09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

1. mál, fjárlög 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. „Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð,“ sagði kommúnistaleiðtoginn hér áðan og klökknaði. Sams konar ljóð hafa kommúnistaleiðtogarnir áreiðanlega haft yfir í löndum Austur-Evrópu. En hvað gerðu þeir? Þeir létu rússneska heri setja sig í valdastólana, og svo hengja þeir hver annan.

Um hv. 2. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson, þarf ekki að fara mörgum orðum. Hann lýsti hér með sterkum orðum hinum miklu erfiðleikum sjávarútvegsins. En jafnhliða stendur hann fyrir stórfelldum kröfum, sem allir vita að verður að lokum velt á sjávarútveginn, á útflutningsframleiðsluna, ef þær ná fram að ganga. Veit ekki þessi hv. þm., að hann er fyrir löngu orðinn að athlægi fyrir tvöfeldni sína og óheilindi?

Hv. þm. Haraldur Guðmundsson hélt hér langa ræðu. Hann sagði: „Er þá ekki líka skakkt að hækka landbúnaðarvörurnar, ef það er óráð að hækka kaupið eins og nú er ástatt?“ Þessu má svara þannig, að það er lögbannað að hækka landbúnaðarvörur nema til samræmis við áður fram komnar kauphækkanir. — Hv. þm. talaði mikið um verzlunarálagninguna og fannst hún mikil og dreifingarkostnaðurinn. Vill hann ekki spyrja hv. þm. Ísaf., sem er formaður Kaupfélags Ísfirðinga, um það, hvað hann telji hæfilegan dreifingarkostnað á nauðsynjavörum. Hann veit það og hann getur frætt hv. þm. um það fullgreinilega. — Þá sagði hv. þm.: Hugsið ykkur annað eins. Að koma einum dilkskrokk til kaupendanna kostar 45% álag á verðið, sem bændurnir fá. Hefur hv. þm. haft fyrir því að gera sér grein fyrir, hvað innifalið er í þessum 45%? Það er sláturkostnaðurinn, það er frysti- og geymslukostnaðurinn á staðnum, þar sem framleiðslan fer fram, það er flutningskostnaðurinn með bifreiðum eða skipum á sölustaðinn, sem oftast nær er Reykjavík, það er geymslukostnaðurinn í Reykjavík, í frystihúsunum, það er útkeyrslukostnaðurinn í búðirnar í Reykjavík, og það er smásölukostnaðurinn í Reykjavík. Þetta er allt saman innifalið í þessu álagi, sem hv. þm. talaði um. Mér er ekki vel kunnugt um það, hvernig þetta skiptist í vinnulaun og aðra liði, en ég veit það, að kostnaðurinn við mjólkina er 70–80% vinnulaun.

Hv. þm. Finnbogi R. Valdimarsson talaði hér áðan. Mér fannst eins og hann talaði upp úr svefni. Hann sagði ýmist, að það hefðu verið þrefaldaðar álögur til ríkissjóðs í tíð núverandi stjórnar eða hækkaðar um 200 millj. Það rétta er, að tekjur ríkissjóðs 1949 voru 295 millj., eða tæpar 300 millj., en eru nú 410 millj. Þær hafa hækkað í krónutölu um 40%. Það er minni hækkun heldur en vísitöluhækkunin er, og það er minni hækkun heldur en kaupgjald í landinu hefur hækkað. Vísitalan hefur hækkað um 63%.

Hv. landsk. þm. Ásmundur Sigurðsson flutti hér langa þulu í gærkvöld, barði höfðinu við steininn og hélt því fram, að skattar og tollar hefðu verið hækkaðir, það sæist á því, að ríkistekjurnar hefðu hækkað í krónutölu. Setjum svo, að tekjur ríkissjóðs hefðu lækkað vegna lækkandi verðlags og minnkandi viðskipta, en skatta- og tollalöggjöf staðið óbreytt. Mundi hv. þm. þá telja, að skattar og tollar hefðu verið lækkaðir? Enginn mundi bera sér slíkt í munn. Með þessu lyppast hin langa ræða þingmannsins, annáll og allt saman.

Hv. þm. Ísaf. er nú svo aðþrengdur orðinn út af tali sínu um fjárl., að hann er farinn að klóra í bakkann. Ekki tekst það þó fimlega, enda nokkurt vorkunnarmál. Aðalniðurskurðartill. þm. eru þrjár: Taka lán hjá bændum sjálfum í fjárskiptakostnaðinn eða lán annars staðar. Þetta mundi einfaldlega þýða 16–17 millj. kr. halla á fjárlögunum. Strika út 8 millj., sem hann sagði að allar væru greiddar í ríkisrekstrinum fyrir auka- og tímavinnu. Þetta er blekking vegna þess, að í staðinn yrði að fjölga fastafólki. Sú þriðja till. var að strika út 18. gr. úr fjárlögunum og þannig ætti að spara 121/2 millj. Mér var nú ljóst áður, að hv. þm. Ísaf. er „ekki að súta það“, eins og sagt er, ef í það fer og hann er í vandræðum. Á því átti ég þó tæpast von, að form. Alþfl. gerði till. um að fella niður allt framlag til lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og eftirlaun opinberra starfsmanna. En þetta er allt á 18.

gr. og nemur 81/2 millj. Þá eru eftir laun ekkna og munaðarleysingja og eftirlaun til manna, sem hafa engin lögboðin eftirlaun, sem nema um 2 millj. kr. Ekkert sýnir betur óheilindi í málflutningi stjórnarandstæðinga, en að þessu skuli kastað fram af formanni Alþfl. Þetta hlýtur að vera gert í fáti. En svona fer fyrir þeim, sem byggja málflutning sinn á röngum staðhæfingum og villandi. Fyrr eða síðar sitja þeir fastir í neti fjarstæðnanna.

Kommúnistar hafa hér — og gera það oftast nær — talað mikið um lánsfjárkreppuna, sem sé tilbúin af ríkisstj. Höfuðkenningin er þessi: Það er hægt að búa til nóg fjármagn og lána hverjum sem hafa vill. - Þetta er sami söngurinn sem kommúnistar syngja í öllum löndum, nema þar sem Stalín ræður. Þar sér hann og hans menn um, að þaggað sé niður svona fleipur, með aðferðum, sem við þekkjum. Þessi áróður er einn liður í þeirri baráttu kommúnista að viðhalda upplausn í fjárhagskerfinu, atvinnuleysi og gengisfellingu á víxl, til þess að undirbúa jarðveginn að innlimun landanna í einræðiskerfi kommúnismans.

Ríkisstj. hefur stefnt að því, að öll hjól geti snúizt sem hraðast. Einn liður í því er að halda uppi eins mikilli lánastarfsemi og sparifjármagn, framleiðslumöguleikar og gjaldeyrisástæður frekast leyfa. En við þessi atriði verður að miða útlánastarfsemina, ef hún á ekki að grafa undan gildi peninganna og framkalla gengislækkanir. Útlán verða að byggjast á því, að menn leggi sparifé í bankana, eða á framleiðslu seljanlegra verðmæta. Geri þau það ekki, skapa þau verðbólgu í landinu, grafa undan afkomu atvinnurekstrarins og orsaka atvinnuleysi og gengishrun. Heildarútlán bankanna hafa á 21/2 ári aukizt úr 912 millj. í 1.446 millj., eða um 534 millj., og er það 58.8% aukning. Fjármagnsþörfin er mikil, og til þess að leysa úr henni hefur verið teflt á tæpasta vaðið með heildarútlánin. Þannig er verulegur hluti mótvirðissjóðsins nú raunverulega fastur á bak við þessi almennu útlán, og þess vegna þarf nú enn að leita að nýju fé erlendis til virkjananna og áburðarverksmiðjunnar. Það verður ekki leyst úr lánsfjárskortinum nema með auknum sparnaði og aukinni framleiðslu. Þessi kommúnistaáróður um, að hægt sé að hafa nóg fjárráð bara með því að gefa út pappírspeninga eins og hver vill hafa, er svona álíka speki eins og kenningar þeirra og hv. þm. Ísaf. um, að vandamálin megi leysa með því að fella niður tolla og skatta og hækka ríkisútgjöldin um leið.

Þessi málflutningur kommúnista allur saman er byggður á þeirri trú, að menn séu svo gersamlega sneyddir öllum skilningi á atvinnu- viðskipta- og fjármálalífi landsins, að óhætt sé að segja mönnum hvaða fjarstæðu sem er, menn muni trúa, ef þess er aðeins gætt að hafa það, sem sagt er, eitthvað nærri því, sem menn vildu að gæti verið satt. Þessi málflutningur er byggður á trúnni á múgsefjun, en ekki á rólegri íhugun. En undarlegt má það teljast, ef Íslendingar reynast lakar menntir en aðrar þjóðir, sem hafa þurrkað af sér kommúnista hver af annarri nú síðustu missirin, enda eru kommúnistar nú að verða gersamlega áhrifalausir í öllum löndum, nema þar sem Rússar hafa með hervaldi sett þá í valdastólana og haldið þeim þar.

Ef nokkur glóra væri í gaspri hv. 2. þm. Reykv. og annarra kommúnista um, að kaupgjaldið þyrfti ekki að standa í neinu sambandi við það, sem framleiðslan gefur af sér, og auðvelt væri að skapa velmegun fyrir alla með því einu að búa til peninga og lána þá út, hvernig stendur þá á því, að Stalín t.d. og hans menn skuli pína verkamenn í Sovét-Rússlandi á Í 1.200 rúblna mánaðarlaunum? En það er kaupið, sem kommúnistar sjálfir segja að þar sé borgað. Og samkvæmt rússneskum heimildum um verðlag nauðsynja eftir hina frægu lækkun þar í landi samsvarar ein rúbla einni krónu hér í kaupmætti. Hvers vegna skyldi Stalín og hans menn ekki nota aðferð Einars Olgeirssonar fremur en að láta menn draga fram lífið á hálfu kaupi, miðað við það, sem hér tíðkast? Hvers vegna er ekki þar notað „patent“ Einars, aukin peningaveltan og útlánin til þess að létta neyðina? Einar Olgeirsson og þeir kommúnistar hér ættu að gefa þetta ráð austur. En af því að mér er meinlitið við Einar Olgeirsson persónulega, þá mundi ég ráðleggja honum að vera ekki austan við járntjaldið, meðan aðferðin væri reynd í framkvæmd. Það gæti orðið óþægilegt, þegar afleiðingarnar færu að koma í ljós.

Ríkisstj. hefur miðað alla sína pólitík við að auka framleiðsluna, atvinnuna og kaupgetuna. Í því skyni var gengislækkunin gerð á sínum tíma, til þess að koma útflutningsframleiðslunni úr sjálfheldunni og efla atvinnulífið. Í sama skyni hefur ríkisstj. teflt á tæpasta vað um notkun allra þeirra fjármuna, sem hún hefur yfir komizt, til framlaga í þágu atvinnuveganna og almennings. Því fé, sem ríkissjóður hefur haft aflögu frá beinum útgjöldum, hefur verið úthlutað jafnóðum í þessum sama tilgangi, eins og kunnugt er og margsinnis fram tekið. Enginn eyrir, sem stjórnin hefur yfir komizt, hefur notið nokkurs næðis, heldur verið sendur jafnharðan út aftur til þess að leysa úr þeim þörfum, sem brýnastar hafa þótt hverju sinni. Óvenjulega erfiðleika hefur hins vegar verið við að stríða, eins og bezt sést á því, að hefðum við búið við jafnhagstætt viðskiptaárferði 1951 eins og árið 1946, þá hefðum við fengið 316 millj. meira fyrir útflutninginn. Og ef við hefðum búið við jafnhagstætt árferði og 1949, hefðum við fengið 158 millj. meira fyrir útflutning okkar í fyrra en varð. Öll þessi ár hafa verið síldarleysisár, og nú á þessu ári brást síldarframleiðslan svo gersamlega, að slíks eru engin dæmi áður, síðan farið var að fást við þann atvinnuveg. Harðindi og sjúkdómar hafa herjað í landbúnaðinum. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug, að önnur eins áföll og þessi gangi yfir þjóðina án þess, að menn verði þess varir, hver og einn? En það merkilega er, að þrátt fyrir þessi gífurlegu áföll hefur þó verið hægt að koma málum þannig, að á sama tíma sem framfærsluvísitalan hefur hækkað um 63% hefur kaupið í lægstu launaflokkunum hækkað um 53%. Sá munur, sem menn þannig hafa tekið á sig á þessu tímabili, er að sjálfsögðu tilfinnanlegur,

en þó vonum minni, þegar þess er gætt, hvílíkum áföllum þjóðin hefur mætt. Í þessu sambandi er rétt og skylt að minna á, að fyrir gengislækkunina var kaupgjaldið þar að auki mælt eftir vísitölu, sem ekki sýndi sanna mynd af verðlaginu eins og það raunverulega var. En nú er vísitalan miðuð við verð, sem vörurnar raunverulega fást fyrir í búðunum.

Ráðstafanir ríkisstj. og þingmeirihlutans hafa komið hér í veg fyrir hrun og stórfellt atvinnuleysi. Um það er ekki hægt að deila. Með þessari stefnu hefur tekizt að koma á auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem er að sýna sig í bættu atvinnuástandi og stöðvun dýrtíðarinnar. Á árinu 1950 steig verðlagið um 32%, á árinu 1951 um 18%, en það, sem af er þessu ári, um aðelns 4%. Og á ýmsum sviðum er verðlagið nú lækkandi. Engar sérstakar vandræðaráðstafanir eru fram undan vegna framleiðslunnar. Aðalverkefnið, áður en verkfallið kom til sögunnar, var að útvega fé í enn þá nýjar framkvæmdir og gera ráðstafanir vegna þeirra byggðarlaga, sem höllum fæti stóðu um atvinnutæki. Þetta ástand var blátt áfram þannig, að stjórnarandstaðan taldi sig ekki geta þolað það. Hún taldi sig verða af pólitískum ástæðum — að knýja málin úr skorðum fyrir kosningarnar, hvað sem tautaði. Þess vegna var allt kapp lagt á að knýja til verkfalla í vetur. Um það gátu Alþfl.-menn og kommúnistar orðið sammála — og það eitt. Það gerði hin pólitíska nauðsyn beggja. Um þetta getur enginn verið í vafa, sem heyrt hefur þessar umræður.

Það sorglega við þessa deilu, sem nú er háð, eru því óheilindin, sem á bak við búa hjá forustumönnum stjórnarandstöðunnar. Það er ekki hægt að komast hjá því að nefna t.d. tvo hv. þm. í þessu sambandi, og það eru þeir hv. þm. Ísaf., Hannibal Valdimarsson, og 2. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson. Báðir vita þessir hv. þm., að fengjust fram þær kröfur, sem þeir standa fyrir, þá leiddi þar af, að öll framleiðslustarfsemi í byggðarlögum þeirra hlyti að stöðvast. Eins og stendur, liggur við borð, að mörg atvinnutæki í þessum byggðarlögum flytjist á brott. Og svo fer um sum hin þýðingarmestu þeirra, ef stjórn og þingmeirihluti finna ekki einhver ráð til bjargar. Um þetta varðar þessa hv. þm. ekki neitt. „Planið“ er sem sé þetta: Þeir vita, að menn hafa mikla þörf fyrir auknar tekjur. Það vitum við allir. Þær þykjast þeir ætla að útvega mönnum með baráttu fyrir hækkuðu kaupi, þótt þeir viti, að það étur sig allt upp eins og nú stendur. Þeir halda nú samt, að baráttan fyrir þessu sé vinsæl pólitískt. Þeir vita vel, hvað af þessu leiðir fyrir atvinnu og afkomu manna í þeim byggðarlögum, sem treysta verða eingöngu á sjávarafla og geta ekki velt hækkununum yfir á aðra. En þeir gera þetta í því trausti, að aðrir, sem meiri hafa ábyrgðina, treysti sér ekki, þegar til kemur, til þess að horfa aðgerðalaust á þá eymd og fátækt, sem af atvinnuleysinu stafar, og gangi heldur í að gera ráðstafanir fyrir framleiðsluna, svo að hún geti haldið áfram. — Og þá er komið að síðara þætti málsins og því, sem að er stefnt af hendi þessara forustumanna, og sá þáttur er skefjalausar árásir á þá, sem á þeim tíma standa fyrir því að leysa framleiðsluna úr dróma. Það er nokkuð harðleikið að blanda hagsmunasamtökum verkalýðsins inn í svona „plön“.

Það er ástæða til að gagnrýna, hvernig haldið hefur verið á vinnudeilunni af hendi verkfallsforustunnar. Kröfur til atvinnurekenda voru gerðar áður en Alþýðusambandsþing var komið saman, þótt Alþýðusambandsstjórn væri áður búin að gera fastlega ráð fyrir því og skrifa félögunum um það, að einmitt Alþýðusambandsþing fjallaði um málið, hvort gera skyldi kaupkröfur eins og nú stæði eða ekki. Kröfurnar voru hins vegar gerðar um miðjan nóvember, áður en Alþýðusambandsþingið kom saman, og verkfall tilkynnt með aðeins einnar viku fyrirvara og miðað við 1. des. Enginn utan innsta hringsins vissi með meira en viku fyrirvara, að vinnustöðvun væri fyrirhuguð 1. des., en ekki sínar. Því er svo haldið fram, að afskipti stjórnarinnar af málinu hefðu átt að koma til fyrir löngu, þótt verkfallsforustan sneri sér alls ekki til stjórnarinnar fyrr, en á síðustu stundu og viðurkennt sé af henni, að deilan sé kjaradeila við atvinnurekendur, en ekki stjórnina, og þótt stjórnin gæti ekki haft hugmynd um, hvað fyrir verkfallsforustunni vakti. Þegar verkfallsforustan talaði við stjórnina, komu fram bendingar af hennar hendi um atriði, sem hún taldi, að áhrif gætu haft á málið. Stjórnin stakk þá upp á sameiginlegri athugun, ekki bara á afkomu ríkissjóðs og atvinnuveganna, eins og hv. þm. Ísaf. sagði í gær, heldur einnig athugun á þeirra eigin bendingum. Þessari sameiginlegu athugun var hafnað og verkfallið sett á í staðinn.

Hvað hefur svo gerzt? Það hefur rignt inn í stjórnarskrifstofurnar fyrirspurnum frá deiluaðilum, fyrirspurnum, sem sýna það, svo að ekki verður um villzt, að verkfallsforustan hefur ekki haft hugmynd um, hvaða þýðingu þau atriði hafa fyrir afkomu verkamanna og þjóðarbúskapinn, sem þeir hafa sjálfir á lofti haft í sambandi við deiluna og jafnvel haldið fram sem úrlausnum í málinu. Hv. þm. Ísaf. virtist bara ánægður með þessi vinnubrögð hér í gærkvöld og sagði orðrétt: „Um margt fleira var spurt.“ En hvað segja menn um þessi vinnubrögð, að halda 10–12 þús. manns í verkfalli, á meðan forkólfarnir sjálfir kynna sér sínar eigin till., sem þeim var auðvitað skylt að vera búnir að kryfja til mergjar, áður en þeir fóru í deiluna? Og hvaða vit var í því að hafna frestun á verkfalli, þegar það var komið í ljós, að það þurfti verulegan tíma til þess, að þeir sjálfir gætu sett sig inn í málin, sem báru till. fram? Það tjón, sem af þessum vinnubrögðum stafar, verður ekki bætt. En ég vil að lokum leyfa mér að minna alla þá, sem af góðvild og ábyrgðartilfinningu vilja vinna að lausn vandamálsins, eins og það er orðið, á það, að höfuðkjarni þessa máls er sá, að næg atvinna geti verið fyrir alla og að fundnar séu leiðir til þess að bæta kjör fjölskyldumanna í lægstu tekjuflokkunum, því að það eru þeir, sem erfiðast eiga með að láta endana mætast, þótt þeir hafi atvinnu. — Góða nótt.