26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

1. mál, fjárlög 1953

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. hafa tekið eftir, þá kemur hæstv. fjmrh. og hv. form. fjvn. nokkurn veginn saman um það, að jöfnunartölur fjárl. hljóti að lokinni afgreiðslu að verða eitthvað milli 420 og 430 millj. kr. Ég get því vel skilið það, að ýmsum finnist, að boginn sé það hátt spenntur orðinn, að ekki sé álitlegt að bæta stórum upphæðum við, þó að ég hins vegar telji rétt að vekja athygli á því, að margt, sem nauðsynlegra er heldur en það, sem er inni í frv. af till. þessara háu aðila, hefur af þeirra hálfu verið látið ógert að bera fram tili. um og ýmsar af þeim till., sem koma annars staðar frá, eru bein tilraun til þess að bæta úr því.

Sjálfur hef ég ekki till. um að auka á útgjöldin, nema þær, sem fram eru bornar á þskj. 603, 3. og 4. till., og eru þær báðar svo smáar, að það liggur við, að ég beri kinnroða fyrir að nefna svo litlar tölur hér á þessari háu samkomu.

Fyrri till. er þess efnis, að fjárveitingin til Alþýðusambands Íslands verði hækkuð úr 50 þús. kr. og upp í 100 þús. kr., og meðflm. að þeirri till. er hv. 8. landsk. (StJSt). — Ég ætla, að það þurfi ekki mörg orð til að rökstyðja þessa till. Inni í frv. er nú og var tekin með samþykki allra þm. hér á síðasta þingi 50 þús. kr. fjárveiting í þessu skyni. Þar með hefur og Alþ. viðurkennt, að það sé ákaflega þýðingarmikið, ekki einasta fyrir þessi samtök og þennan félagsskap, að þar sé haldið uppi einbeittri og öflugri fræðslustarfsemi, heldur sé það líka þýðingarmikið fyrir landsfólkið og landsbúa í heild sinni, og það er það, sem það vissulega er. Þessi fjárveiting er veitt eingöngu til fræðslustarfsemi um félagsmál og annað, sem þar að lýtur, og er vissulega hin mesta nauðsyn á því, að slíkt sé ekki vanrækt. Hér er um félagsskap að ræða, sem telur á milli 20 og 30 þús. meðlimi, án efa fjölmennasta félagsskap á landinu, sem að ýmsu leyti getur haft og hefur áhrif á þjóðfélagið og hvernig mál þess lúkast. Ég vil því mjög eindregið mæla með því, að þessi upphæð sé hækkuð eins og till. mín segir, og tel, að þó að það yrði gert, þá sé samt skemmra gengið, en æskilegt hefði verið og eðlilegt.

Hin till., sem er nr. 4 á sama þskj., er þess efnis, að fjárveiting sú, sem nú er í frv. til Leikfélags Reykjavíkur, óbreytt frá síðasta ári, ef ég man rétt, 30 þús. kr., verði hækkuð upp í 50 þús. kr. Öllum ber saman um, að starfsemi Leikfélagsins, leikritaval og leikafrek hafi yfirleitt verið með hinum mestu ágætum og batnandi hjá Leikfélagi Reykjavíkur hin seinni ár. Þegar litið er til annarra fjárveitinga í sama skyni, er það augljóst, að hlutur Leikfélagsins er mjög fyrir borð borinn og þar með vanmetið það starf, sem það hefur innt af hendi og er líklegt til að inna af hendi í framtíðinni. Ég sé, að það muni vera óþarfi af mér að mæla fyrir þessu, því að á þskj. 623 er brtt. við sama lið fjárl. frá hv. borgarstjóranum í Reykjavík og einum ráðamanni í bæjarstjórninni þar, þeim þm. Gunnari Thoroddsen og Jóhanni Hafstein. Aðaltill. þar er 60 þús. kr., eða 10 þús. kr. hærri en till. mín, og með tilliti til þess, sem ég áðan sagði, þá get ég greitt þeirri till. atkvæði, því að ég geri ráð fyrir, að hún komi á undan. Hæstv. forseta vildi ég svo leyfa mér að benda á, að varatill. þessara hv. þm. er um sömu upphæð og till. mín er, og ég hygg, að samkvæmt þingsköpum sé trauðla hægt að bera þær till. upp báðar, og vil beina því til hæstv. forseta, að hann athugi það fyrir atkvgr. En ég tel víst, að þessir ágætu þm. bæti við því, sem á kann að vanta, að ég beri það lof á Leikfélagið og starfsemi þess, sem það vissulega á skilið, en að ég ekki geri það, er bæði vegna væntanlegs stuðnings frá þeim og einnig vegna þess, að ég veit, að hv. þm. er þetta efni vel kunnugt.

Nokkrum af brtt. þeim, sem bornar eru hér fram, þykir mér ástæða til þess að vekja athygli hv. þm. á.

Á þskj. 618 er brtt. frá Bjarna Benediktssyni um undirbúning að nýrri vegagerð á Þingvöllum, þannig að vegurinn verði fluttur úr Almannagjá. Ég vil hið bezta mæla með þessari till. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það væru vandræði að hafa veginn í gegnum gjána, fyrst og fremst vegna þess, að það á að vera friðaður staður, en það er ómögulegt með þeirri bílaumferð, sem um gjána er, og ég skal ekki tefja tímann með því að benda á aðrar leiðir, þar sem leggja ætti veginn. Hæstv. ráðh. hefur bent á eina, að byggja brú yfir gjána. Önnur er til, og hún er að keyra efri barminn alla leið inn á veginn upp að Kaldadal og sveigja niður Fögrubrekku niður á Þingvelli aftur, sem er ljómandi falleg leið, en að vísu dálítið lengri. En það er ekki aðalatriðið, hvor leiðin verður valin. Mér finnst, að þessi hugmynd sé mjög athyglisverð, og vil mæla með þessari till.

Á þskj. 606 eru till. hæstv. fjmrh., sem standa í sambandi við lausn vinnudeilunnar. Þar er 9. till., að fjárveitingin til almannatrygginga hækki upp í 32 millj. Ég vil benda á, að miðað við þá vísitölu, sem nú er greitt eftir, 158, er þessi upphæð hér um bil 300 þús. kr. of lág. Það skiptir að vísu ekki höfuðmáli. Ég mun ekki bera fram brtt. við þetta, vegna þess að það er marzvísitalan, sem ákveður vísitölu framlagsins, og verður að sjálfsögðu reiknað eftir henni, eins og lög mæla fyrir. En miðað við þá vísitölu, sem nú er greitt eftir, 158, þá er upphæðin um 300 þús. kr. of lág.

Samkv. till. hv. fjvn. er lagt til, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir ýmis einkafyrirtæki, samtals fyrir upphæðum, sem nema um 24 millj. kr., og stærstu upphæðirnar þar eru, ef ég man rétt, Slippfélagið í Reykjavík með 6 millj. og Flugfélag Íslands með 14 millj. Mig furðar á því, að ekki skuli hafa verið fyllri rökstuðningur fyrir þessum till. eða meiri heldur en sá, sem hv. form. fjvn. flutti hér. Ég hefði haldið, að hæstv. ríkisstj. hlyti að telja ástæðu til þess að gera hv. Alþ. grein fyrir því, sem í þessum till. felst, en ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða það, að hér sé tekin upp alveg ný stefna á Alþ., að ábyrgjast slíkar upphæðir sem hér er um að ræða fyrir einkafyrirtæki. Ég mun ekki greiða atkv. gegn þessum till:, en ég sakna þess, að ekki skyldi vera gerð grein fyrir þessari stefnubreytingu, sem hér er upp tekin. Og ég vil bæta því við, að ég fæ ekki með nokkru móti séð, úr því að út á þessa braut er komið, að hæstv. ríkisstj. geti látið við það sitja, sem hér er komið. Ég veit ekki betur en að hitt flugfélagið, Loftleiðir, hafi hinn fyllsta hug á og án efa svipaða möguleika og Flugfélag Íslands til þess að afla sér millilandaflugvélar, og þeir hafa lengur en Flugfélag Íslands rækt þá starfsemi af miklum dugnaði, og ég fæ ekki séð, ef öðru félaginu er veitt slík ábyrgð sem þessi, hvernig nokkur möguleiki er á því að neita hinu félaginu, sem að vissu leyti á eðlilegri rétt til slíks stuðnings, heldur en Flugfélag Íslands, um sams konar ábyrgð. Ég vil vekja athygli á því í fyrsta lagi, að hér er farið inn á nýjar brautir, og í öðru lagi, að nú strax á þessu þingi virðist mér mjög örðugt annað en að taka skrefið lengra, en hér er gert, úr því að á annað borð þessi háttur er upp tekinn.

Í till. hv. fjvn. á þskj. 567 er 33. till. þess efnis, að Búnaðarbanka Íslands skuli endurlánað fé, sem svarar til þeirra afborgana og vaxta, sem í tili. segir. Þetta er með mjög óvenjulegum hætti upp tekið, í fyrsta lagi að ákveða um lán af hálfu ríkissjóðs með einföldu fjárlagaákvæði í heimildagr., eins og hér er, og það er ekki síður furðulegt, að hvergi sést á till., um hvaða upphæð þarna er að ræða. — Á þskj. 602 er till. frá minni hl. fjvn., sem skýtur nú meiri hl. eða n. allri mjög ref fyrir rass, því að það er ekki um neitt lán að ræða þar, heldur beinlínis að breyta í óafturkræft framlag til bankans, að mér skilst, sömu greiðslu og vísað er til í 33. till. hjá hv. fjvn., en á þskj. 602, hjá hv. minni hl., eru þessar upphæðir taldar upp og nema samtals 29.8 millj. kr. Mig furðar á því, þegar um slíka upphæð sem þessa er að ræða, að ekki skuli borið fram að venju frv. þess efnis, að ríkisstj. sé heimilt að veita þetta lán, en því skuli vera laumað hér inn í brtt. við 22. gr., án þess einu sinni að gefa nokkrar upplýsingar um, hvaða upphæðir er hér um að ræða. Ég vildi mjög mælast til þess, að horfið yrði frá slíkum vinnubrögðum sem þarna er um að ræða. Þau eru alls ekki Alþ. sæmandi og æskilegt, að ekki yrði framhald á slíku.

Á þskj. 609, frá 2. minni hl. fjvn., eru till., sem ég yfirleitt mun fylgja og þarf því ekki annað um þær að segja heldur en að vísa til framsögu hv. 2. minni hl. Þó er ein till., till. 12, um eftirlaun til tveggja manna, sem ég vildi segja nokkur orð um, þ.e.a.s. aðra till., til Jónasar Tómassonar tónskálds. Ég hygg, að allir, sem til þekkja, geti verið á einu máli um það, að ef ástæða er til þess að ætla nokkrum manni íslenzkum eftirlaun í fjárl. umfram það, sem hann á rétt til hjá almannatryggingunum, þá er það einmitt þessi maður. Hann er kominn á áttræðisaldur, hefur unnið mikið — mér liggur við að segja ómetanlegt starf — í þágu söngmenntar og tónlistar hér í landinu, hverjum manni óeigingjarnari og hefur lagt þetta á sig af áhuga fyrir samborgurum sínum og þeirri list, sem hann ann af heilum hug. Ég hefði kosið, að þessi upphæð væri nokkru hærri, en hér er gert. Hann er lagður hér að jöfnu við Björgvin Guðmundsson, eða þá fjárveitingu, sem honum er ætluð í yfirstandandi fjárl. og verður víst áfram, og mun ég því ekki flytja brtt. við það, en ég vil segja það af miklum kunnugleik á þessum manni og hans starfi, að mér finnst sjálfsagt, að honum séu veitt sómasamleg eftirlaun, og tel nú, að sú upphæð, sem þarna er, sé lægri en vera ætti, en það mætti þá kannske fá það lagfært síðar. Ég vil hið bezta mæla með því, að þessi till. verði samþ. — Þá hef ég lokið máli mínu.