30.10.1952
Efri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

12. mál, gengisskráning o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. Nd. hefur sent hingað þetta frv., og eins og menn sjá, er efni þess einungis það að framlengja þau ákvæði, sem gilt hafa um breytingu verðlagsuppbótar á vissum tímum skv. gildandi lögum. En nú er sá tími útrunninn, sem verðlagsuppbótin á að breytast, og er farið fram á það, að þessi ákvæði séu framlengd til 1. des. næsta ár.

N. þykir eftir atvikum rétt, að þessi ákvæði séu framlengd um þann tíma, sem óskað er eftir, og þess vegna er það till. n., að frv. sé að því leyti samþ. óbreytt. En einn nefndarmanna, hv. 1. landsk., hefur þó áskilið sér rétt til að bera fram brtt. En þó að n. leggi til, að frv. og þau ákvæði, sem í því felast, sem eru eingöngu um verðlagsuppbótina, séu samþ., þá mun vera langt frá því, að nefndarmenn séu allir sammála um það, að það sé rétt stefna að halda svo áfram í það óendanlega um greiðslu verðlagsuppbótar, og býst ég við, að ýmsir nefndarmenn hafi nokkuð aðra skoðun á þessu máli í heild heldur en þá, sem í fljótu bragði virðist koma fram í nál. Ég fyrir mitt leyti leyni því ekki t.d., að ég er alveg sannfærður um það, að þetta kapphlaup stéttanna, sem þetta frv. m.a. ber vott um, verður einhvern tíma að hætta, ef þjóðin á yfirleitt að geta lifað og rekið sína atvinnuvegi. Hins vegar er það, að það ástand er ekki hægt að laga með einhliða ráðstöfunum, eins og t.d. þeirri að festa verðlagsuppbótina. Það verður að gera miklu víðtækari ráðsafanir, ef á a.m.k. að nema staðar á þeirri óheillabraut, sem að ýmsu leyti, er haldið nú. Þá verða að koma til víðtækir samningar milli stétta, ellegar þá valdboð, sem þjóðfélagið verður þá að sjá um, að framfylgt sé. Skal ég ekki fara nánar út í það.

Till. n. er sú, að frv. sé samþ. óbreytt, og á n. að sjálfsögðu þar við það efni, sem í frv. er, sem eru ákvæðin um verðlagsuppbótina. En á dagskrá þessa fundar er annað mál með nákvæmlega sömu fyrirsögn og þetta frv. og einnig komið frá hv. Nd. Það er þskj. 37. Efni þess er eingöngu um framleiðslugjald af síld. Mér þykir nú í raun og veru furðulegt, að hv. Nd. skyldi samþ. þessi tvö frv. sitt í hvoru lagi, jafnvel þó að annað sé flutt sem staðfesting á brbl., þar sem bæði frv. eru um breyt. á einum og sömu lögum. Mér fyrir mitt leyti finnst réttara að steypa þessum frv. saman í ein lög og taka það frv. t.d., sem nú er til 1. umr. hér, upp í þetta frv., sem hér liggur fyrir, sem brtt. Og ég mun sjá um það sem form. fjhn. þessarar d., að n. taki þetta atriði til athugunar á milli umr. En það út af fyrir sig haggar engu í því áliti n., að samþ. beri ákvæði þess frv., sem fyrir liggur, óbreytt. Það er allt annað atriði, sem þá kæmi til greina að láta verða samferða þessu, og þess vegna ekkert ósamræmi í því í sjálfu sér, þó að lagt sé til að samþ. frv. óbreytt, jafnvel þó að tekin væri till. um að bæta þar alveg nýju atriði við, sem einnig liggur fyrir þinginu og einnig er líklegt að nái fram að ganga.

Að sjálfsögðu styð ég þá till. n., að við þessa umr. sé frv. samþ. óbreytt, því að þá kemur fram, hvort hv. d. yfirleitt aðhyllist efni frv. Og ef svo verður, þá er tími til að taka það til athugunar, hvort hitt frv. geti ekki orðið samferða. Og mér finnst nú í raun og veru, að hérna gæti komið fleira til, og vildi nú skjóta því til hæstv. fjmrh., sem hér er viðstaddur, — það hafa nefnilega síðan gengislögin voru í fyrstu sett verið gerðar ýmsar breyt. á þeim, — hvort ekki væri nú rétt að steypa þessum breyt., þó að það séu núna gildandi lög, saman í eitt í sambandi við þetta frv. Til skýringar þessu skal ég aðeins lesa fyrirsögn þessa frv., sem hv. þm. að vísu hafa fyrir framan sig: „Frv. til l. um breyt. á l. nr. 105 1951, um breyt. á l. nr. 117 1950, um breyt. á l. nr. 22 1950, um gengisskráningu, launabreyt., stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl., og á l. nr. 9 1951, um breyt. á þeim lögum.“ Mér finnst, að það mundi vera handhægara að steypa þessum breyt. saman í eitt, svo að það væru ekki nema ein lög, sem væru um breyt. á l. frá 1950. Þetta er til athugunar. Mér hefur ekki gefist tóm til, eftir að ég veitti hinu málinu athygli, að ræða um þetta við n., og þess vegna er nú þetta sagt aðeins fyrir eigin reikning. En, sem sagt, nefndarmenn hafa nú þegar heyrt, hvað ég muni hafa til málanna að leggja, og þetta mun verða tekið fyrir á nefndarfundi á milli umr.