27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

1. mál, fjárlög 1953

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja örfáar brtt. við fjárlfrv. að þessu sinni og vildi leyfa mér að gera grein fyrir þeim í stuttu máli.

Það er fyrst brtt. á þskj. 314, um að fé verði veitt til tveggja ferjuhafna við Ísafjarðardjúp. Að því hefur verið unnið s.l. 10 ár að bæta afgreiðsluskilyrði fyrir flóabát þann, sem gengur um Djúpið og flytur mjólk og aðrar búsafurðir bænda, með þeim árangri, að þar er nú búið að koma upp einum 6 ferjubryggjum. Þetta er til stórkostlegs hagræðis fyrir bændur í héraðinu og flýtir einnig mjög fyrir afgreiðslu flóabátsins. Hv. Alþ. er kunnugt um þessar framkvæmdir, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þær.

Vil ég aðeins leggja áherzlu á það, að brýna nauðsyn ber til þess, að framlengd verði ferjubryggjan í Vatnsfirði, en ég legg til, að til hennar verði veittar 100 þús. kr. Það mundi sennilega nægja til þess að lengja mannvirkið nægilega til þess, að af því yrðu full not, en svo er ekki nú, þar sem flóabáturinn flýtur ekki við bryggjuna, nema þegar hásjávað er.

Svipuðu máli gegnir um Melgraseyri, en ég hef flutt till. um 90 þús. kr. fjárveitingu til þeirrar ferjubryggju. Segja má, að það sé jafnvel enn þá nauðsynlegra að lengja þá bryggju, þar sem Melgraseyri er nú endastöð fyrir bifreiðaferðir frá Reykjavík að Djúpi, og er raunar óhætt að fullyrða, að það sé mjög miklum vandkvæðum bundið að hafa þar endastöð, meðan bryggjan er ekki lengri og fullkomnari, en hún nú er.

Ég hafði skrifað fjvn. um bæði þessi hafnarmannvirki og hafði gert mér von um, að hún mundi taka þau upp í brtt. sínar. Hún hefur ekki gert það, en þar sem ég veit, að hv. n. hefur ekki að fullu lokið till. sínum, geri ég ráð fyrir því, að þess megi ef til vill vænta, að hún taki einmitt þetta til athugunar milli umr. Ef ég verð þess áskynja, að hv. n. hafi það í hyggju, þá er ég fús til að taka þessar brtt. aftur til 3. umr.

Önnur brtt., sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum hv. þm., er um bætur til handa því fólki og aðstandendum þess fólks, sem varð fyrir hinu sorglega slysi, sem varð á Bolungavíkurvegi sumarið 1951. Ég flutti slíka till. á siðasta hv. Alþ., og munaði þá litlu, að hún yrði samþ. Nú flyt ég — ásamt nokkrum öðrum hv. þm.till. um nokkru lægri bætur, 140 þús. kr.

Efni þessa máls er það, að í þessu slysi létust tveir menn og tveir stórslösuðust. Langferðabifreiðin, sem flutti fólkið, gerónýttist. Þannig hagar til, að þetta fólk eða aðstandendur þeirra, sem létust, getur engar bætur fengið. Annar þeirra manna, sem stórslösuðust, verður örkumlamaður alla sína ævi. Þetta fólk fær, elns og ég sagði, hvorki slysa- né örorkubætur, og venzlamenn þeirra, sem létust, fátækt fólk og gamalt, fær heldur engar bætur. Fátækur maður, sem átti bifreiðina, fær hana ekki heldur bætta hjá tryggingarfélagi sínu. Ég held, að það skapi ekki hættulegt fordæmi að koma nokkuð til móts við það fólk, sem svo hörmulega hefur verið leikið, og bæta því lítillega þann miska og meiðsl, sem það hefur orðið fyrir. Ég hygg þess vegna, að hv. Alþ. geti með góðri samvizku samþ. brtt. sem þessa.

Þriðja brtt., sem ég flyt, er um, að veittar verði 15 þús. kr. í stofnstyrk til Handíðaskólans í Reykjavík. Þessi skóli er ein hin þarfasta menntastofnun hér á landi og bætti úr brýnni nauðsyn fyrir slíka skólastofnun. Hún hefur aldrei fengið neinn stofnstyrk frá ríkissjóði. Hins vegar hefur nú á síðari árum hafizt um hana nokkur samvinna milli hins opinbera og þess einstaklings, sem af miklum ötulleik og dugnaði hefur barizt fyrir þessari menntastofnun. Við, sem þessa brtt. flytjum, væntum þess, að hv. þm. meti það merka skólastarf, sem þarna hefur verið unnið, svo mikils, að þeim þyki ekki fram á mikið farið, þegar flutt er till. um 15 þús. kr. stofnstyrk til handa þessari stofnun, en mér er kunnugt um það, að fjárhagur hennar er mjög þröngur, og gæti þessi litilfjörlega fjárveiting greitt nokkuð götu hennar, a.m.k. næstu mánuði og ár.

Fjórða till., sem ég flyt einnig ásamt nokkrum öðrum hv. þm., er brtt. við 22. gr. fjárl., um að greiða Jóni Björnssyni rithöfundi 20 þús. kr. byggingarstyrk. — Það er alkunna, að Alþ. hefur á undanförnum árum og áratugum veitt einstökum listamönnum, sem átt hafa við fjárhagslega erfiðleika að búa, byggingarstyrk. Fyrst og fremst munu slíkar fjárveitingar hafa verið veittar málurum, sem mjög hafa þurft á því að halda að geta unnið störf sín í sæmilegum húsakynnum. Hins vegar er það auðsætt, að menn, sem vinna önnur listastörf, eins og t.d. rithöfundar, eiga litlu hægara með að búa í gersamlega óviðunandi húsnæði. Svo stendur á um þennan rithöfund, sem brtt. er flutt um að fái 20 þús. kr. byggingarstyrk, að hann býr í bragga hér, svo kölluðum Herskálakamp, við skilyrði, sem eru — mér liggur við að segja gersamlega óviðunandi og naumast mannsæmandi. Ég hygg, að hér eigi að hafa svipaðan hátt á og gagnvart málurunum og einhverjum myndhöggvurum áður og koma lítillega til móts við þennan listamann, ef þessi lága upphæð, sem brtt. er um, mætti verða til þess, að aðstaða hans batnaði lítillega, en mér er kunnugt um, að þessi upphæð mundi nægja til þess, að gata hans yrði greidd verulega í þessum efnum.

Ég vildi svo aðeins minnast lítillega á brtt., sem ég er meðflm. að á þskj. 314, um að veittar verði 500 þús. kr. til byggingar nýs kennaraskóla. Ég geri ráð fyrir, að 1. flm. till., hv. 7. þm. Reykv., muni mæla fyrir henni. En ég vil aðeins leggja áherzlu á það, að þessi skóli, Kennaraskóli Íslands, er langsamlega hraklegast á vegi staddur allra skóla hér í höfuðborginni um húsnæði sitt, og er all illt til þess að vita, að sú skólastofnun, sem á að ala upp og mennta sjálfa kennarastétt landsins, skuli vera svo illa á vegi stödd um húsnæði. Skólinn er í eldgömlu húsi, sem engan veginn fullnægir þeim kröfum, sem gera verður til slíks skólahúss. Ég hygg, að það megi ekki dragast lengur, að Alþ. sýni nokkurn lit á því, að úr húsnæðisvandamáli þessarar skólastofnunar verði bætt.

Að lokum vil ég svo segja það, að ég sætti mig sæmilega við till. hv. fjvn. varðandi fjárveitingar til framkvæmda í mínu héraði, Norður- Ísafjarðarsýslu. Ég vil þó aðeins endurtaka það, sem ég hef drepið á áður við fjárlagaumræður, að fyllsta ástæða væri til þess, að það hérað landsins, sem ég hygg að sé allra héraða verst á vegi statt um vegabætur, nyti nokkurrar sérstöðu, fengi langsamlega hæstar fjárveitingar til umbóta á þessu sviði, til vega- og brúargerða. Svo hefur nú ekki verið á undanförnum árum og svo er ekki enn. En allverulegar fjárupphæðir eru samt veittar samkv. till. hv. n. í þessu skyni og sé ég ekki ástæðu til að gagnrýna það. Ég veit, að hv. n. hefur í mörg horn að líta, nú ekki síður en áður. Ég vil þó vekja athygli á því, að fjárveiting sú, sem ætluð er til brúargerða í héraðinu, á eina á, sem er á aðalþjóðveginum út með Ísafjarðardjúpi að vestanverðu, Ísafjarðará, nægir engan veginn til þess, að hægt verði að byggja þessa brú á komandi sumri. Það er því aðeins, ef lán fengist á móti framlagi ríkissjóðs gegn fjárveitingu síðar, sem slíkt yrði unnt, eða ef heimilað yrði að vinna fyrir hærri upphæð við þetta mannvirki, heldur en veitt er í fjárl. Það má vera, að það sé nauðsynlegt að búta svona í sundur fjárveitingar til einstakra brúarmannvirkja, sérstaklega þegar um dýrar brýr er að ræða, en það er engu að síður mjög óhentugt. Þessi á er á aðalþjóðveginum út með Ísafjarðardjúpi, sem nú er verið að leggja og verður lögð megináherzla á á næstu árum, en að þeim vegi verður litið gagn fyrr en þessi á hefur verið brúuð.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þessar brtt., en vænti þess, að þar sem svo mjög er í hóf stillt í brtt. mínum, þá megi vænta þess fylgis við þær, að þær nái samþykki.