26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

1. mál, fjárlög 1953

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Áður en ég mæli hér með nokkrum till., sem ég flyt ásamt fleiri hv. þm., langaði mig til þess að gera nokkrar athugasemdir við það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér í kvöld, sem raunar er frekar óvenjulegt að heyra við 3. umr. fjárl. En fyrst hann kaus að fara nokkuð inn á ástæðurnar fyrir því, að hann flytur hér allmiklar brtt. við fjárl. nú, þá verð ég að gera nokkrar athugasemdir við hans ræðu.

Hæstv. fjmrh. talaði um, að það væru ekki nema tvær leiðir, sem hægt hefði verið að fara, þegar verkfallið var skollið á, og yfirleitt væri ekki um annað en þær tvær leiðir að ræða til þess að svara kröfum frá verkamönnum um betri kjör. Önnur leiðin væri verðlagslækkun og sú verðlagslækkun mundi raunverulega vera á kostnað ríkisins og þannig ríkið síðan aftur að taka af fólkinu með auknum álögum, þannig að raunverulega mundu byrðarnar af að borga niður verðlagið þess vegna, þegar öllu yrði á botninn hvolft, lenda á alþýðunni sjálfri. Hin leiðin var kauphækkun, hækkun á kaupi að krónutölu, sem hins vegar hlyti að þýða gengislækkun og væri þess vegna ekki neitt, sem bætti raunverulega kjör fólksins.

Þetta er rangt hjá hæstv. ráðh. Hann gengur þarna út frá tveim forsendum, sem ekki eru réttar. Forsendurnar, sem hæstv. fjmrh. gengur út frá, eru í fyrsta lagi sú, að þjóðarbúskapurinn sé svo vei rekinn, að það sé ekki hægt að reka hann betur, það sé ekki hægt að haga atvinnurekstrinum praktiskar, það sé ekki hægt að haga verzluninni ódýrar fyrir fólkið, það sé ekki hægt að hafa ríkisbáknið ódýrara í rekstri, það sé sem sé ekki hægt að slaka til og koma skynsamlegra skipulagi á þjóðarbúskapinn sjálfan, þar með talinn búskap ríkisins, og láta vinnandi stéttir landsins fá því meira í sinn hlut. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. fjmrh. Þarna er hægt að gera stórar breytingar á. Það er enginn efi á því, að atvinnurekstur landsmanna má reka miklu praktískar, en nú er gert, að verzlun landsmanna má reka miklu ódýrar og hafa þar miklu færra fólk í, heldur en nú er gert og ríkisbáknið gæti að skaðlausu verið a.m.k. fjórðungi til þriðjungi minna og afkastað samt eins miklu fyrir þjóðina. — Hin forsendan, sem hæstv. fjmrh. gekk út frá í þessu, var sú, að það væri enginn gróði að framleiðslu eða vinnu verkamanna á Íslandi, sem sé, að auðmannastéttin á Íslandi gæti ekki slakað til á sinn kostnað nokkurn skapaðan hlut, allt, sem kaup verkalýðsins hækkaði um, hlyti þess vegna að koma fram í hækkuðu vöruverði á einn eða annan hátt. Þetta er líka rangt. Auðmannastéttin á Íslandi gæti slakað til á sinn kostnað, og það væri hægt að bæta kjör verkalýðsins með því að rýra þann hlut, sem yfirstéttirnar fá til sín.

Ef hæstv. fjmrh. skyldi ekki vera alveg sannfærður af þessum mínum fortölum, þá skal ég vitna í hans eigin tölur við 1. umr. fjárl. Þá sagði hæstv. fjmrh., þegar hann var að reikna út hlutfallið milli ríkisteknanna og þjóðarteknanna, að þjóðartekjur Íslendinga væru rúmar 2.000 millj. kr. Þær mundu nú hafa verið eftir hans útreikningi upp undir 2200 millj. Við skulum segja, að þær séu 2.100 millj. kr. Ef það væri rétt, sem ég held nú að sé fullhátt hjá honum, þá mundi það þýða um 14 þús. kr. á mann, eða 70 þús. kr. að meðaltali á 5 manna fölskyldu, þessar þjóðartekjur íslendinga.

Hins vegar upplýstist það einmitt í sambandi við útreikning í skattstofunni á till., sem fyrir lágu hér á Alþ. frá mér, í Nd., um að gefa öllum þeim, sem hefðu undir 30 þús. kr. hreinar tekjur, eftir skatt, að við það mundi tala reykvískra tekjuskattsgreiðenda minnka um 40%. M.ö.o., 40% af öllum tekjuskattsgreiðendum í Reykjavík hafa undir 30 þús. kr. í hreinar tekjur, þegar meðaltekjur 5 manna fjölskyldu á landinu eru um 70 þús. kr. eftir útreikningi fjmrh. Ég mundi nú ekki reikna þær svona háar. Ég mundi varla reikna þær meiri en 60 þús. kr.

Það er þess vegna engum efa bundið, að verkamenn og sjómenn, og ekki sízt sjómennirnir á bátunum, hafa hlutfallslega mun lægri laun, en aðrir þegnar þjóðfélagsins. Einmitt mennirnir, sem vinna við framleiðsluvinnuna, bera skarðan hlut frá borði. Þessir menn hafa enga aðra möguleika til þess að bæta sinn hlut heldur en þann að knýja á með hærra kaup fyrir það vinnuafl, sem þeir selja og er það eina, er þeir eiga til að selja. Þeim er í þjóðfélaginu ekki gefinn neinn annar kostur, að undanteknum einum, og það eru hin beinu stjórnmálalegu áhrif.

Barátta verkamanna og sjómanna fyrir að bæta þennan skarða hlut sinn knýr það fram, að eitt af tvennu gerist: annaðhvort minnkar auðmannastéttin í landinu nokkuð þann part, sem hún fær úr þjóðarbúinu, eða þá, að valdhafarnir í þjóðfélaginu taka upp á því að reka þjóðarbúskapinn skynsamar og ódýrar heldur en áður. Ég vona, að hæstv. fjmrh. skilji það, ef hann hugsar út í það, að það er enginn efi á því, að það er hægt að komast af með miklu færri búðir t.d. í Reykjavík heldur en eru, það er hægt að komast af með færri menn í verzlunarstéttinni í heild heldur en eru, að það er hægt að reka atvinnureksturinn með miklu færri mönnum í stjórn hans heldur en nú eru, það er hægt að reka þetta allt í miklu stærri stíl og miklu ódýrar heldur en nú er gert. Það er hægt að spara þarna alveg stórkostlegar fjárfúlgur og spara vinnuafl, sem nú er notað í skriffinnsku og verzlun, en gæti farið yfir í framleiðsluna. Þetta er engum efa bundið. Og þessu hélt a.m.k. Framsfl. alltaf fram hér í gamla daga.

En hvaða aðstöðu hefur nú verkalýðurinn, og sérstaklega verkamenn og sjómenn, þ.e. langlægst launuðu stéttir þjóðfélagsins, til þess að knýja þessa breytingu fram? Að undantekinni hinni pólitísku baráttu hafa þær ekki aðra aðstöðu en kaupgjaldsbaráttuna. Það, að halda því fram, að það sé ekki hægt að hækka þeirra kaupgjald, að það sé ekki hægt að bæta þeirra hlut, þýðir bókstaflega að halda því fram, að það væri í fyrsta lagi alger og fullkomin skynsemi í öllum rekstri þjóðarbúskaparins og í öðru lagi fullkomið réttlæti í skiptingu þjóðararðsins á milli vinnandi stéttanna og auðmannastéttarinnar. Og ég efast um, þegar hæstv. fjmrh. athugar, hvað það var, sem hann var að halda fram, að hann mundi raunverulega vilja standa við þá fullyrðingu. (Fjmrh.: Hv. þm. hefur ekki hlustað á það, sem ég sagði. Ég sagði, að það væri hægt með aukinni framleiðslu og bættu skipulagi í framleiðslu og dreifingu.) Það ætlaði ég nú einmitt að koma inn á, hvað væri hægt að gera með aukinni framleiðslu.

Einmitt sérstaklega meðan hæstv. fjmrh. núverandi kom hvergi nærri ríkisstjórn á Íslandi og gat þess vegna engin áhrif haft á, hvað gert var, þá notaði verkalýðurinn tækifærið til þess að kaupa ákaflega mikið af framleiðslutækjum til landsins og úthluta þeim á tiltölulega skynsaman hátt til landsbúa. Þessi framleiðslutæki eru til í landinu núna, og það er hægt að framleiða með þeim mun meiri þjóðartekjur heldur en nú eru framleiddar. Hver er það, sem stendur í veginum fyrir því, að þessi tæki séu nýtt til fullnustu? Það er núverandi hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. ríkisstjórn kemur sjálf með sinni pólitík í veginn fyrir það, að þessi tæki séu nýtt þannig, að miklu meira sé framleitt heldur en nú hefur verið gert og sérstaklega heldur en lítur út fyrir að muni verða gert á þessu nýbyrjaða ári.

Ástandið er það, að þessi lágt launaði verkalýður og þessir lágt launuðu sjómenn eru með þeim tækjum, sem að mestu leyti voru keypt inn á nýsköpunarárunum, búnir að framleiða slík ógrynni af vörum, sem liggja hér innanlands, að ríkisstj. hefur sakir sinnar vitlausu verzlunar pólitíkur ekki séð möguleika á því — og sér það líklega ekki enn — að selja þessar vörur. En hver er ein höfuðástæðan til þess, að ríkisstj. þykist ekki geta selt þessar vörur? Við vitum, að það liggja fyrir á milli 100 og 200 millj. kr., ýmist hér eða í Ameríku, í óseldum íslenzkum fískafurðum eins og stendur. Það er hægt að selja allar þessar fiskafurðir, m.a. í vöruskiptum. En af hverju er ekki selt meira í vöruskiptum heldur en nú er gert? Ástæðan til þess, að ekki er meira selt í vöruskiptum heldur en nú er gert, er sú, að vöruskemmurnar hér á Íslandi og búðirnar hér á Íslandi eru allar fullar af útlendum vörum, sem fólkið hefur ekki efni á að kaupa. Það, sem vantar hér heima hjá okkur, er meiri kaupgeta hjá almenningi til þess að geta keypt þær útlendu vörur, sem við getum fengið í skiptum fyrir íslenzku vörurnar, sem við getum selt í vöruskiptum erlendis. M.ö.o., íslenzki verkalýðurinn og sjómennirnir hérna hafa þrátt fyrir sín lágu laun framleitt það mikil auðæfi, að hæstv. ríkisstj. veit ekki, hvað hún á við þau að gera. Hún stendur uppi eins og glópur frammi fyrir þeim auðæfum, sem liggja hér í geymslum hraðfrystihúsanna, og frammi fyrir þeim auðæfum, sem hægt er að fá fyrir þau í flestöllum þeim löndum, sem við getum haft vöruskipti við. Hæstv. fjmrh. veit það betur en ég, að t.d. fyrir þau 3.000 tonn af freðfiski, sem seld voru fyrir 18 millj. kr. til Austur-Þýzkalands, þegar hæstv. ríkisstj. loksins fór inn á þá leið, sem ég sýndi fram á fyrir þrem árum að hægt var að taka upp þá, að verzla við það land, þá er ástandið þannig nú, að það er ekkert farið að flytja inn af vörum frá Þýzkalandi sem andvirði þessa fisks, 18 millj. kr. Og heildsalarnir og S.Í.S., sem eiga þessar vörur ásamt Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sjá fram á vandræði vegna þess, að allt sé orðið fullt af vörum hér heima. M.ö.o., verkalýðurinn og sjómennirnir eru búnir að framleiða það mikið, auðæfin, sem þeir hafa skapað, eru það mikil, andvirðið, sem við getum fengið fyrir þau í vöruskiptalöndunum, er það mikið, að ríkisstj. veit ekkert, hvað hún á við þessi auðæfi að gera.

Það er ósköp auðvelt að ráðstafa þessum auðæfum. Það er hægt að gera tvennt með þeim. Það er hægt annars vegar að verja þeim til þess að byggja hér upp nýja atvinnuvegi, og það gerir maður með því að kaupa ný. framleiðslutæki fyrir þessi auðæfi. Það er hægt í öðru lagi að verja þeim til þess að bæta lífskjör fólksins. Það gerir maður með því að kaupa ýmsar neyzlu- og notavörur fyrir þau. En til þess að fólkið geti keypt þessar vörur hérna heima, þá verður að hækka kaupgjaldið hjá fólkinu. M.ö.o., íslenzka þjóðin stendur frammi fyrir því, að hún hefur framleitt það mikil auðæfi, en látið sjómennina og verkamennina fá svo lítið í sinn hlut, að þeir geta ekki keypt hér á Íslandi andvirði þeirra íslenzku vara, sem þeir hafa framleitt. Þetta er það venjulega kreppufyrirbæri, sem slæmar ríkisstj. skapa í löndum, sem þær stjórna illa. Og þetta er ástandið, sem við búum við núna.

Hæstv. fjmrh. hefði ekki átt að lasta þá stéttabaráttu, sem verkalýðurinn háði. Sú stéttabarátta er eina aflið, sem knýr framfarirnar fram í okkar þjóðfélagi nú sem stendur. Hún er það afl, sem knýr atvinnurekendurna til þess að reyna að reka sinn atvinnurekstur praktískar. Hún er það afl, sem knýr verzlunarstéttina til þess að reyna að reka verzlunina með skynsamlegra móti en hún gerir, svo framarlega sem kaupgjald verkalýðsins er hækkað og þrengt þannig að kosti yfirstéttanna í þjóðfélaginu, að þær neyðist til þess að hugsa dálítið um, hvernig hægt sé að reka þjóðarbúskapinn betur. Þess vegna er þetta afl, sem knýr fram framfarir. Og það er vegna þess, að núverandi stjórn vill ekkert nema afturhald og er að skipuleggja afturför í okkar þjóðfélagi, að hún hatast við þetta afl vinnandi stéttanna, sem heimta aukinn hlut sér til handa af þeim auðæfum, sem þær skapa.

Ég vil aðeins segja það, að þetta er ekki aðeins spursmál um kjör verkamannanna og sjómannanna. Þetta er bókstaflega spursmál um það, að okkar þjóðfélag geti haldið áfram að ganga, hringrásin í því, hringrás varanna sé ekki látin stöðvast. Kaupgetuleysi hjá íslenzkum almenningi þýðir markaðsleysi fyrir íslenzkar vörur erlendis. Þess vegna verðum við að finna ráð. Annars lendum við þarna í hringavitleysu, sem hæstv. ríkisstj. nú er búin að koma þessu öllu saman í. Ef við ekki aukum kaupgetu fólksins hér heima, þá getum við ekki selt fiskinn erlendis, því að við getum ekki selt hann nema með því að kaupa vörur fyrir hann erlendis. Og við getum ekki tekið þær vörur, nema við getum selt þær hér heima. Og við getum ekki selt þær hérna, nema því aðeins að alþýðan hafi meiri kaupgetu.

Þetta vildi ég nú aðeins segja hæstv. fjmrh. út af því, sem hann sagði. Ég hef áður hér á þingi flutt frv., sem hafa raunverulega farið fram á það, að ríkisstj. hætti að skipta sér af atvinnurekstrinum; fyrst hún ekki getur stjórnað honum betur en þetta, þá lofaði hún verkamönnum og atvinnurekendum sjálfum að reka þetta í friði fyrir henni. Og ég vil enn einu sinni segja honum það, að það er enginn vandi að reka allt íslenzkt atvinnulíf, ef ríkisstj. kæmi hvergi nærri, en hún hefur ekki viljað ganga inn á það að sleppa sínum einokunarkrumlum af atvinnulífinu, og þess vegna verður hún líka að finna sig í því, að þegar verkföll verða, þá verður afleiðingin af þeim sú, að sjálf ríkisstj. neyðist á endanum til þess að grípa inn í og lofa sjálf að taka á herðar ríkisins þær byrðar, sem atvinnurekendastéttin hefði getað borið ýmist með því að skipuleggja atvinnureksturinn betur eða með því að fórna nokkru af sínum gróða.

Verkamannastéttin á Íslandi mun hins vegar ekki slaka til í sínum kröfum. Hún mun halda áfram að berjast. Hún gerir það í meðvitund þess, að í fyrsta lagi væri hægt að stjórna þjóðarbúskapnum betur, svo framarlega sem ríkisstj. kæmi þar hvergi nærri, en þó sérstaklega í meðvitund hins, að svo framarlega sem verkalýðurinn réði hér, þá gæti hann skapað sér miklum mun betri kjör heldur en þau, sem hann býr við.

Þetta voru nú aðeins ofur litlar athugasemdir, sem ég vildi gera, fyrst hæstv. fjmrh. fann í dag ástæðu til þess að fara að ræða stjórnmálin og verkfallið sérstaklega almennt í sambandi við þessa 3. umr. fjárl. Ég vil hins vegar taka það fram, að ég held, að sú lausn, sem ríkisstj. kom hér með, og öll hennar afskipti af þessum málum hafi verið einhver þau dýrustu og lökustu, sem hægt var að fá út úr þessu. Ég veit, að það hefði verið hægt fyrir íslenzkan þjóðarbúskap að leysa þetta strax í upphafi, ef atvinnurekendur og verkamenn hefðu verið frjálsir til að geta samið og atvinnulífið hefði verið laust við öll afskipti ríkisins, og ég veit, að það hefði þá líka verið leyst á þann hátt, að beinn hagur hefði orðið að, gjaldeyrislegur, fyrir þjóðina, þar sem hins vegar af bæði verkfallinu sjálfu og lausn þess var ekkert nema tap út á við, hvað gjaldeyrinn snertir, fyrir þjóðina. Ég veit, að það er að vísu ekki eins mikið tap og ekki nema lítill hluti af því tapi, sem hlýzt af sjálfri stjórn ríkisstj. á okkar atvinnulífi, því að það tap skiptir ekki tugum milljóna, elns og það tap, sem verkfallið olli þjóðarbúskapnum sakir þess, hvernig ríkisstj. lét það dragast. Fyrir aðgerðir ríkisstj. töpum við hundruðum milljóna króna á ári núna, og ég er hræddur um, að árið, sem nú er að byrja, verði okkur þyngst af þessum árum vegna þeirrar kreppu, sem hún nú hefur leitt yfir okkur.

Ég ætla svo að leyfa mér að gera hér grein fyrir nokkrum brtt., sem ég flyt, og eru þær flestar gamlir kunningjar frá 2. umr., þar sem ég aðeins hef breytt ofur lítið til, til þess að reyna með lægri upphæðir nú heldur en ég gerði seinast, og þarf ég þess vegna ekki að færa mörg rök að þeim.

Það er í fyrsta lagi brtt. á þskj. 607, 3. brtt., sem ég flyt ásamt hv. 6. þm. Reykv. Það er, að til heilbrigðisstofnananna í Reykjavík komi í stað 1 millj. kr. 1 millj. og 500 þús. kr. Ég flutti brtt. við 2. umr. um að hækka þetta upp í 2 millj., en hún var felld, og ætlum við nú að reyna með þessa lægri upphæð. Ég þarf ekki að gera mönnum grein fyrir, hvílík þörf er á að flýta fyrir að koma hér upp heilbrigðisstofnunum, jafnt heilsuverndarstöð sem spítölum. Það er öllum kunnugt, hve hræðilegt ástandið er í þeim efnum núna.

Þá er enn fremur á sama þskj. brtt. 11, sem ég flyt ásamt hv. 6. þm. Reykv. og hv. 4. landsk. Það er, að til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis sé varið 750 þús. kr. Við fluttum þar till. um 1 millj. við 2. umr., en hún var felld, og við ætlum nú að reyna með þessa lægri upphæð, og samsvarandi henni er svo við 22. gr. lánsheimild til að lána bæjar- og sveitarfélögum það, sem samsvari slíku framlagi ríkissjóðs.

Þá flyt ég enn fremur á sama þskj. ásamt fjórum öðrum hv. þm. brtt. nr. 12, sem er ný till. Það er að breyta í óafturkræf framlög eftirtöldum lánum, sem ríkissjóður hefur veitt byggingarsjóði verkamanna og lánadeild smáibúðarhúsa. Það er samtals til byggingarsjóðs verkamanna rúmar 10 millj. kr. og til lánadeildar smáíbúðarhúsa 4 millj. kr. Þessa till. höfum við tekið beint upp eftir frv., sem allmargir þm. Framsfl. hafa flutt hér í þinginu og því miður hefur ekki náð fram að ganga, en því, sem hv. þm. Framsfl. hafa hugsað í sambandi við flutning þess frv., yrði náð með samþykkt þessarar litlu till. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að þessi till. með hennar undirliðum finni skilning og mæti stuðningi hér í þinginu. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsynina á þessu, það er öllum hv. þm. ljóst, og ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að þessi heimildartill. til hæstv. ríkisstj. verði samþykkt, þar sem ég þykist vita, að Framsfl. standi á bak við þetta frv. Þótt það hafi ekki komizt í gegn, þá er sem sagt enn þá tækifæri til þess að koma tilgangi þess í gegn með þessu móti, og ég held, að það sé rétt út reiknað hjá mér, að ef allir framsóknarþm. og þm. Sósfl. greiða atkvæði með þessu, þá er það samþykkt, þannig að þessi till. ætti þó að minnsta kosti, hvernig sem um hinar fer, að hafa mikla möguleika til þess að ná samþykki.

Þá flyt ég enn fremur ásamt tveim öðrum hv. þm. brtt. á þskj. 601. Það er líka að nokkru leyti gamall kunningi frá 2. umr. fjárl., þ.e., að í 17. gr. komi til atvinnu- og framleiðsluaukningar 8 millj. Þar höfðum við lagt til, að kæmu 10 millj., þegar rætt var um fjárl. við 2. umr.brtt. var felld, og nú vildum við reyna með þessa lægri upphæð, og þarf ég ekki að rökstyðja það frekar. Hins vegar höfum við borið þarna fram varatill., að til atvinnubótasjóðs sem stofnframlag fari 4 millj. kr.

Nokkrir þm. Sjálfstfl. í Nd., sérstaklega héðan úr Reykjavík, fluttu frv. um stofnun atvinnubótasjóðs, og það frv. sefur því miður enn þá í fjhn. Nd., ef ég man rétt. Þar lögðu þeir til, að stofnaður yrði slíkur atvinnubótasjóður til þess að bæta úr atvinnuleysi manna, ekki sízt úti um land, og til hans yrði varið á þessu ári 4 millj. kr., og þó að þetta frv. hafi nú ekki komizt lengra, þá ætla ég, að hugur hafi fylgt máli um að byrja á þessum nytsömu framkvæmdum, og ég efast ekki um, að með því að veita 4 millj. kr. til þessa atvinnubótasjóðs, þá væri hægur vandinn fyrir hæstv. ríkisstj. að setja um hann nokkra reglugerð, sem gerði honum mögulegt að starfa, þar til hægt yrði að samþ. þetta frv. eða eitthvað svipað á næsta þingi. Ég vonast þess vegna til, að a.m.k. hv. þm. Sjálfstfl., sem hafa tekið mjög eindregið afstöðu með frv. sinna flokksbræðra, sjái sér fært að standa með þessari brtt. okkar.

Ég er meðflm. að nokkrum till. hér, en fyrir þeim ætla ég ekki að mæla sérstaklega. Ég geng út frá, að það geri almennt þeir, sem eru fyrstu flm.

Þetta, sem ég hef nú mælt fyrir, eru allt frekar stórar till. út af atvinnuástandinu í landinu, sérstaklega fluttar með tilliti til þess, að ég er hræddur um — og satt að segja meira en hræddur um, ég er viss um, að pólitík hæstv. ríkisstj. leiði slíka kreppu yfir landið nú í ár, að við höfum ekki séð slíka síðan 1831, og þess vegna hefði verið mikil nauðsyn á því, að till. eins og þær, sem ég nú hef mælt fyrir og flestar snerta atvinnulífið, yrðu samþ. Hins vegar veit ég, að möguleikarnir á því eru ekki sérstaklega miklir, þar sem ríkisstj. mun nú vafalaust beita sínum sterku handjárnum við marga þm. sína til þess að hindra, að hægt sé að setja fyrir lekann, til þess að hindra, að hægt sé að leggja nú fram fé til að ráða bót á þeirri kreppu, sem yfir dynur á þessu árí, áður en hún er komin í algleyming.

En ég hef hér að síðustu flutt eina litla till., sem hæstv. forseti lýsti áðan, af því að hún er of seint fram komin og skrifleg. Ég flyt hana ásamt hv. þm. Seyðf., hv. þm. Dal. og hv. 3. landsk. Það er um að veita á 15. gr. til Magnúsar Guðnasonar 5.000 kr. til þess að gera honum mögulegt að varðveita tæki, sem hann hefur fundið upp. Þessi gamli maður er einn af þeim mörgu Íslendingum, sem hafa mikið hugvit til að bera, en hafa verið sjómenn eða verkamenn allt sitt líf og aldrei haft efni á því að ganga á æðri skóla til þess að fá þá menntun, sem þyrfti til þess að hagnýta í okkar tækniþroskaða þjóðfélagi þá gáfu, sem þeir hafa frá náttúrunnar hendi. Þessi maður, sem nú er kominn á efri ár, hefur mikið fengizt við ýmsar uppfinningar um ævina, bæði viðvíkjandi landbúnaðartækjum, vélum í báta, heimilistækjum og öðru slíku, og hafði fyrir tveim árum sýningu á þessum tækjum sínum í þjóðminjasafninu. Meðal þeirra voru t.d. ýmis merkileg hljóðfæri, sem m.a. ollu því, að Páll Ísólfsson reyndi mikið að gera fyrir þennan mann. Hann hefur ekki getað gert neina peninga úr þessum tækjum sínum. Það þarf venjulega nokkuð mikið til þess, að mönnum takist það. Það kostar nokkuð mikið fé að ganga þannig frá tækjum, gera allar þær tilraunir, sem þarf með, til þess að þau beri þann árangur, sem gefi uppfinningamönnum fé í aðra hönd, enda er reynslan sú, að flestir og jafnvel sumir af mestu uppfinningamönnum mannkynsins hafa farið sem fátækir menn í gröfina. Nú er ég hins vegar ekki að fara fram á, að farið sé að taka þennan mann sem fastan lið inn á fjárl. og veita honum fastan styrk, heldur veit ég, að hans efnahagskringumstæður eru þannig, að hann býr í ákaflega slæmu húsnæði og getur ekki geymt þessi tæki sín. Hann sér ekkert annað fram undan en að hann verði að eyðileggja þau. Að vísu getur hann fengið að geyma þau uppi á lofti máske í Atvinnudeild háskólans, en til þess að geta geymt þau þar þyrfti að minnsta kosti að slá utan um þau einhverjum kössum. Og þótt aldrei hafi neitt verið hægt að gera fyrir þennan mann, til þess að hægt væri að nota það hugvit, sem hann áreiðanlega hefur til að bera, þá held ég, að það minnsta, sem við gætum gert, væri að hjálpa honum til þess að slá þannig utan um þessi tæki sín, að þau yrðu ekki öll saman eyðilögð, hann neyddist ekki til þess að eyðileggja þau. Það getur hver sett sig í spor manns, sem hefur varið miklu af öllum sínum frístundum frá almennri verkamanna- og sjómannavinnu til þess að reyna að finna upp svona tæki, hvað það þýði að verða svo að enda ævina með því að eyðileggja þau öll saman, af því að hann hafði ekki einu sinni efni á að geyma þau nokkurs staðar. Ég veit, að það er í mörg horn að líta með okkar 400 millj. kr. fjárlög, en ég held, að við ættum að geta séð af 5 þús. kr. í eitt skipti fyrir öll til manns, sem reynt hefur þó að vinna á sinn hátt fyrir okkar atvinnulíf. Og e.t.v. verður einhvern tíma eitthvað að gagni af því, sem honum hefur dottið í hug, það einkennilegar eru hans uppfinningar. Ég held, að það væri það minnsta, sem við gætum gert fyrir hann, að veita honum þessa viðurkenningu í eitt skipti fyrir öll og láta hann fá þetta fé til þess að útbúa kassa utan um tækin sín og lofa honum að geyma þau. Ég veit, að hæstv. fjvn. fékk að sjá myndir af þessu, en það segir ekki stórt. Ég vildi þess vegna leyfa mér að vona, að þessi litla till. okkar fjórmenninganna um þessar 5 þús. kr. yrði samþykkt.