09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

1. mál, fjárlög 1953

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í umræðum þeim, sem hér hafa farið fram, hefur ljóslega verið sýnt fram á, hvernig stefna ríkisstj. hefur jafnt og þétt dregið máttinn úr atvinnuvegum landsins og skorið niður lífskjör almennings. Dæmin um gengisfellinguna og um bátagjaldeyrisskattinn, sem nemur 100 millj. kr. á ári og að mestu rennur þó til milliliða, dæmið um söluskattinn, sem orðinn er 90 millj. kr. á ári og rennur nú beint inn í ríkissjóð, eru hverjum manni næg sönnun fyrir skattpíningarstefnu ríkisstj. Allir landsmenn vita um þessa skatta, því að þeir greiða þá daglega, og þeir segja sannarlega til sin. Stefna ríkisstj. hefur nú leitt til allsherjarverkfalls og stöðvunar á nær öllum rekstri í landinn. Stjórnin stendur ráðþrota og virðist ekki skilja afleiðingar sinna eigin verka. Fjmrh. telur fjárhag ríkissjóðs góðan og tekjur hans og gjöld réttlát og óbreytanleg. Hann heldur, að allt sé í stakasta lagi. En hvað blasir við í aðalatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum?

Aðeins nokkur dæmi skulu nefnd vegna tímaskorts. Bátaútvegsmenn hafa nýlega haldið árlegan aðalfund sinn hér í Reykjavík. Þeir krefjast stórhækkaðs fiskverðs vegna ört hækkandi rekstrarkostnaðar. Kröfur þeirra þýða mikla aukningu á bátagjaldeyrisvörum. Þeir lýsa yfir miklu tapi á rekstri bátanna. Á yfirstandandi ári hafa margir fiskibátar verið seldir nauðungarsölu. Í hvert sinn, sem Lögbirtingablaðið kemur út, má finna þar tilkynningar um nauðungaruppboð á fiskiskipum vegna vanskila. Nýsköpunartogararnir eru líka komnir með í þessar tilkynningar og liggja nú nokkrir undir hamrinum. Þannig er ástand báta- og togaraflotans eftir allar viðreisnartilraunir ríkisstj. Á miðju þessu ári var svo komið, að öll hraðfrystihús í landinu voru full af fiski og urðu að hætta fiskmóttöku. Salan á frosna fiskinum gekk illa, og afskipanir voru nær engar. Þá, á miðju sumri, á miðju framleiðsluári, urðu fiskibátarnir á ýmsum stöðum á landinu að hætta veiðum og togararnir, sem þá veiddu fyrir frystihúsin, urðu ýmist að hætta eða taka upp vonlausar siglingar með ísvarinn fisk á erlendan markað. Þegar þannig var komið, var gripið til þess neyðarráðs að flytja nokkuð af frysta fiskinum út til geymslu erlendis, og þar liggur hann enn óseldur í geymslu. Um svipað leyti í sumar kom tilkynning til saltfiskframleiðenda um það, að bannað væri að taka meiri saltfisk til verkunar, en þá var búið að taka. Slíkt framleiðslubann var nýtt af nálinni og hafði ekki heyrzt áður. Allt var þetta vegna þess, að algert öngþveiti var að skella á í afurðasölumálunum. Í haust rofaði nokkuð til aftur um sölu framleiðslunnar með allmiklum sölum á óverkuðum saltfiski og nokkrum smærri sölum á frosnum fiski. En nú er enn allt að komast í sama öngþveitið. Frystihús eru full af fiski, bannað er að frysta sumar fisktegundir, og ráðlagt er frá að frysta meiri fisk. Nú tilkynnir Morgunblaðið, málgagn utanrrh. og atvmrh., sem bera ábyrgð á afurðasölunni, að 2/3 hlutar af ársframleiðslu frystihúsanna liggi óseldir. Frá þessu er skýrt nú í árslok, rétt áður en ný vertíð á að hefjast. — Ekki er útlitið betra, þegar litið er til annarra atvinnugreina í landinu.

Er nú ekki eðlilegt, þegar svona er komið, að Íslendingar spyrji hver annan: Hvar er hagur okkar af Marshallviðreisninni eftir 4 ár? Hvar er afkomuöryggið, sem Marshallstefnan átti að veita okkur? Hvar er afkomuöryggi atvinnuveganna, sem gengislækkunin átti að tryggja? Og hvar eru markaðir hinnar vestrænu viðreisnar? Og í hverju birtist efnahagssamvinna sú, sem við erum aðilar að? Kemur hún fram í framkomu Breta nú í landhelgismálunum? Eða höfum við verið blekktir svona hrapallega? Verkföllin, sem nú geisa, hafa ekki aðeins sannfært meiri hluta þjóðarinnar um, að kröfur verkafólks eru sanngjarnar og eðlilegar. Þau hafa einnig opnað augu margra fyrir því, að framleiðsluatvinnuvegirnir eru ásamt almenningi svo hart leiknir af stefnu ríkisvaldsins, að þeir þurfa líka að gera sínar varnarráðstafanir. Framleiðsluatvinnuvegirnir eru reyttir inn að skinni með hvers konar álögum okurstofnana, sem stunda okur sitt í skjóli ríkisvaldsins.

Það er sláandi dæmi, að gróði þjóðbankans eins skuli nema 28 millj. kr. á því ári, sem atvinnuvegirnir eru reknir með tapi. Ef þessum gróða bankans væri skipt niður á báta- og togaraútgerð landsmanna, sem í rauninni leggur til allan þann gjaldeyri, sem bankinn hefur gróða sinn af, þá mætti hugsa sér þá skiptingu á þessa leið: 40 togarar 250 þús. kr. hver, eða samtals 10 millj. kr. 150 stærri fiskibátar 50 þús. kr. hver, eða samtals 7.5 millj. 100 smærri bátar 30 þús. kr. hver, eða 3 millj. Samtals 201/2 milljón króna. Samt hefði bankinn eftir 71/2 millj. í hreinan ársgróða. Hefði þessi mikli gróði runnið til undirstöðugreina framleiðslunnar, þá hefði hagur hennar verið sæmilegur, og þá hefði framleiðsla landsmanna verið meiri, en raun varð á. — En hér var aðeins nefndur gróði eins bankans. Hinir bankarnir hafa líka grætt drjúgum. — Og hver er gróði olíuhringanna? Á s.l. ári fengu þeir leyfi til að hækka olíuverðið um 8–10%, án þess að nokkur hækkun hefði orðið á olíu erlendis. 10% olíuverðsins munu nema um 20 millj. kr. Hver er gróði skipafélaganna, sem flytja vörur til landsmanna? Hver er árlegur gróði vátryggingarfélaganna? Og hvað græðir heildsalastéttin árlega á almenningi í landinu og á atvinnuvegunum?

Framleiðsluatvinnuvegirnir eiga samleið með vinnandi fólki. Þeir eru mergsognir af sömu aðilum og standa nú í sams konar vandræðum. Einn þyngsti bagginn, sem hvílir á herðum framleiðslunnar, er ríkisstj. sjálf. Skattar hennar og tollar eru þungar byrðar, en þó eru einokunarhringarnir á framleiðslunni enn þá verri. Allur út- og innflutningur er bundinn í viðjar og er aðeins látinn í hendur gæðingum ríkisvaldsins. Enginn fiskframleiðandi má bjóða út sjálfur eða selja sína framleiðslu á erlendum markaði. Ríkisstj. ein hefur þann rétt og þeir fáu, sem hún lætur fyrir sig vinna. Þó að nú í dag liggi mikill hluti ársframleiðslunnar óseldur, þá mega framleiðendur alls ekki bjóða þá framleiðslu út á erlendum markaði sjálfir. Hvers vegna má ekki veita framleiðendum rétt til að selja sjálfir þá framleiðslu, sem ríkisstj. er í vandræðum með að selja? Hvers vegna mega framleiðendur ekki fá sams konar rétt til innflutnings á vörum fyrir framleiðslu sína og heildsalarnir hafa nú til almenns innflutnings í landinu? Ríkisstj. kemst ekki hjá að svara þessum spurningum nú, þegar stöðva verður framleiðsluna vegna sölutregðu. Ef ríkisstj. vildi létta af framleiðslunni þeim höftum á út- og innflutningi, sem nú eru, þá mundi framleiðslan klára sig auðveldlega. En það er ekki jafnvíst, að sumir þeir, sem klára sig vel nú, mundu þá klára sig jafnvel á eftir.

Verkföllin, sem nú standa yfir, verða að leysast og það sem fyrst. Vinnandi fólk og starfandi framleiðendur verða að fara að taka saman höndum. Kröfur alþýðu og vanda atvinnuveganna verður að leysa á kostnað gróðastéttanna og ríkisvaldsins, á kostnað þeirra, sem hafa fengið aðstoð ríkisvaldsins til þess að raka að sér gróða á framleiðslu þjóðarinnar. Við Íslendingar erum þannig búnir að atvinnutækjum nú í dag, að við getum framleitt miklu meira, en nú er gert, ef tækjunum er rétt beitt. Hagur almennings getur vissulega batnað til muna. En til slíks þarf samvirka stjórn, stjórn, sem þorir að auka framleiðsluna, stjórn, sem getur selt framleiðsluna, stjórn, sem fullnýtir atvinnutækin, stjórn, sem er studd af verkalýð landsins og framleiðendum.