umfram eru á árinu 1951, þ.e.a.s., sú fjárveiting verður þá vitanlega ekki notuð. Það jafnar sig upp.

Þá er aukið rekstrarfé ríkisfyrirtækja um 4 millj. rúmlega. Það eru ýmsar ríkisstofnanir, sem hafa ekki getað komizt af án þess að fá dálítið aukið rekstrarfé, þar sem umsetning hefur vaxið vegna hækkunar á kaupgjaldi og verðlagi.

Enn fremur ber að gera sérstaka grein fyrir í þessu sambandi 5 millj. kr., sem lánaðar voru til bænda á harðindasvæðunum á Austur- og Norðausturlandi samkv. sérstakri heimild í fjárlögum yfirstandandi árs, en áttu að veitast af tekjum ríkissjóðs á árinu 1951, eins og gert er ráð fyrir í heimildinni.

Loks ber að nefna lán til atvinnuaukningar samkv. þál. frá 23. jan. 1952. Heimilt var að lána 4 millj. til atvinnuaukningar, og nemur sá hluti lánanna, sem færður er á árið 1951, 1 millj. 975 þús.

Með lögum nr. 14 1952 ákvað hv. Alþ., hversu verja skyldi 38 millj. af væntanlegum greiðsluafgangi, og átti að verja honum þannig: Lána Ræktunarsjóði og Byggingarsjóði 15 millj. Lána byggingarsjóði verkamanna 4 millj. Lána sveitarfélögum til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum 4 millj. Lána til byggingar smáíbúða 4 millj. Kaupa hlutabréf í Iðnaðarbanka Íslands fyrir 3 millj. Greiða upp í hluta ríkissjóðs af stofnkostnaði við skóla, sem þegar höfðu verið byggðir, 5 millj. Greiða upp í hluta ríkissjóðs af kostnaði við hafnargerðir, sem þegar höfðu verið framkvæmdar, 2 millj. Og loks að lána veðdeild Búnaðarbanka Íslands 1 millj. Hefur þessu fé nú yfirleitt fyrir alilöngu verið ráðstafað á þann hátt, sem fyrir er mælt í lögunum. Framlag til iðnaðarbanka er þó geymt, þar sem lögin um stofnun hans eru enn þá ekki komin til framkvæmda, en koma víst alveg næstu daga. Fé það, sem Búnaðarbankinn átti að fá, fékk hann fyrir áramót s.l. vetur, og voru lánveitingar úr Ræktunar- og Byggingarsjóði á árinn 1951 að mestu byggðar á þessu lánsfjárframlagi ríkissjóðs. Þær 12 millj. kr., sem áttu að fara til bygginga í kaupstöðum og kauptúnum, hafa verið borgaðar út, eftir því sem á hefur þurft að halda og úthlutun lána hefur miðað áfram, og hafa þær lánveitingar komið sér mjög vel, svo sem kunnugt er. Það er sannast mála, að ef ekki hefði tekizt að halda þannig á málum, að ríkissjóður hefði verulegan greiðsluafgang 1951, hefði orðið hér alger stöðvun á lánveitingum til landbúnaðarins og enga lánsfjárúrlausn hefði verið hægt að veita til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum.

Skuldir ríkissjóðs í árslok 1951 námu 450 millj. rúmlega. Af þessum skuldum eru nær 94 millj. alþjóðabankalán og Marshalllán, sem tekin eru árið 1951 og lánuð út aftur og aðrir eiga alveg að standa straum af. Ef við drögum þessa skuldaaukningu vegna annarra frá, þá verða skuldirnar 357 millj., eða nærri því nákvæmlega jafnháar og árið áður, en þá voru þær 356 millj. Hins vegar höfðu verið lagðar til hliðar 38 millj. af greiðsluafganginum, og reikningslegur sjóður var þar að auki 18 millj. í árslokin og hafði vaxið um 10 millj. kr. Í skuldunum er að sjálfsögðu talið allt það fé, sem ríkissjóður hefur til geymslu. Þar á meðal eru taldar til skulda 17 millj. og 700 þús. kr., sem ríkissjóður hefur tekið á móti á þessu ári, þ.e.a.s. á árinn 1951, af stóreignaskattinum. Af þessari fjárhæð eru tæpar 12 millj. í skuldabréfum, sem ríkissjóður geymir og afhendir aftur upp í þetta geymslufé. Raunverulega hafa því skuldir ríkissjóðs lækkað á árinu um sem allra næst 11 millj. kr.

Eins og raunar er eðlilegt, þá hafa menn oft talsverðar áhyggjur út af miklum opinberum gjöldum, og það er mikið um það rætt, hvort ekki mundi hægt að spara verulega í opinberum rekstri. Stundum heyrast raunar um þetta alleinkennilegar fullyrðingar, og það er ástæða til að víkja nokkru nánar að þessu.

Ég vil nú fyrst í þessu sambandi minna á, að núverandi ríkisstj. hefur gert ýmsar ráðstafanir til sparnaðar í ríkisrekstrinum, og eru þessar helztar: Grunnlaunauppbót, sem greidd var, þegar stjórnin tók við, var lækkuð úr 20% í 10–17%. Starfstími á flestum opinberum skrifstofum var nokkuð lengdur. Leitazt hefur verið við að draga úr eftirvinnu með sífelldum áminningum til forstöðumanna um að spara eftirvinnu. Verðlagsuppbót og grunnlaunauppbót hefur ekki verið greidd að fullu á ýmis aukalaun og nefndalaun. Dagpeningar hafa verið lækkaðir í ferðalögum. Settar hafa verið nýjar reglur um greiðslu bifreiðakostnaðar. Lögð hafa verið niður ýmis störf og embætti og fækkað um að minnsta kosti 40 manns við eftirlit með innflutningi og vörudreifingu. Lagt var niður sendiráð í Moskva, sem kostaði um 1 millj. kr. Lagður var niður taprekstur á áætlunarbifreiðum. Í samvinnu við þingmeirihluta þann, sem stjórnin styðst við, hefur verið komið á betri vinnubrögðum á Alþ. og við undirbúning hv. Alþ. og þinghaldið þannig verið stytt og sparað verulega í fjármunum með því. Þá er nú verið að vinna að því að koma á aukinni vélavinnu við skattlagningu og tollheimtu. Er búizt við sparnaði af þeim ráðstöfunum, þótt ekki hafi þótt fært að gera ráð fyrir honum á næsta ári, þar sem það tekur langan tíma að koma á hinu nýja fyrirkomulagi til fulls og nokkur stofnkostnaður er því einnig samfara.

Fjmrn. hefur leitazt við að veita aðhald um þessi mál, svo sem það frekast hefur getað, og hvatt til aukins sparnaðar, en vald þess yfir útgjöldum ríkisins er mjög takmarkað. Beindi ég því eindregið til samstarfsmanna minna í ríkisstj. á s.l. vori, áður en farið var að undirbúa tillögur til fjárlaga fyrir árið 1953, að vandlega yrði farið í gegnum starfræksluna með það fyrir augum að standa gegn útþenslu í ríkisrekstrinum og koma við sparnaði þar, sem slíks væri nokkur kostur. Efast ég ekki um, að samstarfsmenn mínir í ríkisstj. hafi tekið þessi mál til ýtarlegrar meðferðar. Ég þykist mega treysta því, að þeir muni ekki hafa gert tillögur um meiri kostnað við þær starfsgreinar, sem þeir stýra, en þeir telja minnst vera hægt að komast af með. Hefur þó orðið að synja um að taka í fjárlfrv. nokkra hækkanir á starfrækslukostnaði, sem farið hefur verið fram á, og yfirleitt ekki teknar til greina tillögur um fjölgun starfsmanna. Hef ég á haft í huga, að heppilegt væri, ef sú regla gæti komizt á, að starfsmönnum væri ekki fjölgað, nema Alþingi gegnum fjvn. vildi taka upp fjárveitingu til þess á fjárl. Á síðustu tveim árum hafa verið gerðar margvíslegar aðrar ráðstafanir til þess að draga úr útgjöldum ríkisins, þótt ekki verði þær hér taldar. Sannleikurinn er einnig sá, að þegar ríkisútgjöldin nú eru borin saman við það, sem þau voru fyrir gengisbreytinguna, t.d. 1949, þá eru þau raunverulega lægri, en þau voru þá, og það einnig þótt tillit sé tekið til þess, að nú er minna greitt til dýrtíðarmála beint, en þá var, meðan útflutningsuppbætur voru greiddar.

Ég vil koma ofur lítið nánar að þessu um ríkisútgjöldin og hvort fært mundi vera að lækka þau verulega. Það er auðvitað hægt að lækka ríkisútgjöldin. Þau eru að vísu flest lögboðin, beint eða óbeint, eða afleiðing laga, sem Alþingi hefur samþ., en vitaskuld er hægt að breyta lögum, ef menn vilja og telja það réttmætt. Þar er sem sé hægt að lækka ríkisútgjöldin, en ekki svo að um muni, nema með því að draga úr þeirri þjónustu eða þeim hlunnindum, sem ríkið veitir þegnunum.

Ef við lítum yfir fjárlögin, og það þarf ekki að taka langan tíma, þá blasir þetta nokkuð augljóslega við. Við skulum í fyrstu umferð sleppa kostnaði við æðstu stjórn ríkisins, stjórnarráðið, utanríkismálin og hagstofuna. Þetta eru þeir liðir, sem kalla má stjórnarkostnað í þrengstu merkingu þess orðs og sífellt er talað um að sé of hár. Og enginn mundi að sjálfsögðu sjá eftir því, þótt hann væri lækkaður, en öll afgreiðsla gæti farið fram eftir sem áður, og kem ég að því síðar.

Við byrjum þá á dómgæzlu og lögreglustjórn. Ég miða þennan samanburð við fjárlagafrv., en frv. sjálft að öðru leyti mun ég ræða síðar. Kostnaður við þessa starfrækslu er áætlaður í fjárlagafrv. 25 millj. Þar af er kostnaður við landhelgisgæzlu langsamlega stærsti liðurinn, eða 10 millj. og 800 þús., þá er lögreglukostnaður, og loks eru svo embættislaun sýslumanna og laun til aðstoðarmanna þeirra. Hvernig ætti nú að lækka þessa grein fjárlaga, svo að um munar? Ætti þá að draga úr landhelgisgæzlunni? Slíkt er auðvitað með öllu óhugsanlegt, eins og nú standa sakir. Ætti þá að fækka lögreglumönnum? Því vil ég ekki svara öðru en því, að það eru uppi háværar kröfur um að auka lögreglueftirlit úti um allt land og það því miður ekki að ástæðulausu. Þá er álagning og innheimta skatta og tolla. Áætlaður kostnaður er 9 millj. og 600 þús. kr. Nú hefur verið unnið að því að endurskoða alla þessa starfrækslu og athuga, hvort hægt væri með vélanotkun að komast af með færra fólk, eins og ég minntist á áðan, og er einhver von til þess, að einhverju dálitlu megi áorka í því sambandi. Sá liður er því fullkomlega í athugun, og ræði ég hann ekki nánar hér.

Þá koma heilbrigðismálin. Til þeirra er áætlað 27 millj. og 500 þús. Hér er fyrst og fremst um að ræða læknalaunin, hallann á sjúkrahúsum ríkisins, framlögin til berklaveikra, geðveikra og þeirra, sem hafa langvarandi sjúkdóma, og svo nokkur framlög til nýrra sjúkraskýla og sjúkrahúsa. Hvað ætti nú að lækka á þessari grein? Ætti að fækka læknum, lækka framlög til berklaveikra eða þeirra, sem hafa aðra langvarandi sjúkdóma, eða geðveikra, eða draga saman enn byggingarframlög til sjúkrahúsa, sem yfirleitt eru þó talin allt of lág? Til marks um, hvernig ríkisútgjöldin til heilbrigðismála hafa tilhneigingu til að vaxa, en ekki minnka, má einmitt nefna, að nú er verið að koma upp nýjum heilbrigðisstofnunum, og þá þarf að hefja rekstur þeirra með ærnum kostnaði.. Má nefna fávitahælið í Kópavogi í þessu sambandi, sem nú kemur í fyrsta sinn á fjárlagafrv. með rekstrarkostnað, nýju deildina á Kleppi, sem kom í fyrsta sinn á fjárlög 1952, og það eru margar nýjar stofnanir einmitt í heilbrigðismálum að koma til sögunnar, sem auka útgjöld ríkis og bæjar.

Þá komum við að vegamálum og brúamálum. Um þau þarf ekki að tala langt mál í þessu sambandi. Við þekkjum, hvaða ásókn er í að fá þau framlög hækkuð stórkostlega, og allir vitum við, hvað sagt er um vegaviðhaldið, sem áætlað er núna um 18 millj. og 400 þús., sennilega allt of lágt, að því ógleymdu, að hv. Alþingi bætti aðeins 970 km við þjóðvegina á síðasta þingi.

Til samgangna á sjó eru áætlaðar 6 millj. Þennan kostnað er vist ekki hægt að lækka, nema með því að fella niður eitthvað af strandferðarekstrinum eða hækka flutningsgjöldin með ströndum fram.

Um vitamál og hafnargerðir gildir nokkurn veginn alveg það sama og um vegina.

Til kirkjumála er ætluð nokkur fjárhæð, ekki sérlega stór samanborið við annað. Stjórnin ætlaði nýlega að hafa forustu um að leggja niður 10 prestaköll, sem ekki höfðu fengizt prestar í um alllangan tíma, og var það lögfest til bráðabirgða, en hv. Alþingi tók það mál til rækilegrar meðferðar og setti þessi prestaköll flest í lög aftur og bætti nokkrum nýjum við.

Þá eru það kennslumálin. Til þeirra eru áætlaðar 56 millj. kr., eða hvorki meira né minna en 15,9% af rekstrarútgjöldum fjárlaganna. Þessi kostnaður hækkar auðvitað ár frá ári vegna þess, að alltaf fjölgar börnum í barnaskólum og unglingum í gagnfræðaskólum og kennurum í hlutfalli við það, svo að ekki sé talað um aðra útþenslu. Kostnaður við þá skóla, sem ríkið rekur sjálft, fer vaxandi. Þetta eru allt saman framhaldsskólar, svo sem menntaskólar og háskólinn. Fleiri og fleiri leita sér framhaldsmenntunar, og þá vex allur kostnaður við þá skóla. Þá eru sérskólar, svo sem stýrimannaskólinn og vélstjóraskólinn og fleiri, þar sem þarf að bæta við nýjum kennslugreinum vegna aukinnar tækni, af því að það þarf að læra um tæknileg efni, og fjöldi nemendanna eykst. Langstærsti liðurinn á kennslugreininni er framlag til barnafræðslunnar og framlag til gagnfræðamenntunarinnar. Þessir liðir vaxa ár frá ári, eins og ég sagði áðan. Mönnum ofbýður þessi kostnaður við fræðslukerfið, og margir tala um, að það ætti að breyta til, en það er minna um raunhæfar tillögur í þá átt, hvernig skuli breyta til og hvernig skuli koma á sparnaði. Á að fækka kennurum og þá ætlast til meiri vinnu af hverjum? Á að leggja niður eitthvað af skólum og þá hvaða skóla? Hvað er það yfirleitt, sem menn vilja láta gera til þess að koma á sparnaði í fræðslumálum frá því, sem núgildandi lög ákveða? Það er spurningin.

Næsti stóri liðurinn í fjárlögunum er til landbúnaðarmála, og er ætluð í því skyni 41 millj. Langstærstu liðirnir hér eru jarðræktarframlag, sem að meðtöldu fé til framræslunnar nemur 10 millj., og svo til sauðfjárveikivarna, aðallega til fjárskiptanna, sem nemur rúml. 16 millj. kr.

Til sjávarútvegsmála eru veittar rúml. 5 millj., en þar að auki eru að vísu allstórfelld framlög til sjávarútvegsmála í ábyrgðargreiðslum ríkisins.

Til raforkumála eru veittar 5 millj. og 400 þús., og við vitum svona hér um bil, hvernig sú fjárupphæð er talin mæta þörfinni, eða hitt þó heldur.

Komum við þá að miklum útgjaldalið, sem eru félagsmál á 17. gr. Til þeirra eru. veittar 44 millj. og 700 þús. Þar er aðallega um að ræða framlag til Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlaga, eða samtals til þessa rúml. 35 millj. Þessi framlög er auðvitað ekki hægt að lækka, nema með því að hækka á móti iðgjöld einstaklinganna til trygginganna og sjúkrasamlaganna eða þá með því að lækka hlunnindin, sem menn fá frá sjúkrasamlögunum og almannatryggingunum.

Til dýrtíðarráðstafana eru áætlaðar 28 millj. Kemur þá spurningin: Er ekki hægt að lækka þennan lið? Þessari fjárhæð er aðallega varið til að gera landbúnaðarvörur ódýrari á innlendum markaði og til þess að greiða niður smjörlíki. Ég læt þeirri spurningu ósvarað eins og flestum öðrum, sem ég hef spurt í þessu sambandi, af því að ég geri þessa yfirferð um fjárlögin til þess eins, að menn fái sem gleggsta mynd af því, hvaða spurningar risa og hvaða viðfangsefni mæta mönnum, þegar um er að ræða hugsanlega lækkun ríkisútgjalda.

Ég hljóp áðan yfir kostnaðinn við æðstu stjórn landsins, stjórnarráðið, utanríkismálin og hagstofuna, þ.e.a.s. kostnaðinn við stjórn landsins í þrengstu merkingu, en ég kem nú að honum. Til þessa kostnaðar eru veittar á fjárlagafrv. rúml. 16 millj. kr., eða 4.57% af útgjöldum á rekstrarreikningi. Á þessu sjáum við, að þótt eitthvað væri hægt að spara í þessum kostnaði, þá hefði það sáralitil áhrif á heildarupphæð fjárlaganna eða skatta- og tollabyrði landsmanna. Samt sem áður er sjálfsagt að leggja sig allan fram um, að hinn beini kostnaður við stjórn landsins og starfrækslu sé sem allra minnstur, því að það hefur ekki aðeins fjárhagslega þýðingu, að svo sé, heldur einnig siðferðislega þýðingu, að ekki sé þar bruðlað eða farið óhæfilega með féð.

Þessi greinargerð um útgjöld ríkissjóðs, þótt ekki sé ýtarlegri, sýnir það alveg svart á hvítu, svo að ekki verður um deilt, að allt tal um það, að hægt sé að lækka ríkisútgjöldin um marga milljónatugi með því að fella niður það, sem kalla mætti óþarfa kostnaðarliði í starfrækslu ríkisins, er alveg út í bláinn.

Það er ekki hægt að lækka ríkisútgjöldin, svo að neinu verulegu nemi, nema með því að gerbreyta löggjöfinni, bæði félagsmálalöggjöfinni, fræðslumálalöggjöfinni og þeirri löggjöf, sem fjallar um stuðning við atvinnuvegi landsins, eða með því að draga saman eða fella niður að verulegu leyti þá þjónustu, sem ríkisvaldið hefur veitt og veitir þegnunum með löggæzlu, samgöngum o.fl. og svo að segja hvert einasta mannsbarn í landinu gerir kröfur til.

Satt að segja hygg ég þannig ástatt um þessi mál, að það mundi lítill ávinningur að því verða fyrir almenning í landinu, ef út í það væri farið að gera stórfelldar ráðstafanir til að draga úr útgjöldum ríkisins á þann hátt, sem slíkt yrði að framkvæmast, og það jafnvel þótt því gætu fylgt einhverjar lítils háttar lækkanir á sköttum eða tollum.

Það er oft talað í heldur óvirðulegum tón um vinnubrögð í opinberum stofnunum, og það er því miður víða pottur brotinn á þeim bæ og margt, sem þyrfti að lagfæra. Hins vegar er ekki heldur rétt að leyna því, og það má vel segja það, að það er sums staðar unnið vel á vegum ríkisins og miklu afkastað með fáu starfsfólki. Sums staðar hafa hlaðizt að ný verkefni á síðari árum, t.d. á sumar deildir stjórnarráðsins, þar sem verkefni hafa margfaldazt, og hefur mannahald ekki verið aukið í neinu hlutfalli við hin auknu verkefni. Sumir virðast halda, að ekkert aðhald sé til í ríkisrekstrinum og hægt sé að þenja hann út eins og hverjum forstöðumanni sýnist, jafnvel í smærri starfsgreinum. Sem betur fer er þessu ekki þannig farið, heldur er þvert á móti lögð í það mikil vinna að veita aðhald og standa gegn því, að starfsmannafjölgun eigi sér stað, þar sem hún sýnist ekki tvímælalaust óumflýjanleg, en þótt þetta sé rétt, og ég segi það hér til að vara menn við of þungum sleggjudómum um ríkisstarfræksluna, — þá vil ég ekki draga dul á það, að verkstjórn í opinberum skrifstofum yfirleitt þyrfti að batna mjög frá því, sem er, og aðhald þyrfti enn að aukast. Meðal annars þess vegna hef ég tekið það ráð að synja yfirleitt um að taka upp fjölgun starfsmanna í fjárlagafrv. og tel rétt, að þau mál komi fyrir fjvn. og Alþingi.

Sumir virðast halda, að útgjöld ríkisins séu hér tiltölulega hærri, en annars staðar. Ég hef látið athuga litillega, hvað ríkistekjurnar hér samkv. fjárlögum ársins 1952 mundu vera mikill hluti af þjóðartekjunum, og er talið, að þær muni vera um 17.2% af þjóðartekjunum. Athugun á hliðstæðum liðum í Noregi sýnir, að í ár muni ríkistekjur Norðmanna nema um 19.1% af þjóðartekjunum og í Svíþjóð um 18.1% af þjóðartekjunum. Þessar tölur benda til þess, að þótt mönnum þyki há ríkisútgjöldin á Íslandi og mikið tekið í skatta og tolla, þá sé það sízt meira hér tiltölulega. en í þessum tveimur nágrannalöndum.

Ég mun þá næst fara fáeinum orðum um afkomuna út á við. Mönnum blöskrar, hve óhagstæður vöruskiptajöfnuðurinn er, og eiga máske erfitt með að átta sig á því, hvernig viðskiptin hafa fengið staðizt svo óhagstæð á verzlunarskýrslunum. Lítum fyrst á afkomuna 1951, miðað við fob-tölur, það er gleggra. Útflutningurinn er þá 726 millj., en innflutningurinn 808 millj. Vöruskiptajöfnuðurinn varð því óhagstæður um rámlega 82 millj. Hallinn á duldu greiðslunum varð 53 millj. Greiðslujöfnuðurinn hefði því orðið óhagstæður á því ári um 134 millj., ef ekkert hefði fleira komið til, en á þessu ári, árinu 1951, skeði það, að við fengum Marshallfé, sem nam 147 millj. kr., og erlent lánsfé var flutt inn eða notað á árinu, sem nam 31 millj. Þetta tvennt nemur því 177 millj. kr. Niðurstaðan af greiðsluviðskiptum ársins varð því sú, að innkominn gjaldeyrir varð 43 millj. kr. meiri, en útlátinn gjaldeyrir, og jukust því innstæður bankanna á þessu ári um 141/2 millj. Og fyrirframgreiðslur upp í skip og vélar og ýmis þess konar viðskipti námu 28 millj. Gjaldeyrisaðstaðan út á við batnaði því allverulega á árinu 1951, þó að verzlunarjöfnuðurinn í verzlunarskýrslunum væri óhagstæður um 197 millj. kr., þegar reiknað er með cif.-verði, eins og gert er þar.

Á þessu sjáum við, að það þarf að vita um fleira en útflutninginn og innflutninginn, ef menn ætla að sjá, hvernig horfir um greiðsluafkomuna út á við.

Það var alveg augljóst fyrir fram, að það hlaut að verða stórkostlegur halli á vöruskiptajöfnuðinum, bæði á árinu 1951 og eins á yfirstandandi ári, og veldur því tvennt: mikið Marshallfé, sem öllu er varið til innkaupa, sumpart til vélakaupa og sumpart til neyzluvörukaupa, og verulegur innflutningur á lánsfé, sem varið er til að kaupa fyrir vélar og efni til framkvæmda.

Á þessu ári verður einnig mikill halli á vöruskiptareikningnum og hlaut að verða mikill halli á honum, vegna þess að enn þá á þessu ári notum við Marshallfé og allmikið lánsfé. Við erum t.d. á þessu ári að flytja inn vélar til fyrirtækjanna þriggja fyrir lánsfé og byggingarefni til landbúnaðarins fyrir lánsfé.

Það er of snemmt að spá um endanlega gjaldeyrisafkomu þessa árs. Ef við hefðum fengið ofur litið meira af síld, en raun varð á, hefði gjaldeyrisafkoman sennilega orðið góð og ekkert lakari, en í fyrra, þótt halli á vöruskiptaverzluninni væri mikill. Nú verður afkoman út á við sjálfsagt verri, en í fyrra, aðallega vegna þess að síldin brást að þessu sinni, og verður vitanlega af því stórfellt tjón og lífskjararýrnun fyrir þjóðina í heild. Það veldur líka miklum erfiðleikum, að við verðum að selja meira af fiski til vöruskiptalandanna, clearing-landanna, þar sem erfitt er að fá frá þessum löndum hentugar vörur á móti. Getur því vel farið svo, að á sama tíma sem við eigum örðugt með yfirfærslur í frjálsum gjaldeyri, þá eignumst við allmiklar innstæður í clearing-gjaldeyri.

Þótt erfiðleikar hafi verið með yfirfærslur um skeið og í bili hallað undan fæti vegna þess, hvernig fór um síldveiðina, þá er engin ástæða til að örvænta um afkomuna út á við, ef okkur tekst að halda fjármálum okkar inn á við og framleiðslumálum í sæmilegu lagi. Þótt menn hafi nú neyðzt til þess að binda kaup á ýmsum þýðingarmiklum vörum í bili við clearing-löndin, til þess þannig að reyna að fá borgið þeim útflutningsviðskiptum, er við þurfum að geta átt við þau, þá skyldi enginn halda, að slíkar ráðstafanir séu vottur þess, að stjórnin hafi horfið frá stefnu sinni í viðskipta- og fjárhagsmálum og stefni að því að innleiða á ný innflutningshöftin, sem aflétt var.

Þegar íhuguð er afkoma þjóðarinnar út á við, þá er rétt að minnast þess, að á árinu 1951 og nú í ár hefur verið komið upp sæmilegum verzlunarbirgðum af margvíslegum nauðsynjavörum, sem ekki voru til áður, og nemur verðmæti vörubirgðaaukningarinnar áreiðanlega yfir 100 millj. kr. Sýnir það enn, að afkoman út á við hefur verið allt önnur, en niðurstöðutölur verzlunarskýrslnanna gefa hugmynd um.

Um erlendar lántökur okkar á þessu tímabili ræði ég nánar í öðru sambandi síðar.

Ég gat þess í fyrra á hv. Alþingi, einmitt við hliðstætt tækifæri, að sennilega mundum við á árinu 1951 nota um 100 millj. af Marshallfé til kaupa á venjulegum vörum, þ.e.a.s. öðrum vörum, en fjárfestingarvörum. Eftir sams konar athugun nú fyrir þetta ár sýnist nærri lagi að áætla, að við munum nú á þessu ári nota um 40 millj. af Marshallfé til kaupa á venjulegum varningi. Sýnir þessi breyting frá í fyrra, 100 millj. og 40 millj., að meira af neyzluvörum í ár verði keypt fyrir eigin aflafé en áður, og stefnir það í rétta átt, enda verður líka svo að vera, því að við getum ekki gert ráð fyrir því að kaupa framvegis neyzluvörur fyrir Marshallfé.

Því hefur verið haldið fram, að aukið verzlunarfrelsi hafi lamað mjög iðnað landsmanna og minnkað atvinnuna. Við höfðum búið við höft í meira en 20 ár, og iðnaðurinn hafði mjög vaxið á því tímabili. Auðvitað varð ekki hjá því komizt, að aukið verzlunarfrelsi ylli nokkurri röskun á iðnaði, sem í 20 ár hafði búið við innflutningshöft. Þetta skilja allir skynsamir og sanngjarnir menn. Hið nýja verzlunarfyrirkomulag reynir að ýmsu leyti meira á iðnaðinn, en haftabúskapurinn. En það vitum við, að áreynslan gerir menn sterka og dugmikla, ef þeim er ekki ofboðið. Það er gleðilegt að sjá, hve vel iðnaðurinn yfirleitt stenzt þá þolraun, sem aukið verzlunarfrelsi hlaut að verða fyrir hann, en að þeirri þolraun hlaut að koma hér eins og í öðrum löndum, þar sem alls staðar er nú keppt að frjálsari viðskiptum. Ég er sannfærður um, að sú breyting, sem orðið hefur á verzlunarháttunum, verður iðnaðinum til góðs, ef rétt er að farið. Það er nú löngu úrelt orðið að ræða um það, hvort iðnaður eigi rétt á sér á Íslandi. Hvernig ætlum við að breyta auðæfum þeim, sem við eigum í óbeizlaðri orku, í þjóðartekjur öðruvísi, en gegnum iðnaðinn?

Það er talað um tómlæti í iðnaðarmálum. En hvað erum við að gera? Það er varið á þremur árum 400 millj. til þess að byggja tvö orkuver, sem eru undirstaða iðnaðar, og eitt iðjuver, áburðarverksmiðjuna, sem er hið langstærsta, sem við höfum komið á fót, og getur orðið upphaf að margvíslegri nýrri iðnaðarframleiðslu. Við höfum í undirbúningi annað, geysistórt iðjuver, sementsverksmiðjuna, sem á að verða næsta stórframkvæmd hér á landi. Og svo er talað um tómlæti í iðnaðarmálum.

Ég sagði áðan, að áreynslan gerði menn sterka og dugmikla, ef þeim væri ekki ofboðið, og þetta mun einnig geta átt við íðnaðinn. Það, sem nú á að gera og er verið að gera, er að endurskoða afstöðu iðnaðarins í ljósi þeirrar reynslu, sem nú hefur fengizt, og athuga, hvort einstökum iðngreinum kunni að vera í einhverju ofboðið, gera síðan þær breyt. á löggjöf, og framkvæmdaháttum, sem nauðsynlegar dæmast, til þess að heilbrigður iðnaður fái aðstæður til að njóta sín svo sem staðhættir leyfa.

Þegar búið er að virkja Sog og Laxá þessu sinni, mun búið að beizla 1–2% af þeirri orku, sem í fallvötnunum býr. Þetta getur hugmynd um möguleikana og sýnir, hvað þjóðin á undir því, hvernig tekst að byggja upp iðnaðinn, ekki aðeins iðnað fyrir heimamarkað, heldur einnig útflutningsiðnað. Það er hollt að hafa í huga, að þessi stórfelldi orkuauður nýtist aldrei til hlítar nema í gegnum samkeppnisfæran útflutningsiðnað.

Þá vildi ég næst minnast hér nokkrum orðum á fjárfestinguna og útvegun fjár til hennar. Verklegar framkvæmdir hafa verið mjög miklar á undanförnum árum. Hvarvetna blasa við óunnin verkefni og ónotuð náttúruauðæfi, og þess vegna er eðlilegt, að við sækjum fast á um framkvæmdirnar. Hins vegar er það fjármagn mjög talimarkað, sem við höfum til ráðstöfunar innanlands. Við höfum leitað út fyrir landsteinana eftir lánsfé, og er það fullkomlega heilbrigt og eðlilegt, þegar um er að ræða arðbær fyrirtæki, sem annaðhvort spara innflutning eða auka útflutning. Það er mín skoðun, að við eigum að notfæra okkur þá lánsmöguleika, sem fyrir hendi kunna að vera erlendis, og að engin hætta sé samfara því að gera slíkt, ef við verjum fénu skynsamlega.

Á síðastliðnu ári komumst við í samband við Alþjóðabankann, en hann hefur milligöngu um mest af þeim milliríkjalánum, sem veitt eru. Var samið um lántökur við bankann, sem námu samtals 75 millj. kr. Er það lán til Sogsvirkjunarinnar, Laxárvirkjunarinnar og áburðarverksmiðju og svo landbúnaðarlán. Er verið að flytja þetta lánsfé inn nú á þessu ári til afnota fyrir þessar framkvæmdir, eins og ég gat um áðan.

Einhver mundi kannske segja, að allmikið væri nú komið af erlendum lánum og að menn mættu nú fara að hafa gát á, hvort rétt væri eða óhætt að halda áfram að taka erlend lán. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp, að skuldir okkar erlendis eru enn sem komið er tiltölulega litlar. Munu þær nema sem allra næst 240 millj. ísl. króna. Ársgreiðslur af þessum lánum, þegar þær eru fallnar á með fullum þunga, munu nema tæpum 20 millj. ísl. króna á ári, þegar þær eru þyngstar. Ef við berum þessar tölur saman við útflutningsverðmætið eins og það er nú orðið á síðari árum, þá sjáum við, að útflutningurinn 1951 nam ca. 720 millj. Allar greiðslur af lánunum, þegar þau eru þyngst, mundu því vera 2,5% af þessum útflutningi. Það er því ekki hægt að segja, að þau lán, sem Íslendingar hafa enn þá tekið, hvíli þungt á eða muni gera það á næstunni. Það er því tvímælalaust rétt fyrir okkur að halda áfram að taka lán til arðbærra framkvæmda, að svo miklu leyti sem við getum fengið þau. Hins vegar verðum við að skilja, að það eru takmörk fyrir því, sem 150 þúsund manns geta fengið að láni, og við verðum ekki síður að hafa það í huga, að við getum ekki byggt fjárfestingu okkar eða framkvæmdir að öllu leyti á erlendum lánum. Við getum ekki búizt við að fá erlend lán, sem nemi öllum stofnkostnaði þeirra fyrirtækja, sem við ætlum að leggja í, bæði kostnaðinum við kaup á tækjum og efni og eins vinnulaunum og öðrum innlendum kostnaði. Hér stöndum við því frammi fyrir stórkostlegu vandamáli. Hvernig eigum við að afla innanlands þess fjármagns, sem við þurfum að leggja fram til framkvæmda á móti því fé, sem við kunnum að geta fengið til einstakra framkvæmda erlendis, og til þeirra framkvæmda hér, sem við getum ekki fengið lán til erlendis?

Í framsöguræðu minni fyrir fjárl. í fyrra benti ég hv. Alþingi á þetta vandamál allrækilega. Ég benti á, hve sparnaðurinn er lítill í landinu, hve lítið safnast fyrir af sparifé og hve erfitt er þar af leiðandi að fá lán innanlands. Ég benti á, að framkvæmdamálin mundu komast í fullkomna sjálfheldu, sem þýddi kyrrstöðu og atvinnuleysi, ef við gætum ekki komið því til vegar, að meira safnaðist fyrir innanlands, en nú af fjármagni, sem hægt væri að lána eða leggja í framkvæmdir. Þetta efni hefur einnig mjög borið á góma í þeim viðræðum, sem farið hafa fram við Alþjóðabankann, eins og að líkum lætur. Þar hefur verið rætt um það, hvernig standa ætti undir innlendum kostnaði við þau fyrirtæki, sem bankinn lánar til, en sá banki lánar aldrei nema fyrir aðkeyptu efni og vélum. Hefur þá einnig talið borizt að þeim fyrirtækjum, sem ekki hafa enn verið veitt lán til, en eru í undirbúningi. Hefur komið í ljós, að saman fer álit ríkisstj. og Alþjóðabankans um það, að nauðsyn beri til að gera hér ný átök til fjársöfnunar innanlands, til þess fyrst og fremst að standa undir innlendum kostnaði við fjárfestinguna. Auðvitað varðar mestu í því sambandi, að varanlegt jafnvægi verði í peningamálum, þannig að menn þori að geyma fé sitt í innstæðum, skuldabréfum og þess háttar verðmætum. En þarna kemur þó einnig annað til, og það er að koma á sem öruggastri forustu í fjársöfnunarmálum til fjárfestingarinnar.

Það er engin stofnun til í landinu, sem sérstaklega er það hlutverk ætlað að hafa forgöngu um að safna fjármunum innanlands, sem hægt væri að binda til langs tíma, og þar með forustu um fjáröflunarhlið fjárfestingarmála. Ríkisstj. hefur sannfærzt um, að ástæða er til að gera nýtt átak í þessu efni. Ástæða er til að koma hér á fót fjárfestingarstofnun eða fjárfestingarbanka, sem fengi það hlutverk að afla fjár og miðla fé til fjárfestingarstarfseminnar. Mundi það þá verða hlutverk þeirrar stofnunar að hafa milligöngu, eftir því sem hægt væri, um lántökur erlendis till fjárfestingarmála og lána það fé aftur út hér innanlands, enn fremur að hafa forustu um fjáröflun innanlands í sama skyni með skuldabréfaútgáfu, ef til vill hlutabréfaútgáfu í einstök fyrirtæki og á allan þann hátt annan, sem reynslan sýnir heppilegast og framkvæmanlegt. Það væri eðlilegt, að þessi stofnun fengi sem starfsfé og stofnfé skuldabréf fyrir því fjármagni, sem lánað hefur verið út hér innanlands úr mótvirðissjóði, og sem mest af fé mótvirðissjóðs yfirleitt.

Sennilega mundi nú einhver vilja spyrja: Er ekki hægt að gera þetta án þess að setja upp nýja stofnun?

Hér er um svo þýðingarmikið og sérstætt hlutverk að ræða, að það er ekki hægt að blanda því saman við önnur verk. Og það er ekki hægt að fela það nokkurri stofnun, svo að vel fari, sem fyrir er. Það samrýmist ekki öðrum verkefnum Landsbankans t.d., að hann taki að sér þessa forustu um fjáröflun til fjárfestingarmálanna eða til að safna fé, sem hægt er að binda til langs tíma. Um það munu allir sammála, sem þessum málum eru kunnugir. Þessi stofnun gæti orðið mjög ódýr í starfrækslu. Það er hægt að koma því þannig fyrir, að Landsbankinn t.d. annaðist fyrir hana allar afgreiðslur og öll slík venjuleg störf. Hinn nýi kostnaður yrði þá aðeins við þau verk, sem beinlínis lúta að því að afla nýrra fjármuna og ákvarða um lánveitingar, og ætti að geta verið alveg hverfandi, enda alveg óumflýjanlegt að leggja í slíkan kostnað við fjársöfnun til framkvæmda innanlands og utan.

Ríkisstj. gerir sér vonir um að geta lagt fyrir þetta Alþingi frv. um að koma á fót fjárfestingarbanka eða fjárfestingarstofnun, í þeirri von, að sú ráðstöfun geti komið að verulegu gagni, og er það þá meðal annars haft í huga, að þessi stofnun eða banki gæti í framtíðinni haft viðskipti við Alþjóðabankann, og þannig kæmi þá leið erlent fjármagn til aðkallandi framkvæmda á móti því fé, sem safnað væri saman innanlands.

Ég minntist á það áðan, að skuldabréf fyrir lánum úr mótvirðissjóði mundu verða stofnfé í þessum banka eða stofnun og sem mest af fé mótvirðissjóðs, og er þá rétt að taka fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að í frv. stjórnarinnar mundi verða ákvæði um, að helming af því fé bæri að lána í þágu landbúnaðarins í samræmi við það, sem hv. Alþingi hefur þegar ályktað.

Þá vil ég segja aðeins örfá orð um nokkur þeirra verkefna í fjárfestingarmálum, sem næst liggja. Við verðum að koma í höfn stóru fyrirtækjunum þremur, Sogsvirkjuninni, Laxárvirkjuninni og áburðarverksmiðjunni. Er þar enn þá eftir mikið átak. Þá þarf að útvega fjármagn til Búnaðarbankans, svo að hægt sé að veita áfram landbúnaðarlán eins og gert hefur verið síðustu 3 árin, útvega með einhverju móti fé, svo að hægt sé að lána út á smáíbúðir í kauptúnum og kaupstöðum, og fé til sementsverksmiðjunnar. Á þessu ári var slakað á fjárfestingareftirlitinu og raunar gefnar frjálsar byggingar smáíbúða. Þetta hefur orðið til þess, að fjöldi manna er að brjótast í að koma sér upp slíkum íbúðum. Skortur á lánsfjármagni er nú svo tilfinnanlegur, að bygging slíkra smábygginga, er menn sjá um sjálfir og vinna mjög að sjálfir með sínu liði, sýnist að svo stöddu vera eina framkvæmanlega leiðin til þess að bæta eða a.m.k. líklegasta leiðin til að bæta nokkuð sem um munar úr húsnæðisskortinum. Margir hafa nú lagt út í þessar byggingar, en því miður ekki verið hægt að veita nema tiltölulega fáum lán, og verður því að afla með einhverju móti fjármagns, svo að þessi byggingarstarfsemi geti haldið áfram.

Um landbúnaðarmálin er það að segja, að reynt verður að sjálfsögðu að fá nýtt landbúnaðarlán í Alþjóðabankanum, og vafalaust tekst að fá slíkt lán aftur og við vonum oftar en einu sinni, en það er ekki alveg víst, hvort mögulegt verður að fá nýtt lán þar nógu snemma til þess að mæta lánaþörfinni strax og það lán er búið, sem nú er verið að nota. Það er auðvitað ágætt, ef það tekst að fá slíkt lán nógu snemma, en takist það ekki, þá verðum við samt að reyna að finna einhver ráð til þess að afla fjár til landbúnaðarlánanna. Það getur orðið erfitt verkefni að útvega þessa peninga, en nauðsynin er svo aðkallandi, að við verðum að finna einhverjar leiðir. Ræði ég það ekki nánar á þessu stigi.

Það gildir um þessa fjárfestingarstarfsemi eins og alla aðra í landinu, og það er mönnum hollt að hafa sífellt í huga, að fjármagn er ekki hægt að fá, eins og nú horfir hér, nema annaðhvort erlendis eða með því, að þjóðin taki af árstekjum sínum fé til framkvæmdanna. Þegar svo frjáls sparnaður er sáralítill, er auðskilið mál, að það getur orðið erfitt að finna fé innanlands til þess að halda bráðnauðsynlegum framkvæmdum áfram.

Þá er það sementsverksmiðjan, en hún er það stórfyrirtæki, sem öll ríkisstj. er sammála um, að komi næst á eftir þeim, sem nú er verið að byggja. Hún sýnist mjög gott fyrirtæki, sem mundi kosta um 84 millj. kr., og yrði þá um helmingurinn erlendur kostnaður og hinn helmingurinn innlendur kostnaður. Við höfum staðið og stöndum í sambandi við Alþjóðabankann um þetta mál, og Alþjóðabankinn hefur látið athuga gaumgæfilega áætlanir um verksmiðjuna og sérstaklega kynnt sér fyrirhugaðar aðferðir til að ná hráefninu úr Faxaflóa. Er það trú okkar, að takast muni að útvega erlendis lán fyrir hinum erlenda kostnaði við fyrirtækið, og er þá að finna leiðir til þess að útvega fé fyrir innlenda kostnaðinum.

Þá mundi ég fyrir mitt leyti segja, að í raforkumálum væri næsta verkefnið að byggja orkuver fyrir þau héruð, sem ekki hafa enn þá fengið neina úrlausn þeirra mála, en hafa álitleg skilyrði.

Mönnum verður tíðhugsað til mótvirðissjóðsins í sambandi við fjáröflun til framkvæmda. Það er auðskilið mál, að við getum ekki ráðstafað til framkvæmda meira fjármagni úr mótvirðissjóði en inn í hann kemur á hverjum tíma, nema með því að hafa ráð á sérstökum gjaldeyrisforða til þess að mæta slíkum útlánum úr sjóðnum. Þörfin á fé til þess að ljúka hinum þremur stóru fyrirtækjum, Sogs- og Laxárvirkjun og áburðarverksmiðjunni, er svo mikil, að engar horfur eru á því, að allt það fjármagn verði úr mótvirðissjóðnum tekið á þeim tíma, sem á því þarf að halda, nema erlent fé komi til þess að vega þar á móti. Veldur því meðal annars, hve stofnkostnaður fer mjög fram úr áætlun. Verðum við því enn þá að leita eftir erlendu fjármagni til þessara þriggja fyrirtækja til viðbótar því, sem komið er.

Ég vil minna á það í sambandi við umræður um lántökur og fjárfestingu, að fyrir hefur legið frá Alþingi heimild til að taka allt að 25 millj. kr. að láni til greiðslu á eftirstöðvum, ef svo mætti að orði kveða um svo háa fjárhæð, af andvirði þeirra 10 togara, sem samið var um byggingu á árið 1948. Eins og hv. alþm. ef til vill rekur minni til, þá var það upplýst, þegar þessi lántökuheimild var samþ., að til þess að hægt væri að halda áfram byggingu skipanna, yrði að fá fé með bráðabirgðalánum í Bretlandi, en ætlunin væri að greiða þau aftur af láni, sem tekið yrði til lengri tíma. Nú er þá sögu að segja af þessu, að með öllu hefur reynzt ókleift að útvega slíkt lán. Vegna gjaldeyriserfiðleika hafa Bretar gersamlega fyrir það tekið, að erlendar lántökur færu fram þar í landi og þá ekki heldur þessi. Annars staðar hefur ekki heldur verið unnt að fá þetta lán. Hefur því svo farið, að við höfum orðið að borga bráðabirgðalánin í Bretlandi jafnóðum og þau hafa gjaldfallið, og er nú langt komið greiðslu á þeim. Hefur Landsbankinn lagt þetta fé út fyrir ríkisstj. og sérstök skuld safnazt þar á árinu 1951 og nú á þessu ári, sem greiðslum þessum nemur. Hafa þessar yfirfærslur vegna togarakaupanna haft mjög slæm áhrif á gjaldeyrisverzlunina, eins og að líkum lætur. Við höfum ekki átt annars úrkostar, en greiða þetta af gjaldeyristekjunum.

Samkvæmt fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, eru öll ríkisútgjöldin, bæði á rekstrarreikningi og á 20. gr., áætluð 392 millj. kr., 129.00.000 kr. hærri, en á fjárlögum yfirstandandi árs. Nemur þessi hækkun um 3,4%. Er þetta minnsta hækkun, sem orðið hefur á fjárlagafrv. frá næsta frv. á undan síðan fyrir stríð, sú langminnsta, að undanskildu frv. til fjárlaga fyrir árið 1950, en það var lægra, en fyrir árið á undan. Þetta segir sína sögu.

Tekjurnar eru samtals áætlaðar á þessu frv. 392.900.000 kr. eða 10.800.000 kr. hærri, en á fjárlögum yfirstandandi árs. Fjárlfrv. er lagt fram með 550 þús. kr. greiðsluafgangi, og má því raunar segja, að tekjur og gjöld standist á í frv.

Í frv. er reiknað með kaupgjaldsvísitölu 155. Undanfarna mánuði hefur vísitalan lítið breytzt. Hins vegar var það vitað, að hún hlyti að hækka eitthvað nú í haust, þegar til greina kæmi hækkun sú á landbúnaðarafurðum, sem koma skyldi eftir á til jafnvægis við kaupgjaldshækkanir þær, sem orðið hafa síðan í ágústmánuði 1951. En hækkanirnar á landbúnaðarafurðunum í haust eru til samræmis við þessar hækkanir. Í marzmánuði s.l., þ.e. fyrir 6 mánuðum, var framfærsluvísitalan 156 stig, en kaupgjaldsvísitalan 148. 1. sept. var framfærsluvísitalan 160 stig, og núna í október hækkar hún upp í 162, og er það enn vegna nokkurrar hækkunar á landbúnaðarafurðum í einstökum liðum, en á móti kemur aftur lækkun á kartöflum. Vísitalan er sem sagt núna 162 stig. Samt sem áður er augljóst, að eftir hækkunina á landbúnaðarafurðunum er kaupgjaldsvísitalan fyrir neðan 155 stig. Öll verðlagsþróunin sýnist bera merki þess, að gera megi ráð fyrir, að reiknað sé með nægilega hárri vísitölu í frv., ef ekki verður með nýjum ráðstöfunum sett af stað ný dýrtíðarskrúfa. Breytingar hafa nú verið gerðar á landbúnaðarverðlaginu til samræmis þeim kauphækkunum, sem áður eru komnar. Því ætti að mega búast við, að nú færu í hönd tímar stöðugra verðlags en áður, svo framarlega sem ekki verða gerðar neinar nýjar ráðstafanir innanlands, sem raska því, eða óvænt verðhækkunaralda rís erlendis, en nú um sinn hefur verðlag erlendis verið fremur lækkandi. Láta mun nærri, að kaupgjaldsliðir fjárl. hækki frá 7–10% vegna aukinna verðlagsuppbóta, miðað við áætlun fjárlaganna í ár annars vegar og þessa fjárlfrv. hins vegar. Er það því auðséð, að hækkanir á kaupgjaldinu og á öðrum greiðslum, sem miðaðar eru við vísitölu, valda aðallega hækkun fjárlagafrv. Heildarhækkunin á fjárlfrv. mun þó minni en hækkunin, sem stafar af vísitölubreytingu, og veldur þar um, að nokkrir liðir í fjárlfrv. eru lækkaðir frá í fyrra, og kem ég að því síðar.

Ég vil þá víkja fáeinum orðum að einstökum liðum.

Fyrsta greinin, sem gefur tilefni til athugasemda, er 11. gr. A., dómgæzla og lögreglustjórn.

Þessi grein hækkar samtals um 2.800.000 kr. Þar af er hækkun á landhelgisgæzlu 1.100.000 kr. Er um sjálfan gæzlukostnaðinn farið eftir till. þeirra, sem fyrir landhelgisgæzlunni ráða. Er þarna ekki gert ráð fyrir meiri gæzlu, en verið hefur, að vísu dálítið meiri fluggæzlu, en nokkru minni bátagæzlu, og munar því mest hér um hækkun á kaupgjaldi við landhelgisgæzluna. Þá er á þessari grein aukinn lögreglukostnaður um 805 þús. kr., og er það að vísu mikið vegna vísitöluhækkunar, en einnig er nokkur hækkun á lögreglukostnaði á Keflavíkurflugvelli vegna fjölgunar á lögregluliði þar, sem þótti óhjákvæmileg.

Þá eru það heilbrigðismálin á 12. gr. Sú grein hækkar um 2.567.000 kr. Þannig stendur á þessari hækkun, að daggjöld á sjúkrahúsum hafa verið hækkuð mjög verulega frá því að síðustu fjárlög voru samin. Auk þess hefur fjölgað mjög þeim sjúklingum, sem liggja á kostnað ríkisins. Þessi fjölgun er einkum vegna þess, að nú er komin til framkvæmda sú ákvörðun, að ellisjúkdómar ýmsir séu taldir styrkhæfir, en þeir voru ekki taldir það áður. Af þessum tveimur ástæðum hækka fjárveitingar til berklasjúklinga og ríkisframfærslu sjúkra manna um 4.500.000 kr. Á móti vegur svo til lækkunar, að rekstrarhalli sjúkrahúsa ríkisins er ráðgerður minni, en áður vegna hærri daggjalda, og nemur lækkun rekstrarhallans á sjúkrahúsunum 2.200.000 kr. Bein hækkun á heilbrigðismálakostnaðinum verður því 2.200.000 kr.

Þá er það 13. gr. Framlög til nýrra vega eru á frv. 8.100.000 kr., og er það um 10% lægra, en endanlega var ákveðið í fjárlögum yfirstandandi árs. Hins vegar er þessi fjárveiting nokkru hærri, en lagt var til í stjórnarfrv. í fyrra. Sama er að segja um framlag til brúargerða. Til vegaviðhaldsins eru veittar í frv. 18.400.000 kr., og er það 1 millj. meira, en í gildandi fjárlögum. Það skal tekið fram, hv. þingmönnum til umhugsunar, að vegamálastjóri hefur lagt til, að til viðhalds þjóðveganna verði veittar 25 millj. kr., ekki 18.4, heldur 25 millj. kr., og færir hann til þær ástæður, að ekki sé hægt að halda þjóðvegunum í góðu ásigkomulagi með þeirri fjárveitingu, sem nú er. Enn fremur bendir hann á, að á síðasta Alþingi hafi verið bætt inn á vegalögin nýjum þjóðvegum, sem séu 970 km að lengd, eins og ég gat um áður í þessari framsöguræðu, og bendir vegamálastjóri á, að hér sé um að ræða 15.6% lengingu allra þjóðveganna og að flestir þessara vegakafla, sem settir voru í þjóðvegatölu í fyrra, séu mjög ófullkomnir og viðhaldsfrekir. Segir hann enn fremur, að hlutfallsleg aukning viðhaldsfjárins vegna þessara nýlögfestu þjóðvega ætti að vera röskar 3 millj. kr. Hins vegar þótti ekki fært að taka í fjárlagafrv. hærri upphæð en 18.4 millj., eins og áður segir. Er hér um stórfellt vandamál að ræða, og verður að taka það til íhugunar hér á hv. Alþingi í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna, hvort þessi fjárhæð þurfi endilega að hækka eða ekki og þá hvernig eigi að mæta því. Liðurinn til samgangna á sjó á 13. gr. hækkar um rúml. 1 millj., og er hér aðallega um að ræða rekstrarhalla strandferðaskipanna vegna kaupgjaldshækkunar eða réttara sagt vísitöluhækkunar og að sumu leyti leiðréttingu. Fjárveiting til strandferðanna á þessu ári er sem sé of lágt sett, og það var vitað, að hún var of lágt sett, þegar gengið var frá málinu, þar sem flutningsgjöld með ströndum fram voru ekki hækkuð svo mikið, að hallinn gæti færzt niður í það, sem núgildandi fjárlög gera ráð fyrir. En hallinn nú á fjárlagafrv. er miðaður við flutningsgjöldin eins og þau nú eru.

Framlög til nýrra hafnargerða eru 10% lægri, en á gildandi fjárlögum, en þó nokkru hærri en þau voru á fjárlagafrv. í fyrra, þegar það var lagt fyrir þingið.

Þá eru það kennslumálin. Sú grein fjárlaganna hækkar mest. Hækkunin er 5.141.000. Kemur þar til fyrst og fremst hækkun á launagreiðslum vegna vísitöluuppbótar, en hér kemur einnig fleira til. Það fjölgar nemendum í flestum framhaldsskólum, sem ríkið rekur, t.d. menntaskólunum báðum, sjómannaskólanum og vélskólanum, eins og ég benti á áðan. Við það verður að auka kennaraliðið. Þá bætast við kennarar í gagnfræðaskólunum vegna aukins nemendafjölda þar. Þannig er hækkun á grunnlaunum í gagnfræðaskólunum um 70 þús. kr. og hækkaður rekstrarkostnaður gagnfræðaskóla, einkum vegna unglingadeilda, sem verið er að koma upp víðs vegar um land eftir nýju fræðslulöggjöfinni. Loks fjölgar á hverju ári í barnaskólunum, og það þýðir, að kennurum fjölgar árlega. Mér telst svo til, að barnakennaralaun hækki nú um 1 millj. á ári vegna fjölgunar í barnaskólunum. Nú eru teknar á fjárlög 340 þús. kr. til rekstrar menntaskóla á Laugarvatni. Þess ber að geta í því sambandi, að á móti lækkar kostnaður við gagnfræðaskólann þar um 173 þús., þar sem menntaskólakennslan hefur farið fram í gagnfræðaskólanum áður og kennarar frá gagnfræðaskólanum verða færðir á milli skólanna. Hreinn kostnaðarauki við rekstur menntaskólans verður því 167 þús.

Þá er það 16. gr. A., framlög til landbúnaðarins. Þar er gert ráð fyrir 2 millj. og 300 þús. kr. hækkun. Er það aðallega vegna áætlaðrar hækkunar á jarðræktarframlagi, er nemur 1.800.000 kr., þar sem gert er ráð fyrir enn meiri jarðræktarframkvæmdum, en í gildandi fjárlögum, og er þá stuðzt við reynsluna í ár. Farið hefur verið fram á stóraukin framlög til skógræktar. Hefur ekki þótt fært að sinna því svo sem skyldi eins og ýmsu öðru. Augljóst er þó af vexti erlendra trjátegunda, er hér hafa gróðursettar verið, að nytjaskógur getur vel vaxið á Íslandi. Er þá spurningin sú, hve mikið fjármagn og vinnuafl menn telja fært að leggja til skógræktarinnar. Það fé festist um langan tíma, en skilar vafalaust örugglega tekjum síðar í verðmiklum skógarafurðum. Er settur inn nýr 300 þús. kr. liður til plöntuuppeldis, og á það að sýna viðleitni til að greikka sporið í þessu mikla velferðarmáli framtíðarinnar.

Framlög til félagsmála á 17. gr. hækka um 3.600.000 kr. Af þessari hækkun eru 3.165.000 kr. hækkun á framlögum vegna almannatrygginga, 2.100.000 kr. til Tryggingastofnunar ríkisins, og 1 millj. kr. er hækkun vegna sjúkrasamlaga. Aukið framlag til Tryggingastofnunar ríkisins stafar eingöngu af því, að reikna verður með hærri vísitölu, en áður, en aukin framlög til sjúkrasamlaganna stafa bæði af þessu og einnig af því, að enn eru að bætast við ný sjúkrasamlög og fjölgar í þeim, sem fyrir eru.

Þá er ástæða til að minnast á 19. gr., til óvissra útgjalda, því að á henni voru veittar í fyrra 25 millj. vegna dýrtíðargreiðslna, og 31/2 millj. voru þar veittar vegna þess, að vísitalan var of lágt reiknuð á einstökum liðum fjárlaganna þá. Nú eru þessar 31/2 millj. felldar niður, en framlag til dýrtíðargreiðslna er hækkað um 3 millj., upp í 28 millj. Þessi hækkun um 3 millj. á dýrtíðargreiðslum er óhjákvæmileg, ef halda á áfram sömu niðurgreiðslum og nú eiga sér stað. Stafar hækkunin frá í fyrra af því, að niðurgreiðsla á smjöri var talsvert aukin á þessu ári.

Á móti þeim hækkunum á fjárlagafrv., sem ég hef nefnt, og öðrum kemur helzt til lækkunar, að fjárveitingar á 20. gr. lækka um tæpar 7 millj. Eru þessar breytingar helztar: Afborganir lækka um 3 millj. Framlag til hlutabréfakaupa í áburðarverksmiðjunni lækkar um 11/2 millj. Framlag til þess að greiða varðskipið Þór, 2.400.000, fellur niður, þar sem skipið er að fullu greitt. Framlag til byggingar þjóðminjasafns, 200 þús. kr., fellur einnig niður, þar sem stofnkostnaður hefur nú einnig allur verið greiddur. Framlag til kaupa á radartækjum í strandferðaskipin, 320 þús. kr., feilur niður og sömuleiðis framlag til kaupa á vatnsréttindum h/f Titans, 1.570.000 kr., sem þegar hefur verið greitt til fulls. En til hækkunar á 20. gr. er helzt: Til byggingar á menntaskóla í Reykjavík 1.300.000 kr., til byggingar skólastjóraíbúðar menntaskólans á Laugarvatni 250 þús. kr. og loks til byggingar björgunar- og varðskips fyrir Norðurlandi 1/2 millj. Undirbúningi að byggingu menntaskólahúss í Reykjavík er nú svo langt komið, að hægt ætti að vera að hefjast handa á næsta ári, og verður ekki lengur dregið að veita fé til byggingarinnar svo sem húsnæði skólans er háttað. Ætti að vera hægt að byrja á næsta ári með þessari fjárhæð, að viðbættu því, sem skólinn á geymt af fyrri fjárveitingum.

Á núgildandi fjárlögum er ekki veitt fé til atvinnubóta beinlínis, en með sérstakri þáltill. var heimilað að leggja fram 4 millj. kr. til atvinnuaukningar, þar sem brýn þörf væri fyrir sérstakar ráðstafanir í því efni. Á þessu fjárlagafrv. er ekki fremur en á gildandi fjárlögum atvinnubótaframlag sérstakt. Þannig er sem sé ástatt um þau mál; að annars vegar starfar nú sérstök nefnd að athugun þeirra, og hefur hún ekki enn lokið störfum, en lýkur þeim senn, og á hinn bóginn eru væntanlegar verulegar framkvæmdir á vegum varnarliðsins. Ákvörðun um þessi mál verður því tímabært að taka, þegar frekari upplýsingar liggja fyrir, en enn þá eru fyrir hendi.

Eins og áður var fram tekið, eru ríkistekjurnar áætlaðar 11.800.000 kr. hærri, en í fjárlögum yfirstandandi árs. Við ýtarlega athugun þótti fært að gera þessa hækkun á áætluninni, og er þar aðallega um að ræða hækkun á tekju- og eignarskattinum um 7 millj. kr. Eru tekjuliðirnir allir á þessu frv. að sjálfsögðu miðaðir við þá skatta- og tollalöggjöf, sem í gildi er, þegar það er lagt fram. Ef breyting verður gerð á tekjulöggjöfinni fyrir næsta fjárhagsár, verður að sjálfsögðu að gera tilsvarandi breytingar á fjárlagafrv. og mæta þeim áhrifum, sem slíkt kynni að hafa á niðurstöður þess. Með þessari tekjuáætlun sýnist þó alveg teflt á tæpasta vaðið, miðað við reynslu þess árs, sem nú er að líða. Þó sést þetta enn þá betur bráðum, og verður þá að sjálfsögðu endurskoðað í samvinnu við hv. fjvn.

Niðurstaða þessarar greinargerðar um fjárlagafrv. verður því sú, að gert er ráð fyrir, að núverandi tekjulöggjöf óbreytt geti staðið undir þeim gjöldum, sem ráðgerð eru í frv. nú. En telji hv. Alþingi rétt eða nauðsynlegt að veita meira fé til útgjalda ríkisins á árinu 1953, en hér er gert ráð fyrir, þá verður að gera annaðhvort, miðað við horfurnar í dag, að lækka einhver útgjöld ríkisins frá því, sem gert er ráð fyrir í þessu fjárlagafrv., eða afla tekna á móti hækkununum. En frá því getur ekki orðið hvikað að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög.

Mér er það vel ljóst, að það er ekki vandalaust verk að afgreiða hallalaus fjárlög fyrir næsta ár. Það er svo margt, sem þyrfti að vera hægt að gera og gera fljótt, og það er svo margt, sem hefði þurft að geta verið á þessu fjárlagafrv., sem ekki er þar. Samt má afgreiðsla fjárlaganna ekki mistakast. Menn verða að horfast í augu við það, að ríkið getur ekki greitt meira eins og nú stendur, en tekjur þess hrökkva til að borga. Það hefnir sin, ef út af er brugðið. Margir bera kvíðboga fyrir afgreiðslu fjármála á Alþingi á síðasta þingi fyrir kosningar, og þeir, sem ætið eru reiðubúnir til að bíta í hæl Alþingis, hafa þegar komið fram með hrakspár sínar um upplausn og ábyrgðarleysi, er einkenna muni þingstörfin nú í vetur. Mér virðist, að það ætti að geta verið okkur þm. metnaðarmál, hvar í flokki sem við stöndum, að gera þessar hrakspár ómerkar. Rétt er okkur að hafa það í huga, að okkur ber að gæta virðingar Alþingis og við berum þunga ábyrgð í því tilliti. En virðingu Alþingis mun verða bezt borgið með því, að Alþingi missi ekki tök á afgreiðslu fjárhagsmála, þótt kosningar séu framundan. Gott er og að hafa það í huga, að hugsandi menn munu tæpast temja sér að meta landsmálastefnu eða stjórnmálaflokka eða einstaka þingmenn fyrst og fremst eftir því, hvaða till. gerðar eru á síðasta þingi fyrir kosningar, heldur fremur eftir annarri reynslu af þm. og flokkum, sem þeir fylgja, og þeirri stefnu, sem barizt er fyrir. Það er einnig reynsla fyrir því, að íslenzkir kjósendur hafa stundum kunnað að meta það, að staðið hefur verið gegn óeðlilegum yfirboðum, og ætti sú reynsla að styrkja hinn ráðandi meiri hluta á Alþingi á hverjum tíma í þeirri viðleitni að sýna fulla ábyrgðartilfinningu við afgreiðslu mála, jafnt í lok kjörtímabils og í upphafi þess.

Hv. þm. muna, að samkvæmt ályktun Alþingis var í fyrravetur skipuð milliþinganefnd til að endurskoða skattalöggjöfina og löggjöf um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga. Þetta er stórfellt verkefni. Er mér kunnugt, að nefndin hefur þegar unnið mikið starf, en ekki skilað af sér enn þá, enda slíks ekki von, jafnviðamikið og verkið er. Ýmsu er þörf að breyta í skattalöggjöfinni. Þörf er á að hækka persónufrádrátt, taka tillit til þess, að í raun réttri vinna hjón sameiginlega fyrir vinnutekjum heimilís, breyta skattlagningu félaga, m.a. til þess að ýta undir, að menn gangi saman í stærri félög til þess að leysa stór verkefni, svo að dæmi séu nefnd um tekju- og eignarskattslögin. Þessi atriði og fleiri eru þannig vaxin, að þau verða ekki leyst eitt og eitt í einu. Það hefur Alþingi verið ljóst og því stofnað til heildarendurskoðunar ekki aðeins á lögum um skatta til ríkisins, heldur einnig á löggjöf um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga. Er ekki heldur vanþörf á að tengja saman athugun á beinum sköttum til ríkisins annars vegar og bæjar- og sveitarfélaga hins vegar, útsvörunum. Láta mun nærri, að ríkið taki nú með beinum sköttum 50 millj. á ári, en bæjar- og sveitarfélög 150 millj. með útsvörum. Það er mikill vandi á höndum um afgreiðslu slíkra stórmála sem þessara, og hlýtur hún fyrst og fremst að velta á því, hvort samstæður meiri hluti getur myndazt um þau á Alþingi. Á því veltur allt, bæði hversu hröð afgreiðslan getur orðið og hverjar breytingar verða á löggjöfinni.

Um afkomu ríkissjóðs á því ári, sem nú er að líða, get ég ekkert fullyrt nú, en ég geri mér þó enn þá vonir um, að þrátt fyrir áföll ýmiss konar og sum stórfelld verði afkoman svipuð og fjárlögin gera ráð fyrir og greiðslujöfnuður náist. Ef allt væri með felldu, væri hægt að sjá þetta nú alveg með vissu, má segja. En nú hefur alger síldarbrestur þau áhrif á viðskiptalífið, að mikil óvissa ríkir og opinberar tekjur rýrna síðari hluta ársins frá því, sem gera hefði mátt ráð fyrir. Þess vegna verður nú ekkert fullyrt um afkomuna í ár enn þá, en ég mun láta hv. fjvn. fylgjast með jafnóðum, ekki sízt í sambandi við undirbúning endanlegrar áætlunar um tekjuhlið fjárlaganna.

Þegar núverandi stjórn tók við, var þjóðin að lamast í fjárhags- og atvinnulegu tilliti. Þegar stjórnin tók við, borgaði sig ekki að framleiða neitt á Íslandi. Framleiðslan dróst því óðfluga saman. Gífurlegur greiðsluhalli var á ríkisbúskapnum. Þjóðartekjurnar fóru lækkandi, og atvinnuleysisvofan beið á næsta leiti. Verzlunarástandið var óþolandi og beinlínis auðmýkjandi fyrir þjóðina. Fjölmargar nauðsynjavörur voru seldar með uppsprengdu verði á svörtum markaði, og það þurfti oft að knékrjúpa þeim, sem vald höfðu yfir verzluninni, til þess að fá helztu nauðsynjar, þótt menn hefðu fjárráð til þess að kaupa þær. Núverandi ríkisstj. hefur miðað ráðstafanir sínar við að reyna að ráða bót á þessu óheillaástandi, fyrst og fremst með því að bæta aðstöðu framleiðslunnar og auka þannig þjóðartekjurnar, halda uppi atvinnunni, koma jöfnuði á ríkisbúskapinn og þar með auknu fjárhagslegu jafnvægi í landinn, gera með því mögulegt að auka frelsi í viðskiptum og bæta nokkuð úr því ófremdarástandi, sem ríkti í verzlunarmálunum. Gengislækkunin var fyrsta sporið, sem stigið var, og alveg óhjákvæmileg orðin, enda verið játað af flestum, jafnvel þeim, sem ekki höfðu kjark til þess að taka þátt í nauðsynlegum bjargráðum, en völdu þann kost að gera hróp að þeim, sem gengu undir vandann.

Núverandi stjórn hefur nú starfað hátt á þriðja ár. Lítum aðeins yfir þetta tímabil. Við margvíslega og óvenjulega erfiðleika hefur verið að etja. Öll þessi þrjú ár hafa verið síldarleysisár og þó allra verst nú það síðasta. Hefur nú keyrt svo um þverbak, að bræðslusíldarafli 177 skipa var álíka mikill og eitt hinna betri veiðiskipa aflaði á einu sumri á síldarárunum fyrir 7 árum. Óvenjuleg harðindi hafa gengið yfir norður- og austurhluta landsins, og hefur það dregið úr framleiðslunni og valdið gífurlegu tjóni. Þá hafa menn á þessu tímabili orðið að taka á sig skelfilegar búsifjar vegna sauðfjárskiptanna. Loks ber þess að geta, sem máske hefur þó mestum búsifjum valdið, áð viðskiptakjörum gagnvart útlöndum hefur hrakað mjög á þessu tímabili. Verðlag á innfluttum vörum hefur hækkað miklum mun meira, en verðlag á útflutningsvörum landsmanna. Á árinu 1951 var viðskiptaaðstaðan hvorki meira né minna, en 15% lakari út á við, en hún var árið 1949, síðasta árið fyrir gengislækkunina.

Þrátt fyrir þessi stórfelldu áföll hefur framleiðsla landsmanna aukizt mjög mikið á þessum þrem árum og orðið fjölbreyttari. Jöfnuður á ríkisbúskapnum hefur náðst öll þessi ár án nýrra skatta- eða tollahækkana. Munu þó ekki margar þjóðir hafa getað komizt hjá því þessi þrjú síðustu ár að hækka stórkostlega skatta- og tollaálögur. Það hefur tekizt að halda uppi mjög miklum verklegum framkvæmdum, meiri en nokkru sinni fyrr. Stórfelld framlög hafa verið innt af höndum til eflingar atvinnuveganna, bæði beint vegna aflabrests, harðinda og fjárskipta og til þess að koma á fót nýjum atvinnurekstri, þar sem harðast hefur kreppt að vegná erfiðs árferðis. Þá hefur vegna meira jafnvægis í þjóðarbúskapnum, en áður reynzt mögulegt að gerbreyta ástandinn í verzluninni til bóta frá því, sem áður var. Svarti markaðurinn og það ófremdarástand, sem honum fylgdi, er fyllilega úr sögunni, en í staðinn er komin hörð samkeppni um vöruverð og vörugæði. Lagt hefur verið fram aukið lánsfé til íbúðarhúsabygginga í kaupstöðum og kauptúnum og til bygginga og ræktunar í sveitum, þrátt fyrir mjög fjárfrekar framkvæmdir aðrar. Og hin breytta fjármálastefna hefur gert mögulegt að nota Marshallféð í vaxandi mæli til stóru fyrirtækjanna þriggja, Sogsvirkjunarinnar, Laxárvirkjunarinnar og áburðarverksmiðjunnar. Á þessu tímabili hefur landhelgi Íslands verið stækkuð, og mun það reynast eitt hið mesta happaverk í sögu landsins. Tekizt hefur að forða frá hruni því, sem yfir vofði og, þegar á allt er litið, heppnazt að snúa vörn í sókn. Þrátt fyrir stórfelld áföll hafa þessi síðustu ár orðið einhver mestu framfaraár í sögu landsins.

Marshallaðstoðin hefur komið hér að góðum notum til stuðnings, en þó hefði þrátt fyrir hana haldizt hér sama ófremdarástandið og áður, ef ekki hefði verið breytt um stefnu í fjármálum landsins og atvinnumálum. Sá stórkostlegi árangur hefur orðið af stefnubreytingunni, að nú hefur Marshallaðstoðin notazt til að byggja upp verzlunarbirgðir í landinu og til þess að koma upp stóru fyrirtækjunum og auka atvinnuna, í stað þess að féð hefði eyðzt jafnóðum til daglegra þarfa, ef hallareksturinn hefði haldið áfram og framleiðslan haldið áfram að dragast saman, eins og átti sér stað áður, en ríkisstj. tók við.

Auðvitað hefur verðiag farið hækkandi í landinu. Fram hjá því varð ekki komizt, eins og ástatt var orðið. Það hlaut að verða afleiðing gengislækkunarinnar, sem óhjákvæmileg var orðin. Og þar við bættust svo stórkostlegar verðhækkanir erlendis.

Sé á hinn bóginn lítið yfir þróunina í heild og einkum íhugað, hvernig hún hefur verið síðustu mánuðina í verðlagsmálunum, þá er nú þannig ástatt, að verðhækkanir, sem stafa af gengislækkuninni, eru nú allar komnar fram, og verðhækkanir innanlands, sem stafa af kauphækkunum, sem sigldu í kjölfar gengislækkunarinnar, eru nú einnig komnar fram. Þær síðustu þeirra eru nú í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða í haust. Því standa mál nú þannig, að takist að halda fjárhagslegu jafnvægi innanlands og verði ekki gerðar ráðstafanir, sem setja dýrtíðarhjólið af stað á nýjan leik, þar sem það ætti nú að hafa hægt á sér eða jafnvel numið staðar, er ástæða til þess að vona, að framundan sé tímabil stöðugra verðlags, en áður hefur verið og að þjóðin geti notið margvíslegs hagnaðar af því.

Heilbrigð stjórnarstefna miðar ætíð að því m.a., að vinnuafl þjóðarinnar notist sem bezt, koma í veg fyrir atvinnuleysi. Að því hafa miðað ráðstafanir núverandi ríkisstj. til þess að auka framleiðsluna og hinar miklu framkvæmdir, sem hún hefur beitt sér fyrir. Aðalúrræðið til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi verður að vera meiri afköst og meiri framleiðsla og þar með meiri þjóðartekjur. Aðeins með því að afköstin aukist og framleiðslan aukist myndast jarðvegur til þess að safna saman fjármagni til þeirra margvislegu framkvæmda og uppbyggingar, sem verður að eiga sér stað, svo að allir hafi verkefni. Atvinnuleysi verður ekki fyrirbyggt með því, að hver maður, sem vinnu hefur, vinni minna og framleiði minna, en nú er gert. Slíkt hlýtur að leiða til rýrnandi lífskjara og þar af leiðandi minni framkvæmda og verra atvinnuástands. Slíkt hlyti að leiða til enn þá tilfinnanlegri fjárskorts, en við búum nú við, fátæktar og umkomuleysis. Þetta verður ofur skiljanlegt, þegar þess er gætt, að nýjar framkvæmdir verður að kosta af þjóðartekjunum. Meiri vinna og meiri framleiðsla verða að vera kjörorð landsmanna í efnahagslegu tilliti, ef vel á að fara. Allar ráðstafanir, sem ekki samrýmast þessum kjörorðum, ganga í öfuga átt hjá þjóð, sem býr við stórkostlega ónotaða möguleika, en skortir fjármagn til þess að notfæra sér þá svo sem hún vill og þarf, til þess að allir landsmenn hafi atvinnu.

Sumir virðast halda, að ríkisstjórn og Alþingi geti öllu ráðið um fjárhags- og atvinnumál landsins. Þetta er þó á misskilningi byggt. Hið frjálsa þjóðskipulag, sem við búum við, felur það í sér, að um ýmsa veigamestu þætti fjárhagsmálanna eru ákvarðanir teknar af öðrum en Alþingi og ríkisstjórn. Má þar nefna kaupgjaldið sérstaklega, og það ekki sízt þegar þess er gætt, að auk allra annarra áhrifa er afurðaverðið hér með lögum bundið við að fylgja kaupgjaldinu. Ég segi þetta ekki til þess að færa Alþingi eða stjórnina undan ábyrgð, heldur til þess að benda á þýðingarmikla staðreynd. Af þessu fyrirkomulagi leiðir, að eigi að verða varanlegra jafnvægi í fjárhags- og atvinnumálum, en við höfum átt við að búa, þá er ekki nóg, að ríkisstj. og Alþingi miði framkvæmdir í peningamálum við þetta markmið, heldur verða almannasamtök þau, sem þýðingarmiklum þáttum ráða, einnig að miða sínar ákvarðanir við þetta sama. Á sama hátt mundi það ekki ná tilgangi sínum, þótt hin sterku almannasamtök í launamálum t.d. miðuðu ákvarðanir sínar við það að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum, verðbólgunni í skefjum og stöðugu peningagengi, ef Alþingi og ríkisstj. færu þveröfugt að og ýttu undir verðbólgu með hallarekstri ríkisins, þótt engir gjaldeyrissjóðir væru til, eða með ábyrgðarlausum bankaútlánum með hjálp seðlapressunnar. Það verður aldrei of mikil áherzla lögð á þá ábyrgð, sem í okkar þjóðfélagi hvílir á hinum stóru almannasamtökum, né þýðingu þess, að félagar þeirra geri sér ljósa grein fyrir því hlutverki, sem samtökin gegna og vilja gegna í þjóðarbúskapnum og raunar við stjórn landsins. Raddir heyrast, sem segja, að ekki sé hægt að hafa þetta eins og það er, það sé ekki hægt að hafa svona marga enda lausa. Svo verður nú samt að vera í höfuðdráttum. Menn vilja ekki sætta sig við annað. Margvisleg mistök hafa áreiðanlega átt sér stað í þessum málum, og máske eiga menn enn þá eftir háskalegar veltur, áður en menn hafa lært til hlítar. Í þessu sambandi verða mörg tímamót, og ein slík eru nú. Nú hafa öll verðhækkunaráhrif gengislækkunarinnar, bein og óbein, komið fram, og metin eru jöfnuð milli kaupgjalds og afurðaverðs innanlands. Veldur nú miklu um þróun mála á næstunni, hvað gert verður eða ógert látið.