27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

1. mál, fjárlög 1953

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það lítur nú út fyrir, að hægt verði að ljúka þessum umr. alltímanlega, því að bæði er það, að óvenjulega fáar till. hafa borizt við þessa umr., og að það er ekki mjög margt, sem ég þarf að svara hér í sambandi við umr. síðan ég hélt mína framsöguræðu. Ég vil þó aðeins svara hér nokkrum atriðum, sumpart þeim, sem hefur verið beint til mín út af ákveðnum till., og sumpart út af þeim orðum, sem fallið hafa hér í umr.

Hv. 5. landsk., frsm. 1. minni hl. fjvn., sagði hér áðan í sinni framsöguræðu, að Alþingi hefði verið blekkt við afgreiðslu fjárlaganna fyrir árið 1951. Mér þykir rétt að leiðrétta þennan misskilning hjá hv. frsm. minni hlutans. Það hefur verið margsinnis upplýst hér á Alþingi, að afgreiðsla fjárlagafrv. fyrir 1951 var gerð á þann veg, að tryggt væri, að ekki yrði greiðsluhalli á fjárlögunum, þótt ekki fengist sá tekjustofn, sem síðar var um samið. Þetta veit hv. frsm. mjög vel, og allar fullyrðingar hans um blekkingar í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna það ár eru því heilaspuni einn. — Það er annað atriði, sem ég gjarnan vildi leiðrétta hér í sambandi við hans ræðu. Hann sagði, að það hefði verið hörkurifrildi í fjvn. um hverjar 5 og 10 þús. kr. till. til menningarmála. Mér þykir illa mælt, að einn af okkar ágætu meðnm. skuli láta slík ummæli frá sér fara hér í Alþingi, því að sannleikurinn er sá, — og ég segi það mínum meðnm. til hróss, — að þar hefur ekkert rifrildi átt sér stað. Það væri ekki hægt að rífast þar, nema því aðeins að einhver mótmæli hefðu komið um ákveðin mál. Þau hafa öll verið rædd með fullri ábyrgð af meiri hl. n., og þá sjaldan að mótmæli hafa komið frá minni hlutanum, hafa þau ekki skapað neitt rifrildi. Þau hafa verið flutt, bæði af hv. 1. minni hl. og hv. 2. minni hl. með fullri prúðmennsku og hafa ekki gefið tilefni til neins rifrildis, enda venjulega felld án frekari umræðna. Þykir mér rétt að láta þetta koma fram, vegna þess að ég kann því illa, að einn af okkar meðnm. skuli vera að bera út slíkar ósannar slúðursögur.

Þá minntist hv. frsm. minni hl. á húsaleigu ríkisins. Það er alveg rétt, sem hann heldur fram, að ríkið greiðir svo og svo mikið fé í húsaleigu, ef til vill þá upphæð, sem hann hefur minnzt á, — ég hef nú ekki reiknað það saman, — en, ég vil þá benda honum á, að til þess að ríkið gæti sparað alla þá húsaleigu, þyrfti það að fjárfesta að minnsta kosti 20 millj. kr. eða jafnvel stærri upphæð, til þess að koma upp slíkum húsakynnum sem það leigir nú af öðrum. Og ég hygg, að það yrði að skera allverulega niður á fjárl. nauðsynlegar framkvæmdir, ef á einu ári ætti að byggja yfir allar skrifstofur ríkisins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara neinu öðru í ræðu hv. frsm. 1. minni hl. en því, sem. ég þegar hef minnzt á.

Hv, frsm. 2. minni hl. sagði hér, að þetta væri ómerkileg afgreiðsla fjárlaganna nú við 2. umr., vegna þess að ýtt hefði verið til hliðar öllum stærstu málunum. Þessi ummæli hv. frsm. 2. minni hl. eru byggð á hreinum misskilningi og stafa sjálfsagt af því, að hann hefur vegna anna ekki getað tekið þátt í síðustu fundunum, þegar þessi mál voru afgr. Og hefur hann því sagt hér meira, en hann hefur vitað um. Það er rétt, sem ég tók fram í framsöguræðu minni, að nokkur atriði hafa verið sett til hliðar, m.a. 20. gr., en það er ekki neitt, sem veltur á um afgreiðslu fjárlaganna almennt, ef ekkert nýtt kemur til. Get ég fullvissað um, að það verða engar stórkostlegar breytingar á því, sem hafa nein veruleg áhrif á afgreiðslu fjárlaganna, þótt það hafi verið látið bíða. Það er því allt annað, en að aðeins sé verið að fullnægja forminu um afgreiðslu fjárl. hér. Það er verið að fullnægja þeim lagafyrirmælum, sem ákveðin eru um, hvernig skuli farið með fjármál. Og það er siður en svo, að það hafi verið undirbúið lakar nú, en önnur þau ár, sem ég hef þekkt til hér, meðan ég hef verið á þingi.

Þá talaði hv. frsm. 2. minni hl. nokkuð um risnufé og getur einnig um það í sínu nál., að allir stjórnarstuðningsmenn hafi rétt upp hendurnar gegn því, að það væri tekið af. Ég hef lýst því í minni framsöguræðu, hvernig farið hefur verið að því að bæta mönnum upp laun að ýmsum leiðum í embættum í landinu, og skal ekki endurtaka það. En mér þykir rétt að segja frá því í sambandi við þetta mál, vegna þess að hér var um að ræða risnufé til nokkurra aðila í stjórnarráðinu, sem hafa haft þetta í fjöldamörg ár, að einmitt í þessari stofnun er svo að segja engin — eða jafnvel engin yfirvinna. Og meiri hl. fjvn. sá ekkert réttlæti í því að breyta hér um á þessum eina stað, á meðan ekki væri hægt að koma því fram á öðrum stöðum. En ég hef gert grein fyrir því annars staðar, hversu það muni vera erfitt fyrir fjvn. að fá þar nokkrar breyt. á.

Ég vil hins vegar benda hv. frsm. 2. minni hl. á það, sem honum er vel kunnugt, að þegar farið var að rannsaka, í hvaða embættum það væri, sem helzt þyrfti að grípa til sparnaðar, þá var síður en svo, að þau embætti væru undanskilin, sem ýmist hafa verið stofnuð af hans ágætu flokksmönnum eða hans ágætu flokksmenn stjórna nú. Skal ég svo ekki ræða frekar um það atriði.

Hv. frsm. sagði, að iðnaðurinn hefði verið lagður í rústir, leikinn grátt vegna innflutnings á alls konar vörum. Um það atriði skal ég ekki deila hér. Hann getur deilt um það í hv. Nd. við hæstv. viðskmrh., en ég vil mótmæla því, sem hann sagði hér, að veittar væru aðeins 700 þús. kr. til iðnaðarmálanna, eins og hann lýsti í sinni ræðu. Það verður ákaflega erfitt að gera upp á milli þess, hvað er raunverulega til iðnaðar, sjávarútvegs eða landbúnaðar, þegar öllu er á botninn hvolft. Þetta grípur svo hvað inn í annað. Og erfitt verður að segja m.a., að ekkert af því, sem fer til raforkumálanna, sé viðkomandi iðnaðinum. Þess utan er nú iðnfræðslan á bls. 32 í frv. nærri 500 þús. kr. Er það þó beint framlag til iðnaðarmálanna. Sama má segja um ýmislegt annað, svo sem framlag til ríkisprentsmiðjunnar eða það fé, sem ríkissjóður leggur til hennar á hverju ári, landssmiðjunnar, tunnuverksmiðja, verksmiðjueftirlitsins o.fl., o.fl. Ég vil aðeins taka upp þessi dæmi. Það sýnir greinilega, að hv. frsm. 2. minni hl. hefur mælt hér án þess að hugsa, þegar hann fullyrti um þetta hér áðan.

Hv. frsm. minntist hér á, að rétt væri, eftir að ég hefði gefið þær upplýsingar, sem koma fram í nál. og minni ræðu, að afgr. nú ný launalög. Ég hef sannað það bezt með minni ræðu, hversu það væri ógerlegt að starfa undir þeim launalögum, sem nú væru í landinu. Nákvæmlega þessi sömu rök voru færð fram þegar launalögin voru endurskoðuð síðast, að það þyrfti að leiðrétta laun hinna lægst launuðu og laga launalögin í heild vegna þess misræmis, sem þá var í launakjörum starfsmanna ríkisins. En hvernig fór svo, eftir að þau launalög voru sett? Þá var öllum uppbótunum, sem embættismennirnir fengu eftir gömlu l., haldið, þrátt fyrir það þótt búið væri að setja ný launalög, og ekki einu sinni að þeim væri haldið, heldur var líka greidd víðast hvar vísitöluuppbót á þær bætur, sem þó var búið að fella inn í hin nýju launalög. Ef ætti að fara eins að hér, þá væri að fara úr öskunni í eldinn í sambandi við greiðslur til starfsmanna ríkisins. — Hann sagði einnig, að það hefði komið fram í minni ræðu, að rétt væri að veita meira aðhald þeim stofnunum, sem væru reknar af ríkinu. Það er alveg rétt. En ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á, að á sínum tíma flutti Sjálfstfl. frv. um ríkisráðsmann, á meðan hv. þm. Vestm. sat sem fjmrh., en ég hygg, að þá hafi flokkur þessa hv. þm. staðið á móti því, að þær umbætur væru gerðar. Kynni að vera, að ástandið í þessum málum væri ekki slíkt sem því hefur verið lýst nú, ef sú till. hefði náð fram að ganga.

Hv. þm. Snæf. hefur borið hér fram till. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þær neitt sérstaklega. N. mun athuga milli 2. og 3. umr., hvort ástæða sé til þess að taka upp till. um Hellnar, en að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að óska eftir, að neinar aðrar af hans till. verði teknar aftur. Annars ræður hann því að sjálfsögðu sjálfur.

Hv. 4. landsk. minntist á till. sína um sjúkrahús á Akureyri. Þetta hefur verið rætt í n. Það lá ekki fyrir henni neitt erindi um þetta, en ég hygg, að það sé ekki möguleiki fyrir því, að n. taki upp þessa tillögu. Það er ýmislegum öðrum liðum að sinna í sambandi við heilsugæzlumálin. Ég hygg, að það verði ekki rúm fyrir hans till., nema því aðeins að það sé hægt að benda á frekari tekjur. — Um till. hans um brú á Glerá skal ég upplýsa, að þetta hefur einnig verið athugað í n. og talið, að það mundi ekki standa á því eina atriði, hvort brúnni yrði lokið á þessu ári, þó að vantaði þær 50 þús. kr., sem hann gat um og við vitum um að þarf til lokagreiðslu. Ef hann athugar um aðrar brýr, þá hefur ekki heldur verið sett full greiðsla til þess að ljúka þeim, og eiga ekki að þurfa að verða nein vandræði af.

Hv. 3. landsk. minntist nokkuð á till. sína á þskj. 214 um að styrkja skýrslusöfnun um lamað fólk. Ég vildi spyrja hv. 4. þm. Reykv., hvort þetta hefur ekki verið að nokkru leyti gert af Tryggingastofnun ríkisins eða hvort það sé ekki í hennar verkahring. Ég minnist þess, að það fór fram fyrir nokkru skýrslusöfnun um alla öryrkja í landinu. Ég geri ráð fyrir því, að það falli einmitt undir þann lið og Tryggingastofnun ríkisins ætti að hafa með höndum að safna skýrslum um alla lamaða menn í landinu. Ég sé ekki, að það ætti að þurfa að leggja sérstaklega fé úr ríkissjóði til þess að afla þeirra upplýsinga, en till. fer einmitt fram á, að það verði gert.

Hin till. hans er um að veita nokkurt fé til Jóhannesar Áskelssonar í sambandi við vísindarannsóknir á Vestfjörðum. Fjvn. hefur athugað þetta mál, og hún hefur ekki getað orðið sammála um að leggja til, að fé verði til þess veitt. Ég vil í sambandi við þetta gjarnan upplýsa, að þessi ágæti maður hefur allverulegar tekjur fram yfir sín laun, eins og aðrir menntaskólakennarar, og skal ég leyfa mér að vísa í mína fyrri ræðu um þau atriði, og sé ég ekki, hvers vegna hann ætti sérstaklega að verðlaunast til þess að gera slíkt starf, eftir að hafa allar þær launauppbætur, sem hann hefur í þeim skóla, og síðan þriggja mánaða frí frá störfum. En færi svo, að meiri hl. Alþ. vildi samþ. þessa till., þá þætti mér illa við eiga, ef ekki yrði hækkaður styrkur til Guðmundar Kjartanssonar til rannsókna og vísindastarfa, því að mér er það ljóst, að þær 15 þús. kr., sem hann hefur á 15. gr., notar hann allar til þess að greiða kennara, er gegnir starfi hans á veturna, svo að hann geti unnið að þeim verkefnum, sem hann aflar sér á sumrin. Hann vinnur því þetta verk raunverulega án þess að fá nokkuð fyrir það og leggur þó í það alla sína vinnu yfir sumarmánuðina og kostar sjálfur öll ferðalög. Ég sé ekki, að það sé mögulegt fyrir hv. Alþ. samþ. till. um fjárveitingu til Jóhannesar Áskelssonar, án þess að þetta yrði bætt upp á einhvern hátt, og vildi ég beina því til þeirra manna, sem bera umhyggju fyrir þessum málum.

Þá get ég ekki látið vera að minnast ofur lítið á hina mjög svo skemmtilegu og hressilegu ræðu hv. 2. þm. Reykv. Ég hef heyrt um menn, sem hafa ofnæmi fyrir ýmsu. Ég hef heyrt um gripi, sem hafa ofnæmi fyrir rauðum lit, t.d. naut á Spáni. Einstaka menn fá ofnæmi af heita vatninu í Reykjavík, af seltu í loftinu o. s. frv. En ég hef aldrei fyrr á ævinni komizt í kynni við nokkurn mann, sem hefur ofnæmi fyrir orðum eins og hv. 2. þm. Reykv. Hann má ekki heyra nokkurn tíma nefnda Ameríku, svoleiðis að hann verði ekki „of sterkur“, eins og þeir kalla þá menn, sem geta ekki ráðið við sig. Hann má aldrei heyra nefndan Landsbankann, og hann má aldrei heyra nefnt S.Í.F. Það hefur slík áhrif á hann, að hann getur ekki stjórnað geði sínu eða orðum og verður eins og maður, sem ekki fær ráðið við sig. Ég veit engin betri ráð, en að hann reyndi að hitta lækna, sem gera það að sératvinnu að lækna ofnæmi.

Hv. þm. Vestm.- talaði hér fyrir till. sinni um flugmál. 20. gr. hefur ekki verið athuguð í fjvn. Hans till., ef hún verður tekin til baka, — án þess að ég sé að óska þess, — mun þá verða athuguð af n. í sambandi við afgreiðslu þeirrar gr., en ég get hins vegar ekkert sagt um það, hvort hún fær fylgi hjá n. eða eigi.

Út af þeim till. frá hv. 8. þm. Reykv. og öðrum, sem fram hafa komið hér í sambandi við byggingarstyrki til listamanna, þá vildi ég gjarnan spyrja þessa hv. þm. að því hvort þeir séu nokkuð kunnugir því, hvort þessir menn séu að byggja yfirleitt eða ekki. Ég veit ekki, hvort nokkurn tíma hefur verið fylgzt með því, að þeir listamenn, sem hafa fengið byggingarstyrki, hafi nokkurn tíma uppfyllt það skilyrði að byggja fyrir féð eða hvort rn. hefur nokkurn tíma fylgzt með því, að féð væri ekki látið af hendi, nema viðkomandi aðill væri að byggja. Mér þykir það nefnilega ákaflega einkennilegt, eftir að heyra það frá þessum viðkomandi hv. þm. hér, að þessir menn séu svo fátækir, að þeir búi í húsum, sem ekki sé verandi í, bröggum og grenjum, eins og þeir lýsa því, að þeir skuli allt í einu hafa möguleika til þess að byggja yfir sig sæmilegar íbúðir, ef þeir fái 10–20 þús. kr. styrk úr ríkissjóði. Að öðru leyti skal ég ekki ræða þessar till., en ég vildi gjarnan heyra þær upplýsingar frá þeim, áður en verður gengið til atkv. um þær.

Hv. 1. þm. Eyf. óskaði nokkuð eftir því að fá yfirlýsingu í sambandi við byggingu á brú yfir Hörgá. Þegar fjvn. fékk skýrslu frá vegamálastjóra og till. um fjárveitingu til brúa fyrir árið 1953, þá lagði hann fyrst til, að brú yfir Hörgá í Eyjafirði yrði tekin á fjárlög þessa árs með 800 þús. kr. En síðar, þegar hann var beðinn um að athuga skiptinguna á ný og honum var tilkynnt, hvað væri hámark þeirrar upphæðar, sem setja mætti inn á fjárlögin í sambandi við nýjar brýr, þá skiptir hann þessu í bréfi til fjvn., dags. 18. nóv., og segir þar í niðurlagi þess bréfs: „Fé til nýrrar brúar á Hörgá komi úr brúasjóði.“ Aðrar eða meiri yfirlýsingar hefur fjvn. ekki í sambandi við byggingu brúarinnar. Það er ekki á valdi fjvn. — eða hún hefur a.m.k. ekki tekið sér það vald annað skipta brúasjóðsfé. En eftir að hún hafði fengið þetta bréf, þá taldi hún sér vera óhætt að leggja ekki til, að fé til byggingar brúar á Hörgá yrði tekið af því fé, sem lagt er fram á fjárl. til brúargerða almennt, enda hefði það aldrei rúmast innan þeirra takmarka, sem þar voru sett. Hef ég tekið þetta fram í minni framsöguræðu og endurtek það hér, að það er byggt á þessu bréfi, sem n. fékk frá vegamálastjóra. Ég veit því ekki betra ráð, en að hv. þm. reyni að fá yfirlýsingu frá vegamálastjóra um, að brúin verði byggð fyrir fé úr brúasjóði, ef hann treystir sér ekki til að láta þessar upplýsingar nægja.

Hv. þm. sagði, að hann væri engan veginn ánægður með það vegafé, sem hann fengi til vega sinna og sérstaklega til endurbyggingar á vegum í Eyjafirði, en það verður víst almennt allt hjá hv. þm., að enginn þeirra fái nægilegt vegafé, svo að miklu meiri upphæð hefði þurft að skipta. Ég vil hins vegar í sambandi við þessi ummæli leyfa mér að upplýsa, að í Eyjafjarðarsýslu var ekki varið minna en rúmum 1.200 þús. kr. til vegaviðhalds á s.l. ári, og er það tvöföld og þreföld upphæð við margar aðrar sýslur í landinu. Er ekki alveg óeðlilegt, að nokkurt tillit sé tekið til þess, þegar verið er að skipta fé til nýrra vegabygginga í sýslum landsins. Nú er vitað, að Eyjafjarðarsýsla er sæmilega vel veguð, og það er einmitt kannske þess vegna, sem vegaviðhaldið er svo hátt sem ég þegar hef skýrt frá.

Ég skal ekki ræða hér mikið um Ólafsfjarðarhöfn. Það er fjvn. kunnugt, hversu mikið fé hún hefur fengið að öðrum leiðum, og sé ég ekki ástæðu til þess að ræða frekar um framlagið, sem ákveðið er hér í okkar till.

Ég skal lýsa því yfir, að erindi um bætur fyrir slys í Óseyrarhlíð var sent fjvn. Það var einnig sent henni í fyrra. Afstaða n. til þeirra mála, er ekkert breytt frá því, sem var á fyrra ári, enda engar nýjar upplýsingar komið fram. Er því ekki eðlilegt, að n. tæki það upp.

Út af fyrirspurn frá hv. þm. Árn. um það, hvort ég sem frsm. n. geti gefið yfirlýsingu um, að brúin hjá Iðu verði byggð á næsta sumri, þá er nú síður en svo, að það sé á mínu valdi að gera slíkt. Eins og ég skýrði frá áðan, þá skiptir fjvn. ekki því fé. En eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja og ég gat um í minni ræðu, þá munu vera um 1.800 þús. kr. til ráðstöfunar úr brúasjóði á næsta ári. Ef 800 þús. kr. eru teknar til þess að byggja Hörgárbrú, sem mér sýnist að vegamálastjóri hugsi sér að gera, þá er ekki eftir þar nema um 1 millj. kr., en brúin hjá Iðu er talin kosta 4 millj. og 650 þús. Nú hefur vegamálastjóri gert hér till. um brýr, sem eiga að byggjast úr brúasjóði, og það er þá Skjálfandafljót fyrst. Þar hefur hann geymslufé, 150 þús., og úr brúasjóði 400 þús., eða 550 þús. kr. En áætlað er, segir hann, að enn vanti 1.3 millj. kr. til þess að fullgera brúna með núverandi verðiagi. Ætli hann sér því að fullgera þá brú árið 1953, þá sé ég ekki, að hann hafi neitt fé til þess að byggja fyrir brú á Hvítá hjá Iðu, enda kemur ekkert fram um það í gögnum til n., að það sé fyrirhugað. Hins vegar er það atriði, sem hv. þm. verður að eiga bæði við vegamálastjóra og rn., hvort hugsað er að vinna þar nokkuð eða geyma það enn þar til meira fé er fyrir hendi í brúasjóði. Vegamálastjóri hefur hins vegar lagt mjög mikla áherzlu á það, að tvöfaldaðar séu tekjurnar til brúasjóðs af benzíntollinum. Fjvn. hefur ekki viljað leggja það til, og standa því tekjurnar óbreyttar; nema einhverjar sérstakar aðgerðir komi til frá Alþingi.

Um vegagerð í Árnessýslu skal ég vera fáorður. Mér þykir rétt að upplýsa hér samt sem áður, vegna þess að það var minnzt á það, að veitt væri lítið fé í þá sýslu, að sú sýsla hefur fengið á 3. millj. kr. í vegaviðhald á s.l. ári, og þætti okkur gott sumum hverjum öðrum, ef við værum komnir nokkuð nálægt þeirri upphæð í sambandi við vegaviðhaldsfé í sýslunum.

Erindi um styrk til skóla Árnýjar hefur borizt fjvn., og hún hefur ekki viljað taka það upp. Það hefur jafnan áður verið veittur nokkur styrkur til þessa skóla sem byggingarstyrkur, en það hefur aldrei verið veittur til skólans neinn rekstrarstyrkur.

Erindið um 30 þús. kr. styrk til gestgjafa þess, sem hv. þm. minntist á, hefur einnig verið hér í n., en hún hefur ekki séð sér fært að leggja til, að það verði tekið upp í frv. Það mundi hafa það í för með sér, að ýmsir aðrir gestgjafar í landinu mundu einnig sækja um styrk. Hvort þeir hafa unnið til hans á sama hátt og þessi ágæti maður, skal ég ekkert segja um, en það verður erfitt að stöðvast á þeirri braut, ef byrjað er að veita styrki til slíks rekstrar. Mér er ekki kunnugt um, að neinn gestgjafi hafi styrk frá ríkissjóði, nema veittar eru úr sérleyfissjóði, að ég hygg, einhverjar smáupphæðir, sem ekkert koma ríkissjóði við.

Ég vil leyfa mér að flytja hv. 1. þm. Árn. þakkir mínar fyrir hin ágætu orð, sem hann sagði um minn góða vin, Ara Arnalds, og hans dóm um hann sem rithöfund, en fjvn. hefur því miður ekki séð sér fært að hækka þetta, m.a. vegna þeirra tekna, sem hann hefur á 18. gr. sem embættismaður. Ef þessi orð eru ekki ofmælt, og ég veit, að þau eru það ekki, þá held ég, að það ætti að vera hægur vandi fyrir einn flm. till., hv. 11. landsk. (ÞÞ), sem væntanlega fær það skemmtilega verk að úthluta skáldastyrk eða rithöfundalaunum, að bæta þessum ágæta rithöfundi upp eitthvað í sambandi við þá úthlutun. Þá er einnig annar liður á fjárl. til ritstarfa, um 90 þús. kr., sem fjvn. skiptir ekki, og þætti mér ekki ólíklegt, að svo ágætur rithöfundur sem Ari Arnalds er gæti þá fengið einhvern glaðning úr þeim sjóði, þó að þessi till. verði felld hér í þinginu. En fjvn. hefur ekki treyst sér til þess að mæla með henni.

Mér þykir nauðsyn að segja hér nokkur orð í sambandi við ræðu hæstv. viðskmrh. um menntaskólann á Laugarvatni. Ég skildi nú eiginlega ekki vel, hvað hæstv. ráðh. meinti, vegna þess að hann endaði ekki sína ræðu með því þá að leggja til, að þetta yrði fellt niður úr frv. En ef hæstv. ráðh. hefur ætlazt til þess, að fjvn. færi að verða einhver dómari í ágreiningsmálum á milli sjálfra ráðh., þá er það alveg misskilningur. Við höfum séð ýmis erindi frá hinum einstöku rn., sem hafa kvartað undan niðurskurði hjá hæstv. fjmrh. frá till., sem þau hafa gert. Við höfum einnig séð það hjá stofnunum. Og fjvn. tekur ekki að sér það vandaverk að vera neinn Salómonsdómari um það, hvor hafi þar rétt að mæla. Það er of lítil samvinna hjá rn., ef þau geta ekki komið sér saman um það, hvað eigi að takast inn á fjárlfrv. í sambandi við rekstur ríkisins, og ekki rétt undir neinum kringumstæðum að leggja þann vanda á fjvn., enda mundi hún ekki ætla sér það. Hins vegar hefur n. ekki haft tækifæri til þess að ræða við rn. sameiginlega um ágreining um einstök atriði, en það mun verða gert fyrir 3. umr., og þá mun að sjálfsögðu einnig bera á góma þetta atriði hér, sem hæstv. ráðh. lýsti, en ég hygg nú, að það hafi aldrei vakað fyrir neinum, hvorki fyrir þeim, sem voru samþykkir 100 þús. kr. framlagi til Laugarvatnsskólans í fyrra, og ekki heldur fyrir þeim hæstv. ráðh., sem nú hefur tekið upp nokkru hærri framlög til skólans, að hér ætti að koma upp sérstökum menntaskóla, sem kostaði nokkrar milljónir eða tugi milljóna. Það hefur a.m.k. aldrei verið mín hugsun, og satt að segja á ég ákaflega erfitt með að skilja, hvernig sami hæstv. menntmrh. heldur því fram, að þetta þurfi að hafa þá þróun, sem hann lýsti hér, á meðan það er staðreynd, að í Reykjavík er menntaskóli, sem er ekki rekinn á þann hátt, sem hæstv. ráðh. minntist á, en það er Verzlunarskóli Íslands. Hann hefur leyfi til þess að kenna og brautskrá að fullu stúdenta, og ég sé ekki, hvernig það ekki mætti verða, að sama fyrirkomulag gilti á héraðsskólanum að Laugarvatni. Og þess vegna held ég, að allt umtal hæstv. ráðh. um nýjan menntaskóla á Laugarvatni, sem verði að byggja yfir fyrir margar millj. og megi ekki koma nálægt héraðsskólanum, frekar en ef svartidauði væri í annarri stofnuninni og taugaveiki í hinni, sé einhverjir hugarórar. Mér finnst það vera ákaflega merkileg mistök á þessu máli, ef ekki er hægt að koma því fyrir á annan hátt, en hann lýsti hér. En sem sagt, ég skal gjarnan sem formaður n. ræða þetta atriði við báða þessa ágætu hæstv. ráðh., ef þeir geta ekki komið sér saman um málið og ef svo mikið ber á milli sem hæstv. menntmrh. skýrði hér frá áðan.

Hv. þm. N-Ísf. hefur borið hér fram till. um ferjuhafnir. Ég lýsti því í minni framsöguræðu, að fjvn. vildi ekki ganga inn á það efnislega, að hér sé um ferjuhafnir að ræða, og hún mun því ekki ræða málið á þeim grundvelli. N. er hins vegar viljug til að ræða framlög til hafna á þessum stöðum, ef hv. þm. vill bera fram brtt. við annan kafla þessarar gr. Hvort hann vill taka till. aftur til þess að breyta henni þannig, það skal ég ekki segja um, en verði henni ekki breytt, þá mun fjvn. ekki styðja till. eins og hún er. Ég minntist nokkuð á þetta í minni framsöguræðu og skal ekki endurtaka það meir.

Út af till., sem komið hefur fram um kennaraskólann, þá vil ég einnig upplýsa það hér, að erindi um það liggur fyrir fjvn., en vegna þess að það snertir 20. gr., þá hefur ekki verið gengið að fullu frá þeim málum. Hún mun því að sjálfsögðu athuga þá till., eins og hún mun athuga erindið sjálft, sem liggur fyrir. Þess utan hafði fjvn. samtal við skólastjóra, og henni er fullkunnugt um þá þörf, sem hér er á, og það hefur ekkert nýtt komið fram í dag í sambandi við það mál, sem n. vissi ekki áður.

Ég vil þá aðeins segja hér nokkur orð um till. hv. 5. þm. Reykv. um framlag til æskulýðshallarinnar eða íþróttasalar fyrir æskulýðshöllina.

Það vildi svo til, að ég var staddur norður á Ólafsfirði í sumar og hafði tækifæri til þess að koma þar í íþróttahús, sem var byggt með slíkum ágætum, að ég varð að draga skó af fótum mér til þess að saurga ekki salinn, þegar ég gekk inn. Ég hygg, að það finnist hvergi í heiminum slíkur íþróttasalur hjá nokkrum bæ, sem hefur undir 1.000 íbúa, hvar sem leitað væri. Mér datt þá í hug, að ef sú n., sem stjórnar íþróttasjóði, hefði aldrei gengið á rétt Reykvíkinga, þá ætti Reykjavík að eiga 30 slíka íþróttasali hér. Og ég vildi nú vísa þeim mönnum til þeirrar stofnunar, áður en þeir fara að reyna að knýja hér út fé fyrir nýjan íþróttasal í Reykjavík, og fá þá menn, sem þar stjórna, til þess að gæta nokkru meira réttlætis gagnvart þeim, sem búa hér í Reykjavík, og beina nú íþróttaframlaginu til þessarar æskulýðshallar, þ.e.a.s. til íþróttasalarins við æskulýðshöllina, þar til hann er kominn upp, til þess að jafna metin, sem áður hafa verið gerð á þessum málum. Það er svar mitt við þessari till.

N. hefur athugað þetta mál. Hún hefur einnig leyft ekki einasta formanni fyrir þessum félagsskap að ræða við sig, heldur með öllum þeim herskara, sem hann hafði með sér, einum fulltrúa frá hverjum stjórnmálaflokki, og sýndist það eiga að vera trygging fyrir því, að málið næði fram að ganga. Hins vegar leizt okkur í n. þá ekki betur á það en svo, að þegar þeir voru nýfarnir út, þá var till. felld.

Ég vil einnig segja, að ef þetta er rétt, sem hv. þm. sagði um tekjur félagsheimilasjóðsins, að þær komi mest úr Reykjavík, þá sé ég ekki heldur, að það ætti að vera neitt því til fyrirstöðu, að þeir hinir sömu menn, sem fá allan félagsheimilasjóðinn til þess að byggja upp félagsheimilí úti á landinu, gæfu þá eftir í eitt eða tvö ár framlag úr íþróttasjóði, svo að hægt væri að koma upp einhverjum svolitlum hluta af þeim íþróttahúsum, sem Reykjavík hefur verið svikin um af þeim mönnum, sem hafa stjórnað sjóðnum undanfarin ár.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að svara öðrum athugasemdum, sem hér hafa komið fram. Ég held, að ég hafi gert nokkra grein fyrir öllu því, sem til mín hefur verið beint í sambandi við þær till., sem hér hafa verið fluttar.