07.10.1952
Sameinað þing: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

1. mál, fjárlög 1953

Áki Jakobsson:

Fjárlagafrv. það fyrir árið 1953, sem nú hefur verið lagt fram, er með svipuðum hætti og frv. í fyrra að verulegu leyti. Þó er það sérstakt við það, að það er enn þá nýtt met í því efni, að heildarútgjöldin hafa hækkað um nær 12 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs. Hæstv. fjmrh. telur það mikinn góðs vita, að þetta sé minnsta hækkun, sem orðið hafi á fjárlagafrv. frá síðustu fjárlögum núna á s.l. árum. Þetta kann vel að vera, en það er litill árangur að því einu að semja frv., sem lágt er, þegar vitað er, að mörgum greiðslum er sleppt, sem óhjákvæmilega koma, og það veit hver maður, sem les þetta frv. yfir, og þurfti í raun og veru ekki að hlusta á ræðu ráðherrans til þess að sjá það, að það liggur fyrir að hækka frv. um milljónatugi og þá um leið líka að hækka skatta og gjöld um milljónatugi.

Ef litið er yfir tekjuhliðina, kemur í ljós, að hæstv. fjmrh. vill framlengja alla skatta og tolla, sem gilt hafa hingað til, og mun hafa auðsjáanlega í hyggju að auka ríkistekjurnar enn þá allverulega, svo að óhætt sé að halda áfram sömu eyðslustefnunni. Þannig á að framlengja söluskattinn alræmda, sem er einn ósanngjarnasti nefskattur, sem á hefur verið lagður. Stærsti póstur á tekjuhlið er svo sem venjulega verðtollurinn, sem nemur 105 millj. kr., er sami og í fyrra. Þeim tekjulið getur orðið valt að treysta, ef kaupgeta heldur áfram að minnka í landinu eins ört og verið hefur að undanförnu.

Ég ætla mér ekki að fara að ræða einstaka liði fjárlagafrv., heldur mun ég snúa mér að þeirri stefnu, sem núverandi ríkisstj. fylgir í fjármálum og atvinnumálum almennt.

Fjárhagsafkoma ríkissjóðs á þessu ári virðist, að því er hæstv. fjmrh. segir, ætla að verða sú, að útkoman verði í samræmi við fjárlögin og útgjöld og tekjur standist nokkurn veginn á, og sýnir þetta mjög greinilega, í hvaða átt stefnir með útgjöld ríkisins. Í fyrra var tekjuafgangur 50 millj. kr., og engar af þeim tekjum, sem ríkið hafði þá, voru felldar niður. Nú eru útgjöldin búin að fylla þetta upp, þannig að þau hafa vaxið um þann mismun, sem þarna er um að ræða. Hæstv. fjmrh. kunni sér ekki læti af ánægju, þegar hann tilkynnti þjóðinni hinn mikla tekjuafgang á s.l. ári. Flokksblað hans hóf lofsöng og taldi fjármálaráðherrann hafa unnið mikið afrek að geta skilað svo miklum tekjuafgangi. Fagnaðarlæti þessi fengu hins vegar lítinn hljómgrunn hjá þjóðinni og það ekki að ástæðulausu. Ríkið þarf að sjálfsögðu að hafa tekjur til að standast öll rekstrarútgjöld sin. En þjóðinni er enginn vinningur að því, að innheimtir séu miklu meiri skattar og tollar, en til þess eru nauðsynlegir. Slík skatta- og tollainnheimta umfram þörf er beinlínis hættuleg. Hún dregur úr kaupgetu og viðskiptaveltu og lamar atvinnulífið. Auk þess fylgir stórfelldum tekjuafgangi sá löstur, að ráðamenn missa áhuga fyrir sparnaði í opinberum rekstri, en það er sem kunnugt er full þörf á því, að forsvarsmenn fjármála í þjóðfélaginu hafi ætið gát á, að rekstrarútgjöld ríkisins vaxi ekki umfram ýtrustu þörf. Það skal að vísu tekið fram, að af tekjuafgangi siðasta árs var varið samkv. sérstökum lögum 38 millj. kr. til ýmissa framkvæmda, sem tilteknar eru í þeim lögum. Þó að það hafi verið nokkur bót, þá breytir það engu um hin skaðvænlegu áhrif þess að innheimta of háar tekjur og skatta af atvinnulífinu í landinu. En hvernig sem litið er á fjárhag eða fjárhagsafkomu ríkisins, er öllum ljóst, að það, sem mesta þýðingu hefur, er afkoma atvinnuveganna og þá fyrst og fremst þeirra atvinnuvega, sem mestu máli skipta fyrir þjóðarbúið og afkomu alls almennings. Ef atvinnuvegirnir komast í kröggur, ef atvinnulífið dregst saman og hættir að geta veitt almenningi vinnu, þá leiðir óhjákvæmilega af því fjárhagsörðugleika fyrir ríki og bæjarfélög, sem hafa tekjur sínar af alls konar sköttum og gjöldum, sem almenningur greiðir. Fyrsta skylda hverrar ríkisstjórnar er því að búa þannig að atvinnuvegum þjóðarinnar, að þeir blómgist og geti aðstaðið vaxandi þarfir landsmanna með vaxandi íbúafjölda. Hvernig er atvinnuvegum þjóðarinnar farið nú? Hefur núverandi hæstv. ríkisstj. haldið þannig á þýðingarmestu málum þjóðarinnar, að atvinnulífið hafi blómgazt og fullnægi þörfum þjóðarinnar? Því miður verður að segja, að því fer víðs fjarri.

Er núverandi hæstv. ríkisstj. hóf göngu sína á aflíðandi vetri 1950, var með atfylgi þeirra flokka, sem standa að henni, framkvæmd stórkostlegasta fjármálaaðgerð, sem sögur fara af í íslenzkum stjórnmálum, þ.e., gengi erlends gjaldeyris gagnvart íslenzkri krónu var hækkað um nærri 75%. Áður en ráðizt var út í þessa aðgerð, var fenginn að láni hagfræðingur frá Ameríku, Benjamín Eiríksson, sem var látinn rannsaka og skila álitsgerð um íslenzkt atvinnu-og fjármálalíf. Komst hagfræðingur þessi að þeirri niðurstöðu, að öll vandamál íslenzku þjóðarinnar á sviði fjármála og atvinnumála væri hægt að leysa með því einfalda ráði að lækka gengi ísl. krónunnar. Því meiri sem gengislækkunin var, því öruggara átti það að vera, að öll okkar vandamál leystust af sjálfu sér. Það er fróðlegt að lesa álitsgerð Benjamíns nú og væri raunar holl lexía fyrir hæstv. ráðh. og stuðningsmenn ríkisstj., því að nú er svo komið, að hvert einasta mannsbarn kemst ekki hjá því að sjá, að ekki stendur steinn yfir steini af öllum þeim margorðu hugleiðingum og ráðleggingum, sem Benjamín gaf á sínum tíma. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt, þó að maður eins og Benjamín, sem var búinn að læra kynstrin öll af kennslubókum, misjöfnum að gæðum, og taka alls konar próf og gráður, en hafði aldrei komið nálægt neinu praktísku starfi á sviði fjármála eða atvinnumála, hvorki hér á landi né erlendis, gæti látið sér detta í hug jafnbarnalega lausn á vandamálum íslenzku þjóðarinnar. Hitt var furðulegt, er gamlir og reyndir stjórnmálamenn, sem frá blautu barnsbeini hafa lifað og hrærzt í þeim vandamálum, sem íslenzka þjóðin hefur jafnan átt við að stríða, skyldu gleypa þessa flugu jafngagnrýnilaust og raun varð á. En það var ekki nóg, heldur kom hver af öðrum af forustumönnum stjórnarflokkanna og dásamaði frammi fyrir þjóðinni þá undraverðu töfralausn, sem Benjamín hafði fundið. Þeir voru bókstaflega í vímu, svo mikil var sigurgleði þeirra yfir því að hafa nú loksins fundið lausn á öllum atvinnu- og fjárhagsvandamálum þjóðarinnar. Ég minnist þess, að það var hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, sem lengst gekk í þessu efni. Aðvaranir, sem bæði ég og aðrir þingmenn báru fram gegn þessu óráði að fella gengið svo stórkostlega, voru að engu hafðar. Stuðningsmenn gengislækkunar þoldu ekki að heyra neinar mótbárur. Þó að á það væri bent, að gengislækkunin væri fjárglæfrar, sem mundu á skömmum tíma margfalda erfiðleika þjóðarinnar og gera þá verri viðfangs í stað þess að leysa þá, varð engu umþokað. Allt þetta gengislækkunarbrölt minnir óþægilega mikið á ævintýrið um nýju fötin keisarans, enda var ekki liðið nema tæpt ár frá því að gengislækkunin var framkvæmd þar til veruleikinn kallaði: „Fötin eru engin“ — og þá sáu allir og meira að segja gengislækkunarpostularnir sjálfir, að gengislækkun sú, sem framkvæmd var, var engin lausn á vandamálum atvinnuveganna.

Gengislækkuninni var ætlað að leysa fyrst og fremst vandamál sjávarútvegsins. Með henni voru lagðar stórkostlegar byrðar á allan almenning, byrðar, sem námu hundruðum milljóna á þjóðina. Þetta var réttlætt með því, að sjávarútvegurinn nyti góðs af og mundi skila þjóðinni þessu aftur með aukinni starfrækslu, vaxandi útflutningsverðmætum og aukinni vinnu. Raunin hefur orðið sú, að vélbátaflotinn varð fyrir stærsta áfalli, sem hann hefur nokkru sinni orðið fyrir af mannavöldum, á árinu 1950, eða gengislækkunarárið, vegna þess að þegar við gengislækkunina hækkuðu allar nauðsynjar hans sem gengislækkuninni nam, svo sem olía, veiðarfæri, varahlutar o.fl., en fiskverðið hélzt óbreytt allt árið 1950. Þetta munaði tugum þúsunda á hvern bát. Á árinu 1951 var svo hespað af skuldaskilum vélbátanna með þeim hætti, að um hreinan hégóma var að ræða. Vélbátaútvegurinn á nú við ekki minna basl að stríða, heldur en fyrir gengislækkunina, og það meira að segja þrátt fyrir það, að gripið hafi verið til nýrra ráða, sem eru raunveruleg gengislækkun, bátagjaldeyriskerfisins, sem felur í sér greinilega gengislækkun og er bæði óvinsælt meðal þjóðarinnar og kemur að litlu gagni.

Togaraútgerðin átti þó fyrst og fremst að njóta góðs af gengislækkuninni. Útkoman er þó sú, að togaraútgerðin á við hina mestu erfiðleika að stríða, og munu nú flestir togararnir vera reknir með allmiklu tapi. Meiri hluti nýsköpunartogaranna er rekinn af bæjarfélögum eða hlutafélögum, sem bæjarfélögin eru stórir hluthafar í, og hafa því útgerðir þeirra borið vanda sinn upp við ríkisstj. og bíða þau mál nú úrlausnar bæði stjórnar og Alþingis. Í nærri hálft ár hefur einn af hinum glæsilegu nýsköpunartogurum legið aðgerðalaus í Reykjavíkurhöfn, og einn af togurum bæjarútgerðar úti á landi hefur verið bundinn í höfn vegna fjárhagsörðugleika. Togaraútgerðin er nú, röskum tveim árum eftir. hina miklu gengislækkun, komin í svo mikinn vanda, að lausn hans er orðið eitt veigamesta verkefnið.

Hvernig er svo ástandið í markaðsmálunum? Nærri 20 þús. tonn af hraðfrystum fiski, sem að útflutningsverðmæti nema um 120 millj. kr., liggja óseld í hraðfrystihúsum landsins. Hraðfrysting fisks hefur að mestu leyti stöðvazt. Ársframleiðsla fiskiflotans af þorskalýsi liggur óseld í landinu. Saltfisk hefur verið bannað að framleiða og því borið við, að ekki sé hægt að fá markað fyrir meiri fisk. Ísfisksala í Bretlandi er stöðvuð fyrir aðgerðir brezkra útgerðarmanna, þrátt fyrir það að í gildi sé milli ríkisstjórna Íslands og Bretlands samningur, sem heimili Íslendingum slíka löndun á ísfiski í Bretlandi. Þegar síld fór að veiðast í reknet hér við Suðvesturland, var ríkisstj. ekki betur viðbúin en svo, að söltun var bönnuð framan af og dýrmæt veiði eftir mislukkaða norðanlandsvertíð fór forgörðum. Í stuttu máli: Sjávarútvegurinn er á heljarþröminni og öll markaðsöflun í molum. Þetta er undirrót þess atvinnuleysis, sem gerir nú æ meir vart við sig hér á landi.

Þegar ár var liðið frá gengislækkuninni miklu, var öllum orðið ljóst, að hún leysti engan veginn vandamál sjávarútvegsins. Upphafsmenn hennar stóðu berstrípaðir frammi fyrir þjóðinni. En þá fundu þeir nýtt ráð til að skýla nekt sinni. Það var söngurinn um frjálsa verzlun. Forsöngvarinn var þar einkum hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson. Samkv. boðskap hans, sem að sjálfsögðu var byggður á vísindum Benjamíns Eiríkssonar, átti frjáls innflutningur á hvers konar vörum, þörfum og óþörfum, að vera allra meina bót, og skipti þá engu máli, hvernig gjaldeyris væri aflað. Gjaldeyris var líka aflað með sníkjum og lántökum erlendis. Siðan hófst innflutningurinn. Nú var verzlunin orðin frjáls. Svo mikill var æðibunugangurinn og ákafinn, að ekkert var hirt um það að gefa íslenzkum iðnaðarfyrirtækjum kost á að flytja inn hráefni, svo að þau gætu keppt við hina innfluttu iðnaðarvöru. Þegar þau fengu hráefni sín, var búið að fylla markaðinn í landinu af erlendum iðnaðarvörum, sem hægt hefði verið að framleiða í landinn með sömu gæðum og samkeppnisfæru verði við erlendan iðnaðarvarning. Áhrifin komu líka fljótt í ljós: því nær alger stöðvun í innlendum iðnaði. En áhrif þessarar frjálsu verzlunar hæstv. viðskmrh., Björns Ólafssonar, voru fleiri. Gjafirnar og lánin, sem útveguð voru til greiðslu á innflutningnum, voru að sjálfsögðu í frjálsum gjaldeyri. Innflutningurinn var svo að mestu leyti frá Englandi, Ameríku og nokkrum Vestur-Evrópuríkjunum, sem lítið sem ekkert gátu eða vildu kaupa af útflutningsvörum landsins eða keyptu fyrir miklu minni fjárhæð af afurðum okkar, en við af þeim. Afleiðingin hefur svo orðið sú, að nú liggur gífurlegt magn óselt af framleiðsluvörum okkar, svo mikið, að ef ekki tekst fljótt að selja, er fyrirsjáanlegt stórastopp í útflutningsframleiðslunni, sjávarútveginum.

Það hefði verið hægt að selja hraðfrysta fiskinn. Það er hægt að selja meira af saltfiski. Bann við framleiðslu saltfisks er óþarft. Það, sem stendur á, er, að þær þjóðir, sem vilja kaupa þessa vöru, vilja greiða hana með hvers konar iðnaðarvörum, sem hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson, er búinn að fylla landið af, innfluttum fyrir láns- og gjafafé.

Meðan innflutningsæðið var mest á hæstv. ríkisstj., hindraði hún hverja sölu á hraðfrystum fiski á fætur annarrí, af því að hún taldi vöruskiptaverzlun koma í bága við hina frjálsu verzlunarstefnu sína. Þessi verzlunarstefna hefur nú fengið skjótan endi. Hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson, varð sjálfur að tilkynna, að nú skyldi viðskiptum beint til þeirra landa, sem eru tilbúin að kaupa fiskafurðir landsmanna. Hann kenndi síldarleysinn fyrir norðan um, að 405 Lagafrumvörp Fjárlög 1953 yfirgefa þyrfti nú í bili frjálsu verzlunina. Það er hverjum manni ljóst, að 20 þús. tonna birgðir af óseldum hraðfrystum fiski standa ekki í neinu sambandi við síldarleysi fyrir norðan. Ástæðan fyrir stefnubreytingunni er einfaldlega sú, að ríkisstj. er enn á ný komin í strand með aðgerðir sínar. Frjálsa verzlunin, sem á engan hátt svarar til nafns síns, hefur ekki reynzt nein lausn á vandamálunum, heldur þvert á móti stöðvað í bili útflutning landsins á einni veigamestu útflutningsvörunni. Hið gífurlega vörumagn, sem flutt var inn, hefur minnkað kaupgetu í landinu, vegna þess að það var flutt inn fyrir styrktarfé og lánsfé. Ef það hefði verið flutt inn fyrir sjálfsaflafé landsmanna, þ.e.a.s. fyrir andvirði útfluttrar vöru, þá hefðu launagreiðslur í sambandi við framleiðslu þeirrar vöru innanlands skapað kaupgetu, sem hefði tryggt afsetningu þeirra. Sölur til Þýzkalands, Póllands, Ungverjalands, Spánar og fleiri landa stranda nú mest á því, að ekki er fyrir hendi geta né vilji íslenzkra innflytjenda til að kaupa iðnaðarvörur á móti. Hæstv. ríkisstj. var bent á þessa hættu þegar á síðasta þingi, en hún hafði þær aðvaranir að engu. Ýmsir útflytjendur hafa stöðugt verið að vara við þessari hættu og viljað koma á sölum, en ríkisstj. hefur skellt skollaeyrum við öllum aðvörunum, þar til hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson, gaf hina frægu yfirlýsingu sína.

Hæstv. ríkisstj. hefur á valdatíma sínum framkvæmt tvær stórfelldar aðgerðir í fjárhags- og atvinnumálum, gengislækkunina og frjálsa innflutninginn. Báðar þessar aðgerðir voru boðaðar sem varanleg lausn á vandamálum atvinnulífsins, en höfðu í för með sér stórfelldar álögur á almenning og óhagræði, einkum gengislækkunin. Hins vegar hefur hvorki gengislækkunin né innflutningsfarganið komið að gagni til að leysa vandann. Þau hafa skapað miklu torleystari erfiðleika en áður var við að stríða. Þegar þetta þing kemur saman, er ástand atvinnuveganna verra en það hefur nokkru sinni verið. Sjávarútvegurinn, ekki hvað sízt togaraflotinn, er á heljarþröminni, og er þörf skjótra aðgerða til að rétta við hag þess atvinnuvegar. Ef allur fiskiflotinn væri í gangi og legði afla sinn upp til vinnslu í landinu, mundi það skapa mikla vinnu í flestum bæjum. Þetta er hins vegar ekki unnt, vegna þess að hraðfrystihúsin eru full af óseldum fiski og frekari framleiðsla saltfisks er stöðvuð. Þjóðinni er sagt, að ekki sé hægt að selja meiri saltfisk en nú er búið að framleiða í landinn. Á sama tíma eru íslenzkir togarar að sigla til Danmerkur með saltfisk, sem þar er seldur óverkaður upp úr skipi. Danskir fiskkaupmenn geta fundið markað og geta haldið áfram að láta framleiða saltfisk, þótt Íslendingum sé bannað að gera það.

Síðan í kreppunni miklu 1931 hefur engin ríkisstjórn staðið jafnúrræðalaus frammi fyrir þjóðinni og sú, sem nú situr. Skyldi vera nokkurt dæmi þess hjá sjálfstæðu ríki, að ríkisstjórn skuli gleyma að sjá um sölu á útflutningsafurðum. Ég er viss um, að slíkt og þvílíkt hefur ekki hent ríkisstjórnir nágrannalandanna. Þetta er það, sem hefur gerzt hér. Ríkisstj. hefur samþykkt. 406 (1. umr.).

það ekki sér til afsökunar, að útflutningurinn sé í höndum einstaklinga, því að hér á landi er allur útflutningur raunverulega í höndum ríkisins sjálfs, opinberra nefnda eða ríkisverndaðra fyrirtækja. Ríkisstj. situr aðgerðalaus, meðan stórkostlegar birgðir hrúgast upp í landinu af útflutningsvörum, sem brýn þörf er á að selja og geta flutt út. Hvernig stendur á þessu? Ég treysti mér ekki til að svara þessu. En eitt virðist ljóst, og það er, að hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson, hefur ekki setið auðum höndum. Meðan ríkisstj. sat aðgerðalaus í þýðingarmesta skyldustarfi sínu, var Björn Ólafsson önnum kafinn við að framkvæma hugsjónir sínar um frjálsan innflutning. Það skipti hann engu, hvort vörur þær, sem inn voru fluttar, væri hægt að fá keyptar fyrir fiskafurðir okkar. Það skipti hann heldur engu máli, hvort skilyrði fyrir því, að við gætum selt fiskafurðir landsins, væri, að við tækjum við sem greiðslu sams konar vörum og Björn Ólafsson hefur verið að flytja inn í stórum stíl fyrir frjálsan gjaldeyri. Ég get ekki ímyndað mér, hvað fyrir hæstv. viðskmrh. hefur vakað, ef hann hefur þá vitað, hvað hann var að gera. Staðreynd er það hins vegar, að hinn frjálsi innflutningur er nú stærsta hindrunin í vegi fyrir því, að unnt sé að selja þær sjávarafurðir, sem liggja í landinu. Hæstv. viðskmrh. er búinn að sjá þetta nú. Þess vegna gaf hann yfirlýsingu sína.

Nú hefur og verið stungið við fótum í innflutningi fyrir frjálsan gjaldeyri. Það verða víst fáir, sem þakka hæstv. viðskmrh. eða ríkisstj. fyrir innflutningsfarganið, því að svo kjánalega var þessi innflutningur framkvæmdur, að ég minnist þess ekki, að nokkurt tiltæki ríkisstjórnar hér á landi hafi á jafnskömmum tíma valdið meiri truflunum og tjóni í atvinnulífinu en þetta. Að sjálfsögðu hlýtur ríkisstj. öll að bera ábyrgð á mistökum þessum, því að einn ráðh. getur ekki gegn vilja ríkisstj. lagt út í slík ævintýr sem þessi.

Ferill þessarar ríkisstj. hefur verið ein hrakfallasaga, og í stjórnartíð hennar hefur snarazt meira til óheilla í íslenzku atvinnulífi en dæmi eru áður til frá 1931. Þjóðin hefur líka snúið baki við þessari ríkisstj. og vill losna við hana. Forsetakosningarnar leiddu líka í ljós, að þjóðin er andvíg stjórninni. Það er almennt talið, að hver sá frambjóðandi, sem hefði hlotið stuðning núverandi ríkisstj. til forsetakjörs, hefði hlotið að falla. Svo fjandsamleg er þjóðin orðin þeirri ríkisstj., sem tveir stærstu flokkar þingsins standa að.

Eins og við má búast, steðja jafnan að fiskveiðaþjóð eins og Íslendingum erfiðleikar, sem ekki eru þjóðinni sjálfráðir. Þjóðin hefur nú undanfarin átta ár orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna þess, að norðanlandssíldin hefur brugðizt. Þó tekur síðasta sumar út yfir allt, sem áður var þekkt. Að sjálfsögðu hefur þetta valdið þjóðinni miklum búsifjum, sem hafa orðið tilfinnanlegri en ella vegna þeirrar óhyggnu og skammsýnn stjórnmálastefnu, sem rekin hefur verið undanfarið og þó einkum af núverandi ríkisstjórn. Öll þessi átta síldarleysisár, sem liðin eru, hefur verið hjakkað í sama farinu. Flotinn hefur verið gerður út á gamla mátann með herpinót sem eina veiðarfærið, þrátt fyrir það að við höfum horft upp á, að erlend síldveiðiskip hafa ár eftir ár gert hér góða vertíð með því að hafa reknet og tunnur og salta um borð sjálf aflann. Fyrir löngu hefði ríkisstj. átt að vera búin að gera útgerðarmönnum síldarskipanna kleift að beita öllum sömu veiðiaðferðum og útlendingarnir. Það var ekki hægt að ætlast til þess, að síldarútgerðarmenn hefðu bolmagn til að útvega sér reknet, enda var lengi vel ekki hægt að fá leyfi stjórnarvalda til að salta um borð í skipunum. Þarna átti ríkisstj. að koma til aðstoðar. Það hefði skilað margföldum arði í dýrmætri útflutningsvöru. En eins og kunnugt er, er saltsíld nú langeftirsóttasta útflutningsvara landsins. Síldarflotinn átti að einbeita sér að saltsíldarframleiðslunni, enda var alltaf hægt að breyta um og taka til herpinótaveiða, ef síld hefði komið í því magni, að líkur væru til árangurs með því veiðitæki.

Herpinótaveiðin á norðurmiðunum brást alveg í sumar. En seinni part sumarsins hófu nokkur skip reknetjaveiði í hafinu fyrir austan Ísland og hafa stundað þá veiði fram á þennan dag og það með miklum árangri. Hafa skipin sótt síldina austur undir Færeyjar, og sýnir það sig, að þetta er íslenzkum fiskiskipum vel fært. Flest skipin neyddust þó til að hætta, og ollu því fjárhagsörðugleikar. Þau gátu ekki aflað sér reknetja. Bendir allt til, að hægt sé að reka velflest síldveiðiskipanna með góðum hagnaði við þessa veiði, og hefði mátt framleiða mikið magn af hinni eftirsóttu sumarsíld, ef ráðstafanir hefðu verið gerðar í tíma til þess að gera flotanum þetta kleift. Mikil nauðsyn er á því, að síldveiði fyrir Norður- og Austurlandi falli ekki niður, þó að veiði hafi brugðizt. Hitt er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt, að breyta um veiðiaðferðir og leita lengra, og verður ríkisstj. að gera ráðstafanir til að gera síldveiðiflotanum það kleift.

Rannsóknum á göngum síldarinnar í norðanverðu Atlantshafi fleygir nú mjög fram. Er því vel líklegt, að hægt verði með öruggri vissu að hafa upp á því, hvar síldin heldur sig á hverjum tíma. Ef svo færi og síldveiðifloti landsins væri tilbúinn til veiða, þá eru í honum svo mörg góð skip og stór, að hann getur sótt síldina, jafnvel þótt fara þurfi eftir henni suður til Færeyja eða austur undir Noreg. Til þess að þetta verði mögulegt, verður að halda síldveiði áfram og það þótt breyta þurfi veiðiaðferðum og nýtingu aflans.

Ég vil einnig benda á, að Faxaflóasíldveiði hefur engan veginn verið sótt með kappi, sem þó er álitleg og hagkvæm veiði fyrir velflest hinna smærri síldveiðiskipa, sem eru of lítil til að sækja síldina suður og austur í hafið milli Íslands og Færeyja. Ástæðan fyrir þessu hefur ekki verið sú, að ekki hafi skip fengizt til að stunda þessa veiði, heldur sljóleiki stjórnarvaldanna. Í fyrra var hvað eftir annað á veiðitímanum sett veiðibann, vegna þess að stjórnarvöldin töldu sig ekki vera búin að selja saltsíldina. Þetta truflaði svo mikið veiðarnar í fyrra, að mörg skip urðu fyrir tjóni á Faxaflóaveiðinni, sem hefðu getað haft hagnað. Aftur í sumar endurtekur sig sama sagan. Söltun var ekki leyfð, þótt síldveiði væri orðin góð. Loks brá þó ríkisstj. við og gerði ráðstafanir til þess, að hægt væri að salta. Margar aðrar verkunaraðferðir á Faxaflóasíld, en söltun, eru tiltækar. En ríkisstj. hefur mér vitanlega ekki enn þá gert neinar ráðstafanir til þess að hrinda þeim í framkvæmd.

Ég bendi á þetta vegna þess, að þjóðinni er mikil nauðsyn á, að gerðar séu ráðstafanir, sem miða að því að bæta upp síldarleysið fyrir norðan, bæði vegna útgerðarinnar og þeirra, sem atvinnu hafa við hana, og ekki sízt vegna þjóðarheildarinnar. Á slíkum erfiðleikatímum eins og þeim, sem dunið hafa yfir síldarútveginn, er nauðsynlegt, að ríkisstj. sé vakandi og framtakssöm og aðstoði útveginn við að mæta breyttum aðstæðum með sem minnstu tjóni fyrir þá sjálfa og fyrir þjóðina í heild. Síldarleysið fyrir norðan hefur valdið þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem mest hafa byggt afkomu sína á síldarútvegi, mjög miklum erfiðleikum. Óhjákvæmilegt er, að þjóðarheildin aðstoði þessi byggðarlög í bili, á meðan erfiðleikarnir eru mestir. Ef síldveiðiflotanum er beint að nýjum veiðiaðferðum og lögð áherzla á söltun síldar, mun það geta hjálpað þessum byggðarlögum mikið, því að það mundi veita margvíslega vinnu við verkun síldarinnar. Enn fremur mundi mikil saltsíldarframleiðsla skapa mikla þörf fyrir tunnur, en tunnuverksmiðjur eru bæði til á Siglufirði og Akureyri. Auk þess væri nauðsynlegt að aðstoða þessi byggðarlög, til þess að geta snúið sér meira, en verið hefur, að fiskframleiðslu. Ríkisstj. hefur nú byrjað slíkar aðgerðir, og er það vel. Er þess að vænta, að þeim verði hraðað eftir megni.

Ég hef í ræðu minni staldrað nokkuð við sjávarútveginn og það ekki að ástæðulausu. Sjávarútvegurinn er, eins og oft hefur verið fram tekið, aðalatvinnuvegurinn og sá atvinnuvegur, sem skapar gjaldeyri þjóðarinnar. Allar aðrar framleiðslugreinar í landinu, þótt nauðsynlegar séu og óhjákvæmilegar fyrir þjóðlífið, framleiða að mestu vörur fyrir innlendan markað. Afkoma þeirra byggist á því, að til sé gjaldeyrir til kaupa á hráefnum og kaupgeta sé fyrir hendi í landinu til þess að geta selt framleiðsluna.

Íslenzkur iðnaður á nú við mjög mikla örðugleika að stríða. Þeir örðugleikar eru eins og gerist og gengur margvislegir, en þó er það eitt, sem öllu fremur veldur hinni miklu stöðnun og atvinnuleysi í iðnaðinum, en það er þverrandi kaupmáttur almennings. Iðnaðarfyrirtæki liggja með miklar birgðir af framleiðsluvörum, sem ekki fást kaupendur að, ekki vegna þess, að þörfin sé engin, heldur vegna getuleysis hjá almenningi. Hið sama er nú komið á daginn með afurðir landbúnaðarins. Neyzla mjólkur og mjólkurafurða fer minnkandi. Og sama á sér stað um aðrar landafurðir. Þetta fyrirbrigði veldur miklum áhyggjum, og er það óneitanlega kviðvænlegt fyrir bændur, sem hafa margir hverjir staðið í dýrum framkvæmdum til þess að auka framleiðslu sína, að standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að markaður fyrir framleiðsluvörur þeirra minnkar, þegar þeir þurfa að geta selt meira.

Mjólkurneyzla í landinu hefði átt að geta vaxið mikið frá því, sem hún var mest. Það var því full ástæða til þess fyrir bændur að auka framleiðslu sína. Þegar mjólkurvöruneyzlan minnkar, er það glöggt vitni um, að fátækt fer vaxandi í landinu.

Þannig hefur þróunin verið undanfarin ár. Sjávarútvegur hefur færzt saman, rekstrarafkoma hans hefur versnað og hann veitt minni atvinnu, en áður. Iðnaður hefur stöðvazt að verulegu leyti og hvers konar byggingarstarfsemi dregizt saman. Mikill fjöldi verkafólks, sem starfað hefur í þessum atvinnugreinum, stendur nú uppi atvinnulítill eða atvinnulaus. Nú fara áhrifin af þessu að koma fram í allsherjar stöðnun í þjóðfélaginu, almennri vöntun á kaupgetu, sem síðan verkar aftur til aukinnar stöðnunar í atvinnulífinu og þannig áfram, þar til komið er algert kreppuástand og almennt atvinnuleysi. Það er slíkt ástand, sem nú er framundan. Undanfarin ár hefur ríkisstj. stefnt að slíku ástandi. Af hálfu ríkisstj. hefur verið háð barátta gegn of mikilli kaupgetu. Allar ráðstafanir hafa verið miðaðar við það að draga úr þessari kaupgetu. Tollar og skattar hafa verið auknir, svo að hundruðum milljóna nemur. Verðlagseftirlit hefur verið afnumið. Gengi íslenzku krónunnar hefur verið tvisvar lækkað og í þriðja sinn með bátagjaldeyrisálaginu. Dregið hefur verið úr öllum lánveitingum, bæði til bygginga og rekstrar, og ýmsar fleiri ráðstafanir hafa verið gerðar í þessa átt. Áhrifin hafa óhjákvæmilega orðið samdráttur í atvinnulífinu. Þessar aðgerðir allar stefndu til kreppu og öngþveitis. Frjálsi innflutningurinn, eins og hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson, framkvæmdi hann, rak síðan smiðshöggið á þessa þróun. Kreppuástand er þegar skollið á. Atvinnuleysi fer nú dagvaxandi. Það er þegar orðið geysimikið viða úti á landi, og er fyrirsjáanlegt, að mikið atvinnuleysi verður í landinu öllu á næsta vetri, nema gripið sé til skjótra úrræða.

Atvinnuleysi er vágestur, sem Íslendingar þekkja. Við það böl barðist alþýða þessa lands á árunum 1931–39. Allt líf fólks mótast af því allsleysi, sulti og menningarleysi, sem atvinnuleysið hafði í för með sér á þeim árum. Á stríðsárunum og fyrstu árin eftir stríðið var vinna handa öllum. Öllum almenningi tókst að rétta sig úr kútnum og lifa mannsæmandi lífi. Fjöldi alþýðufólks hefur eignazt eigið hús eða íbúð, sæmilegt innbú, getað kostað börn sin til náms og veitt sjálfum sér meiri ánægju í lífinu, en hægt var að láta sig dreyma um á atvinnuleysisárunum fyrir stríð. Þetta var hægt vegna hinnar almennu atvinnu, vegna þess að öll starfsorka þjóðarinnar var hagnýtt. Nú eru að skapast nýir tímar, ef áfram verður haldið á þeirri braut, sem ríkisstjórnin fylgir nú. Nú er skortur og atvinnuleysi. Eins og dýrtiðin er nú, má heimilisfaðirinn ekki vera lengi atvinnulaus til þess, að gjöldin verði ofviða, og þá er voðinn vis og allt það, sem almenningur hefur áunnið sér á undanförnum árum, í hættu. Verði atvinnuleysi almennt í bæjum landsins, eins og nú horfir, er rétt fyrir þjóðina alla að gera sér það ljóst, að í því felst þjóðarböl. Stöðnun verður í iðnaði og verzlun. Markaður landbúnaðarafurða dregst stórlega saman og veldur taprekstri og skuldasöfnun hjá bændum með svipuðu móti og var á kreppuárunum fyrir stríð.

Atvinnuleysið, sem skall yfir Ísland árið 1931, stafaði að verulegu leyti af utanaðkomandi áhrifum. Verðhrun og markaðskreppa í viðskiptalöndunum var upphafið. Nú hefur ekkert slíkt skeð, enn sem komið er erlendis. Enn er hægt að fá markað erlendis fyrir alla okkar framleiðslu á sæmilegu verði. Í nokkrum greinum hefur verðið lækkað, einkum vegna skyndilegrar og óeðlilegrar hækkunar, sem stóð í sambandi við Kóreustyrjöldina. Það er ekki þess vegna, að miklar birgðir sjávarafurða liggja óseldar í landinu. Það er ónytjungsskapur ríkisstj. og herfileg mistök, sem valda því fyrst og fremst, að svo er komið. Kreppa sú og atvinnuleysi, sem nú er að skella yfir landið, er því að kenna íslenzkum stjórnarvöldum einum. Það er orðin óhjákvæmileg nauðsyn, að breytt verði um stefnu í íslenzkum stjórnmálum. Ef ríkisstj. vill ekki viðurkenna þá staðreynd, verður þjóðin að grípa til sinna ráða þegar þar að kemur.