27.01.1953
Neðri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

196. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til meðferðar, er um niðurfellingu aðflutningsgjalda af sykri og kaffi. Segir svo í athugasemdum, sem fylgja frv.:

„Meðal þeirra ráðstafana, sem ríkisstj. beitti sér fyrir við lausn vinnudeilunnar í des. s.l., var lækkun verðs á sykri og kaffi. Var sú verðlækkun gerð á þeirri forsendu, að felld yrðu niður aðflutningsgjöld, þ.e. vörumagns- og verðtollur, af vörutegundum þessum. Nauðsynlegt var, að verðlækkunin kæmi þegar í stað til framkvæmda, er samningar höfðu tekizt, og varð, til þess að svo gæti orðið, að leita heimildar til þess að endurgreiða aðflutningsgjöld af birgðum verzlana af áður greindum vörum, enda væri birgðatalning staðfest af hreppstjóra eða trúnaðarmanni verðgæzlunnar. — Til þess að ríkisstj. geti staðið við gefin heit, er henni nauðsynlegt að fá heimildir þær, er felast í þessu frv.“

Fjhn. þessarar hv. d. tók frv. til meðferðar á fundi sínum 23. þ. m. og var sammála um að mæla með því óbreyttu.