09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

1. mál, fjárlög 1953

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti.

Góðir áheyrendur. Þegar litazt er um í þjóðfélagi okkar í dag, virðast mér þrjár staðreyndir benda til þess, að allmikil tímamót fari í hönd í stjórnmálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Þessar þrjár staðreyndir eru:

1) Vinnudeilurnar, sem nú standa yfir, og afstaða ríkisstj. til þeirra.

2) Það viðskiptastríð — og kalda stríð, sem stj. Bretlands hefur sagt þjóð okkar á hendur.

3) Að gjöfum þeim er nú lokið, sem erlent herveldi hefur sæmt okkur á undanförnum árum, eftir að það hefur fengið þau gjöld fyrir, sem til var ætlazt, en þau eru, að það hafi hér her í landi næstu áratugi.

Þessar þrjár staðreyndir benda til þess, að fram undan sé hörð barátta, ekki aðeins fyrir vinnustéttir þessa lands fyrir kjörum sínum, heldur einnig hörð barátta allrar þjóðarinnar fyrir hugsjónum sínum um sjálfstæðan tilverurétt.

Það stendur yfir vinnudeila, víðtækari en dæmi eru til áður á Íslandi. Á milli 10 og 20 þús. verkamenn hafa lagt niður vinnu, og fleiri hundruð eða þúsundir eiga eftir að bætast við, ef á löngu liður að deilan verði leyst. Verkafólkið hefur lagt niður vinnu, vegna þess að það getur ekki lengur lifað sómasamlegu lífi á þeim launum, sem það hefur, við þá dýrtíð, sem hér er. Þessari staðreynd treystist enginn til að mótmæla. Dýrtíðin hér á landi samkv. opinberum vísitölum, sem að vísu sýna dýrtíðina lægri en hún er, hefur aukizt hraðar og meira í stjórnartíð núverandi ríkisstj. en í nokkru landi öðru í heiminum á sama tíma. Þeirri staðreynd treystist heldur enginn til að mótmæla, því að hana sýna alþjóðlegar skýrslur. Hæstv. ríkisstj. hefur í sinni þjónustu hagfræðinga til að falsa hagfræðilegar staðreyndir. Ég skora á hana að láta þá afsanna þessa staðhæfingu, að hún — hæstv. ríkisstj. — hefur sett heimsmet í dýrtíðaraukningu í sinni stjórnartíð. Þessi staðreynd sannar einnig, að það er þessi sama ríkisstj., sem hefur skapað dýrtíðina hér, en dýrtiðin stafar ekki öll af almennum verðhækkunum á erlendum mörkuðum, því að annars hefði sama dýrtið og hér er komið fram í nálægum löndum á sama tíma. Dýrtíðin hér, a.m.k. að því leyti, sem hún er meiri en í öðrum löndum, er heimatilbúin, verk hæstv. ríkisstj., enda vita allir, að verk hæstv. ríkisstj., gengislækkun, sem olli 75% verðhækkun á allri erlendri vöru í innkaupi, hækkun skatta og tolla, leyfi til ótakmarkaðrar álagningar á hækkað verð og hækkaða tolla, hlaut að valda ægilegri dýrtíð. Hér mun einnig hafa verið sett heimsmet í frögtum, öllum flutningsgjöldum á vörum til landsins og frá, allt að því heimsmet í okurvöxtum á lánsfé og a.m.k. Evrópumet í upphæð óbeinna skatta og nefskatta á alþýðu manna. Svar atvinnurekenda til verkalýðsins í verkfallinu nú er, að vegna þess að atvinnurekstur þeirra stynji undir allri þessari margvíslegu áþján — alveg eins og verkalýðurinn — geti þeir ekki greitt hærra kaup, nema létt sé af þeim þessari áþján skatta, vaxta, fragta, tolla og okurálagningar á nauðsynjar atvinnuveganna. Ef menn efast um, að þetta sé satt, þá ættu menn að hugleiða, hvort ekki er eitthvað að í þjóðfélagi, þar sem þjóðþrifafyrirtæki eins og Eimskipafélag Íslands — óskabarn þjóðarinnar fyrr og síðar — leyfir sér að taka allt að 14 millj. kr. gróða á ári á því að flytja nauðsynjar þjóðarinnar heim og framleiðslu hennar út, eftir að það hefur endurnýjað skipastól sinn fullkomlega, — eða þegar bankar landsins safna tugmilljóna gróða árlega. Sjálfur Landsbankinn, sem þjóðin á sannarlega, safnar 28 millj. gróða á einu ári af viðskiptum sínum við atvinnuvegina og alla landsmenn. Hamingjan má vita, hvað sú stofnun heldur sig hafa að gera með að græða árlega 28 millj. fallinna og fallandi seðlakróna, og þó að það væri gull, — gulltrygging íslenzkra seðla er ekki í pokum í kjallara Landsbankans, heldur íslenzkar vinnuhendur til lands og sjávar. Ef þær eru hraustar og fá að vinna með verkfærum við sitt hæfi, þá er króna okkar tryggð, en annars ekki.

Það er svo komið í þessari vinnudeilu, að atvinnurekendur og verkalýðurinn eru í raun og veru sammála, af því að báðir aðilar stynja nú undir sama fargi: dýrtíðarvaldinum hér á landi, okri milliliðanna og áþján skatta og tolla. Báðir aðilar snúa sér til þess eina aðila, sem hefur það á valdi sínu að létta þessu fargi af svo að nægi, til hæstv. ríkisstj. Tugir þúsunda, háir og lágir, ríkir og fátækir, bíða og hlusta eftir svari ríkisstj. Þeir fengu svarið þegar í upphafi verkfallsins og aftur í gærkvöld. Svar ráðh. er þetta: Okkur kemur þetta ekki við, og auk þess getur ríkisstj. ekkert gert til þess að leysa deiluna. — Hæstv. fjmrh. sannaði, að á 400 millj. fjárl. finnist enginn liður, þar sem hægt sé að spara eina krónu, ekki einn einasta sendiherra, ekki eina einustu sendiför, ekki eina veizlu, ekki einn bil, ekki eitt embætti; það væri þá helzt á kennslumálum, sagði hæstv. ráðh. Hann hefur verið kennslumálaráðh. Ég ætla ekki að fara að pexa um þetta við þennan hæstv. heimsmeistara í dýrtíð og Íslandsmeistara í eyðslu og pexi. Það muna allir þá tíð, að hv. framsóknarmenn, ekki sízt þessi hæstv. ráðh., þóttust geta bent á sparnaðarleiðir, og það vita allir ástæðuna fyrir því, að þeir geta það ekki í dag. Aðeins eitt dæmi: Í eldhúsumr. 1950 sagði hæstv. Framsóknarráðh. orðrétt:

„Framsóknarmenn fengu því ekki ráðið, að sendiherrum á Norðurlöndum væri fækkað um einn.“ Siðan hafa verið skipaðir 2 sendiherrar á Norðurlöndum; þeir eru báðir framsóknarmenn. Nú veit þjóðin það, að á 400 millj. kr. fjárl. er ekki hægt að spara grænan eyri, og þjóðin veit meira. Hún veit nú, að ríkisstj. vill ekki leysa vinnudeiluna. Það kemur hæstv. ráðh. ekki við, þótt flestallir atvinnuvegir þjóðarinnar og samgöngur séu stöðvaðar. Ríkisstj. vill að vísu, að vinnudeilan leysist, en á einn veg, þann veg, að þegar verkafólkið sé orðið svo soltið, að það hafist ekki við lengur, þá fari það aftur að vinna við sömu kjör og sömu dýrtíð og þá fari atvinnurekendur aftur að gera út sín skip, reka sinn iðnað við sömu aðbúð af ríkisvaldsins hálfu, sömu skatta og tolla, sömu vexti, sömu vátryggingargjöld, sömu fragtir, sama milliliðaokur og sömu dýrtíð.

Hvernig stendur á þessu? Er ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. ekki fyrst og fremst ríkisstj. atvinnurekendanna í aðalframleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar? Er hún ekki stj. smárra og stórra útvegsmanna, iðnrekenda og bænda? Nei, hún er fyrst og fremst ríkisstj. þeirrar einu virkilegu gróðastéttar, sem til er í þessu landi, milliliðaokraranna, en sú gróðastétt er nú slitin úr öllum hagsmunatengslum við aðalframleiðsluatvinnureksturinn í landinu — í útgerð, í iðnaði og í landbúnaði. Ég skal skýra þetta. Það græðir enginn stórfé á búskap, en það er hægt að græða stórfé á því að flytja inn nauðsynjar landbúnaðarins, t.d. vélar, vélahluta, benzín og olíu. Smáútvegsmenn raka ekki saman fé, jafnvei ekki togaraeigendur. Þess vegna á Kveldúlfur nú ekki nema einn togara. En það er hægt að græða stórfé á því að flytja inn og selja útgerðinni nauðsynjar hennar, veiðarfæri, olíu, kol, salt o.s.frv. Það er hægt að græða stórfé á því að lána útgerðinni rekstrarfé. Það er hægt að græða milljónir á því að kaupa af útgerðinni fiskinn upp úr sjónum og selja hann aftur. Það er áhætta að eiga fé sitt í fiskiskipum, stórum og smáum, og þeir verða aldrei stórríkir, sjómennirnir, sem hætta lífi sínu á þeim skipum og bátum. En það er hægt að græða milljónir árlega á því að vátryggja þessi skip og þessa menn. Við greiðum aðeins erlendum vátryggingarfélögum 21 millj. í árlegan gróða. Iðnrekendur kvarta hástöfum, gefast upp við sinn rekstur og segja verkafólki upp í hundraðatali, en það græðist vel á því að flytja inn hráefni til iðnaðar og þó mest á því að flytja inn tilbúnar iðnaðarvörur. Ríkir menn leggja nú ógjarnan fé sitt í útgerð eða iðnrekstur. Þeir geta haft það í útlánum með allt að 50% vöxtum á ári, með veði í húsum, sem húsnæðislaust fólk er að byggja eða kaupa, og þeim er óhætt að leggja það í heildverzlun, sem flytur inn nauðsynjar almennings og nauðsynjar atvinnuveganna. Á því græðist. En ef þeir ríku menn hafa einnig aðgang að lánsfé í bönkum þjóðarinnar og hafa tök á sjálfu ríkisvaldinu og sambönd við erlent fjármagn og auðhringa, þá er hægt að stofna risavaxin hlutafélög um t.d. bilainnflutning og bílaverzlun, olíuinnflutning og olíuverzlun, vátryggingar- og útlánastarfsemi og jafnvel eina áburðarverksmiðju. Þess vegna hafa á síðustu árum þotið upp ný hlutafélög í þessum greinum, og í flestum hinna þekktustu þeirra hafa tvö nöfn fundizt meðal hluthafa, nöfnin Vilhjálmur Þór og Björn Ólafsson. Samvinna þessi mun vera nýjasta greinin á meiði samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi. Þessi tegund samvinnu blómgast t.d. ágætlega í Coca-cola-verksmiðjunni, Esso og Áburðarverksmiðjunni h/f. Það eru þessir menn, Björn Ólafsson, hæstv. viðskmrh., og Vilhjálmur Þór, sem mestu ráða um stefnu hæstv. ríkisstj. nú. Þeir Ólafur Thors, hæstv. atvmrh., og Hermann Jónasson, hæstv. landbrh., sem eru taldir vera og eru í sínu kjördæmi kosnir til að vera og eflaust vilja vera fulltrúar smáútvegsmanna og bænda, þeir ráða minnu. Það, sem ræður, þegar á reynir og í odda skerst, eru hagsmunir hinnar einu raunverulegu gróðastéttar, milliliðaokraranna. Fulltrúar og tákn þeirra eru þeir menn, sem ég áður nefndi. Bezta dæmið um þetta er bátagjaldeyrisfyrirkomulagið. Útvegsmenn fá 50–60 millj. kr. ársstyrk til að halda útgerðinni á floti. Milliliðirnir fá 100 milljónir. Almenningur borgar og sveitist blóði sínu til þess að láta endana mætast, eins og sagt er, kaupið hrökkva fyrir sköttum og nauðþurftum. Og þetta, að gróðastétt milliliðanna hefur meiri áhrif í stjórnarfl. en atvinnurekendurnir í framleiðslunni, útvegsmenn og iðnrekendurnir, veldur því, að hæstv. ríkisstj. vill ekki leysa vinnudelluna. Það er ekki hægt að leysa vinnudeiluna að gagni nema á kostnað gróðastéttarinnar, milliliðanna. Þar er við voldugan að etja, en það er eitt af menningaráhrifum verkalýðshreyfingarinnar í nútímaþjóðfélagi, að samtökin og hin hörðu átök, sem þau lenda í, kenna verkamönnum, hvílíkt afl þeir eru, ef þeir standa sameinaðir.

Nú stendur svo á, að í því stríði, sem hér er háð, eiga meira að segja atvinnurekendurnir, útvegsmenn og iðnrekendur, samleið með verkalýðnum um þá kröfu, að milliliðaokrararnir, sem hvergi koma nærri atvinnurekstrinum í framleiðslunni, sitji ekki lengur einir að gróðanum í þjóðfélaginu. Sú ríkisstj., sem veldur slíkri öfugþróun, óskynsemi og ranglæti, á að fara frá völdum og það fyrr en síðar. Ef þetta stríð vinnst ekki til fulls núna fyrir jól, þá er áreiðanlega hægt að vinna það um eða eftir sumarsólstöðurnar næstu. Þá verða kosningar, og ef alþýðan stendur þá sameinuð, getur hún unnið mikilvæga orustu í sínu langa stríði. Alþýðan vinnur alltaf og alls staðar sitt langa stríð að lokum. Hún vinnur það, þegar hún skilur, að það er hún, sem skapar öll verðmæti þjóðfélagsins, af því að það er hún, sem leiðir þau fram úr skauti náttúrunnar með sínum vinnuhöndum.

Fyrsta og helzta afsökun núverandi ríkisstj. er sú, að hún hafi tekið við af ábyrgðarlausri og skammsýnni ríkisstj., sem hafi látið sér nægja bráðabirgðalausnir á hverju vandamáli, sniðgengið erfiðleikana í stað þess að horfast í augu við þá og því siglt öllu í strand, áður en núverandi ríkisstj. tók við. Formenn þeirra flokka, sem standa að núverandi ríkisstj., hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, form. Framsfl., og Ólafur Thors, hæstv. atvmrh., form. Sjálfstfl., hafa einkum lýst viðskilnaði þeirrar stj., sem núverandi stj. tók við af, og arfinum, sem hún skildi eftir, með miklum skarpleik og þunga. Ég þarf ekki að rekja nákvæmlega ummæli þessara hæstv. ráðh. um fyrirrennara sína. Þeir hafa haft þau yfir í hverjum eldhúsumr. nú síðustu árin, sem þessi ríkisstj. hefur setið. Þau eru í stuttu máli á þá leið, að bátaútvegurinn hafi verið gjaldþrota, nýsköpunartogararnir komnir að þroti, ríkissjóður kominn gersamlega í þrot, enda safnað óreiðuskuldum að upphæð allt að 190 millj. kr. á þeim þrem árum, sem sú ríkisstj. sat, sem hér um ræðir. Veltuskatturinn, tollarnir, gjaldeyrisskatturinn o.s.frv., samtals um 70 millj. kr., sem þjóðinni hafði verið sagt að væru innheimtar til þess að greiða niður framleiðsluvörurnar, höfðu farið í eyðslu, sagði Hermann Jónasson, hæstv. landbrh., í útvarpsumr. 1950. Niðurgreiðslurnar höfðu verið teknar að láni, og voru nú samansafnaðar vanskilaskuldir, en þessu var vitanlega ekki hægt að halda áfram lengur, af þeirri einföldu ástæðu, að ríkissjóður fékk hvergi lán og var kominn í þrot. Ólafur Thors, hæstv. atvmrh., hefur lýst þessu mjög á sömu lund. Útgjöld ríkisins, sagði hann á einum stað, voru hækkuð úr 170 millj. í 300 millj. Stj. lagði nýja skatta á þjóðina, sem námu 100 millj. Samt var greiðsluhalli ríkissjóðs um 60 millj. á ári hennar þrjú valdaár. Vanskila- og óreiðuskuldum var safnað um þá upphæð. Verðbólgan óx um 60–70 stig. Þetta sagði hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, m.a. í Morgunblaðinu 21. okt. 1949, og báðir hafa form. núverandi stjórnarflokka lagt áherzlu á það, að sú ríkisstj., sem var við völd 1947–49, hafi með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi raunverulega fellt gengi íslenzku krónunnar og þannig gert gengislækkunina 1950 óhjákvæmilega staðfestingu á orðnum hlut, enda hafi stj. Stefáns Jóhanns byrjað hina opinberu gengisfellingu í október 1949.

Þetta eru helztu afsakanir og málsbætur núverandi stjórnarflokka fyrir gerðum núverandi stj., að gengislækkunin hafi verið óumflýjanleg nauðsyn, afleiðing þess, sem var áður orðið, bein afleiðing af stefnu stj. Stefáns Jóhanns 1947–49. En hvaða flokkar réðu þeirri stefnu? Það veit öll þjóðin, að það voru fyrst og fremst Sjálfstfl. og Framsfl., en Stefán Jóhann var þar áhrifalitil toppfígúra. Hverjir voru aðalmenn þessarar stj. Stefáns Jóhanns? Það voru Bjarni Benediktsson og Eysteinn Jónsson, núverandi hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh., sömu mennirnir og mestu ráða í núverandi ríkisstj. Hverjir tóku ákvarðanir í stefnu- og stjórnarathöfnum þessarar stj. Stefáns Jóhanns? Það voru vitanlega miðstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. undir forsæti Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar. Hlutverk Alþfl.- ráðh. í þessari stj., Stefáns Jóhanns og Emils Jónssonar, hv. 8. landsk. og hv. þm. Hafnf., hefur aldrei orðið augljósara en í stjórnarandstöðu þessara sömu manna í tíð núverandi stj. Þegar þeir hafa ráðizt á stefnu núverandi stj., sem þeir hafa oft gert af miklum krafti og gildum rökum, þá hafa þeir jafnan fengið sömu svörin frá núverandi hæstv. ráðh., þ. á m. og ekki sízt frá fyrrverandi félögum sínum í stj. Stefáns Jóhanns, þeim 13jarna Benediktssyni og Eysteini Jónssyni, að þeim færist ekki að ráðast gegn stefnu núverandi stj., því að hún sé hin sama og stefna fyrstu stj. Alþfl. Þegar þeir hv. Alþfl.- menn og fyrrverandi ráðh. ráðast á kjaraskerðingu alþýðunnar af hálfu núverandi ríkisstj., eru þeir spurðir: Hver lögbauð fyrstu kjaraskerðingu alþýðunnar? Þegar þeir ráðast á skattaálögur núverandi stjórnarvalda, eru þeir spurðir: Hver lagði 100 millj. á bak alþýðunnar á einu ári? Hver lagði á söluskatt og tolla? Og þegar þeir ráðast réttilega á eyðslu og sóun og svík við sparnaðarloforðin, eru þeir spurðir: Hvað sparaði stj. Stefáns Jóhanns? Og þegar þeir ráðast réttilega á gengislækkanir núverandi stj., opinbera gengislækkun og raunverulega gengislækkun með bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu, eru þeir spurðir: Hver undirbjó raunverulega gengislækkun og framkvæmdi opinbera gengislækkun árið 1949? Og þegar þeir ráðast á bátagjaldeyrinn, er svarað: Er bátagjaldeyrir annað en hrognapeningar í 10. veiði — o.s.frv.? Þannig hefur stjórnarandstaða þessara hv. þm., Stefáns Jóhanns og Emils Jónssonar, verið ónýtt, ekki vegna þess að þeir séu ónýtir í ádeilum sínum á núverandi stj., heldur vegna þess, að það er auðvelt fyrir núverandi stj. að sanna, að stefna hennar er beint framhald af stefnu Stefáns Jóhanns-stjórnarinnar, enda sömu öflin og sömu mennirnir, sem mestu ráða, aðeins stórkostlegri og ósvífnari árásir á kjör alþýðunnar, því að ofan á skattpíninguna með tollum og söluskatti hefur verið bætt tvennum gengislækkunum, sem hafa leitt af sér miklu stórfelldari kjaraskerðingar alþýðunnar, en stj. Stefáns Jóhanns stóð að, og þar á ofan bætist stórfelldara atvinnuleysi, en var í tíð Stefáns Jóhanns-stjórnarinnar.

Fyrrverandi foringjar Alþfl. hafa sýnt góðan vilja til þess að veita núverandi ríkisstj. harða andstöðu hér á hv. Alþ., og þeir hafa sannarlega mikið til síns máls, þegar þeir hafa sýnt fram á það með rökum, hve stórlega hagur vinnandi fólks í landinu og aðstaða atvinnuveganna hefur versnað síðan á þeirra stjórnarárum fyrir beinar aðgerðir núverandi ríkisstj., en þeir hafa staðið höllum fæti í stjórnarandstöðunni vegna fortíðar sinnar. Þetta hefur fólkið í Alþfl. fundið. Það hefur nú loksins risið upp, kastað frá sér þessum forustumönnum sínum. En hentar það mjög vel hæstv. form. Sjálfstfl., Ólafi Thors, og Hermanni Jónassyni að sanna það við hverjar eldhúsumr., hve glæfraleg stefna Stefáns Jóhanns hafi verið og að núverandi stj. hafi tekið víð gjaldþroti hennar? Og það er satt, þeir voru ekki í stj. Stefáns Jóhanns, en eru í þessari. En það hentar betur hæstv. varaform. stjórnarflokkanna, þeim hæstv. ráðh. Bjarna Benediktssyni og Eysteini Jónssyni, að sanna, að stefna núverandi stj. er hin sama og fyrrv. stj. Stefáns Jóhanns, að gengislækkuninni viðbættri, sem þeir hafa sannað að hafi verið óumflýjanleg nauðsyn, afleiðing þess, sem áður var orðið, eins og hæstv. ráðh. Eysteinn Jónsson hefur komizt að orði. Þessir varaform. stjfl. hafa verið í báðum þessum stj. og ráðið mestu í báðum. Hér er því sama stefnan og raunverulega sama stj. nema skipt um menn, form. stjfl. komnir í stað þeirra hv. 8. landsk. þm., Stefáns Jóhanns, og hv. þm. Hafnf., Emils Jónssonar. Nokkrar staðreyndir sýna þetta ljóslega. Útgjöld ríkisins voru, áður en stj. Stefáns Jóhanns tók við, um 170 millj., að því er haldið hefur verið fram. Sú stj. hækkaði þau í nær 300 millj. Núverandi ríkisstj. hefur komið þeim upp í 400 millj. Álögur á landsfólkið, skattar og tollar, hækkuðu í tíð stj. Stefáns Jóhanns um 100 millj., að því er núverandi hæstv. ráðh. telja. Núverandi stj. hefur hækkað álögurnar á þjóðina um 200 millj. Dýrtíðin samkv. gömlu vísitölunni var í janúar 1947 310 stig, en í oklóber 1952 619 stig, hefur hækkað um 300 stig. Skuldir ríkissjóðs hækkuðu samkv. uppgjöri hagstofunnar um 200 millj. í tíð stj. Stefáns Jóhanns. Þær hækkuðu um aðrar 200 millj. í tíð núverandi ríkisstj.

En hverju lofuðu stjfl. fyrir kosningarnar 1949? Hafa yfirlýsingar form. flokkanna og blaða þeirra í kosningabaráttunni þá skýrt málið? Um leið og form. flokkanna, Ólafur Thors og Hermann Jónasson, gagnrýndu stj. Stefáns Jóhanns svo harðlega, lofuðu þeir gerbreyttri stjórnarstefnu. Ég fylgdist ekki með kosningaloforðum Hermanns Jónassonar á Ströndum, en því betur með Ólafi Thors í Gullbr.- og Kjósarsýslu. Hann lofaði á hverjum fundi, að ef horfið yrði að gengislækkuninni, skyldu 100 millj. kr. skattar Stefáns Jóhanns-stj. afnumdir. Hann endurtók þetta loforð í aðalútvarpsræðu sinni fyrir kosningarnar, sem birt er í Morgunblaðinu 20. okt. 1949. Þar stendur:

„Ef breyta þarf skráðu gengi krónunnar, til þess að auka kaupmátt hennar, með því að afnema 100 millj. kr. skatta og svartamarkað og tryggja atvinnu handa öllum, þá er það almenningi til hagsbóta, og þá á að gera það.“

Getur þetta loforð verið skýrara? Ef gengið yrði lækkað, þá átti að afnema 100 millj. kr. skatta. En hvað var gert? Hundrað milljóna skattarnir voru ekki afnumdir. Álögurnar á þjóðinni voru raunverulega þrefaldaðar. 200 millj. kr. álögum var bætt við, eftir að gengið var lækkað.

Það sjá nú allir, að gengislækkunin hefur gersamlega mistekizt. En það verður að játa, að kjósendur Sjálfstfl. og Framsfl. 1949 trúðu á gengislækkunina sem bjargráð þá og þegar hún var framkvæmd. Nú trúir enginn á gengislækkun sem bjargráð, ekki einu sinni hæstv. ríkisstj. sjálf. En hve margir munu trúa kosningaloforðum þessara flokka um ný bjargráð og nýjar skattalækkanir fyrir næstu kosningar? Öll þjóðin veit, að ríkisstj. Bretlands hefur sagt ríkisstj. Íslands og íslenzku þjóðinni viðskiptastrið — kalt stríð — á hendur. Hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, fór mjög hörðum orðum um framkomu brezkra togaraeigenda í gærkvöld og sveigði um leið fast að brezku stj. Við vitum, að það er í raun og veru brezka stj., en ekki brezkir togaramenn, sem lokar brezkum höfnum fyrir íslenzkum skipum eða setur löndunarbann á íslenzkan fisk. En hverju sætir það, að öndvegisþjóð lýðræðisins og vinaþjóð okkar beitir okkur ekki aðeins kúgun og ofbeldi, heldur sýnir okkur um leið kalda fyrirlitningu? Við erum í bandalagi við þessa þjóð, ekki einu, heldur mörgum. Báðar þjóðirnar eru meðal Sameinuðu þjóðanna. Við erum í Atlantshafsbandalaginu með Bretum, jafnréttháir og þeir að sagt er. Í sáttmála þess segir, að þjóðirnar skuldbindi sig til samvinnu, ekki aðeins á hernaðarsviðinu, heldur einnig í efnahagsmálum og menningarmálum. Einmitt Bretar hafa viljað leggja mikla áherzlu á þetta síðasta. Við erum með Bretum í svo nefndu Evrópuráði. Í stofnskrá þess eru mjög hátíðleg heit og skuldbindingar um nána samvinnu. Við tókum ásamt Bretum þátt í svo nefndri efnahagssamvinnu til viðreisnar Evrópu. Um hana eru margir hátíðlegir og flóknir samningar um nána samvinnu og samhjálp. Í einum þessara samninga, sem Bretar hafa undirskrifað og Ísland einnig, segir svo meðal annars:

„Ríkisstjórn Bretlands mun gera þær ráðstafanir, sem hún telur viðeigandi, og mun hafa samvinnu við þátttökuríkin um að koma í veg fyrir, að beitt verði af hálfu verzlunarfyrirtækja einstaklinga eða opinberra aðila þeim verzlunaraðferðum, sem torvelda samkeppni, takmarka aðgang að mörkuðum eða stuðla að einokunarfyrirkomulagi, þegar slíkar aðferðir eða ráðstafanir verða til að hefta framgang hinnar sameiginlegu áætlunar um viðreisn Evrópu.“

Þetta samningsákvæði á við í þessu tilfelli. Við höfum enn fremur sérstakan samning um fisklandanir í Bretlandi, gerðan milli Íslands og Bretlands 5. sept. 1949, sem gilti til 28. febr. 1950, en var framlengdur með bréfi í marz 1950 og er í fullu gildi til þessa dags. Í honum skuldbindur brezka stj. sig til þess að leyfa íslenzkum fiskiskipum að landa í ákveðnum brezkum höfnum ákveðnu magni af fiski, og eru um þetta í samningnum ákveðin, ótviræð ákvæði. Þessi samningur hefur verið þverbrotinn. Við vitum öll, að rýmkun landhelginnar er okkur lífsnauðsyn. Hún byggist, hvað sem öllum þjóðarétti liður, á þeim rétti, sem er öllum þjóðarétti æðri, rétti smáþjóðar til að lifa. Hvaða erindi eigum við nú í mörg og margvísleg bandalög með þjóð, sem ekki virðir gerða samninga né heldur rétt okkar sem þjóðar til að lifa? Það er aðeins eitt svar réttmætt og viðeigandi við Breta, að segja Ísland úr Atlantshafsbandalaginu og stækka landhelgina. Í efnahagssamvinnunni höfum við ekkert að gera með þjóðum, þar sem ekki er um neina efnahagssamvinnu að ræða, enda gjafirnar nú á enda og þurfa ekki lengur að freista þeirra, sem þær hafa viljað fá. Og ekki ætti mikill skaði að vera skeður, þótt við drægjum hv. 8. landsk. þm., Stefán Jóhann, út úr Evrópuráðinu um leið.

En ég spurði áðan og spyr enn: Hvers vegna leyfa Bretar sér að sýna okkur þá lítilsvirðingu að leika okkur þannig? Má ef til vill benda á ástæðu til þess, að þeir líti smáum augum á þjóðarheiður okkar og telji okkur lítilsvirðingar maklegasta? Lítum á. Árið 1940 mótmæltum við hernámi Breta í samræmi við yfirlýsta utanríkisstefnu þjóðarinnar, sem er hin eina skynsamlega og rétta. Árið eftir gerðum við herverndarsamning við Bandaríkin. Árið 1945 kröfðust Bandaríkin herstöðva hér á landi í 100 ár. Allir stjórnmálamenn landsins lýstu því þá yfir, að það skyldi aldrei ske, erlendur her á Íslandi væri sjálfsmorð nýfengnu sjálfstæði. En hvað hefur skeð? Halda menn, að Bretar hafi ekki veitt því athygli, sem skeð hefur og hvernig það hefur skeð þvert ofan í allar yfirlýsingar íslenzkra stjórnmálamanna? Árið 1946 fengu Bandaríkin Keflavíkursamning, þótt þeir hefðu svikið herverndarsamninginn frá 1941 um að fara með allan her sinn burt. Gegn þeirri samningsgerð var mikil mótstaða á Alþ. Arið 1947, hinn 14. okt., lýsti utanrrh. Íslands, Bjarni Benediktsson, sem þá hafði gegnt embætti í 8 mánuði, því yfir, að ekki kæmi til mála að taka 7–8 millj. Marshalllán. Hæstv. ráðh. sagði þá:

„Ísland er ekki í hópi þeirra þjóða, sem hafa beðið um slíka aðstoð. Við skulum vona, að við berum gæfu til að haga svo málum okkar, að við þurfum ekki á henni að halda, en jafnvel þótt miklu stærra lán væri fáanlegt, er greinilegt, að afleiðing þess yrði einungis sú, að við mundum á skömmum tíma festast í skuldafeni, sem við ættum erfitt með að losna úr.“

Á árunum 1948–52 höfum við þegið nær 450 millj. kr. gjafir og lán frá Bandaríkjunum, þrátt fyrir hinar hraustlegu yfirlýsingar 1948. Árið 1949 gengum við í Atlantshafsbandalagið. Enn voru gefnar yfirlýsingar. Hæstv. utanrrh. lýsti yfir, að samkv. skýlausum loforðum utanrrh. Bandaríkjanna í embættisnafni skyldi aldrei til þess koma, að farið yrði fram á herstöðvar á Íslandi á friðartímum, enda gáfu forustumenn þriggja flokka yfirlýsingu um, að þær yrðu aldrei leyfðar, þótt farið yrði fram á það. Það er skylt að geta þess, að einn hæstv. ráðh., Hermann Jónasson, var ekki aðeins andvigur herstöðvakröfunum 1945, heldur einnig Keflavíkursamningnum, og í júlí 1948 varaði hann við Marshalllánunum og gjöfunum í bréfi til ríkisstj. Hann var einnig andvígur þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og sagði í bréfi til kjósenda sinna í síðustu kosningum, eftir því sem hæstv. utanrrh. hefur upplýst, að sér hafi þótt stjórn Stefáns Jóhanns undirlægjugjörn og ósjálfstæð í utanríkismálum.

En er nú nokkurt samband á milli þeirrar staðreyndar, að tvær ríkisstj. hafa þegið 450 millj. af Bandaríkjamönnum, og hinnar, að stjórnmálamenn og heilir flokkar hafa gert í utanríkismálum einmitt það, sem þeir sögðust aldrei mundu gera? Stóð það á nokkru fyrir þessum tveimur hæstv. ríkisstj., hvort þær fengju gjafirnar eða ekki? Hv. 8. landsk. þm. svaraði því í Alþýðublaðinu í dag. „Það er því miður einnig svo komið,“ segir hann þar, „að óvenjulega ömurlegt ástand og öryggisleysi blasir nú við framtið fjölda manna. Og þó væri þetta enn geigvænlegra, ef ekki hefði notið 300–400 millj. kr. gjafafjár, er gert hefur kleift að viðhalda innflutningi og leggja í framkvæmdir við byggingu viðaukaorkuveranna við Laxá og Sog og reisa áburðarverksmiðju. Og ekki má heldur gleyma því, að framkvæmdir á vegum varnarhersins hafa veitt mörg hundruð mönnum vinnu. Ef ekki hefði komið til þessarar tvöföldu erlendu aðstoðar, væri hér á landi orðið hreint öngþveiti og algert neyðarástand.“ — Hvað mundi það þá þýða fyrir hæstv. núverandi ríkisstj., ef hér á landi væri í dag algert öngþveiti og hreint neyðarástand? Hvernig stæði ríkisstj. þá að vígi í þessum umr. og í vinnudeilunum? Hafa Bretar ef til vill hugmynd um það, hve karlmannlega við höfum á undanförnum árum snúizt við erfiðleikum og ágengni erlends ríkis? Og finnst þeim ef til vill þess vegna ólíklegt, að við snúumst nú karlmannlegar við samningsrofum þeirra og hótunum?

Ég sagði í upphafi máls míns, að þrjár staðreyndir, sem nú blasa við, boðuðu tímamót og alvarlega baráttu fyrir framtíð þjóðarinnar: 1) Vinnudeilurnar, 2) að gjafirnar hætta og 3) viðskiptabann Breta. Gjafirnar hætta; það er víst. Blasir þá við algert öngþveiti og hreint neyðarástand, eins og Stefán Jóhann segir. Ef löndunarbannið heldur áfram, eins og líklegt er, þá virðast sannarlega blasa við nýir erfiðleikar. Þeir erfiðleikar eru svo miklir, að þeir verða ekki leystir af neinni ríkisstj. annarri en þeirri, sem hefur einhuga verkalýð og vinnustéttir þjóðarinnar að baki sér. Á Íslandi hafa aðeins setið tvær slíkar stjórnir: stj. Hermanns Jónassonar 1934–38 og stj. Ólafs Thors 1944–46. Báðar þær stj. unnu afrek hvor á sinn hátt, þótt báðum væri ábótavant. Sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hótar nýrri gengisfellingu íslenzku krónunnar. Það er hennar eina lausn og bjargráð út úr aðsteðjandi erfiðleikum. En það er engin lausn og verri en engin. Það er hægt að mynda þegar á morgun ríkisstj., sem getur leyst vinnudeiluna með samningum við verkalýðinn án gengisfellingar. En þeim, sem taka við af núverandi hæstv. ríkisstj., hverjir sem það kunna að verða og hvenær sem það verður, er bezt að gera sér það ljóst, að nú er ekki tími til að lofa gulli og grænum skógum. En þið, hæstv. ráðh., sem hafið lýst því yfir, að þið viljið ekki og getið ekki leyst vinnudeiluna og erfiðleikana með öðru, en gengislækkun, ef ykkur er alvara, þá eigið þið að fara og fara sem fyrst. Það skiptir ekki höfuðmáli, hvenær þíð farið eða í hvaða embætti, en í hamingjunnar bænum farið.