26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

1. mál, fjárlög 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég gat þess áðan þegar ég talaði, að ég ætti eftir að koma fram með eina brtt. við fjárl., brtt., sem fjallaði um heimild handa ríkisstj. til þess að leggja fram nokkurt fé til framleiðsluaukningar eða vegna atvinnuörðugleika, ef þeir kynnu að verða á einstöku stöðum. Ég leyfi mér að flytja nú þessa brtt. Ég verð að flytja hana skriflega. Hún er við 22. gr., heimildagreinina, og er svo hljóðandi:

„Að verja allt að 5 millj. kr. til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu á þann hátt, er hún telur heppilegast. Ríkisstj. getur sett þau skilyrði fyrir aðstoð þessari um mótframlög og annað, sem hún telur nauðsynlegt.“

Stjórnin hefði að vísu gjarnan viljað, að þessi heimild gæti orðið allmiklu ríflegri, en hér er lagt til, en vegna þess, hvernig nú er komið um afgreiðslu fjárl. yfirleitt, þá er alls ekki hægt að gera till. um hærri heimild í þessu skyni.

Þá hefur það nú farið svo, að ég hef hér einnig aðra till. til viðbótar að gera, sem einnig er við 22. gr. fjárl. Þannig er málinu varið, að nokkur bæjarfélög eru í hinum mestu vandræðum út af togaraútgerð sinni. Togaraútgerðir nokkurra bæjarfélaga hafa ekki með nokkru móti getað staðið í skilum við stofnlánadeild sjávarútvegsins, og er því aðeins um tvennt að ræða, þar sem svo stendur á, að togararnir verði seldir á nauðungaruppboðum eða þá að ríkisstj. komi til og hlaupi á einhvern hátt undir bagga, þannig að þessi bæjarfélög geti haldið skipunum. Þetta mál er búið að vera lengi í athugun hjá ríkisstj., því að hér er úr mjög vöndu að ráða. Það er ákaflega erfitt að finna heppilega lausn á þessum vanda. Stjórninni sýnist mikla nauðsyn bera til þess, að skipin geti verið áfram þar, sem þau eru nú, og telur, að fólk á þessum stöðum megi ekki við því að missa þau, en hins vegar fátt góðra úrræða til þess að leysa fjárhagsvandann.

Niðurstaðan af öllum þessum athugunum er sú brtt., sem ég leyfi mér hér með að leggja fram, en verður þá einnig að vera skrifleg brtt. Hún er við 22. gr. fjárl., svo hljóðandi:

„Að ábyrgjast lán vegna togaraútgerðar fyrir bæjarfélögin á Akranesi, Siglufirði, Seyðisfirði, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum, ef óhjákvæmilegt þykir til þess að tryggja áframhaldandi rekstur togaranna á þessum stöðum, þó eigi hærri lánsábyrgð en sem nemur 500 þús. kr. fyrir hvert skip, eða samtals 41/2 millj. kr., enda séu þær tryggingar settar fyrir ábyrgðunum, er ríkisstj. metur gildar, og uppfyllt þau skilyrði, er ríkisstj. setur.“

Ég vil þá leyfa mér, með þessum formála, að afhenda hæstv. forseta þessar tvær brtt.