08.12.1952
Sameinað þing: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

1. mál, fjárlög 1953

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur. Ástandið í þjóðfélaginu hjá okkur í dag minnir mig á, hvernig hér var umhorfs fyrir átta árum, haustið 1944. Þá sat að völdum hér nærri því eins úrræðalaus og duglaus stjórn eins og sú, sem nú situr. Hún var af alþýðu manna kölluð Coca-cola-stjórnin, í höfuðið á þeim Birni Ólafssyni og Vilhjálmi Þór, sem mótuðu efnahagspólitík hennar.

Það voru mörg verkalýðsfélög í verkfalli það haust og heimtuðu hækkað kaup. Stjórnin sá ekkert úrræði, hún sá ekkert nema hrunið fram undan. Í hennar augum voru öll sund lokuð, enginn möguleiki til kauphækkana, allir atvinnuvegir á hausnum, — og stjórnin lagði fram frv. um lögskipaða lækkun á kaupi, og Framsfl. stappaði stálinu í atvinnurekendur. Þeir skyldu bara stöðva allt atvinnulíf, frekar en láta að kröfum verkalýðsins. Þær væru bara til að eyðileggja þjóðfélagið, eins og Tíminn og Vísir sögðu. Og þá átti þjóðin um 500 millj. kr. í peningum erlendis. Þá sagði Sósfl. þjóðinni, að hún væri rík, að hún gæti veitt verkalýðnum betri lífskjör, en hann hefði, að það væri ekkert böl fram undan, heldur þvert á móti bjartari og betri tímar, uppbygging afkastameira og fjölskrúðugra atvinnulífs en áður, ef aðalstéttir landsins aðeins hefðu hug og dug til þess að taka höndum saman um að leysa af hendi það hlutverk, sem beið þeirra, nýsköpun atvinnulífsins. Og þjóðin trúði Sósfl. Gæfa Íslands, samheldni og skilningur beztu krafta andstæðra stétta bjargaði okkur úr klóm eysteinskunnar, úrræðaleysisins og eymdarinnar.

Eysteinn og Björn, hæstv. núverandi viðskmrh. og fjmrh., hafa kyrjað: Fram undan er hrun. — Við sósíalistar sögðum: Fram undan er blómlegasta tímabil íslenzks atvinnulífs, ef farið er að okkar ráðum og alþýðan fær að marka stefnuna með útrýmingu atvinnuleysis, hækkun kaupgjalds og útvegun nýrra atvinnutækja. — Og það varð eins og við sósíalistar sögðum fyrir. Fram undan voru beztu afkomuár, sem íslenzk alþýða hefur lifað, af því að hún markaði sjálf stefnuna í þágu sinna hagsmuna á verulegum sviðum stjórnmálalífsins. Og hvar stæði Ísland í dag, ef við nytum ekki þess, sem þá var gert, ef ekki væru nýsköpunartogararnir, skýjaborgirnar eða gumsið, eins og Eysteinn kallaði það og sagðist ekki vita, hvað þjóðin ætti eiginlega við þetta að gera? Hvernig væri afkoma þjóðarinnar, ef Eysteinn og Björn, hæstv. ráðh., hefðu fengið að ráða þá og engir togarar verið keyptir til landsins eða í hæsta lagi 6 seint og síðar meir? Á skýjaborgum Sósfl. frá 1944 lifir þjóðin í dag. Það reyndist rétt, sem við sósíalistar sögðum. Það reyndist skakkt, sem afturhaldsflokkarnir sögðu 1944. Mennirnir, sem aldrei hafa haft vit á þjóðarbúskap Íslendinga og þörfum þjóðarinnar, aldrei haft vilja til að vinna fyrir íslenzka alþýðu og hagsmuni hennar, höfðu á röngu að standa. Og hvað gerðist svo 1948? Þá var gerbreytt um efnahagspólitík, Benjamínsjafnvæginu var komið á undir amerískri yfirstjórn. Björn og Eysteinn og allt heila hyskið sagði: Nú er risaáætlun í undirbúningi. Henni verður lokið 1952. Með 500 millj. kr. aðstoð erlends stórveldis verður afkomuöryggi Íslendinga tryggt, svo að við stöndum á öruggum grundvelli 1952. — Hvað sögðum við sósialistar þá? Við sögðum, að það væri verið að selja frumburðarrétt Íslendinga til þessa lands fyrir amerískan baunadisk. Við sögðum, að það ætti í krafti amerísks gjafakorns að drepa stórhug Íslendinga. Við sögðum, að í anda amerísks auðvalds ætti að rýra lífskjör íslenzkrar alþýðu um helming á fáum árum. Við sögðum, að það ætti að selja Ísland amerísku herveldi sem drápsker.

Ég kem að deilunni um Marshallaðstoðina. 19. okt. 1948 sagði ég orðrétt: „Það er leitt að vita, að hæstv. ríkisstj. skuli í stað góðra, raunverulegra áætlana hafa hægt og bitandi undirbúið gjaldþrot á sviði verzlunarmálanna 1952.“ Og hver er reynslan? Hrunið, sem stjórnarflokkarnir hófu að undirbúa 1948 og við sögðum fyrir, er nú komið fram, á þeim tíma, sem við sögðum, og fyrir þær orsakir, sem við þá röktum, traust ríkisstj. á fiskmörkuðunum í Bretlandi og annars staðar í Vestur-Evrópu, vanrækslu hennar á hagnýtingu fiskmarkaðanna í Austur-Evrópu. Það reyndist rétt, sem við sósialistar sögðum 1948. Það reyndist skakkt, sem afturhaldsflokkarnir sögðu 1948. Og nú situr að völdum dáðlausasta og úrræðalausasta ríkisstj., sem nokkurn tíma hefur setið að völdum á Íslandi, stjórn, sem búin er að gera landið að opinberri erlendri herstöð. þvert ofan í skýlaus loforð og heit, stjórn, sem búin er að leiða yfir landið sára fátækt og sviðandi smán. Það eru sömu öflin, sem standa að þessari stjórn, og stóðu að Coca-cola-stjórninni fyrir 8 árum, en þau eru því harðvítugri í alþýðu garð sem ameríska auðvaldið er voldugra hér á Íslandi nú en það var þá. Marshallaðstoðin, Atlantshafsbandalagið og hernámið hafa magnað þennan ameríska draug, sem þá reið húsum íslenzkrar alþýðu, svo að nú læsir hann krumlum sínum um háls hvers frjálsborins Íslendings og rænir brauði hans, rænir rétti hans til lifsins og landsins.

Það er í dag verkfall gegn þessari ríkisstj., gegn helstefnu hennar, hungurstefnu hennar, viðtækasta verkfall, sem háð hefur verið á Íslandi. Og þessi ríkisstjórn svaraði eins og vant er, eins og allt kolsvart afturhald alltaf hefur svarað kröfum íslenzkrar alþýðu frá upphafi vega. Hún svaraði því, að það sé ekki hægt að borga hærra kaupgjald.

Með núverandi stjórnarstefnu er síðan 1947 búið að ræna íslenzkan verkalýð helmingnum af þeirri kaupgetu, sem hann hafði þá. Bein lækkun á raungildi tímakaupsins fyrir aðgerðir ríkisstj., gengislækkun, bátagjaldeyri og annað slíkt, er minnst 30%.

Verkalýður Íslands heimtar nú 15% grunnkaupshækkun. Það er aðeins helmingurinn af því, sem ríkisstjórnin er búin að stela af honum á undanförnum árum. Það er það minnsta af þýfinu, sem ríkisstj. ætti að geta skilað til baka, sú ríkisstj., sem þegið hefur að mála frá erlendri stjórn yfir 400 millj. kr. og notað það vald, sem sá auður gaf, til að rýra lífskjör íslenzkrar alþýðu, til að láta sverfa að þeim, sem mest vinna og minnst bera úr býtum í þessu landi.

Getur þjóðarbúið þá uppfyllt kröfur verkalýðsins þrátt fyrir barlóm og blekkingar benjamínskunnar? Ber þjóðarbúið sig? Já, það ber sig ágætlega. Það er ekkert smáræði af þjóð, sem er 150 þús. sálir, að hún skuli hafa í þjóðartekjur samkv. útreikningi hæstv. fjmrh. um 2.200 millj. kr., eða um 15 þús. kr. á hvert mannsbarn, 75 þús. kr. á 5 manna fjölskyldu, ef jafnt væri skipt. Þjóðarbúið ber sig vel, af því að hér eru dugmiklar vinnandi stéttir að verki og hafa afkastamikil tæki til þess að vinna með, en það er ríkisstj., sem ræður því, hvernig tekjurnar af þjóðarbúinu skiptast. Og hvernig skiptir hún þessum tekjum? Hún skiptir þeim þannig, að engin verkamannsfjölskylda hefur þær meðaltekjur, sem hægt væri að láta Íslendinga fá. Þorri verkalýðsins í smábæjum Íslands verður að draga fram lifið á allt niður í 8–9 þús. kr. árslaunum. Og meginið af verkamönnum, þótt vinnu hafi allmikinn hluta ársins, kemst aðeins upp í 30 þús. kr. Og hvernig er svo með atvinnureksturinn? Ber sjávarútvegurinn sig? Skiptir ríkisstj. þjóðartekjunum þannig, að hún örvi þá, sem reka fiskiskipin, til útgerðar, sem er lífsskilyrði landsmanna? Ríkisstj. segir, að sjávarútvegurinn beri sig ekki. Við skulum taka orð hennar gild. Við skulum ganga út frá, að rekstrartap á togara sé 200 þús. til 250 þús. kr. til jafnaðar, eða um 10 millj. kr. af öllum togurunum. Og við skulum ganga út frá, að á öllum vélbátaflotanum sé álíka tap, um 10 millj. kr. En hvert fer þá gróðinn af þjóðarbúinu, gróðinn af vinnu verkamannsins, fiskimannsins, bóndans, allra vinnandi stétta landsins, gróðinn af vinnu alþýðunnar og millistéttanna — og tapið á atvinnurekstrinum?

Ég skal segja ykkur, hvert ríkisstj. beindi gróðanum með fjármálastefnu sinni, með einokun sinni á verzlun og bönkum og öllu atvinnulífi landsins á síðasta ári,1951. Olíuhringarnir útlendu og innlendu græddu um 50 millj. kr. Saltfiskhringurinn græddi ótalda milljónatugi. Landsbankinn græddi 28 millj., bankarnir allir ekki undir 40 millj. kr. Eimskip græddi að minnsta kosti 12 millj. kr. Ríkissjóður tók sjálfur 60 millj. kr. í tekjuafgang, píndar undan blóðugum nöglum almennings á Íslandi. Ríkisstj. tók án lagaheimildar 60 millj. kr. í bátagjaldeyri og greiddi um 40 millj. kr. í gróða fyrir innheimtu hans og henti síðan þessari fúlgu í erlenda einokunarhringi eins og Unilever í Bretlandi með því að selja freðfiskinn þangað á 80 sterlingspund, þegar hægt var að selja hann á 130 sterlingspund annars staðar. Og svo er máske ekki alveg úr vegi, að stærstu heildsalarnir og S.Í.S. hafi eitthvað grætt, og fráleitt er heldur ekki, að okraraauðmagnið í Reykjavík, sem ríkisstj. hjálpaði með lánsfjárbanni sínu, hafi eitthvað grætt. Það eru áreiðanlega nokkrir milljónatugir, sem ríkismenn

Rvíkur, gæðingar og skjólstæðingar ríkisstj., hafa náð af þjóðinni og atvinnuvegunum fyrir tilstilli hæstv. ríkisstj. M.ö.o., það er ekki undir 2–3 hundruð milljóna króna gróði af starfi vinnandi stéttanna á Íslandi, af erfiðum og áhættusömum atvinnurekstri Íslendinga, en sá gróði rennur ekki til mannanna, sem vinna, og aðeins að litlu leyti til mannanna, sem reka fiskiskipin og atvinnutækin. Gróðinn rennur fyrst og fremst til afætnanna, til auðhringanna, innlendra og erlendra, til bankanna og ríkisvaldsins, allt fyrir tilstilli ríkisstj.

Alþýða Íslands heimtar nú sína réttlátu hlutdeild í þessum gífurlega gróða, sem hún skapar. Hún neitar að una því að skorta brýnustu nauðsynjar daglegs lífs, verða að neita börnum sínum um skólagöngu á æðri skóla, fara á mis við þau gæði, sem þjóðfélagið þegar getur veitt þeim. Og alþýða Íslands ber fram sínar skýlausu, réttmætu kröfur um tafarlausa kauphækkun, ekki aðeins í vitund þess, að hún eigi þessa peninga inni hjá þjóðarbúinu í hít hringavaldsins, heldur líka í vitund hins, að alþýðan treystir sér til að reka þjóðarbúskapinn betur og með meiri afrakstri, en nú er gert, ef hún fengi að ráða rekstri hans. Aðeins nýsköpunartogararnir einir, svo að ekki sé talað um öll önnur atvinnutæki í landinu, geta framleitt fyrir 526 millj. kr. útflutningsverðmæti, ef þeir eru settir í framleiðslu á saltfiski og freðfiski, um 53 þús. tonn af óverkuðum og verkuðum saltfiski, um 45 þús. tonn af freðfiski. Og það er hægt að selja þetta allt og miklu meira og fá í staðinn allar þær nauðsynjar, sem íslenzk alþýða þarf til fæðis og klæða, og allar byggingarvörur, sem þjóðin þarfnast, og megnið af rekstrarvörum núverandi atvinnuvega. Það, sem stendur í veginum fyrir sölu íslenzkra afurða erlendis í dag, er næst eftir einokunarstefnu ríkisstj., sem þegar hefur verið lýst, það, að kaupgeta alþýðunnar á Íslandi er allt of lítil, það, að íslenzk alþýða fær allt of lágt kaupgjald, svo að hún getur ekki keypt alla þá matvöru, vefnaðarvöru, skóvöru og allt annað, sem við getum fengið erlendis í skiptum fyrir þau ógrynni fisks, sem íslenzk alþýða framleiðir. Of litil kaupgeta íslenzkrar alþýðu er ekki aðeins böl alþýðuheimilanna, sem sverfur að húsmæðrum, börnum, mönnum um allt land nú sem stendur. Of lítil kaupgeta íslenzkrar alþýðu er líka þjóðarmein, sem þjóðinni allri er þörf á að sé tafarlaust upprætt. Íslenzka þjóðin er í dag ríkari, en hún hefur nokkurn tíma verið. Hún er miklu ríkari en 1944, þegar hún átti 500 millj. kr. í erlendu fé, því að í dag á hún m.a. flota nýsköpunartogara, sem færir henni árlega í bú yfir 500 millj. kr., ef hann er hagnýttur réttilega. En einokunarhrammur ríkisstjórnarinnar beygir þjóðina undir skortinn, þegar hún gæti lifað öll góðu lífi.

Í dag neitar verkalýður Íslands því að una lengur við misskiptingu þjóðarteknanna, að una því lengur að þræla fyrir gróðahít einokunarhringanna og auðsöfnunarhít ríkissjóðs og banka. Alþýðan neitar því að láta lengur arðræna sig og féfletta, láta lengur blinda sig með blekkingunum um, að ekki sé hægt að skipta afrakstri þjóðarbúsins réttlátar, en gert er. Þjóðin er búin að fá nóg af þessari ríkisstj., meira en nóg af kaupráni hennar, atvinnuleysi, skattaáþján og smán, logandi, svíðandi smán hernámsins, sem öll þjóðin ber kinnroða fyrir.

Öll þjóðin er í verkfalli gegn þessari ríkisstj., gegn fátæktinni, sem hún leiðir yfir fólkið, gegn óstjórninni og okrinu, sem hún leiðir yfir landið. Verkalýðssamtök Íslands þola ekki þessa hungurstjórn lengur. Meginið af öllum verkalýð Íslands er þegar í verkfalli til að mótmæla hungurpólitík hennar, til að knýja fram verulegar bætur á lífskjörum sínum, sem orðin eru óbærileg fyrir aðgerðir ríkisstj. Atvinnurekstur Íslands ber ekki þessa ríkisstj. og einokunarstefnu hennar lengur. Allir sanngjarnir atvinnurekendur segja: Við viljum gjarnan borga hærra kaup. Við vitum, að verkamenn þurfa þess, og við þurfum líka á meiri kaupgetu hjá alþýðunni að halda, svo að hún geti keypt vörur okkar, en ríkisstj. og gæðingar hennar flá okkur inn að skinninu með sköttunum í Eysteinshítina og okurvöxtum bankanna, með lánsfjárkreppunni, sem Benjamín og Björn Ólafsson fyrirskipa, með okrinu á olíunni og öðru, m.ö.o. plokka allt, sem atvinnureksturinn ætti að græða, yfir í auðhringabanka og eyðsluhítir ríkissjóðs. — Aldrei í sögu Íslands hefur nein innlend stjórn verið svo gersamlega fylgissnauð hjá þjóðinni, svo algerlega áhrifalaus á gang málanna, enginn tekur tillit til hennar, öll þjóðin hunzar hana, einu vinir hennar eru ofbeldismenn suður á Keflavíkurflugvelli. Á þeirra byssustingjum hvílir nú vald hennar á Íslandi. Og hæstv. ráðh. ætla samt til lengdar að sitja á þeim byssustingjum, og eru þeir þó valtir líka.

Alþýða Íslands, millistéttir og atvinnurekendur, sem viljið reka atvinnuvegina til gagns fyrir okkar þjóð ! Það þarf meira, en þetta volduga verkfall, sem sýnir samtakamátt hins vinnandi lýðs, sem sýnir, hvað er hreyfiaflið í þjóðlífinu, sem sýnir, hvar vald þjóðfélagsins er, ef á það reynir. Það þarf meira til að breyta um í þjóðmálum Íslands. Það þarf verkfall kjósendanna um allt land á stjórnarfiokkana, á Framsókn og íhaldið, á þá, sem eru ábyrgir fyrir því ófremdarástandi, sem þjóðin býr við. Það þarf virkt verkfall í næstu kosningum á ríkisstj. og flokka hennar, sem feykir þeim út úr kjördæmunum, sem þeir illu heilli hafa blekkt til þessa.

Það volduga verkfall, sem nú stendur yfir, munu einhuga verkalýðssamtök leiða til sigurs. Og það, sem ekki er hægt að vinna með þessu verkfalli, þarf pólitískt einhuga alþýða að vinna í næstu kosningum í bandalagi við allar starfandi stéttir landsins, við millistéttir bæjanna, við útvegsmenn, bændur og alla þá atvinnurekendur, sem vilja vinna með alþýðunni að afkomuöryggi og velmegun í okkar landi. Sköpun slíkrar þjóðfylkingar er boðorð dagsins. Heill og framtíð Íslands er undir því komin, að slík eining náist gegn einokunarvaldinu, útlendu og innlendu, og leppstjórn þess. — Góða nótt.