30.10.1952
Efri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

12. mál, gengisskráning o. fl.

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Með þeirri till., sem ég hef lagt fram á þskj. 153, er lagt til, að gerðar verði talsvert viðtækar breyt. á brbl. ríkisstj. um vísitöluuppbætur á kaup. Ég vil taka það strax fram, að brtt. er ekki alveg rétt prentuð hér. Hún verður prentuð upp réttilega. Það vantar orðin „næsta mánaðar á undan“ fyrir aftan orðið „framfærsluvísitölu“, þannig að till. á að hljóða svo: „Frá og með 1. nóv. 1952 skal greiðast mánaðarlega verðlagsuppbót skv. framfærsluvísitölu næsta mánaðar á undan á fyrrnefnd grunnlaun allra launþega í landinu.“

Brbl. hæstv. ríkisstj. taka aðeins til opinberra starfsmanna, en ég legg til, að vísitöluuppbót allra launþega verði ákveðin í þessum lögum. Í annan stað legg ég til, að kaup verði greitt skv. framfærsluvísitölu, en ekki skv. kaupgjaldsvísitölu, og í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að kaup breytist mánaðarlega í stað ársfjórðungslega.

Undanfarin ár hefur dýrtíð haldið áfram að vaxa jafnt og þétt og örar, en í flestum, ef ekki öllum, öðrum löndum heims. 1. okt. s.l. var framfærsluvísitala sú, sem mörkuð var með gengislækkunarlögunum, t.d. komin upp í 162 stig, hafði sem sé hækkað um 62%, þótt sérfræðingar ríkisstj. héldu því hins vegar fram á sínum tíma, að hún mundi aðeins hækka um rúm 10% af völdum gengislækkunarinnar. Eins og kunnugt er, gefur þessi vísitala þó mun takmarkaðri mynd af verðlagsþróuninni, en gamla vísitalan, sem í gildi var fram að gengislækkuninni, en um síðustu mánaðamót hefði hún verið komin upp í 640 stig, ef hún hefði verið reiknuð út. Samkvæmt henni hefur því allt verðlag í landinu, meira en tvöfaldazt á undanförnum 5 árum. Hver áhrif þetta hefur haft á kjör verkafólks, má glöggt sjá á því, að ef kaup Dagsbrúnarmanna væri reiknað skv. gömlu vísitölunni, eins og gert var fram til 1947, ætti tímakaup þeirra nú að vera tæpar 20 kr. um tímann. En það samsvarar því, að Dagsbrúnarmaður, sem hefur fulla 300 vinnudaga á ári, ætti að hafa um 14 þús. kr. meira árskaup, en hann fær nú. Þetta er sem sagt sú upphæð, sem á vantar, að Dagsbrúnarkaupið hafi fylgzt með verðlagsþróuninni síðan 1947. Í þokkabót kemur svo hin stórvægilega kjaraskerðing, sem stafar af atvinnuleysinu, en það hefur á undanförnum vetrum náð til þúsunda manna um land allt vikum og jafnvel mánuðum saman.

Þetta eru þær staðreyndir, sem nú blasa við íslenzkum almenningi undir vetur, sem ef til vill á eftir að færa enn meira atvinnuleysi, en undan- farnir vetur. Þessar staðreyndir eru einnig forsenda þess, að verkalýðsfélögin búast nú til kaupgjaldsbaráttu, eins og hv. alþm. er kunnugt. 20. okt. s.l. héldu fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík og Hafnarfirði og stjórnir verkalýðsfélaganna á þessum stöðum sameiginlegan fund um þessi mál, og þar var samþ. ályktun, þar sem m.a. var komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „að sakir vaxandi dýrtíðar og mikils atvinnuleysis sé kaupmáttur launanna orðinn svo lítill, að þau nægi ekki fyrir brýnustu lífsnauðsynjum hjá öllum þorra verkafólks, og hinn sívaxandi mismunur á framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu raski mjög jafnvæginu á milli launa hinna ýmsu stétta þjóðfélagsins, svo að ekki verði við unað lengur. Fundurinn álítur, að mismunurinn á framfærsluvísitölunni og kaupgjaldsvísitölunni ýti undir ábyrgðarlausa verðskráningu landbúnaðarafurða, bændum og verkalýð til stórtjóns, þar sem verkalýðurinn getur ekki keypt hinar nauðsynlegu landbúnaðarafurðir vegna fjárskorts, svo að bændur verða að ónýta framleiðslu sína í stórum stíl vegna ört vaxandi sölutregðu. Fundurinn bendir á það, að 23. þing Alþýðusambands Íslands verður háð í næsta mánuði. Hann álítur, að dýrtíðar- og launamálin hljóti að verða aðalmál þingsins, en þau mál verða vart afgreidd á þinginu án þess, að tilraun verði gerð til þess af hálfu verkalýðssamtakanna að fá Alþingi það, sem nú situr, til að koma til móts við réttlátar kröfur alþýðunnar í landinu um aukinn kaupmátt launanna og úrbætur á atvinnuleysinu.“ Og enn fremur segir í þessari ályktun: „Fundurinn væntir þess, að skilningur Alþingis á kjörum alþýðunnar og sanngjörnum kröfum verkalýðsins verði svo mikill, að ekki þurfi að koma til kaupdeilna, þótt samningum verði sagt upp. En með skírskotun til þess, sem að framan er sagt, ályktar fundurinn, að segja beri upp gildandi samningum við atvinnurekendur fyrir 1. nóv. n.k., með það fyrir augum, að verkalýðsfélögin heyi baráttu til þess að rétta hlut launþega.“

Áframhaldið af þessum fundi hefur svo orðið það, að eitt félagið af öðru hefur nú ákveðið að segja upp samningum, og eru flest stærstu fé- lögin nú þegar búin að taka þessa ákvörðun. Þetta eru staðreyndir, sem nú blasa við hv. þm. Og hjá því verður ekki komizt, að Alþ. taki þessi stórmál til skjótrar og röggsamlegrar meðferðar. Illa væri þá komið Alþ., ef það hefði ekki þrek til að reyna að gera þær ráðstafanir, sem komið geta í veg fyrir viðtækar og alvarlegar vinnudeilur. Till. mín er hugsuð sem liður í þeim viðbrögðum. Ég veit, að verkalýðssamtökin mundu lita á slíka ákvörðun, sem í till. felst, sem framrétta hönd Alþ. til að leysa vanda, þótt vissulega sé ekki langt gengið með henni og þörf sé mun stórfelldari aðgerða. Sjái hv. alþm. sér ekki fært að fallast á þessa till. að svo stöddu, vil ég nota þetta tækifæri til að skora á þá að taka þessi víðtæku vandamál til alvarlegrar og skjótrar umhugsunar og finna þá lausn, sem forðað geti dýrum átökum.