26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

1. mál, fjárlög 1953

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég og hv. samþingismaður minn höfum leyft okkur að bera fram brtt. við 15. gr. A. XI., það er nýr liður, til Sigriðar Tómasdóttur í Brattholti, vegna brunatjóns og í viðurkenningarskyni, 10 þús. kr. Hv. þm. rekur ef til vill minni til þess, að í vetur var sagt frá því í blöðunum, að bærinn Brattholt hafi brunnið til grunna. Nokkurt tjón varð á útihúsum, sem stóðu við bæinn. Ég hygg, að Sigríður Tómasdóttir sé þjóðkunn kona, a.m.k. hjá eldra fólki á landi hér. Hennar hefur verið getið fyrir alllöngu, og svo nú, þegar þetta tjón á heimili hennar vildi til, þá var þess getið í blöðunum og vikið nokkuð að ævi hennar. Þetta er orðin háöldruð kona, komin nokkuð yfir áttrætt. Hún er fædd og uppalin og hefur unnið alla sína ævi á þessu heimili.

Eins og kunnugt er og hv. alþm. vafalaust þekkja, þá er bærinn Brattholt rétt við Gullfoss. Þessi kona hefur því alizt upp við fossinn, hlustað á hans nið, ómur hans hefur festst henni í huga. Ég hygg, að ef til vill hafi þeir ómar, sem til fossins má heyra, mótað hug hennar og hjarta. Svo mikið er víst, að þessi kona er rammíslenzk. Þegar hún var á góðum aldri, þá kom til orða að leigja Gullfoss erlendu félagi, sem hafði tekið hér vatnsréttindi á leigu og ætlaði sér að virkja fallvötn hér. Faðir Sigríðar hafði gengið alllangt í því að leigja Gullfoss, þann hluta hans, sem heyrði til hans jörð og hann átti, þ.e. helming fossins. Sigríður undi þessu illa og lét í ljós við föður sinn, þegar hann kom úr þessari ferð, að þetta hefði hann aldrei átt að gera, fossinn, þótt ekki væri hann numinn í burtu, ætti að vera íslenzkur eins og hann hefði ætið verið og í þjónustu Íslendings, en einskis annars. Sigríður tókst ferð á hendur til Reykjavíkur og fann umboðsmenn þessa erlenda félags og vildi fá hætt við þennan samning og samningunum rift, ef það væri að fullu frá þeim gengið. Þessu var treglega tekið af þeim, sem réttindin höfðu fengið, og stóð svo alllengi. Að lokum fór þó svo, að Gullfoss var áfram í eigu jarðarinnar, og þeir samningar, sem eitt sinn voru gerðir, voru upp hafnir, svo að hann var óskertur eign þeirra jarða, sem að honum liggja. Ég minnist þess eitt sinn, þegar þessi málefni fossins voru til meðferðar, að þá lagði Sigríður land undir fót og lagði gangandi af stað til Reykjavíkur. Annan farkost hafði hún ekki þá, og gaf ekki um það, til þess að sinna þessum málum.

Nú eru foreldrar Sigríðar fyrir löngu látnir. Fóstursonur hennar býr á þessari jörð, og þrátt fyrir háan aldur er gamla konan hans önnur hönd. Svo undi hún illa að vera fjarvistum frá þessu heimili sínu, að ekki gat hún hugsað til þess, þó að bærinn væri brunninn ofan af henni, að dvelja hjá frændfólki sínu skammt í burtu, — ég ætla, að hún hafi verið þar aðeins tvær nætur eða svo, þá fór hún heim. Hefur nú verið innréttað í útihúsi ofur lítið skýli fyrir heimilisfólkið, og vafalaust unir Sigríður miklu betur þessu hlutskipti, þó að vistin mundi ekki vera talin samkvæmt nýjustu tízku, heldur en þótt hún hefði haft betri salarkynni, ef hún ætti að vinna það til að vera fjarvistum við heimilið.

Það hugarþrek, sem fram hefur komið hjá Sigríði, manndómur hennar og þjóðrækni, sem þeir vitaskuld þekkja bezt, er hafa haft persónuleg kynni af henni, eru þess virði, álit ég, að Alþ. sýni henni þennan virðingarvott, þegar svona er nú komið högum nennar, að hún er nú orðin húsnæðislaus og á lítil efni, eins og er um margt alþýðufólk, sem lengi ævi hefur unnið sínum án þess að taka skilding fyrir, og hefur unnið því heimili nú í seinni tíð, hjá fóstursyni sínum, án þess að hirða um gjald. Við þm. Árn. berum þessa till. fram miklu meira í því skyni, að það sé viðurkenning fyrir hennar góða þegnskap sem íslenzkur þegn, heldur en beinlínis að bæta henni upp tjónið. Ég er viss um, að það gleður konuna líka miklu meira að vita, að það, sem gert verður, er fremur af þeim huga gert heldur en beinlínis að bæta henni fjárhagslega tjóníð, þó að vissulega það sé mikið atriði, eins og þarna stendur á, að liðan hennar hér eftir, það sem hún kann að eiga eftir ólifað, geti verið sæmileg hvað húsakostinn snertir.

Ég vænti, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þessa till. Tæpast þarf að óttast það fordæmi með slíkri samþykkt, að það verði hægt oft að bera hér fram till., sem byggist á líkum grundvellí og þessi.