27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

1. mál, fjárlög 1953

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla með örfáum orðum að mæla fyrir tveim brtt., sem ég er 1. flm. að og flyt ásamt þrem öðrum hv. þm.

Hin fyrri er um 8 þús. kr. framlag til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Félag þetta var stofnað fyrir rúmu ári hér í Rvík og hefur það markmið að veita lömuðum og fötluðum aðstoð í baráttu sinni við sjúkdóm sinn. Félagið hefur hafið fjársöfnun og orðið allvel ágengt í starfi sínu og þegar hafizt handa um ýmsar framkvæmdir í þágu þessa sjúka fólks. Eitt af því, sem félagið hófst handa um á s.l. sumri, var,. að það réð sérfróðan lækni til þess að ferðast um ákveðinn landshluta, nokkurn hluta af Vestfjörðum, til þess að safna skýrslum um það, hversu margir kynnu að reynast sjúkir á því svæði. Grunur hafði nefnilega leikið á um, að ekki væri með vissu vitað, hversu mikið kvæði að slíkum sjúkdómi hér á landi, og reynslan varð sú, að miklu meira virtist kveða að þessum sjúkleika, en grunur hafði áður verið á um. Hinn sérfróði læknir fann á þessum ákveðna hluta Vestfjarða, sem ferðazt var um, miklu fleiri sjúkdómstilfelli, en vitað hafði verið um áður, svo að ótvírætt kom í ljós, að þörf mundi vera á því, að sérfróður maður ferðaðist um land allt til þess eins að safna skýrslum um það, hversu margir væru haldnir þeim sjúkdómi, sem hér er um að ræða, og væru því læknisþurfi.

Félagið er reiðubúið til þess að leggja fé af mörkum til þess, að þessi starfsemi megi halda áfram, en er þess ekki megnugt að kosta hana upp á eigin spýtur að öllu leyti, og þess vegna er það, sem við berum fram þessa till., að því verði veittur þessi litli fjárstyrkur, 15 þús. kr., til þess að þessi skýrslusöfnun megi halda áfram. Vona ég, að hv. þm. sjái, að hér er mikið nauðsynjamál á ferðinni, og greiði því atkvæði sitt, að félagið verði styrkt með þessari litlu fjárupphæð.

Hin till. er um það að veita Jóhannesi Áskelssyni jarðfræðingi 8 þús. kr. til rannsókna á íslenzkum surtarbrandsjarðlögum og plöntusteingervingum, einkum við Brjánslæk á Barðaströnd, en einnig víðar á landinu. Jóhannes Áskelsson menntaskólakennari er einn af kunnustu jarðfræðingum þjóðarinnar og hefur þegar mikið fengizt við rannsóknir á þessum efnum, ekki aðeins hér á landi, heldur hefur hann einnig ferðazt til nágrannalanda, fyrst og fremst til Norðurlands og Skotlands, til hliðstæðra rannsókna. Hann hefur ritað allmikið í erlend og innlend sérfræðirit um þessar rannsóknir sínar og fullyrðir þar, að hinir íslenzku plöntusteingervingar séu stórum fjölskrúðugri og fróðlegri helmildir um jarðsögu hinnar atlantísku basaltmyndunar og þá um leið jarðsögu Íslands, en hliðstæðir steingervingar úr surtarbrandslögum nágrannalandanna. Einkum telur hann, að surtarbrandslögin hjá Brjánslæk á Barðaströnd séu merkilegt rannsóknarefni. Það leiðir af líkum, að opinber starfsmaður hefur ekki tíma til þess að fást mikið við þessar rannsóknir í tómstundum sínum og verja til þess því fé, sem nauðsynlegt er, ef hann hefur til þess engan styrk. Og þess vegna er það, að við fjórmenningarnir höfum borið fram þessa till. um, að þessi vísindastörf yrðu styrkt með 8 þús. kr. Vona ég, að hv. þm. ofbjóði sú fjárhæð ekki, þegar um slíkt verkefni er að ræða.

Ég vil enn fremur taka það fram, að í bréfi til hv. fjvn. hefur Jóhannes Áskelsson lýst því yfir, að náttúrugripasöfn hans, sem eru allmikil og merkileg, muni á sínum tíma verða afhent jarðfræðideild hins íslenzka náttúrugripasafns, öllum að kostnaðarlausu, svo að ríkið mun þar á sínum tíma eignast allmikið verðmæti. Og með tilliti til þess, að vitað er, að þessi vísindamaður mun þannig gera árangurinn, bæði hinn sýnilega og fræðilega árangur af þessum rannsóknum sínum, að almenningseign, þá finnst mér það enn mæla með því, að hv. Alþingi taki vel í þessa mjög svo hóflegu tillögu okkar um styrk honum til handa.