09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

1. mál, fjárlög 1953

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það má sjálfsagt ýmislegt að núverandi ríkisstj. finna, en Íslendingar væru orðnir einkennilegt fólk, ef það borgaði sig fyrir ræðumenn, eins og ræðumenn gerðu í gærkvöld, að halda því fram, að núverandi ráðherrar séu slík varmenni, að þeir gleðjist yfir því alveg sérstaklega, ef fátækt fólk hefur léleg lífskjör, og meira að segja að stjórnarstefnan sé beinlínis við það miðuð að ná því marki. Samhliða þessum tón gerðist hv. þm. Einar Olgeirsson svo óskammfeilinn að halda því enn að þjóðinni, að nýsköpunarstjórnin hafi með stórhug vísað þjóðinni veginn, enda hafi fólki aldrei liðið eins vel hér á landi og í hennar valdatíð, og þetta er endurtekið nú í síðustu ræðu. Nýsköpunarstjórnin bjó við betra verzlunarárferði, en nokkur önnur ríkisstj., svo sem rakið var í gærkvöld. Hún hafði því meiri þjóðartekjur úr að spila, en aðrar ríkisstj. Hún eyddi ekki aðeins öllum tekjunum, heldur öllum gjaldeyrisforðanum mikla, sem safnazt hafði erlendis, þessum þjóðarauði, sem naumast hefur átt sinn líka hjá smáþjóð, og það helzta, sem upp úr stóð eftir allt sukkið, voru 30 togarar, sem hv. þm. Einar Olgeirsson talaði um í gærkvöld. Það var ekki litið þrekvirki að láta þjóðina hafa sæmilega í sig og á, á þessum tímum.

En aldrei hefur misskipting arðs og auðs verið meiri á Íslandi, en þessi ár, aldrei meira ranglæti. Og ég vil skjóta því hér inn í, að e.t.v. er þetta meginorsök þeirrar misskiptingar, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason minntist á hér í gærkvöld. En meðan mikill hluti þjóðarinnar sigldi á gullskýinu, taldi ríkisstj. þjóðinni trú um, að þetta væri allt varanlegt ástand, því að þegar erlendi gjaldeyririnn væri eyddur, yrði búið að nýskapa allt atvinnulíf landsins, dýrtíðin gerði ekkert til, því að tækin yrðu svo fullkomin, að við þyldum alla samkeppni fyrir því.

Eins og allir vita, voru þetta fánýt glamuryrði, og hver einasti fjármálasérfræðingur og hagfræðingur, sem rannsakað hefur íslenzkt fjármálalíf, hefur komizt að þeirri einu og sömu niðurstöðu, að nýsköpunarstjórnin og stjórnin 1942, sem hvort tveggja var sama tóbakið og kommúnistarnir uppistaðan í, séu meginupphaf og orsök raunasögu okkar í efnahagsmálunum síðari ár. Ég skora á ræðumenn hér í kvöld að nefna einn einasta sérfræðing í fjármálum, sem ekki hefur sett fingurinn á þessa nýsköpunarstjórn og sagt: Þessi stjórn vakti upp dýrtíðardrauginn. Þessi draugur kom nýsköpunarstjórninni sjálfri fyrir kattarnef að lokum, og það hafa allar ríkisstj. síðan verið að glíma við að koma honum niður án árangurs, en hann hefur komizt nær því sjálfur, en flestar stórplágur í þessu landi að liða sundur íslenzkt þjóðfélag, svo sem dæmin sýna í dag. — Það er engin furða, þótt hv. þm. Einari Olgeirssyni og þeim flokki, sem hann tilheyrir, þyki nýsköpunarstjórnin hafa vísað veginn:

Ef menn vilja gera sér rétta grein fyrir verkum núverandi ríkisstj., verður ekki hjá því komizt að taka tillit til þess, við hverju hún tók og hvaða erfiðleika hún hefur haft við að stríða. Hæstv. forsrh. gerði mjög glögga grein fyrir þessu í gærkvöld, og ég þarf ekki að endurtaka það, sem hann sagði. Þegar í árslok 1946 var hluti af útflutningsframleiðslunni hættur að bera sig, og var þá fiskábyrgðin illræmda tekin upp. Rússar höfðu af sínu alkunna raunsæi lýst yfir þjóða fyrstir, að þeir gætu ekki verzlað við Íslendinga, af því að framleiðsla okkar væri of dýr.

Jafnaðarmönnum hefur oft verið núið því um nasir, að þeir skertu vísitöluna í stjórnartið Stefáns Jóh. Stefánssonar og neituðu að hækka kaup, sögðu að, að öðrum kosti mundi framleiðslan stöðvast. Þetta var auðvitað rétt, þótt þeir prédiki annað nú. Kauphækkunin 1949 varð líka banabiti stjórnar Stefáns Jóh. Stefánssonar og eyðilagði síðustu vonina um, að komizt yrði hjá gengislækkun. Núverandi stjórn varð að framkvæma hana og gerði það. Hún tók sér einnig fyrir hendur að rétta við fjárhag ríkisins með þeim árangri, sem lýst hefur verið. Hún kvað niður svarta markaðinn, sem gert hefði vísitöluuppbætur lítils virði. Hún gerði ráðstafanir til að bæta úr vöruskortinum. Í stað hans selja útsölur nú vörur á niðursettu verði, og ef fólk gætir sín fyrir okrurunum, getur það nú fengið allar sínar nauðsynjar á réttu verði gegnum kaupfélög eða pöntunarfélög, sem fólk stofnar nú í óða önn hér í Reykjavík.

Allir hagfræðingar og aðrir sérfræðingar, sem leitað var til, hvar í flokki sem þeir stóðu, töldu gengisbreytingu eina úrræðið, sem völ væri á. Með leiðréttri skráningu gjaldeyrisins og fleiri ráðstöfunum hefur tekizt að halda atvinnuvegunum í gangi til þessa dags, og nú er verðlag erlendra vara loks lækkandi, jafnvægi í nánd og atvinnuhorfur batnandi þrátt fyrir aflabrest og mjög óhagstætt verð útflutningsvaranna, svo sem sýnt hefur verið.

Í umræðunum hér í gærkvöld vöktu kommúnistar enga undrun, þeir voru rétt eins og venjulega. Þeir sögðu t.d., að ríkið hefði lagt 100 millj. í áburðarverksmiðju. Hið sanna er, að það leggur fram 6 millj. og aðrir 4 millj. í hlutafé og þar af S.Í.S. langmest. Ríkið hefur meiri hluta verksmiðjustjórnar að lögum og ræður fyrirtækinu. Allt annað stofnfé er lán til verksmiðjunnar, sem útvegað hefur verið eins og mörg önnur lán.

En það ætti að hafa vakið furðu allra hugsandi manna að heyra til ræðumanna Alþfl., sem sjálfir áttu forustu í þeirri ríkisstj., sem skildi við 1949 á þann hátt, sem hæstv. forsrh. lýsti í gær. Nú hvetja þeir menn til kauphækkana og eru stórhneykslaðir yfir því, að ekki skuli allt vera í himnalagi í þjóðfélaginu. En þessi ræðumennska stjórnarandstöðunnar og þeir viðburðir, sem orðið hafa í landinu síðustu daga, eiga eins og allt annað sínar skýringar. Atvinnu- og verðlagshorfur eru, eins og fyrr segir, batnandi. Andstöðuflokkar ríkisstj. töldu kosningaaðstöðu hennar of góða. Þess vegna var verkfall kallað yfir þjóðina nú rétt fyrir jólin með þeim furðulega hætti, sem lýst var í gærkvöld, því að það þurfti að hefja það meðan þingið sætí. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hvers eðlis þetta verkfall er. Kommúnistar töluðu um verkfallið á Alþýðusambandsþinginu sem pólitískt verkfall, og þarf enginn um að villast. Báðir ræðumenn þeirra í gærkvöld töluðu um verkfallið sem fyrsta skref í pólitískum samtökum og gáfu meir en í skyn, að án slíks framhalds væri verkfallið þýðingarlítið.

Vitanlega ber að viðurkenna það, að kaupgjald hefur ekki hækkað í hlutfalli við framfærslukostnað. Þess hefur þó verið reynt að gæta, að fórn verkalýðsins yrði sem minnst, enda hefur verið á mörkunum, að framleiðslan gæti staðizt með því kaupgjaldi, sem greitt hefur verið. En nú er allt í einu stofnað til allsherjarverkfalls og launafólkinu sagt, að við þetta skuli ekki unað. Nú eigi að hækka kaupið og afla sér kjarabóta. Við, sem berum fram aðvaranir, erum auðvitað stimplaðir verkalýðsböðlar, sem sérstaka unun höfum af því, að fjölskyldur verkamanna líði skort. Margs konar augljósar blekkingar eru bornar fram, eins og sú, sem hv. þm. Einar Olgeirsson bar fram í gærkvöld, að kaupið ætti að hækka nægilega mikið, til þess að fólkið gæti keypt erlendar vörur í búðunum, og þá sé hægt að selja meiri fisk fyrir meiri erlendar vörur. Það er nú ekki verið að hugsa um íslenzka iðnaðinn þá stundina, og það þykir ekki ómaksins vert að geta um eins lítilmótlegan hlut eins og þann, að ef það kostar meira að framleiða fisk, en fæst fyrir hann á erlendum markaði, þá er enginn fiskur framleiddur. Þá skapast það ástand, sem var, þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, hringrásin á vöruskiptunum stöðvast.

Það er mjög áberandi í þessum umræðum og þó enn meir áberandi á bak við tjöldin hér í Reykjavík, að reynt er að vekja óánægju með verð á landbúnaðarvöru og tortryggni í garð bænda og þeirra, sem sölu annast á vörunum. Spurt er, hvers vegna landbúnaðarvörur hafi verið látnar hækka í haust. Í öðru lagi er talað um, að dreifingarkostnaðurinn, sem svo er nefndur, sé óeðlilegur. Í þriðja lagi er mönnum oft talin trú um, að bændur hafi óeðlilega háar tekjur og beinlínis vaði í peningum, meðan aðrir hafi þröng kjör.

Um verðhækkunina í haust er því að svara, að samkvæmt landslögum kemur hækkun landbúnaðarvara jafnan á eftir hækkun kaupgjaldsins samkvæmt útreikningum hagstofustjóra. Bændur búa raunverulega við gerðardóm, sem ákveður tekjur þeirra. Til þess að koma í veg fyrir hækkun yrðu bændur að afsala sér rétti, er þeir hafa að landslögum, rétti, sem aðrar stéttir eru þegar búnar að nota sér vegna vísitölunnar. Bændur vita það auðvitað eins vel og aðrir, að hækkun getur valdið sölutregðu og skaðað þá sjálfa á sama hátt og hækkun kaupgjalds veldur atvinnuleysi, ef framleiðslan getur ekki keypt vinnuaflið.

Bændur eru eina stéttin í þessu landi, sem sjálf hefur boðið fram og tekið á sig stórar fórnir til þess að afstýra skrúfugangi milli kaupgjalds og verðlags og þar með böli dýrtíðarinnar. Það var árið 1944, sem bændastéttin átti lagakröfu til að fá 9.4% hækkun á landbúnaðarvörum. Þessari kröfu um hækkun, sem þegar var áfallin að lögum, afsalaði bændastéttin sér gegn því, að aðrir stöðvuðu. Það var tekið á móti fórnum bændastéttarinnar, en skilyrðin síðan svikin, og þótt bændur mundu allra stétta fyrstir taka boði um stöðvun, held ég, að fáir geti talið það eðlilegt, að ætlazt sé til þess af þeim, að þeir bjóði aftur fram nýjar fórnir að fyrra bragði eftir það, sem skeði 1944.

Um dreifingarkostnaðinn, sem svo er nefndur, er það að segja, að vel má vera, að álagning smásala á sumar landbúnaðarvörur, t.d. kjöt, sé meiri en vera þyrfti, enda oft verið um það deilt milli þeirra og framleiðsluráðsins, en þegar smásalaálagningunni sleppir, er dreifingarkostnaðurinn að langmestu leyti vinnulaun verkafólks og annar kostnaður, sem ekki getur talizt milliliðakostnaður í venjulegum skilningi. Í dreifingarkostnaði kjötsins t.d. er kostnaður við slátrun, kostnaður við að frysta kjötið eða salta, útskipun á framleiðslustað, flutningur til markaðsstaðar, oft langar leiðir á sjó eða landi, uppskipun á markaðsstað, geymsla í frystihúsi bæði á framleiðslustað og markaðsstað og stundum allt að heilu ári, þangað til það er selt.

Svipaða sögu er að segja um mjólkina og mjólkurafurðirnar. Dreifingarkostnaðurinn svo kallaði, er þar að miklu leyti vinna verkafólks, eða milli 70 og 80% beinlínis. Það skýtur því nokkuð skökku við að tala í sömu andránni um hækkun á kaupi þeirra, sem dreifa vörunni, og lækkun á dreifingarkostnaðinum.

Um tekjur bænda og efnahag almennt mætti tala langt mál. Nokkrir bændur, sem búnir eru að koma sér sérstaklega vel fyrir, hafa vitanlega góðar tekjur, en þeir bændur mega teljast til undantekninga. Því miður er þróunin enn ekki komin lengra en þetta, og einn af þm., sem sæti eiga í þessum sal, skaut í dag að mér bréfi, sem hann hafði fengið í gær frá bónda í einni af sauðfjársveitum harðinda- og garnaveikisvæðisins. Hér er kafli úr bréfinu, þar sem þessi bóndi lýsir með nokkrum glöggum tölum efnahagsástandinu í sinni sveit. Hann segir:

„Haustið 1951 voru í öllum hreppnum settar á vetur 1.439 ær og hrútar og 565 lömb, eða rúmar 2.000 kindur. í haust er fjártalan 2.200 kindur, þar af 680 lömb. Af fjalli hafa komið 1.600 lömb. Bændurnir eru 29. Hafa þeir þá fengið að meðaltali 55 lömb. Þeir selja á til viðhalds að meðaltali 23 hver, og til slátrunar koma þá 32 lömb að meðaltali hjá hverjum bónda. Fyrir þetta á svo að kaupa hey, fóðurbæti, áburð og alls konar lyf handa búfénu, og getur þú þáséð, hvort bruðla megi með það, sem eftir verður, þegar búið er að borga vexti og afborganir af skuldum.“

Þessi bréfkafli frá bóndanum þarf engrar skýringar við. Þarna er ekki mjólkurframleiðsla nema aðeins til heimilisnota, ein til tvær kýr á bæ.

Ég vík aftur að kaupgjaldsmálunum. Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason nefndi margar tölur í gær, og munu þær ræddar af öðrum. En hér hefur líka verið minnzt á mjög skilmerkilega skýrslu frá árinu 1950 um það, hvernig verkalýðurinn skuli meta, hvenær kauphækkun sé honum hagstæð og hvenær ekki. Þessi skýrsla er samin af fjögurra manna samstarfsnefnd Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Þetta eru trúnaðarmenn verkamanna og launþega og áttu að rannsaka, hvort hagstætt væri fyrir þessar stéttir að hækka kaup eftir gengisbreytinguna. Álit nefndarinnar, 60 bls. að stærð, dags. 27. maí 1950, er til á prenti, og allir nm. voru sammála og allir nm. þannig settir í verkalýðs- og launastétt, að ég býst ekki við, að þeir verði vefengdir um, að þeir segi hið sanna og réttasta í þessu máli. En um hvað voru þessir menn sammála? Þeir voru sammála um, að það væri ekki til hagsbóta fyrir verkamenn og launþega að krefjast launahækkunar, meðan þjóðartekjur ykjust ekki vegna afkastaaukningar eða fyrir bætt hlutfall milli verðlags útfluttra vara og innfluttra vara. Þeir segja, að ef þessi skilyrði séu ekki til staðar, geti kauphækkun meira að segja orsakað kjaraskerðingu, og þeir sýna með nákvæmum útreikningum, hvernig á því standi. Þeir taka til athugunar, hvort tekjur þjóðarbúsins hafi vaxið, og segja síðan orðrétt á bls. 49 í hinu prentaða nál.:

„Á undanförnum árum hefur þróunin verið öll önnur. Raunverulegar þjóðartekjur hafa lækkað vegna versnandi verzlunarárferðis, aflabrests og minnkandi afkasta að öðru leyti, sem eiga rót sína að rekja til eyðingar gjaldeyrisforðans. Allar líkur benda til þess, að sú þróun muni halda áfram um sinn, nema því aðeins að breyting verði á síldarafla frá því, sem verið hefur á undanförnum árum.“ — Og loks segja þeir enn orðrétt: „Það er því óhætt að fullyrða, að sú forsenda, að ekki geti verið um raunverulega aukningu þjóðartekna að ræða, muni vera í fullu gildi á næstunni.“

Því miður hafa þessir menn reynzt allt of sannspáir, því að ef ekki var grundvöllur fyrir kauphækkanir 1950, verkalýðnum til hagsbóta, þá er hann þó enn þá síður til staðar 1952. En ef verkalýðurinn trúir ekki þeim mönnum, sem hann sjálfur skipar til að rannsaka, hvað honum sé fyrir beztu, þá fer málið að vandast. En hið sanna er, að forvígismenn verkfallsins og margir launamenn vita, að trúnaðarmenn þeirra sögðu þeim satt 1950 í nál., sem ég hér hef rakið. Þeir vita það, að kauphækkun nú getur ekki annað af sér leitt, en samdrátt framleiðslunnar, atvinnuleysi og skort eða gengislækkun. Hvorugur kosturinn er verkalýðnum til hagsbóta, sá fyrri af augljósum ástæðum. Sá síðar nefndi, gengislækkun, mundi enn afskrifa skuldir hinna ríku og gefa heildsölum og kaupmönnum, sem nú eiga mjög miklar vörubirgðir, nokkra tugi milljóna.

Hið eina, sem nú var unnt að gera láglaunafólki til hagsbóta, var að rannsaka, hvort hægt væri í samvinnu við ríkisstj. að hagræða þannig málum, að einhver kjarabót yrði fyrir þá, sem hafa þyngsta ómegð. Þannig mátti komast hjá því að setja fjárhagskerfið allt úr skorðum með almennum kauphækkunum, öllum verkalýðnum til tjóns og ómagamönnum mest, eins og skýrsla trúnaðarmannanna sannar. En verkfallið er ekki háð á faglegum grundvelli til kjarabóta fyrir vinnandi fólk, heldur af annarlegum pólitískum ástæðum til þess að skapa upplausn, óánægju og æsa hugi manna fyrir næstu kosningar. Þess vegna kann að vera erfiðara að leysa þetta verkfall, heldur en venjuleg verkföll. En þetta ástand í þjóðfélaginu er svo geigvænlegt, að það hlýtur að vekja hvern sæmilegan mann til umhugsunar. Verulegur hluti verkalýðsins er kommúnistar, og þeir væru auðvitað hreinir flokkssvikarar, ef þeir notuðu ekki hvert tækifæri til þess að rífa núverandi þjóðfélag á hol og liða það sundur undir alls konar yfirskini. Með þessum mönnum er vitað, að ekki er hægt að vinna, en hinn lýðræðissinnaði hluti verkalýðsins, sem Alþfl. fylgir, hefur hins vegar fyrir forgöngu forvígismanna sinna neitað öllu samstarfi, neitað að nefna skilyrðin fyrir því, að hann vildi taka á sig nokkra ábyrgð. Lýðræðisflokkur, sem ekki vili taka á sig ábyrgð, á auðvitað engan tilverurétt, því að hann stefnir ekki að því að byggja upp lýðræðislegt þjóðfélag, heldur að því að leysa það upp og er óhjákvæmilega bezti hjálparkokkur kommúnistanna, hvað oft sem forvígismennirnir sverja, að þeir starfi á móti kommúnistum.

Eina ráðið til þess að friða þjóðfélagið, tryggja lýðræði og afstýra einræði, sem mundi koma eftir algera upplausn, er, að hinn lýðræðissinnaði verkalýður verði nægilega sterkur nægilega heiðarlegur við sjálfan sig og lýðræðið, nægilega djarfur til að taka á sig ábyrgð. Þetta verður að gerast með þeim hætti, að verkafólk noti félagssamtök sín líkt og íslenzkir bændur til þess að fá í sína umsjá eða stjórn öll þau fyrirtæki og allar þær stofnanir, sem beint eða óbeint geta að öðrum kosti haft tækifæri til að taka ranglega hluta af réttu kaupi hins vinnandi fólks. Ef fulltrúar og umboðsmenn verkafólksins fengju þannig vald til þess að fylgjast með eða stjórna frá því að fyrsta handtakið við framleiðsluvöruna hefst og þangað til síðasta eyri andvirðis hennar er skilað í lófa verkamannsins, sjómannsins, iðnaðarmannsins o.s.frv. og gætu því sannað sérhverjum, að hann fái sitt, þá á að vera hægt að halda hér uppi heilbrigðu lýðræði, er tryggi þá velmegun, sem landið getur veitt börnum sínum. Með öðru móti dreg ég í efa, að það sé unnt á lýðræðislegan hátt til lengdar, eins og nú stefnir. Vegna þessarar sannfæringar minnar, sem ég hef oft áður lýst yfir, mundi ég af alhug styðja þessi vinnubrögð, með hvaða flokki sem þau væru gerð, og lýðræðissinnuðum verkalýð væri nær að vinna í þá átt að skapa sér slíkt vald, heldur en að taka þátt í þeim óvitahætti með kommúnistum að rífa niður það hús, sem hann telur sig þó ætla að búa í.