26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

1. mál, fjárlög 1953

Sigurður Bjarnason:

Herra forsetl. Ég vil leyfa mér að gera grein fyrir örfáum brtt., sem ég hef flutt hér ásamt nokkrum öðrum hv. þm. Áður en ég kem þó að þeim, vildi ég leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir, að hún hefur tekið upp í sínar brtt. nokkrar þær till., sem ég flutti við 2. umr. fjárlfrv., þ.e.a.s. til lendingarbóta eða ferjubryggja á þrem stöðum við Ísafjarðardjúp. Hún hefur að vísu tekið upp í till. sínar lægri fjárveitingar, en gert var ráð fyrir í mínum till., en ég vænti samt, að þessar upphæðir muni hrökkva nokkuð til þess að sinna þeim umbótum, sem þarna er um að ræða. Hins vegar furðar mig nokkuð á því, að hv. n. skuli gera ráð fyrir, að þessar fjárveitingar séu veittar gegn jafnmiklu framlagi annars staðar að. Það er nefnilega þannig, að á a.m.k. einum þessara staða hefur þegar verið byggð ferjubryggja að öllu leyti fyrir fé úr ríkissjóði. Þetta er í sveitarhrepp, og það hefur verið litið á þetta hafnarmannvirki sem hluta af þeim þjóðvegi, sem að bryggjunni liggur. Það ræður alveg af líkum, að fámennur sveitarhreppur hefur ekkert bolmagn til þess að standa undir dýrum hafnarframkvæmdum, enda eru þessi mannvirki eingöngu byggð í þágu umferðarinnar um veginn og þeirrar þjónustu, sem flóabáturinn innir af höndum í þágu byggðanna við þennan hluta Ísafjarðardjúps. En ég tel nú þrátt fyrir þetta, að nokkur fengur sé að því að hafa fengið þessa fjárveitingu, og vænti, að þetta muni síðar meir verða leiðrétt, en er hv. n. að öðru leyti þakklátur fyrir að hafa tekið þessar brtt. mínar upp í sínar eigin brtt. nú við síðustu umr. fjárlfrv.

Ég hef leyft mér að flytja hér 5 brtt. á þskj. 601. Hin fyrsta þeirra, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Árn., hv. þm. Ísaf. og hv. 2. landsk. þm., er við 22. gr., um nýjan lið, að heimila ríkisstj. að verja 12 þús. kr. til þess að kaupa Þingvallamynd frú Þórdísar Egilsdóttur á Ísafirði, líst saumaða með íslenzku bandi jurtalituðu. Ég vil í þessu sambandi aðeins rifja það upp, að fyrir einum 6 eða 8 árum sýndi hv. Alþ. þann skilning á starfi þessarar einstaklega listrænu, öldruðu konu, að það heimilaði ríkisstj. að kaupa tvær myndir hliðstæðar þeirri, sem hér er rætt um, fyrir ríkið eða listasafn ríkisins. Ég held, að annaðhvort önnur þessara mynda eða ef til vill báðar prýði nú forsetasetrið á Bessastöðum. Þetta er svo sérstætt og listrænt handbragð, sem birtist í þessum myndum frú Þórdísar Egilsdóttur, sem er kona nú komin nær áttræðu, að sérstök ástæða hefur þótt til þess, að ríkið keypti þessi verk hennar. Það kemur fram í brtt. sjálfri, sem nú er flutt, að myndin er saumuð úr íslenzku bandi að öllu leyti og að þetta íslenzka band er litað með íslenzkum jurtalitum, þannig að listaverkið er eins rammíslenzkt og þjóðlegt og frekast er kostur á. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. Alþ. sýni sama skilning á verkum þessarar öldruðu listakonu nú eins og það sýndi fyrir nokkrum árum, þegar keyptar voru af henni hinar fyrri tvær myndir fyrir mjög lítið fé, samtals 10 þús. kr. báðar myndirnar. Og ég leyfi mér að vekja athygli hv. þm. á því, að ef þeir kynnu að vilja sjá þessa mynd, þá hefur hún verið hengd upp hér frammi á lestrarsalnum, þannig að þeim gefst tækifæri til þess að sjá með sínum eigin augum það, sem ég hér með fáum og fátæklegum orðum hef verið að lýsa. Væri mér mikil þökk á því, ef hv. þm. vildu gera svo vel og líta á listaverkið sjálfir.

Önnur brtt. er einnig við 22. gr., um það að verja allt að 140 þús. kr. til að bæta tjón vegna slysfara á Bolungavíkurvegi sumarið 1951. Ég hef tvivegis áður gert grein fyrir þessari brtt. og tel þess vegna ekki þörf bera til þess að endurtaka skýringar á henni nú. Vil ég aðeins segja það og endurtaka það, að það fólk, sem þarna varð bæði fyrir hörmulegum ástvinamissi, stórslysum, og enn fremur bifreiðarstjórinn, sem átti bifreiðina sem gereyðilagðist, hefur engar bætur fengið fyrir það neins staðar frá, þar sem ekki hefur verið talið, að slík slys væru bótaskyld. Virðist það því vera fullkomið mannúðarmál, að Alþ. hlaupi undir bagga með þessu bágstadda fólki, sem þarna á hlut að máli. — Hef ég svo ekki um það fleiri orð.

Þá er þriðja brtt., einnig við 22. gr., sem við flytjum hv. þm. V-Ísf., hv. 2. landsk. þm. og hv. þm. Ísaf. Hún er um það að heimila ríkisstj. að verja allt að 600 þús. kr. til rekstrar dieselrafstöðva í kaupstöðum og kauptúnum að fengnum till. raforkuráðs. Ég hef nýlega gert grein fyrir því hér á hv. Alþ., hversu gersamlegt öngþveiti rekstur dieselrafstöðvanna er kominn í hjá fjöldamörgum sjávarþorpum og sveitarfélögum í landinu. Ég hef bent á það, að meðalverð á raforku til heimilisnota er í einstökum byggðarlögum komið upp í 1.18 kr., á sama tíma sem vatnsaflsstöðvarnar selja því fólki, sem þeirra nýtur, raforku fyrir allt niður í 0.42 kr. kwst. meðalverð til heimilisnota. Fjárhagur þessara fyrirtækja, dieselrafveitnanna, er svo vonlaus, að það er auðsætt orðið, að ríkið muni verða að greiða fyrir þær mörg hundruð þúsundir króna í ábyrgðum, sem á það falla. Og þrátt fyrir það, þó að ríkið taki að sér að greiða þessi lán, sem það hefur ábyrgzt, þá er engu að síður auðsætt, að reksturinn bjargast ekki. Ég vil vekja athygli á því, að raforkumálastjóri hefur í bréfi til hv. fjvn. hinn 9. des. lagt til, að tekin verði upp fjárveiting til þess að styrkja rekstur dieselrafstöðva. Hann leggur til, að fjárveitingin, sem veitt er í þessu skyni, verði hækkuð um 1 millj. kr., upp úr 0.5 millj. kr. upp í 1.5 millj. kr. Hv. fjvn. mun hafa hækkað þessa fjárveitingu lítillega, upp í 650 þúsund kr., ef ég man rétt, en það er alveg auðsætt, að sú fjárveiting hrekkur örskammt til þess að leysa úr þeim vandræðum, sem hér er um að ræða hjá þessum fyrirtækjum. Ég hef þess vegna — og þeir hv. þm., sem ég gat um áðan — lagt til, að varið verði allt að 600 þús. kr. til rekstrar dieselrafstöðva í kaupstöðum og kauptúnum að fengnum till. raforkuráðs. Og ég held raunar, að Alþ. geti alls ekki daufheyrzt við slíkum óskum, á sama tíma sem varið er svo að segja öllu því erlenda lánsfé, sem þjóðin getur herjað út erlendis, til þess að byggja upp og stækka nýjar vatnsaflsstöðvar fyrir þéttbýlið. Ég hygg þess vegna, að hér sé um svo fullkomið sanngirnismál að ræða, að engan veginn verði gengið á snið við það til lengdar. Ég leyfi mér því að vænta, að þessi till. nái fram að ganga og að hv. þm. og hæstv. ríkisstj. skilji þá aðkallandi nauðsyn, sem liggur til grundvallar flutningi hennar hér.

Þá hef ég leyft mér, ásamt hv. þm. Ísaf., að flytja brtt. við 22. gr. um að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fyrir skipasmíðastöð Marzilíusar Bernharðssonar á Ísafirði vegna byggingar dráttarbrautar á Ísafirði allt að 2 millj. kr. lán. Það þarf nú engum að verða bilt við það að sjá slíka till., því að Alþ. hefur á undanförnum árum samþ. hvað eftir annað stórfelldar ríkisábyrgðir fyrir fyrirtæki hér í Reykjavík til þess að koma einmitt upp dráttarbrautum fyrir stór skip, og í frv. því, sem hér liggur fyrir, er um eina slíka ábyrgð að ræða. Á Ísafirði hagar þannig til, að þar hefur um langt skeið verið rekin myndarleg skipasmíðastöð og byggðir þar ágætir vélbátar. Hins vegar er þar ekki dráttarbraut, sem geti tekið upp stærri skip en ca. 70 smál. Að þessu er að sjálfsögðu mikið óhagræði fyrir hina uppvaxandi togaraútgerð á Vestfjörðum, að þurfa í hvert skipti, sem hreinsun eða einhver viðgerð þarf að fara fram á þessum skipum, að sigla með þau hingað suður til Reykjavíkur eða láta framkvæma slíkar aðgerðir í erlendum höfnum, auk þess sem við það glatast mikil vinna úr byggðarlaginu sjálfu. Enn má á það benda, að ef þar væri fullkomin dráttarbraut, sem tekið gæti upp 600–700 tonna skip, skip á borð við togara, þá mundi það leiða til þess, að erlend skip kynnu í einstökum tilfellum að leita þar hafnar til viðgerðar, og af því mundi enn leiða aukna atvinnu á staðnum. Það getur vel verið, að hv. þm. finnist einhverjum, að þetta sé hrein goðgá, þegar þetta er orðað við kaupstað úti á landi, að veita slíka ríkisábyrgð fyrir 2 millj. kr. láni, en ég segi: Það er ekki hægt að halda því fram, að það sé sanngjarnt og eðlilegt að veita slíkar ábyrgðir og miklu hærri ábyrgðir fyrir dráttarbrautum og skipakvíum hér í Reykjavík, en telja það svo gersamlega ófært og fjárhag ríkissjóðs og gjaldþoll ofviða, ef þetta á að gerast í þróttmiklum sjávarútvegsbyggðum úti á landi. — Ég vil upplýsa það, að skipasmiðastöð Marzilíusar Bernharðssonar hefur um margra ára skeið undirbúið þessa framkvæmd, að byggja þarna dráttarbraut, sem tekið gæti upp togara, og þetta mál er ekki á neinu frumstigi, heldur er undirbúningi þess það langt komið, að fyllilega er verjandi fyrir hv. Alþ. að veita slíka ábyrgð.

Ég er þá kominn að síðustu brtt. minni á sama þskj., sem ég flyt ásamt nokkrum hv. þm., um að greiða Jóni Björnssyni rithöfundi 20 þús. kr. byggingarstyrk. Fyrir henni mælti ég það ýtarlega við 2. umr., að ég tel ekki þörf á því að bæta þar miklu við. Vil ég aðeins endurtaka það, að þessi ágæti listamaður býr í bragga, sem má heita gersamlega óviðunandi mannabústaður. Hv. Alþ. hefur á undanförnum árum sýnt frjálslyndi og skilning gagnvart þörfum margra listamanna, og yfirleitt má segja, að undantekningarlítið hafi verið samþ. fjárveitingar til flestra þeirra listamanna, sem sótt hafa um byggingarstyrk til þingsins. Ég leyfi mér því að vænta þess, að þessi brtt. um að veita þessum merka rithöfundi 20 þús. kr. byggingarstyrk verði samþ. og þar með greitt úr mjög miklum vandræðum hans.

Ég hygg svo, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um mínar brtt., en vænti, þar sem þeim er mjög í hóf stillt, að þeim verði vel tekið af hv. þingmönnum.