15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

181. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég þykist sjá það á áliti hv. fjhn., að það muni vera ætlunin eins og venjulega að láta þetta mál fljóta, án þess að nokkrar aðgerðir séu af þingsins hálfu gerðar út af þeim athugasemdum, sem yfirskoðunarmenn hafa gert, og verður það að segjast nú eins og raunar áður, að það er alltaf örðugra að gera ráðstafanir um breytingar, sem að verulegu gagni koma, þegar svo langt er um liðið eins og venjulega er, verið hefur og er nú. En varðandi það atriði, hvað hér er seint á ferðinni þessi reikningur, þá vil ég til marks um það, hvort það sé hægt að ásaka okkur yfirskoðunarmenn Alþ. um það, taka fram, að við skiluðum athugasemdum við þennan reikning, sem hér liggur fyrir og er fyrir árið 1950, til fjmrn. 3. apríl 1952, en svörin frá ráðherra bárust okkur 28. nóv., og verð ég að segja, að mér finnst það hafa kostað rn. nokkuð langan tíma að svara ekki viðtækari athugasemdum, en hér er um að ræða.

Það er rétt hjá hv. frsm. fjhn., að það eru ekki nema tvær athugasemdir, sem við höfum lagt til, að vísað yrði til aðgerða Alþ., og er það 2. og 3.–6. aths. — því er þannig varið, að á undanförnum árum hefur það alltaf farið vaxandi, að það væri meira og meira útistandandi af tekjum ríkisins í árslok, og að þessu sinni, í árslok 1950, voru útistandandi af tekjum ríkisins sjálfs rúmlega 24 millj. kr. Auk þess eru stórar upphæðir útistandandi hjá ýmsum stofnunum ríkisins, sem við í annarri athugasemd höfum bent á að þyrfti stórra lagfæringa við, því að auðsjáanlega hefur farið heldur versnandi ástandið við innheimtu hjá ýmsum þeim stofnunum á síðari árum. Þetta ástand sýnir það, að það er mikil þörf á því, að það sé aukið eftirlit með því, að innheimtunni sé komið í betra lag, en verið hefur. Ég skal játa, að þar muni vera ýmsir örðugleikar við að fást, en ekki er það álitlegt, þegar svo stendur með tekjur ríkisins og innheimtu þeirra eins og hér horfir við.

Varðandi hina athugasemdina, sem er um fjárstjórn ríkisútvarpsins, þá er það svo sem ekki í fyrsta sinn, sem við núverandi yfirskoðunarmenn gerum athugasemd við fjárstjórn þessa fyrirtækis, því að við höfum gert það, held ég, á hverju einasta ári síðan við tókum við þessu starfi. Og við erum þeirrar skoðunar, að fjárstjórn þessa fyrirtækis sé í heild sinni verri en hjá nokkurri annarri stofnun, sem ríkið rekur, og verri að því leyti til, að þessi stofnun virðist taka minna tillit til fjárlaga, en aðrar stofnanir, og geta hv. þm. sannfært sig um, hvernig ástandið er á þessu sviði fyrir árið 1950, með því að lesa þær skýrslur, sem hér eru birtar í okkar athugasemd. Ég skal ekki fullyrða nema það geti átt sér stað, sem hv. frsm. sagði, að á einhverjum einum stað hafi átt sér stað prósentvís meiri umframgreiðsla á launum einstakra manna, en í heild sinni er það áreiðanlegt, að eftir það að við höfum farið í gegnum reikninga ríkisstofnananna, þá er að þessu leyti til verri fjárstjórn hjá þessari stofnun heldur en hjá þeim öðrum ríkisstofnunum, sem helzt væri hægt að bera saman að þessu leyti. Og þó að það verði sýnilega ekki gerðar neinar ákvarðanir hér, úr því að fjhn. vill ekki flytja neinar till. um breytt fyrirkomulag varðandi þessa stofnun, þá er áreiðanlegt, að það er mikil þörf á því að koma þar á öðrum háttum, en verið hefur í þessu efni. Þó að þarna sé það verst, þá er það viða svo, að það virðist vera svo, að margir þeir, sem stjórna stofnunum ríkisins, telji sér ekki skylt að fara eftir ákvörðunum Alþ., sem koma fram í afgreiðslu fjárlaga, og bera þar hinu og þessu við í sínum svörum.

Varðandi það atriði, sem hv. frsm. gerði hér að umtalsefni og er mjög alvarlegt mál, sem sé greiðslur vegna ábyrgða ríkisins, þá höfum við yfirskoðunarmenn bent á þetta oftar en einu sinni í athugasemdum undanfarinna ára og eins nú, en sannleikurinn er sá, að þó að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða, þá er því þannig varið, að það er mjög örðugt að ásaka hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstj. fyrir það, þó að hér hafi orðið að greiða stórar upphæðir vegna þessara ábyrgða, því að í flestum tilfellum og ég býst við í öllum þeim, sem hér liggja fyrir, þá verður ekki undan því komizt að standa straum af þeim skuldum, sem viðkomandi fyrirtæki hafa stofnað til á ábyrgð ríkisins, og þegar þau eru þannig sett, að þau geta ekki staðið við sínar skuldbindingar að þessu leyti, þá er ekkert annað fyrir hendi heldur en að ríkissjóður verður þar að hlaupa undir bagga. Það, sem hér er um að ræða, er þess vegna mjög veruleg áminning fyrir Alþ. um að fara varlegar í því heldur en verið hefur að samþ. æ ofan í æ lög um ábyrgðarheimildir til þessara og þessara fyrirtækja, en þar er á þeirri leið líka örðugt við að fást, því að mörg af þeim fyrirtækjum, sem hér hafa lent í fjárþroti og ríkið hefur orðið að borga fyrir, eru nauðsynjafyrirtæki, sem þegar þau eru stofnuð geta átt fullan rétt á sér og virðast þá allar líkur til, að þau geti staðið straum af sínum greiðslum, þó að síðari tíma áföll geri það að verkum, að svo hefur ekki orðið. Þetta skal ég t.d. nefna með ýmis fyrirtæki, sem eru í kauptúnum og hafnarstöðum, sem hafa byggt sína afkomu á síldveiði og útgerð. Þetta á sér stað einkum og sérstaklega fyrir Norður- og Vesturlandi á síðustu árum, að öll stærri fyrirtæki á því svæði landsins hafa lent í mjög miklum örðugleikum vegna þeirra áfalla, sem orðið hafa vegna aflabrests á síldveiðum og viða á þorskveiðum líka. En sem sagt, þetta stóra mál er þannig vaxið, að það er ekki hægt að skella allri skuldinni á neinn einstakan ráðherra, þó að við hér gerum skýrslu yfir það, hvernig ástandið er í þessu efni, heldur er það mál, sem hlýtur að verða til nánari athugunar hér á Alþ. og við afgreiðslu laga og heimilda á þessu sviði.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þennan reikning eða flytja aðrar till. heldur en þær, sem við yfirskoðunarmenn höfum borið fram.