27.01.1953
Efri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

198. mál, gengisskráning

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það sannaðist nú hér hið gamla og góða máltæki: Skýzt, þótt skýrir séu. — Ég hefði nú ekki búizt við því, að það mundi henda mínum ágæta vin, hv. þm. S-Þ., að skjóta svo langt frá marki eins og hann gerði hér. En ég skal nú koma nokkru nánar að því. Hann viðurkennir hér, að það sé nauðsynlegt að láta þá athugun fara fram, sem ég geri ráð fyrir í minni till., og hann segir hér, að hann vildi gjarnan fylgja slíkri till., þ.e., að slík athugun færi fram (Gripið fram í.) Já, sérstaklega. Veit þá ekki hv. þm., að í gildi eru lagafyrirmæli, sem hann sjálfur hefur verið með að samþ., að slík athugun skuli fara fram? Og þegar þau lagafyrirmæli eru gildandi, hvað hugsar hann sér þá að gera í sambandi við það að fara að fylgja annarri sérstakri till. um sama mál? Hann var sjálfur með að samþ. slíkt ákvæði hér 10. des. 1951, en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. lætur fara fram fyrir 1. júní n.k. athugun á launum og viðbótarlaunum starfsmanna ríkis og ríkisstofnana, svo að ljóst sé, hverjar heildartekjur þeirra eru í launum frá ríkissjóði eða ríkisfyrirtækjum, samfara upplýsingum um þann vinnutíma, sem aðili lætur í té fyrir greidd laun. Að lokinni þeirri athugun og á grundvelli þeirra upplýsinga, sem þannig liggja fyrir, skal ríkisstj. gera á ný tillögur um verðlagsuppbætur á laun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana og leggja þær síðan ásamt upplýsingum fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Hv. frsm. hefur verið með að samþ. þessa sérstöku till., sem kom frá mér hér í þessari hv. d., og ég er alveg viss um það, að ef ég færi að bera fram slíka till. nú, þá mundi hann alveg réttilega benda á, að það hlyti að ganga eitthvað að þm. Barð. að vera að fara að bera fram till., sem væri samhljóða gildandi lögum. Mér fyndist það ekkert óeðlilegt. (Gripið fram í.) Ég skal koma að því síðar.

Nú veit hv. þm. það, að fjvn. meðal annars hefur gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá frá hæstv. fjmrh. þessar upplýsingar, sem hann átti að láta liggja fyrir 1. júní, og það hefur ekki verið hægt að fá þær enn. Og aðalafsökun hæstv. ráðh. er það, að það hafi ekki verið nokkur leið að fá starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana til þess að gefa upp, hvað þeir hafa í aukatekjur og hve mikinn tíma þeir láti í té fyrir þá vinnu. Það er sleginn hringur utan um þetta mál frá starfsmönnum ríkisins, vegna þess að þeir vilja ekki láta það komast upp undir neinum kringumstæðum, hvað þeir hafa. Það er aðeins hægt fyrir okkur að tína hingað og þangað út úr ýmsum skjölum, hvað þessir menn hafa í laun. Sumir hverjir hafa ekki nema lítið í aukavinnu og eru ekki nema í einum stað, og þeir eru ekkert fjarri því að gefa það upp, enda kemur það frá sumum stofnununum, en heildaryfirlit er ekki til, vegna þess að ýmsir aðrir aðilar vilja ekki gefa það upp sjálfir. Og mér hefur verið tilkynnt sem formanni fjvn. frá rn., að þeir hafi ekki sjálfir heimild til þess að ganga í skattstofuna og fá upplýsingar þaðan. Ég er ekki að rengja hæstv. ráðh. um það, að þetta sé meginástæðan fyrir því, að þessar upplýsingar hafa ekki fengizt.

Áður en ég fer lengra út í þetta, vil ég svo leyfa mér að benda á, að undanfarin mörg ár hafa staðið um það deilur hér á Alþ., hvort ætti að greiða föstum embættismönnum ríkisins fulla dýrtíðaruppbót eða hvað hún skyldi skert. Það varð að samkomulagi á sínum tíma að skerða hana við 123 stig, — mig minnir nú reyndar, að það væri samkomulag um að skerða hana við 115 stig í fyrsta skipti og að það hafi verið með brbl. á milli þinga gefið út fyrirmæli um að hækka þetta upp í 123 og reikna vísitölu embættismannanna á sama hátt og var gert í sambandi við samninga, sem gerðir voru fyrir verkalýðinn. Það var deilt mjög mikið um það þá, og það er enginn vafi á því, að það var að minnsta kosti mjög umdeilanlegt, hvort það hefði verið hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að gefa þau brbl. út, því að hér var um að ræða mjög verulegar fjárgreiðslur úr ríkissjóði, sem þurfti í raun og veru samþykki Alþ. til. En þetta var nú gert og síðan lögð á það blessun hér í Alþ., m.a. af hv. frsm., af því að þá var búið að gera þessa breytingu með brbl., en ekki af því að hann væri sammála því. Hann var mér sammála um það, að það væri rangt að fara með þetta mál svo sem gert var, en það væri sama sem að setja vantraust á hæstv. ríkisstj. að fella frv. fyrir henni. Ég gat ekki fylgt málinu þá, og ég get ekki fylgt því enn. Það var einmitt vegna þessarar skipulagningar á málunum, að ég bar fram það bráðabirgðaákvæði, sem ég var að lesa hér og hv. d. og hv. Alþ. hafa samþ.

Við skulum hugsa okkur, að þessu kerfi yrði haldið áfram, að hækka alltaf laun embættismanna, hvað sem launalögum liður, í hlutfalli við hverja þá samninga, sem verkalýðurinn gerir í landinu, þannig að aldrei raskist hlutfallið á milli launa embættismanna, eins og hv. frsm. var að tala um áðan að ekki mætti gera, og milli annarra launþega í landinu. Í hvaða aðstöðu er þá þjóðin komin? Hún er komin í þá aðstöðu, að verkalýðurinn er að berjast með verkföllum — og með því að glata oft og tíðum mörgum vinnustundum — fyrir launahækkun allra embættismanna í landinu. Ja, það er ekki óskemmtilegt hlutverk, sem verkalýðsfélögin hafa tekið að sér hér, það verð ég að segja. Og þetta frv. hér er beinlínis borið fram vegna þess, að láglaunastéttirnar í landinu hafa með sérstökum félagssamtökum knúið fram launahækkanir fyrir sig, eftir að hafa staðið í harðvítugri deilu í þrjár vikur. Og fyrir það eitt á öll embættismannastéttin í landinu að fá meiri hækkanir heldur en þessir menn fengu, svo að ekki sé raskað hlutföllunum í launum á milli þeirra. Ja, það er ekki óhugguleg aðstaða, sem við erum komnir í í landinu, verð ég að segja.

Nú skulum við koma inn á það atriði, hvort það sé eðlilegt sjónarmið, sem hv. frsm. hélt fram, að ákveðnar stéttir í landinu hafi orðið að leggja að sér að mennta sig til þess að taka að sér ákveðin störf og þær hafi ákveðna ábyrgð við sitt starf, meiri en hinn almenni verkamaður, og þess vegna megi launamismunurinn á milli þeirra ekki minnka, en það var þetta, sem hv. frsm. hélt fram. En hvað er gert hér af þeim sjálfum, eftir að búið er að samþ. launal. á Alþ., þar sem þetta sjónarmið hefur einmitt ráðið? Þá er það gert af þeim sjálfum, að þeir hópa sig saman í stéttarfélög til þess að taka — eins og hv. frsm. sagði — stundum tvöföld laun að öðrum leiðum, og vitanlega er ekki hægt að gera það nema að meira eða minna leyti að vanrækja sitt eigið starf, sem greitt er fullt fyrir. Þetta er aðstaða, sem verkamaðurinn hefur ekki, en þetta er aðstaða, sem starfsmaður ríkisins hefur. Og ég skal koma hér með dæmi máli mínu til sönnunar. Það er margupplýst hér á Alþ., að kennararnir við menntaskólann í Reykjavík kenna allt að 40 klst. og jafnvel upp í 50 klst. á viku. Þegar þetta var rætt við fræðslumálastjóra annars vegar og við íþróttafulltrúa hins vegar, því að m.a. var það einn af íþróttakennurunum, sem hafði kennt það langan tíma, og um það spurt, hvernig stæði á því, að þeir, sem ættu að hafa eftirlit með þessum störfum, gætu fallizt á eða líðið slík vinnubrögð, voru þeir einnig spurðir að því, hvort hér væri þá ekki verið að svíkja nemendurna. Og hvert var svarið? Svarið var það, alveg ófrávíkjanlegt, að það mætti ekki leggja á nokkurn kennara við menntaskólann lengri vinnutíma en 27 klst. í viku, og ef hann tæki að sér að kenna meira, þá væri hann að svíkja nemendurna. Þetta var svarið. Og þegar við svo spurðum: Hvers vegna eruð þið að leyfa þessum mönnum að svíkja nemendurna? — Hvað var svarið þá? Þá var það af því, að annaðhvort voru þeir fátækir, áttu of mikið af börnum, voru orðnir þreyttir eða vesalingar. Þetta var svarið. Og heldur nú hv. frsm., að þetta sé eina stofnun ríkisins, sem er að svíkjast um? Nei, sannarlega ekki. Það er síður en svo. Og ég get sagt hv. þm. það, að einmitt fyrir þessar sakir hafa piltar ekki fengið það nám í skólanum, sem þeir þurftu að fá, einmitt vegna þess að þessir kennarar eru að svíkjast um sitt starf og fá fyrir það full laun frá ríkissjóði. Og þetta hefur gengið svo langt, að það hefur orðið að klaga þessa stofnun fyrir þetta, — kæra hana fyrir það til rn. Þetta er nú aðeins ein stofnunin. Svo skulum við hugsa okkur ýmsar aðrar stofnanir, sem ég nenni ekki hér að tína fram, en við vitum, að svona er farið með þessi mál. Það er sleginn hringur um það frá embættismönnunum, til þess á einn eða annan hátt að ná sér í aukatekjur fyrir lítið eða ekkert verk, og með því svíkja þeir sín eigin störf.

Hv. þm. er ákaflega vel kunnugt um það, að jafnvel skattstjóri hefur verið með aukavinnu sem skattstjóri og sem forstjóri fyrir þeirri stofnun, hvorki meira né minna en yfir 20 þús. kr. Ég skal ekkert dæma um það, hvað margar stundir hann hefur lagt í það starf, sem hann vinnur hér og fær greitt fyrir aukalega. Ég skal ekkert um það segja, og ég skal heldur ekkert um það segja, hver lítur eftir því, að hann sé þá allar vinnustundir aðrar, sem hann hefur laun fyrir, í sínu starfi. Ég er ekkert að vantreysta því, en það eru engar sannanir fyrir því, að þegar sjálfur forstjóri eða skrifstofustjóri er farinn að stjórna sinni stofnun þannig, að það eru greidd hundruð þúsunda í eftirvinnu ýmsum starfsmönnum, og hann sjálfur er farinn að taka yfirvinnulaun, sem hann sjálfur reiknar sér og enginn annar veit fyrir hvað er, þá er enginn maður til þess að segja, hvernig hann hefur rækt sinn eigin vinnutíma. Nú veit ég, að skattstjóri er alveg prýðilegur maður, en þetta kerfi, eins og það er rekið hér, er náttúrlega alveg gersamlega óhæft. Og það er af þessum ástæðum og fyrir þessar upplýsingar, sem þetta bráðabirgðaákvæði var lögfest hér á sínum tíma.

Nú skulum við hins vegar athuga aðstöðu verkamannsins annars vegar og starfsmanns ríkisins hins vegar yfirleitt. Þá er hún þannig, að starfsmaður ríkisins er öruggur um sín föstu laun, hvernig sem fer. Það er jafnvel ekki einu sinni hægt að láta hann fara úr starfi. Við sjáum, hvernig það er með útvarpsstjórann. Útvarpsstjóri er látinn fara frá sínu starfi sem einn af æðstu embættismönnum landsins fyrir frámunalega óstjórn í stofnuninni, en það eru sannarlega ekki tekin af honum launin. Þegar verkamanni er vikið frá starfi, — og það þarf ekki að vera fyrir neinn frámunalegan trassaskap, það þarf ekki að vera fyrir annað heldur en það, að verkstjórinn geti ekki lynt við hann, hafi ekki skapgerð til þess að lynda við hann, þyki hann ekki nægilega fjörugur, þó að hann hafi ekki vanrækt neitt, eða hafi einhverja smágalla, þá er það gert án þess að greiða honum laun, og annar er tekinn í staðinn. Verkamaðurinn hefur enga tryggingu fyrir að fá aftur vinnu og fær engin laun eða bætur fyrir að vera vikið úr starfi. En hvað hefur útvarpsstjóri? Hann er settur á full laun, meðan málið er í rannsókn. Hann fer og sækir sín laun mánaðarlega upp til ríkissjóðs, og þegar búíð er að rannsaka málið og hann er fundinn sekur, þá er hann settur aftur inn í stofnunina með fullum launum. Og svo er verið að tala um það hér, að það sé eitthvert sambærilegt atvinnuöryggi á milli verkamannsins annars vegar og embættismannsins hins vegar og þess vegna eigi að vera þar launamunur á milli.

Við skulum halda áfram. Þegar embættismaður er búinn að starfa, og stundum ekki einu sinni eftir langan tíma, eða það óhapp kemur fyrir, að hann verður veikur, þá heldur hann samt sem áður annaðhvort fullum launum, sem ríkið greiðir, eða a.m.k. allt að 60–70% í eftirlaun, og þegar hann deyr, þá er tekið við fjölskyldunni, — þá er ekkjan, ef hún er á lífi, sett á eftirlaun og oft það rífleg, að hún geti lifað af þeim áhyggjulaus. Er svo hægt að bera þetta saman við þá aðstöðu, sem verkamaðurinn hefur? Ég er nú alveg undrandi á manni, sem þekkir eins vel þessi mál eins og hv. þm. S-Þ., að hann skuli láta sér detta í hug að halda því fram, að það þurfi að vera alltaf og ævinlega slík bil í launakjörum á milli þessara manna eins og hann talar um hér nú, og alveg sérstaklega er nauðsynlegt að fyrirbyggja það, að tekin sé upp sú regla, að þeir hækki af sjálfu sér alltaf í launum, hvað sem launalög segja, þá skuli einmitt embættismennirnir alltaf hækka í hvert skipti, sem verkalýðsflokkarnir hafa getað náð bættum kjörum, hvort heldur það er með réttu eða röngu. Það er nú bara alveg voðaleg stefna, sem við erum komnir inn á.

Þetta verkfall, sem hér stóð í nærri þrjár vikur, var leyst á þann hátt, að olía og fragtir og mjólk og ýmsar vörur lækkuðu í verði, vegna þess að ríkissjóður hafði sumpart tekið að sér að greiða það niður og sumpart fékkst samkomulag við þá aðila, sem seldu þessar vörur, að lækka þær. Þessi fríðindi fengu allir aðilar í landinu, ungir sem gamlir, fátækir sem ríkir, láglaunamenn og hálaunamenn. Um það verður ekki deilt. Fjölskyldubæturnar, sem kosta þjóðina nærri 15 millj. kr. í útgjöldum, fengu allir aðilar, líka starfsmenn ríkis og bæja, en ofan á þessi fríðindi, sem verkamaðurinn fékk fyrir sína baráttu, þá fær hver og einn einasti aðili í landinu, sem var á 1.830 kr. á mánuði og hærri launum, hvorki meira né minna en 1.000 kr. ofanálag ofan á sín laun fram yfir það, sem verkamaðurinn fékk. (Gripið fram í.) Allt svo á bilinu milli 1.830 og 2.200 kr. fær hann 1000 kr. á ári í launahækkun fram yfir öll fríðindin, sem hinn fékk, og það er það, sem ég vil ekki tryggja. Þetta kostar ríkissjóðinn líklega einar 2 millj. kr. eða kannske meira, og ég sé ekki, að það sé hvorki réttmætt né nauðsynlegt að kasta þessu fé út, og ef ríkissjóður hefur ástæðu til þess að kasta þessu út, þá á hann að setja það í allt aðrar hítir heldur en í launahít embættismannanna í landinu. Það eru mörg önnur verkefni, sem þarf frekar að sinna heldur en þeim. — Ég hefði nú hugsað mér að hafa mína till. þannig, að ef einn starfsmaður ríkisins fengi að öðrum leiðum frá ríkinu eða ríkisstofnunum aukalaun, sem samsvöruðu þessum 1.000 kr. eða meira, þá skyldi það falla niður. En einmitt hv. frsm. benti mér á, að í því væri ekki full sanngirni, því að það væri sama sem að vinna að því, að menn mættu ekki vinna í lengri tíma en ákveðinn væri fyrir þau laun, sem þeir ættu samkvæmt launal., og ég féllst á, að það væri raunverulega rétt, að þetta gæti komið mjög misjafnlega niður, og þess vegna breytti ég minni till. eins og ég hef sett hér fram. Og nú vildi ég biðja hv. frsm. og hæstv. Alþ. um að athuga, hvað felst í þessari till., því að eftir því sem hv. þm. talaði hér um áðan, þá hefur hann bókstaflega ekki skilið till. Það stendur hér orðrétt í till., með leyfi hæstv. forseta:

„Þar til fyrir liggja fullkomnar upplýsingar um launagreiðslur til starfsmanna ríkis og ríkisstofnana og þær vinnustundir, sem þeir láta í té fyrir greidd laun,“ — það er m.ö.o. þar til þessum lögum hefur verið framfylgt, — „hvort heldur er fyrir föst störf eða aukastörf, allt eins og fyrir er mælt í bráðabirgðaákvæði l. nr. 105 frá 1951, skal, þrátt fyrir framangreind ákvæði, greiða verðlagsuppbót samkv. vísitölu 123 stig á grunnlaun, sem eru hærri en 1.830 kr. á mánuði,“ — það er m.ö.o. ekkert gert hér annað en að fresta þessari um 1.000 kr. launahækkun á ári, þar til þetta er athugað, — „en úr því greiðist verðlagsuppbót á launin samkvæmt vísitölu, er ríkisstj. kemur sér saman um á grundvelli þeirra upplýsinga, sem þá liggja fyrir, enda skal leitað samþykkis Alþ. fyrir þeim greiðslum, er það kemur saman að afstöðnum kosningum á þessu ári.“

Ef þetta er samþ. hér og sett inn í lögin, hvað hefur þá skeð? Þá hefur skeð það, að ríkisstj. setur þá þvingun á þessa sömu menn, að þeir fái ekki þessar aukagreiðslur, sem um er að ræða, fyrr en þeir hafa sjálfir uppfyllt lagafyrirmæli, þ.e. að gefa þetta upp samvizkusamlega til ríkisstj. Og er það nokkur goðgá að halda þessum launauppbótum eftir, þar til þeir hafa fyllt upp þessa skyldu sína? Erum við nokkuð að níðast á embættismönnunum, þó að við segjum við þá: Þið fáið ekki þessa 1.000 kr. launahækkun, fyrr en þið hafið gert þá sjálfsögðu skyldu, sem við eigum kröfu á, þ.e. að gefa upp, hvað mikið þið hafið haft í laun og hvernig þið hafið unnið fyrir þeim? — Það er allt og sumt. Á minna en hálfum mánuði er þeim innan handar að gefa þessar upplýsingar. Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir, þá er það á valdi ríkisstj. að leggja til, hvort það skuli hækka vísitöluna eða hvort vísitalan skuli lækka. Og það er einmitt með tilliti til þess, að ég er þess fullviss, að ef allar þessar upplýsingar liggja hér fyrir, vill meiri hluti hér á hv. Alþ. ekki greiða 123 stig á vísitöluna, heldur allt annað og miklu lægra. Og það er meira að segja með tilvísun til þess, sem ég hef sagt, að það þyrfti samþykki Alþ. til. Það er ekkert, sem skeður hér í málinu, annað en það, að viðkomandi aðilar verða að gera svo vel að beygja sig undir það að uppfylla lagafyrirmæli; það er fyrsta stigið. Þegar svo er komið, gerir ríkisstj. það upp við sig, hvað hún leggur til í sambandi við þetta. Á meðan það er ekki samþ. af Alþ., er ekki hægt að lækka launin útilokað — nema þá með bráðabirgðalögum, sem ég veit, að hæstv. ríkisstj. mun ekki gera, og þessir ágætu menn verða að bíða eftir hækkuninni, 1.000 kr. á ári, þangað til þetta mál er afgert. Það er ljóta fórnin! Það er ógurlegt misrétti, sem er verið að setja á þessa menn! Það verð ég að segja. Og ég er nú alveg viss um það, að þegar minn ágæti kunningi, hv. þm. S-Þ., athugar þetta mál, þá er hann mér hjartanlega sammála um þetta. Hitt er svo allt annað atriði, að hann kann að vera settur í þá aðstöðu, að það megi ekki heldur breyta neinum stafkrók í þessum lögum, og þó er þetta frv., sem hér um ræðir, ekki í neinu sambandi við samningana, því að það gildir um allt aðra menn. Það þarf ekki að leita til samningsaðila um það í sambandi við þetta mál. Það var einmitt upplýst hér í sambandi við tryggingalöggjöfina, að það væri talið brot á samningunum, ef það væri sett nokkurt skerðingarákvæði á fjölskyldubæturnar, af því að það væri ekki vitað, nema einhver hluti af þeim mönnum, sem hefðu undirritað þessa samninga eða falið umboðsmönnum að undirrita samningana, hefði yfir 44 þús. kr. laun, og þá væri það brot á þeim samningum. Þetta voru þó einhver rök, en það eru sannarlega ekki rök, að þetta frv. hér þurfi að vera í neinu sambandi við þá samninga, sem gerðir voru út af vinnudeilunum. — Ég sagði áðan: Það kann vel að vera, að hann sé settur í þá aðstöðu, að hann verði að fylgja þessu frv. af þeim ástæðum. — En ef svo er, þá veit ég, að hv. þm. hefur þann manndóm að viðurkenna það, — segja bara eins og satt er: Ég er á móti þessu máli, en ég er kúgaður af mínum flokki og mínum ráðh. til þess að vera með því. - Þá fer ég að geta skilið hann. En að vera að láta mig lesa þetta út úr línunum, það er sannarlega ekki neinn sómi, hvorki fyrir einn né annan, hvorki fyrir hann sem þm., ekki heldur fyrir hans flokk. Ég segi hins vegar: Það er engin nauðsyn að samþ. ákvæði eins og þetta hér, sem ég sjálfur tel rangt annars vegar og ég veit að er til bölvunar fyrir mína þjóð, því að það er það. Það er fullkomlega til bölvunar fyrir þessa þjóð að hlaða svo undir embættismannastéttina í landinu, að hún sé orðin svo mikils ráðandi, að hún ein geti fyrirskipað ákveðnum flokki, alþýðufólkinu, stéttarfélögunum, fátækustu mönnunum, út í verkföll til þess að ýta upp sínum launakjörum í landinu. Þá er gengið allt of langt fyrir emhættismannastéttina. En það er það, sem verið er að gera hér, og það tel ég mjög hættulegt.

Ég vil því vænta þess, að hv. alþm. samþ. þessa till., og ég skil satt að segja hreint ekkert í því, hvernig t.d. hæstv. fjmrh. leyfir sér að vanrækja það, að þessi lagafyrirmæli séu framkvæmd. Ég bara skil það ekki. Þessi vanræksla á þessum lagafyrirmælum nú til þessa tíma hefur ef til vill kostað ríkissjóðinn þær 2 millj. kr., sem hér er verið að ræða um, því að það gat vel farið svo, að ef þessar upplýsingar hefðu legið fyrir, þá hefði hæstv. ríkisstj. aldrei dottið í hug að bera fram þetta frv., sem hér er á ferðinni.

Eins og ég sagði áðan, þá hefur fjvn. þráfaldlega krafið rn. um þessar upplýsingar og hefur ekki undir neinum kringumstæðum getað fengið þær, og annaðhvort er það, að hæstv. ráðh. sér nú, að honum ber skylda til sem einum embættismanni ríkisins að vera meðlimur í þessum hring, sem slegið hefur sig saman hér í sambandi við þetta mál, eða það liggja einhverjar aðrar orsakir til fyrir þessu, en sjálfur hefur bann aldrei gefið neinar orsakir — eða rn. — aðrar en þær, að þessir sömu menn fengjust ekki til þess að gefa upp sínar tekjur og þess vegna sé ómögulegt að framkvæma l. Það hefði náttúrlega verið sjálfsögð skylda fyrir hæstv: ráðh. að koma hér með lagafrv. um það að breyta þannig skattal., að a.m.k. rn. ætti fullan aðgang að framtali þessara manna. Og þessi barátta verður ekki látin falla niður. Það er alveg sama, hvað lengi hæstv. ráðh. dregur framkvæmd þessara l. Þessi barátta verður ekki látin falla niður undir neinum kringumstæðum. Þá er bezt fyrir hann að beita sér fyrir því, að lagafyrirmælin séu afnumin, og lofa alþjóð að vita það, að hann hafi gefizt upp við að framkvæma þau, en á meðan þau standa hér, þá verður baráttan ekki látin niður falla.

Ég tel því, að ef mín till. verður samþ., þá sé það bezta tryggingin fyrir því að fá þessum málum skipað þann veg, sem nauðsynlegt er fyrir alla aðila, og þess vegna vil ég vænta þess, að hv. d. samþ. till. mína eins og hún liggur fyrir á þskj. 587.