06.10.1952
Efri deild: 4. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

30. mál, vegabréf

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að lengi hefur tíðkazt að krefjast vegabréfa af mönnum, bæði hér á landi og viða annars staðar. Það er gert ráð fyrir slíkum vegabréfum í lögum, en hvergi sett heilleg fyrirmæli um þau. Dómsmrn. þótti því eðlilegt, að almennar reglur um þessi vegabréf væru settar með sérstakri löggjöf, og var frv. útbúið í þá átt. Það frv., sem hér liggur fyrir, er í rauninni staðfesting á þeim reglum, sem fylgt hefur verið í framkvæmd, og þó sú viðbót, að manni, sem synjað er um vegabréf, er yfirleitt heimilað að bera þá synjun undir dómsmrh., þannig að hér er um aukna réttarvernd að ræða frá því, sem verið hefur, til handa borgurunum. Ég geri ráð fyrir því, að menn geti fallizt á, að það sé eðlilegt, að þetta frv. sé lögfest. Einstök atriði þess hljóta auðvitað að liggja til frekari íhugunar. Sitt sýnist hverjum um þau, eins og gengur. Það kemur þá fram við meðferð málsins, en ég legg til, að frv. sé vísað til 2. umr. og hv. allshn.