27.01.1953
Efri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

198. mál, gengisskráning

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil segja það út af síðustu orðum hv. þm., þar sem hann deildi á mig fyrir, að ekki hefði verið framkvæmd sú lagagr., sem segir, að gefa skuli skýrslur um laun og aukavinnugreiðslur til opinberra starfsmanna, — ég vil út af þessu rifja upp og leggja áherzlu á, að þegar s.l. sumar voru gerðar ráðstafanir til að safna gögnum í sambandi við fjárlfrv., þá var óskað eftir því strengilega með sérstöku bréfi frá fjmrn. til allra, að launaskrárnar yrðu búnar þannig út, að það væru í þeim till. eða skrár um þau laun, sem ætti að greiða á árinu 1953, og þau laun, sem greidd hefðu verið á árinu 1951, ásamt öllum aukagreiðslum, hvers eðlis sem væru, er greiddar hefðu verið til starfsmanna. Þessar skýrslur voru sendar af hendi stofnananna og fylgdu þeim gögnum, sem lögð hafa verið fyrir hv. fjvn. og verið þar í vetur. Hitt er annað mál, að form. fjvn. kom að máli við rn. og skýrði frá því, að hann teldi þetta ekki fullnægjandi. Það ætti að taka saman á sérstökum blöðum eða sérstökum skýrslum, hvað hverjum einstökum hefði verið greitt, þótt hann hefði fengið launagreiðslur eða einhverjar greiðslur fyrir störf á fleiri en einum stað. Þetta er gífurlega mikið verk, og hefur verið unnið að því síðan í haust, og er því nú alveg að verða lokið.