27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

1. mál, fjárlög 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil segja aðeins örfá orð nú við þessa umr. Ég vil fyrst þakka meiri hl. fjvn. fyrir afgreiðslu hans á fjárlagafrv. nú við 2. umr. Það hefur tekizt gott samstarf á milli meiri hl. og ríkisstj. um afgreiðslu málsins, og það liggur nú fyrir, að með því að gæta hófs um hækkun útgjaldaliða á fjárlagafrv. er hægt að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög fyrir árið 1953 án þess að hækka skattaeða tollaálögur. Takist þetta, eins og horfir nú við 2. umr. eftir till. meiri hl. fjvn., þá verða þetta fjórðu fjárlögin, sem afgreidd hafa verið frá hv. Alþ., án þess að grípa hafi þurft til hækkunar á sköttum eða tollum. Það þarf ekki að rekja það, hversu langt er siðan slíkt hefur heppnazt. Ég vona, að engir þeir hlutir eigi eftir að gerast, sem geri það að verkum, að þessu takmarki verði ekki náð.

Ég get lýst því yfir, að yfirleitt er ég samþykkur þeim brtt., sem hv. meiri hl. fjvn. gerir við fjárlagafrv., eins og raunar hefur þegar komið fram í þeim orðum, sem ég hef sagt.

Um nál. minni hl. og framsögur þeirra hv. þm., sem að þeim standa, er ekki ástæða til þess að vera fjölorður. Því miður var ég önnum kafinn við störf, sem ekki þoldu neina bið, og tókst því þannig til, að ég heyrði ekki framsöguræðu þess hv. þm., sem nú var að ljúka máli sínu, en hann hafði framsögu fyrir nál. 2. minni hl. fjvn. Ég get því ekki gert ræðu hans að umtalsefni þegar af þeirri ástæðu. En ég heyrði aftur á móti ræðu hv. 5. landsk. þm. (ÁS), sem talaði fyrir nál. sínu, en hann skipar 1. minni hl. n. Þessi nál. eru í raun og veru bæði byggð á sömu grundvallarhugsuninni, en hún er sú að krefjast þess, að það verði felldir niður tollar og felldir niður skattar, en jafnhliða eru heimtuð stóraukin fjárframlög úr ríkissjóði. Þessar álitsgerðir eru sem sé byggðar á því að deila á þingmeirihlutann fyrir allt of háar skattaálögur og jafnhliða að deila á þann sama þingmeirihluta fyrir að vanrækja framlög til ýmissa nauðsynlegra mála. Þessi nál. dæma sig sjálf.

Hv. 5. landsk. kvaðst hafa lagt það til í fyrra í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna, að fjvn. tæki sér fyrir hendur að hugsa upp möguleika til þess að lækka ríkisútgjöldin, en þessu hefði verið illa tekið í n. Þessi hv. þm. kvartaði nú yfir þessu. Ég vil benda honum á það nú, á svipaðan hátt og ég hef gert áður, að hann á sjálfur setu í fjvn., hefur góða aðstöðu til þess að þekkja til þessara mála og hefur nú haft nægan tíma til þess að hugsa, því að hann er búinn að sitja í n. í mörg ár. En honum hefur ekki tekizt betur að notfæra sér þennan tíma, sem hann hefur haft til umhugsunar, heldur en það, að engar nýtilegar till. koma frá hv. þm. eða hafa komið í þá átt að koma fram sparnaði í ríkisrekstrinum. Ég held þess vegna, að þessi hv. þm. ætti að fara fram á það við flokksbræður sína, að hann yrði ekki oftar settur í þann vanda að vera þeirra fulltrúi í fjvn., því að fyrst honum hefur ekki tekizt betur, en orðið er að gera grein fyrir stefnu sinni í till., þótt hann hafi hugsað sig um í mörg ár, þá sé vonlaust, að honum takist betur framvegis. Hann sé sem sagt orðinn fullreyndur.