27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

1. mál, fjárlög 1953

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. á þskj. 314 varðandi það framlag, sem í frv. er ákveðið til flugvallagerðar, og að vísu með þeirri athugasemd, að sú upphæð, sem ég þar fer fram á að verði við aukið, sé notuð til þess að stækka, þ.e.a.s. að lengja Vestmannaeyjaflugvöll, til þess að hann komist sem fyrst í fullöruggt horf. Umferð um þennan flugvöll er orðin fjarska mikil. Má t.d. á það benda, að á s.l. ári var flogið á þennan stað tvo daga af hverjum þremur árið um kring. Flugbrautin er aðeins ein, þ.e.a.s., það liggur ekki krossbraut þar, heldur ein löng braut, og fyrir því er það oft svo, að vindstaða er nokkuð óheppileg til lendinga, og verður þó að notast við þá aðstöðu, sem fyrir hendi er. En til þess að slíkt megi verða, er nauðsynlegt, að svo einhæfur völlur hafi nægilega lengd, þannig að vélarnar hafi nægt pláss til þess að renna á. Þessi völlur var upphaflega 800 m á lengd og hefur verið lengdur upp í 1.000 metra, en þyrfti nauðsynlega, til þess að geta heitið sæmilega öruggur, að verða 1.200 m á lengd.

Nú er það svo, að þarna er oft ærið veðrasamt, og eins og ég sagði áður, verður oft að notast við lakari flugskilyrði, en ella mundi. — Í nærfellt tvö ár hafa umbætur á þessum stað svo að segja legið niðri bæði árin og alveg á þessu ári. Ég tel það mjög óforsvaranlegt og hef þess vegna ekki viljað láta undir höfuð leggjast að benda á og gera tilraun til að fá hið háa Alþingi til þess að veita fé, sem nægja mætti til þess að fullgera þessa flugbraut, eins og ég áður sagði. Það er að vísu kostnaðarsamt verk, því að það kostar allmikla uppfyllingu á vesturenda hennar. Austur verður hún varla lengd til muna, þar sem sjórinn tekur við, eins og vitað er.

Nú kann að vera, að þeir, sem yfir fjármálunum ráða á þessu þingi, mundu segja, að ég hefði átt að koma fram fyrr með till. slíka sem þessa. Er þá því til að svara, að ég hef ekki fyrr en alveg nýlega fengið staðfestingu á því frá hv. flugmálastjóra, að af þeirri fjárveitingu, sem í frv. er, sé ekki neitt, sem hann geti lofað til þeirra framkvæmda, sem ég hér fer fram á, en ég hafði lengst af vonað, að þar mundi nokkur úrlausn verða á gerð. Þegar svo er komið, þá verð ég, um leið og ég bið hv. fjvn. afsökunar á þessum drætti, samt sem áður og tel nægan tíma til að gera tilraun til að fá úr þessu bætt. Fyrir því hef ég leyft mér að flytja þessa brtt., sem ekki er svo stórvaxin, að hún ætti að geta valdið umróti, þegar horft er fram á þann tekjuafgang, sem hv. frsm. fjárlaganefndarinnar lýsti að yrði á þessu ári og aðrir hv. þm., sem hér hafa talað, sumir hverjir, hafa talið að yrði miklu meiri en hann gerði þó ráð fyrir. Annars verð ég að segja það, að eins og flugsamgöngur eru orðnar miklar hér á landi, þá undrar mig, hversu smávaxin sú upphæð er í frv., — ekki frekar frá hálfu hæstv. n. heldur en frá hálfu hæstv. ríkisstj., — sem ætluð er til flugvallagerðar. Það eru í frv. 1 millj. og 300 þús. kr. nú, sem virðast eiga að deilast um allt land, þar sem þessara framkvæmda er þörf. Nú er þess að gæta, að í sambandi við gerð flugvalla er það meira en moldin sjálf, sem þarf að vinna á, eða grundin. Flugvallagerðinni tilheyrir ýmiss konar öryggisútbúnaður, sem völlunum er talinn nauðsynlegur og er nauðsynlegur, og gefur auga leið, að fyrir 1 millj. og 300 þús. kr. er ekki hægt að fullnægja nema örlitlu af þeim bráðnauðsynlegustu þörfum, sem fyrir hendi eru í þessu efni. Þetta er þeim mun furðulegra, þegar þess er gætt, að þrátt fyrir það að fjárlagafrv. vaxi að tölum hröðum þrepum og útgjöldin verði nálægt 400 millj. kr., þá stendur þetta atriði svo að segja í stað. Það er eiginlega nokkuð táknrænt, — og það er ekki nýlunda hér á Alþingi, — að þessum málum og öryggi þeirra er á vissum köflum minni gaumur gefinn en skyldi.

Ég skal ekki hafa hér um fleiri orð, en ég flyt með þessari brtt. ekki aðeins nauðsyn Vestmannaeyinga, heldur fjölda margra annarra manna, sem þessa leið þurfa að fara. Till. miðar að því að auka svo sem unnt er að þessu leyti það öryggi, sem þarf að vera á Vestmannaeyjaflugvelli. Vonast ég til, að hv. fjvn. og aðrir hv. ráðamenn taki þetta mál til íhugunar, áður en fjárlögin verða endanlega afgreidd.