03.11.1952
Efri deild: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

30. mál, vegabréf

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt, nema einn nm., sem áskilið hefur sér rétt til að hafa óbundnar hendur um málið.

Eins og fram er tekið í grg. fyrir frv., hafa til þessa ekki verið til neinar almennar reglur í íslenzkri löggjöf um vegabréf. Þessu frv., ef að l. verður, er ætlað að bæta úr því. Í frv. felast ekki ákveðnar reglur um, hvort eða hvenær menn eru skyldir til að taka vegabréf, þegar þeir fara úr landi, heldur er ríkisstj. gefin heimild til að setja um þetta reglugerð. Þykir þetta eðlilegt fyrirkomulag með tilliti til þess, að reglur um notkun vegabréfa eru nokkuð breytilegar á ýmsum tímum og í ýmsum löndum, og fer um það mjög eftir samningum milli ríkja.

Í frv. eru tekin upp nokkur ákvæði um útgáfu vegabréfa, þar sem m.a. er berum orðum tekið fram, í hvaða tilfellum er heimilt að neita um útgáfu þeirra. En í því sambandi þykir mér rétt að benda á, að sú upptalning, sem kemur fram í frv. um þetta atriði, er ekki tæmandi, heldur virðast þau ákvæði, sem þegar eru fyrir í öðrum lögum, sem heimila að neita um útgáfu vegabréfa, eiga að haldast áfram eftir sem áður. Hef ég hér sérstaklega í huga ákvæði í l. nr. 96 frá 1946 um skatta og útsvör útlendinga, þar sem innheimtumönnum opinberra gjalda er heimilað að neita innlendum mönnum um útgáfu vegabréfa, nema opinber gjöld séu greidd. Þetta ákvæði og önnur ákvæði, sem kunna að vera í l. um þetta efni, virðast eiga að haldast óbreytt samkv. ákvæði þessa frv., þannig að upptalning frv. er ekki tæmandi. — Þetta þykir rétt að láta koma hér fram. En n. leggur sem sagt til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.