26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

1. mál, fjárlög 1953

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að mæla á ný með þeim brtt., sem ég flutti sumpart einn og sumpart með öðrum við 2. umr. fjárl., læt mér nægja að vísa til þeirra orða, sem ég mælti fyrir þeim þá. En ég hef nú við þessa umr., sumpart einn og sumpart ásamt öðrum, flutt nokkrar brtt., sem mig langar til þess að mæla með örfáum orðum.

Ég vil nefna fyrst till. um 1 millj. kr. byrjunarfjárveitingu til byggingar heimavistarhúss fyrir menntaskólann í Reykjavík. Það var skrifleg brtt., sem forseti lýsti rétt áðan. — Í fjárl. er nú og hefur undanfarið verið veitt fé til byggingar nýs húss fyrir menntaskólann í Reykjavík, en í því sambandi hefur ekki verið fyrir því hugsað að gera utanbæjarnemendum, sem nám stunda við skólann eða vilja stunda nám við skólann, kleift að njóta húsnæðis og annars viðurgernings á vegum skólans. Þeir, sem stunda nám í menntaskólanum á Akureyri, eru miklu betur settir hvað það snertir, en við menntaskólann á Akureyri er nú ein stærsta heimavist, sem er við nokkurn skóla á landinn. Menntaskólinn í Reykjavík er þó allmiklu stærri skóli en menntaskólinn á Akureyri og einn stærsti framhaldsskóli landsins. Það má því ekki lengur við svo búið standa, að þeim utanbæjarnemendum, sem þar vilja og þurfa að stunda nám, sé enginn kostur veittur á því að búa á vegum skólans. Til skamms tíma var nokkur hluti af húsi menntaskólans notaður sem heimavist fyrir utanbæjarnemendur, en þrengsli í húsinu hafa orðið þess valdandi, að því er hætt, og er nú allt húsnæðið notað í þágu kennslunnar beinlínis. Ég tel, að það verði að hefjast handa um að hrinda í framkvæmd byggingu heimavistar við menntaskólann í Reykjavík, og vænti þess, að hv. þm. taki þessari till. vel sem byrjunarfjárveitingu í slíku skyni.

Ég hef enn fremur flutt till. um 300 þús. kr. hækkun á fé því, sem veitt er til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis. Í till. hv. fjvn. er ráð fyrir því gert, að 300 þús. kr. af því fé, sem ætlað er námsmönnum erlendís, sé varið til námslána. M.ö.o., styrkur til íslenzkra námsmanna erlendis á að minnka um 360 þús., en lán að koma í staðinn. Ég legg til, að styrkurinn haldist óbreyttur, en námslánið til íslenzkra námsmanna erlendis komi sem viðbót við það fé, sem veitt er til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis. Almennan rökstuðning fyrir þessu skal ég hafa lítinn. Reynslan hefur sýnt það, að því fé, sem varið er til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis, er ekki á glæ kastað. Því er vel varið. Þar er verið að leggja fé á góða vöxtu, og það fé, sem til þess hefur verið varið, hefur skilað góðum vöxtum til íslenzks þjóðfélags.

Ég hef einnig lagt til, að upphæð sú, sem veitt er til skálda, rithöfunda og listamanna, hækki um 200 þús. kr. Það fé, sem veita á, er 630 þús. Undanfarin ár hefur komið í ljós, að n. þeirri, sem úthlutað hefur fénu, hefur fundizt sér of þröngur stakkur skorinn og hún hefði gjarnan viljað hafa talsvert miklu meira fé til að úthluta. Sem betur fer er íslenzku menningarlífi þannig háttað, að til eru margir menn, sem eiga fyllilega skilið að njóta slíkrar viðurkenningar af hálfu ríkisvaldsins, og það er æskilegt að geta haft þá viðurkenningu nokkru meiri og láta hana ná til nokkru fleiri aðila en hægt hefur verið og hægt mun verða með þeirri fjárveitingu, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. eins og það er nú.

Þá flyt ég ásamt hv. 4. þm. Reykv. till. um það að hækka tillag til sumardvalarheimila fyrir börn í kaupstöðum og kauptúnum úr 100 þús. upp í 250 þús. Sú starfsemi, sem rekin hefur verið til þess að gera efnalitlum kaupstaðabörnum kleift að dveljast nokkurn tíma í sveit að sumarlagi, hefur verið mjög vinsæl og borið mjög góðan árangur. Þarf ekki um það að orðlengja, hversu mikils virði það er fyrir börn úr kaupstað að eiga kost á nokkurri dvöl á góðu sumardvalarheimili. Það getur haft mikla þýðingu fyrir þroska barnsins, og væri mjög æskilegt, að hægt væri að auka þá starfsemi, sem stunduð hefur verið á þessu sviði og rekin hefur verið af mikilli prýði af ýmsum aðilum. Fyrir því er lagt til, að þessi liður hækki um 150 þús. kr.

Þá er ég og meðflm. ásamt þrem öðrum þm.till. um að hækka tillag til Norræna félagsins um 7 þús. kr. vegna móttöku norrænna kennara á næsta sumri. Styrkurinn til Norræna félagsins er í gildandi fjárlagafrv. 8 þús. kr., var hækkaður um 3 þús. kr. við 2. umr. málsins. Norræna félagið hefur með höndum mjög mikla starfsemi til þess að auka kynni milli Íslands annars vegar og hinna Norðurlandanna hins vegar og vildi gjarnan hafa hana miklu meiri en það á kost á sökum fjárskorts. Íslendingar njóta mikillar fyrirgreiðslu erlendis á vegum norrænu félaganna í hinum Norðurlöndunum. Ýmsir aðilar taka þátt í margs konar mótum og námskeiðum við mjög vægu gjaldi sökum fyrirgreiðslu hinna norrænu félaganna. Íslenzka Norræna félagið hefur reynt að veita sams konar fyrirgreiðslu hér, eftir því sem fjárhagsástæður hafa leyft, en því hefur því miður þurft að skera miklu þrengri stakk, en æskilegt væri. Þess má geta, að nú á siðasta ári fór mjög verulegur hópur íslenzkra ungmenna til námsdvalar í hinum Norðurlöndunum, yfir 20 íslenzkir unglingar, sem eru að langmestu leyti kostaðir af hinum norrænu félögunum. Hefur verið áætlað, að námskostnaður þessa unga fólks muni nema um fjórðungi úr milljón kr., sem þannig er í raun og veru framlag norrænu félaganna í hinum Norðurlöndunum til aukinnar kynningar milli Íslands annars vegar og þeirra hins vegar. Þegar um er að ræða jafnstórt tillag og þetta til gagnkvæmrar kynningar Norðurlandanna af hálfu þeirra til Íslands, þá má það vera ljóst, að æskilegt væri, að við gætum gert eitthvað svolítið meira í endurgjaldsskyni, en við gerum. Sá styrkur, sem félagið hefur haft undanfarin — ég held að minnsta kosti 10 ár, að upphæð 5 þús. kr., var auðvitað miklu hærri tiltölulega, þegar hann fyrst var lögtekinn. Verðgildi hans hefur rýrnað mjög verulega sökum lækkandi peningagildis. Í raun og veru ætti Norræna félagið að fá miklu meiri styrk núna, en hér er farið fram á, ef halda hefði átt í horfinu. Fram á það er þó ekki farið, heldur einvörðungu lagt til að hækka styrkinn um einar 7 þús. kr. og það sérstaklega bundið við kostnað, sem félagið mun væntanlega hafa á næsta sumri vegna móttöku norrænna kennara, sem munu koma hingað til lands til móts eða námskeiðs, og vænti ég, að hv. alþm. taki á þessu máli með þeirri velvild, sem mér finnst það eiga skilið.