27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

1. mál, fjárlög 1953

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég flyt brtt. við fjárlögin. Brtt. er prentuð á þskj. 320, III og er um styrk til byggingar kirkju á Selfossi, 100 þús. kr. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessa till. Ég skal samt ekki vera margorður um hana.

Fyrir rúmum 30 árum var ekki byggð á Selfossi, nema tveir sveitabæir og eitt gistihús. Þetta fólk, sem þarna bjó, átti kirkjusókn að Laugardælum, sem er í nálega 5 km fjarlægð. Þar var þá lítil timburkirkja, sem stendur enn og hefur ávallt verið og er enn sóknarkirkja þeirra, sem búa á Selfossi, en söfnuðurinn er nú um 1.200 manns.

Það var fyrir rúmum 11 árum, að samþykkt var á safnaðarfundi að flytja kirkjuna frá Laugardælum að Selfossi. Á s.l. sumri var fyrst hafizt handa um byggingu nýrrar kirkju á þeim stað, þar sem hreppurinn hafði keypt land í þessu skyni. Nú er byggingunni þar komið, að allri steypuvinnu er lokið og þessa daga er verið að ganga frá þaki á kirkjuna.

Þegar bygging kirkjunnar hófst, átti hún 150 þús. kr. í handbæru fé. Síðan hafa safnazt innan safnaðar í byggingarsjóðinn 50–60 þús. kr. Sýnilegt er, að bygging kirkjunnar tekur langan tíma, ef söfnuðurinn á einn og hjálparlaust að standa að byggingunni, en slíkur styrkur sem hér er farið fram á frá ríkissjóði yrði í fyrsta lagi kærkominn fjárhagslegur stuðningur og auk þess söfnuðinum hvöt til að leggja fram krafta sína við hið menningarlega, stóra' átak, sem kirkjubygging ávallt er litlum söfnuði. — Það er von mín, að hv. alþm. fallist á að veita þessari styrkbeiðni samþykki sitt.

Ég vil með nokkrum orðum að gefnu tilefni minnast á menntaskólann á Laugarvatni. Hæstv. menntmrh. hélt hér ræðu um skólann, og það, að ég vil gjarnan segja nokkur orð um þetta mál, er vegna þess, að fyrir ráðh. náð, þessa sama ráðh., hef ég verið formaður skólanefndar héraðsskólans á Laugarvatni, nú um tveggja ára skeið. Ég hef þess vegna, síðan ég öðlaðist það embætti, kynnzt frekar en áður málum héraðsskólans og í sambandi við hann nú síðustu ár málum menntaskólans eða þeirrar kennslu til menntaskólanáms, sem þarna hefur farið fram.

Um nokkurra ára skeið hefur farið fram menntaskólakennsla á Laugarvatni, eins og kunnugt er, en próf hafa ekki verið tekin þar við skólann, heldur hafa nemendur orðið að fara til Reykjavíkur og taka próf við menntaskólann hér.

Samkvæmt gildandi fræðslul. eru menntaskólar á landinn tveir, í Reykjavík og á Akureyri. En þegar fé er veitt til þess á fjárl., þá skal stofna menntaskóla í sveit, þann þriðja á landinu. Nú var, eins og hv. alþm. er kunnugt, veittur á fjárl. þessa árs 100 þús. kr. styrkur til menntaskóla á Laugarvatni. Þessi styrkur hefur ekki enn verið greiddur og menntaskólinn ekki formlega stofnaður. Hefur það vakið nokkra undrun þeirra, sem að þessum málum standa í héraði, að þetta hefur dregizt svo úr hömlu, þrátt fyrir þessa fjárveitingu. Við, sem stóðum að þessu eystra, álitum, að þá væri ekki neitt því til fyrirstöðu, að skólinn yrði stofnaður, en það hefur orðið nokkurt undrunarefni, að það hefur ekki verið gert. Þeir nemendur, sem stunda nú nám við skólann, vita ekki, eins og sakir standa núna, hvar þeir taka próf á næsta vori, hvort þeir verða látnir fara hingað til Reykjavíkur. En það hlýtur að vera öllum ljóst, að það er töluvert mikil fyrirhöfn og óhagræði að láta rúmlega 60 nemendur fara hingað til Reykjavíkur að vorinu til þess að taka prófið. Ef skólinn er ekki enn stofnaður, þegar að því kemur, þá er ekki annað fyrir hendi en að gera það, ef það verða þá möguleikar á því. Þá hefur skólanum verið mjög bagalegt að fá ekki þessa fjárveitingu, sem hann hefur alveg reiknað með að fá.

Nú hefur hæstv. menntmrh. gert grein fyrir því, hvers vegna hann hefur ekki stofnað menntaskólann á Laugarvatni formlega. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta eða ræðu hæstv. ráðh., en ég ætla aðeins að fara nokkrum orðum um húsakost héraðsskólans eins og hann er núna. Vil ég þá minna á, að 1947 brann ofan af gamla skólahúsinu á Laugarvatni efri hæðin, sem var í háum risum, eins og allir muna, sem þangað hafa komið. Í þessum risum voru íbúðir heimavistarnemenda eða nemenda skólans, því að þar var ekki um annað, en heimavistir að ræða. Strax eftir brunann samþykkti þáverandi skólanefnd, — ég vil taka það fram, að ég var ekki kominn í skólanefndina þá, — í samráði við kennsluyfirvöld að hefjast handa um byggingu á nýju skólahúsi. Þetta var mikið og stórt hús, en það var strax hafizt handa um bygginguna. Þegar það er alveg komið upp, þá verða í þessu nýja húsi 8 skólastofur, heimavist fyrir kringum 100 nemendur, eldhús í kjallarahæð, matsalur o.fl., o.fl. Þetta hús er ekki enn komið lengra en það, að önnur álma hússins er reist, og í henni er heimavist fyrir 90–100 nemendur, notuð að fullu núna. Þá eru einnig tilbúnar 4 kennslustofur, sem einnig eru notaðar, og 2 kennslustofur, sem eru notaðar sem samkomusalur skólanna beggja. Í þessu húsi fer nú fram kennsla nemenda héraðsskólans, en í gamla húsinu, sem brann ofan af, eins og ég minntist á áðan, eru 4 kennslustofur, og þar fer fram kennsla menntaskólanemendanna núna, þannig að eins og stendur eru þessir skólar sinn í hvoru húsi, en það fannst mér hæstv. ráðh. leggja svo mikla áherzlu á, að það væri ekki hægt að blanda skólunum saman, að það væri jafnvel skaðlegt skólalífi og m.ö.o. ómögulegt að hafa það svo.:

Nú hef ég lýst, hvernig húsnæði skólanna er núna. Nú hefur skólanefndin ávallt verið reiðubúin til að ræða um þessi mál, eða skiptingu húsnæðisins á milli skólanna beggja, eins og bréf skólanefndarinnar, sem hæstv. ráðh. las upp, ber. með sér, en það er ekki, eins og fram kom í bréfinu, hægt eins og stendur, meðan skólahúsið nýja er ekki nema að hálfu leyti byggt, að ákveða að öllu leyti, hvað menntaskólinn skuli fá og hvað héraðsskólinn skuli hafa. Það er hægt að hugsa sér fleiri aðferðir en eina við skiptingu húsnæðisins, t.d. að menntaskólinn fengi gamla húsið, en þó verður að geta þess í því sambandi, að til orða hefur komið, að íþróttakennaraskóli ríkisins fengi það hús. Þó að það yrði, að hann fengi það hús, þá væri eftir nýja húsið, ef það væri komið upp að öllu leyti, með 10 kennslustofum. Ef það væri athugað nú strax, þegar hugsað væri um áframhaldandi byggingu á því húsi, að haga byggingu þannig að gera mögulega skiptingu á húsnæðinu milli héraðsskólans og menntaskólans, þá stendur ekki á skólanefndinni, — mér er óhætt að fullyrða það, — að athuga þá möguleika. Þá gæti maður hugsað sér það, að nýja húsinu, er það væri orðið fullgert, ýrði skipt á milli þessara skóla. — Ég drep aðeins á þetta að gefnu þessu tilefni og ætla ekki að hafa um það fleiri orð nú eins og stendur. En ég vil að lokum láta þá von í ljós, að hæstv. menntmrh. -láti ekki dragast að stofnsetja menntaskóla á Laugarvatni, er hv. Alþ. hefur samþykkt þá fjárveitingu til hans, sem nú er í fjárlagafrv., sem ég geri ráð fyrir að hv. alþm. geri. Það var samþykkt fjárveiting til skólans á síðasta —þingi með miklum meiri hluta, og ég geri ekki ráð fyrir því, að hugur hv. þm. hafi breytzt svo, að þeir muni ekki greiða atkvæði með því aftur núna. Og þá vildi ég aðeins segja það, að hæstv. menntmrh. ætti eftir þá atkvgr. að vera orðið ljóst, að hv. þm. eru að greiða atkvæði um þetta vitandi vits, en ekki út í bláinn.