16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

196. mál, tollskrá o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. lýsti því, að n. stæði óskipt að þessu frv. og legði til, að það verði samþ. óbreytt, en ég hef á þskj. 534 skrifað undir með fyrirvara og skal hér með gera grein fyrir afstöðu minni til frv.

Frv. það, sem hér um ræðir, er á þskj. 516. Er það eitt af nokkrum frv., sem hæstv. ríkisstj. ber fram til uppfyllingar samningi, er hún hefur gert til lausnar viðtæku verkfalli, er nokkrir ábyrgðarlausir æsingaseggir komu af stað meðal þjóðarinnar og í fyrsta skipti í sögunni er beinlínis stefnt að löggjafarþinginu. Viðurkenni ég þann mikla vanda, sem hæstv. ríkisstj. var sett í með því verkfalli, sem þannig var komið á í landinu, og þótt ég enn fremur viðurkenni, að nokkurt eða jafnvel mjög mikið fjárhagslegt tjón hefði af því hlotizt fram yfir það, sem þegar var orðið, að láta Alþ. sjálft ákveða á þinglegan hátt, hvernig svara skyldi hinum áður óþekktu kröfum, sem gerðar voru til þess í sambandi við kaupkröfur stéttarfélaga, þá tel ég þó, að sá kosturinn hefði verið skárri en hinn, sem tekinn var, að semja um margvíslegar breytingar á lögum landsins utan þingsalanna, á meðan Alþ. sat að störfum, eins og gert hefur verið beinlínis í trausti þess, að hægt væri að beita flokksvaldi til fylgis við frv., svo að samkomulagið yrði á þann hátt lögfest. Ég er út af fyrir sig ekki efnislega andvígur því frv., sem hér um ræðir: Mun ég því geyma mér að ræða þetta nánar, þar til þau önnur frv., sem borin eru fram af hæstv. ríkisstj. í sama tilgangi og ég er efnislega andvígur, koma hér til umr. En vegna þess, hvernig frv. þetta er til komið, og vegna þess, að ég er slíkri málsmeðferð andvígur, þótt ég sé efnislega samþykkur frv., mun ég ekki taka þátt í afgreiðslu málsins og því sitja hjá við atkvgr.