06.10.1952
Efri deild: 4. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

30. mál, vegabréf

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að við þurfum ekki að deila um það, í hvaða nefnd þetta frv. fari, og vil því gjarnan biðja allshn., sem fær þetta frv. til meðferðar, í samráði við hæstv. ráðh., sem hér hefur haft sína framsögu í málinu, að athuga í þessu sambandi eitt atriði, sem ég tel vera töluvert mikilsvert. Við, sem eigum við það að yfirfara skattaframtöl, verðum þess varir á hverju ári, að það eru í landinu nokkuð margir menn, — ég vil ekkert fullyrða hvað margir, þeir skipta nokkrum hundruðum, — sem hvergi eiga lögheimili og ekki finnast til að borga sín opinberu gjöld. í því sambandi hefur mér dottið í hug, hvort ekki mundi mega tengja saman annars vegar það frv., sem hér liggur fyrir, og frv., sem boðað er um almennt manntal, þannig að þegar almenna manntalið er fengið, sem á nú að vera seint á árinu, fái hver maður sitt spjald, sem segi, hver hann er og hvar hann þá hefur verið talinn til heimilis að minnsta kosti, og að hann fyrir vissan tíma á árinu á eftir, t.d. fyrir fardagana, þegar menn yfirleitt skipta mest um heimilisfang, láti skrifa á sitt spjald löglegt heimilisfang og láti staðfesta það af sýslumanni eða hreppstjóra. Þá hefur hver maður á sínu spjaldi löglegt heimilisfang, sem er viðurkennt af sýslumanni eða hreppstjóra. Ég vildi biðja allshn. að athuga þetta, því að þá ættu að hverfa þessir umrenningar, — ekki þó umrenningar í þess orðs gömlu merkingu í málinu, heldur þeirri merkingu, sem það nú hefur, menn, sem eru mánuð og mánuð á stað í vinnu hingað og þangað um allt landið og telja sér sem sagt hvergi heimilí, og hvergi næst í þá til að láta þá borga sín eðlilegu opinberu gjöld. Ég vildi biðja allshn. að athuga, hvort ekki væri hægt að tengja þetta tvennt saman, og ég held, að það hljóti að vera hægt að gera það.