27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

1. mál, fjárlög 1953

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. á þskj. 314 við frv. til fjárlaga fyrir árið 1953 og við brtt. á þskj. 282. Það er í fyrsta lagi rómv. Il, við 13. gr. fjárlaganna, c-lið, rómv. VIII, nýr liður, til hafnarframkvæmda á Hellnum í Breiðuvík, 15 þús. kr. Þessari beiðni hefur hvorki verið beint til vitamálaskrifstofunnar né til hv. fjvn., sem stafar af því, að hafnarnefnd Hellna kom svo seint fram með þessa beiðni, að hún barst mér fyrst í hendur í gær. Ég tel víst, að hefði þessa beiðni borið að nógu snemma, þá hefði bæði vitamálaskrifstofan og sömuleiðis hv. fjvn. mælt með því, að þessi upphæð yrði veitt, þar sem hér er um mjög aðkallandi mál að ræða í sambandi við hafnarbætur á þessum stað.

Þá er önnur brtt. mín á sama þskj., rómv. VII. Það er einnig nýr liður, breyt. við 15. gr. A. XXV. Er það fjárframlag til lúðrasveitar Stykkishólms, gegn a.m.k. jafnmiklu framlagi annars staðar að, 10 þús. kr. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er veitt töluvert af almannafé í fjárlögum til lúðrasveita og til annarrar slíkrar starfsemi. Lúðrasveit Stykkishólms hefur starfað í mjög mörg ár, var upphaflega stofnuð 1914 og hefur starfað síðan að mestu óslitið í Stykkishólmi. Þeir, sem hafa heyrt í þessari hljómsveit, telja hana mjög færa í sínu starfi, og undrast margir, að jafnfámennt kauptún og Stykkishólmur skuli hafa jafngóða lúðrasveit innan sinna vébanda. Það er farið fram á þessa fjárveitingu nú af þeirri ástæðu, að lúðrasveitin hefur orðið að afla sér nýrra hljóðfæra og hefur þröngan fjárhag til þess að geta sinnt málefnum sínum svo sem þörf er á.

Báðar þessar till. vil ég þó leyfa mér að taka aftur til 3. umr. fjárl. Ég mun þá endurflytja þær í þeirri von, að hv. alþm. geti fallizt á að ljá þeim liðsinni.