15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

181. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) sagði eitthvað á þá leið í upphafi máls síns, að það væri sýnilega ætlun hv. fjhn. að láta fljóta um afgreiðslu málsins, eins og hann orðaði það, þannig að ekki væri mikið gert með þau atriði í reikningnum, sem yfirskoðunarmenn hefðu viljað vísa til Alþ. Ég vil benda á það, sem þó raunar þessi hv. þm. gerði í ræðu þeirri, sem hann byrjaði svona, að það er ekki gerð till. um að vísa til aðgerða Alþ. nema tveimur atriðum í athugasemdunum. Annað málið, sem vísað var til aðgerða Alþ., er aths. um ríkisútvarpið, og skal ég ekki fara út í það. Ég hef ekki sett mig inn í það sérstaklega, svo að ég geti rætt það hér í dag. En hv. fjhn. hefur sýnilega ekki séð ástæðu til að gera sérstaka till. um það mál og þykir mér það í raun og veru ekki einkennilegt. En hitt atriðið, sem snertir mig nú meira, er fyrsta athugasemdin. Hún er um eftirstöðvarnar. Aths. er um það, að eftirstöðvar hafi nokkuð vaxið á árinu 1950. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa svarið við þessari athugasemd, svar, sem hv. endurskoðendum virðist ekki hafa verið það tæmandi, að ástæða væri til þess að telja þessu þar með fullnægjandi skil gerð. Svarið er þannig:

„Hækkun eftirstöðvanna er mest hjá tollstjóraembættinu í Reykjavík, enda eru langmestar tekjurnar innheimtar þar. Þar hefur hækkunin orðið mest á eftirstöðvum söluskatts, ca. 2 millj. kr., og er gefin skýring á þeirri hækkun í svari við 2. gr. athugasemda við ríkisreikninginn 1949.“ — Þar er allýtarlega gerð grein fyrir því, hversu horfir yfirleitt um innheimtu söluskattsins. —„Síðan breyt. sú varð á söluskattslögunum, sem þar er greind, hafa ekki safnazt fyrir eftirstöðvar af söluskatti, og mikið hefur áunnizt í innheimtu eftirstöðvanna frá fyrri árum. Eftirstöðvar söluskatts eru í árslok 1951 ca. 4 millj. kr. lægri en í árslok 1950. Hækkun var allmikil á eftirstöðvum tekju- og eignarskatts, en unnið er af kappi að innheimtu þeirra.“

M.ö.o., það er upplýst með svarinu, að siðan þessi reikningur var saminn, hefur verið sett ný löggjöf um innheimtu söluskattsins, sem hefur orðið til þess, að söluskattsinnheimtueftirstöðvar þekkjast ekki lengur og áunnizt hefur um innheimtu gömlu eftirstöðvanna. Mér er ekki alveg fullkomlega ljóst, hvers vegna hv. endurskoðendur leggja til, að þessu máli sé vísað til aðgerða Alþ., þegar það hefur legið fyrir, að Alþ. var að minni tilhlutun búið að gera sérstakar ráðstafanir til þess að laga veikasta hlekkinn í innheimtukeðjunni. Það eru að vísu verulegar eftirstöðvar af tekju- og eignarskatti, og það er sífellt erfitt að innheimta hann. En það hefur enn þá ekki verið bent á neinar aðferðir við innheimtu hans aðrar en þær, sem hafðar hafa verið, og ekki komið till. um lagabreytingar til þess að tryggja innheimtuna. Ég sé því ekki, hvað það er, sem kann að hafa vakað fyrir endurskoðendum að benda hv. Alþ. á að gera í þessum efnum umfram það, sem upplýst var með svarinu að búið var að aðhafast. Mér finnst því ekki einkennilegt og hv. fjhn. ekki ámælisverð fyrir það, að hún hefur ekki gert sérstaka till. út af þessu, þó að því væri til Alþingis vísað.

Þá er það út af ábyrgðunum og ábyrgðarútgjöldunum. Ég hef rætt þau mál mjög ýtarlega í hvert skipti, sem ég hef lagt fyrir fjárlfrv., síðan ég tók við starfi fjmrh., og bent á, hvað horfurnar í þeim efnum væru ískyggilegar. Ég ætla að nota þetta tækifæri til þess að segja um það örfá orð, þó að ég hafi enga till. um það mál hér nú liggjandi fyrir hv. Alþ.

Það er nú auðséð, að á þessu ári verða greiddar rúmlega 7 millj. vegna vanskila á ríkisábyrgðum. Það voru ætlaðar til þess 7 millj. að mæta áföllum vegna ríkisábyrgða, en það er sýnilegt, að það hrekkur ekki, þannig að það verður einhver umframgreiðsla á þeim lið. Ábyrgðargreiðslurnar eru orðnar svona gífurlegar. Til samanburðar má geta þess, að til hafnargerða eru samtals veittar á ári milli 5 og 6 millj. og til nýrra þjóðvega eru veittar 10 millj. árlega. Horfur eru sízt batnandi í þessu efni, því að síðan þær ábyrgðir voru teknar, sem valda þessum útgjöldum, þá hefur verið bætt við ábyrgðum, sem sýnilega eru mjög áhættusamar. Alveg sérstaklega er ástæða til þess að benda á þær ábyrgðir, sem hér voru teknar vegna gamalla togara í fyrra. Þær ábyrgðir ætla sýnilega að verða mjög áhættusamar fyrir ríkið. Vegna eins skipsins hefur nú þegar verið lagt út mjög mikið fé.

Það er ekki því að leyna, að ríkið stendur mjög varnarlítið uppi, þegar það hefur tekizt á hendur ábyrgðir, t.d. fyrir bæjarfélag. Það er tæpast hægt að ganga að nokkrum veðum, og það er eiginlega engan veginn hægt að koma sér við með innheimtuna.

Ríkisábyrgðir eru talsvert mikið fyrir rafveitur. Það hefur verið lagt út á hverju einasta ári til þess að greiða af öllum lánum rafveitunnar á Siglufirði, svo að dæmi séu nefnd. Það var lagt út fyrir Andakílsárvirkjunina, en því er hætt og einhverjar vonir um, að hún geti greitt inn aftur það, sem búið var að leggja út fyrir hana. Ríkið mun greiða af langsamlega flestum lánum dieselrafstöðva. Við höfum haft þann hátt á í fjmrn., að alltaf þegar rafveita er í vanskilum, þá eru ýtarlega athugaðir reikningar hennar. Það er ráðgazt um það við atvmrn. og rafmagnseftirlitið, hvort rafmagnsverðið sé lágt, þannig að það megi segja, að menn hlífi sér við raforkugjöldum og láti skella á ríkissjóði greiðslurnar. Ef raforkuverð dæmist of lágt, þá er leitað tillagna raforkumálastjórnarinnar um það, hvað eðlilegt er að það væri og skynsamlegt, og reynt að gera ráðstafanir til þess, að það sé fært í það horf. En þó að öll árvekni sé viðhöfð og öll spjót úti höfð um þetta, þá falla á ríkið árlega mjög miklar greiðslur vegna rafveituábyrgðanna. Dieselstöðvarnar eiga sérstaklega mjög í vök að verjast. Það er afar dýr rekstur á dieselstöðvunum, en það er ekki hægt að leyna því, að inn í þetta kemur einnig fleira. Bæjarfélög og sveitarfélög eru alltaf í vandræðum með peninga. Ekkert sveitarfélag hefur nóga peninga. Það að hafa nóga peninga kostar að hafa há útsvör og innheimta mikil gjöld af íbúunum. Það er sem sé alltaf þröngt í búi hjá bæjar- og sveitarfélögum, eins og hjá flestum, sem eiga að sækja peninga til annarra, og það er alveg auðséð, að sum bæjar- og sveitarfélögin greiða ekki rafveitunum réttmæt gjöld. Þau taka hjá stöðvunum raforku fyrir ekki neitt, þ.e.a.s. þau reikna raforkuna, en láta svo skuldina standa, spara bæjarsjóði þannig peninga og láta svo lánagreiðslurnar falla á ríkissjóð. Það er talsvert mikið um þetta. Ríkissjóður stendur í raun og veru algerlega varnarlaus gagnvart þessu. Það er ekki til neins að fara að ganga að rafveitunum og burðast við að taka að sér rekstur rafveitna úti um allt land. Mundi sjálfsagt ekki takast betur, þó að það yrði reynt.

Það er nokkuð mikið í vanskilum á hafnarlánum, en ekki nándar nærri því eins algengt eins og með rafveiturnar, þannig að það eru sem betur fer miklu færri hafnarsjóðir, sem eru í vanskilum, en hinir, sem standa í skilum. En þeir eru þó nokkuð margir, og þeim fer því miður fjölgandi. Það ber talsvert mikið á því, að forráðamenn hafnargerðanna heima fyrir halda áfram með framkvæmdirnar, þótt þeir fái hvergi lán, og láta þá falla á ríkið afborganir og vexti af hafnarlánunum til þess að geta haldið áfram framkvæmdum. Við svona löguðum vinnubrögðum er ekki auðvelt að snúast öðruvísi en að neita að ganga í ábyrgðir fyrir þessar hafnarframkvæmdir, þegar þær þurfa á lánum að halda. Þörfin er mikil fyrir framkvæmdir viða og lagfæringar og erfitt að fá lán. En vitanlega getur það ekki gengið, að hafnarframkvæmdir séu byggðar á því, að ríkið sé látið borga vexti og afborganir af hafnarlánunum, en hafnartekjunum varið til framkvæmdanna. Nýjar framkvæmdir í hafnarmálum verða að byggjast annars vegar á þeim fjárveitingum úr ríkissjóði, sem veittar eru til hafnargerðanna, og hins vegar á lánum, ef hafnargerðirnar hafa ekki beinlínis aflögufé af tekjum sínum til þess að verja á móti ríkisframlaginu til framkvæmda. Eftir þá reynslu, sem við höfum fengið um þetta í fjmrn., þá höfum við farið fram á það við samgmrn., að það setji sig vel fyrir fram inn í þessi mál og gangi úr skugga um það ásamt vitamálaskrifstofunni, hafnarmálastjóranum, hvort þeir hafnarsjóðir, sem vilja ráðast í nýjar framkvæmdir, hafi raunverulega fé til þessara framkvæmda án þess að taka þá peninga, sem á að greiða af ríkisábyrgðarlánunum. Maður verður að vona það, að samvinna takist við samgmrn. um þetta. Þótt ég hafi verið talsvert lengi í ráðuneytunum, hef ég aldrei orðið var við það, að þessi aðferð til vanskila væri yfirleitt notuð af hendi forráðamanna hafnargerðanna, fyrr en nú á síðustu missirum. Ég hef ekki orðið var við það áður, að tekjur hafnarsjóðanna hafi verið notaðar í framkvæmdir, en lánin látin falla á ríkissjóð. Þess vegna hefur ekki sá háttur verið á hafður að kryfja þessi mál eins til mergjar fyrir fram og nú verður sýnilega að fara að gera vegna þess, sem fram hefur komið.

Vanskilin eru mest í sumum héruðum norðanlands, sérstaklega á Siglufirði, og af því að hér var sérstaklega minnzt á Siglufjarðarrafveituna í þessu sambandi, þá vil ég geta þess, að Siglufjarðarrafveitan er í öndverðu þannig gerð, að hún fullnægir ekki orkuþörf kaupstaðarins, og m.a. vegna þess er afkoma hennar slæm. Þar hefði þurft að hafa til umráða nokkrar milljónir til þess að bæta nýrri vélasamstæðu við, og hefðu þá verið góðar vonir um, að afkoma rafveitunnar gæti orðið betri framvegis. Siglfirðingar hafa verið að reyna að fikra sig áfram í áföngum með að bæta við rafveituna, ná í ný tæki til rafveitunnar, án þess að hafa til þess fullnægjandi lánsfé, og það hefur svo hvílt á þeim í ofanálag á hinn slæma rekstur, sem stafar af því, að rafveitan er of lítil.

Á Skagaströnd hefur það verið þannig, að höfnin hefur verið í stórkostlegum vanskilum frá öndverðu. Henni hefur verið komið upp með lánum til stutts tíma, og það er mikið fé, sem búið er að leggja út vegna hafnargerðarinnar á Skagaströnd, og árlega er lagt í það mikið fé að greiða af þeirri hafnargerð. Mun hún vera sú af hafnargerðunum, sem er þyngst á fóðrunum.

Þá er eitt atriði, sem ég hef áður minnzt á og ég vil enn minnast á. Það er sú sífellda styrjöld, sem stendur út af tímalengd þeirra lána, sem ríkissjóður ábyrgist. Mikið af verstu skellunum, sem ríkissjóður hefur fengið, er vegna þess, að það hafa verið ábyrgzt of stutt lán til framkvæmda, og fyrirsjáanlegt var, að jafnvel þótt vel gengi, væri ómögulegt að greiða lánin svo ört niður. Þetta hefur verið gert í ákafanum. Þm. og aðrir áhugamenn hafa legið í ríkisstjórnunum og fjmrn. sérstaklega um það, að þessar ábyrgðir yrði að taka, það væri heimild í lögum til þess að veita ábyrgð. Ætlið þið að stöðva þessa framkvæmd? Kveður svo við. Nú er hægt að fá lánsfé þarna, það er að vísu ekki nema til fimm ára, t.d., en koma tímar og koma ráð. Og niðurstaðan hefur svo orðið sú, að á undanförnum árum hefur verið tekið mikið af ábyrgðum til of stutts tíma. Þegar síðan kemur að greiðslunni, þá geta fyrirtækin ekki greitt og skellurinn kemur á ríkissjóð. Þó nokkuð af vanskilunum er af þessum ástæðum. Þetta gengur svo heitt til, að við ætluðum að setja okkur nýja reglu, taka upp nýjan sið í þessu og ábyrgjast t.d. ekki hafnarlán til skemmri tíma en 15 ára og helzt 20 ára og sömuleiðis lán til rafveitna. En við höfum verið hraktir nokkuð af leið, þannig að við höfum í einstöku tilfellum, þegar um sérstök vandkvæði hefur verið að ræða og ef ekki hefur verið um að ræða mikinn part af heildarláninu til fyrirtækisins, tekið ábyrgð á 10 ára lánum, en 10 ára lán er yfirleitt of stutt lán til rafveitu og of stutt lán til hafnargerðar. Þetta er mjög alvarlegt mál með lánstímann og allan þann aðgang — og mér liggur við að segja frekju — sem í því sambandi kemur fram. Þetta er það alvarlegt mál, að við höfum haft það til athugunar í fjmrn. á undanförnum missirum, að Alþingi yrði að setja í lög takmörk fyrir þessu. Það er í raun og veru ekki verjandi að leggja jafnmikinn þunga á fjmrn. og ríkisstj. og gert er með því að hafa þetta svona opið með lánstímann. Hv. alþm. eru ekkert betri, en aðrir í þessu, nema síður sé, heimta, að ríkið takist á hendur ábyrgðir fyrir lánum, sem þeir sjálfir vita að eru til of stutts tíma og ekki er hægt að standa í skilum með. En í raun og veru er það svo, að sé tekin ábyrgð á láni, sem er til of stutts tíma, þannig að sjáanlegt er, að fyrirtækið getur ekki staðið undir því, þá er það sama og að veita fé úr ríkissjóði utan fjárlaga. Ég skammast mín fyrir það, hvað ég hef verið linur í þessu, hefði átt að standa hart og kalt á því, að lán til rafveitu eða hafnargerða yrðu að vera til 15 ára minnst. En það hefur því miður ekki orðið sá manndómur í okkur í fjmrn., að við höfum gert það. Við höfum dálítið látið hrekjast, en þó miklu minna en áður hefur tíðkazt; það fullyrði ég. Áður var látið taumlaust undan, og nú er það að koma niður á ríkissjóði í þessum háu ábyrgðargreiðslum. Það er bezt fyrir hv. alþm. að horfast í augu við það, að það dugir ekki að býsnast yfir því hér á Alþ., hve þessar ábyrgðargreiðslur eru orðnar gífurlegur baggi, og heimta svo af ríkisstj. eða fjmrn., að það noti ábyrgðarheimildir ábyrgðarlaust, að ábyrgð sé tekin á lánum, hversu stutt sem þau eru, og virða svo til fjandskapar, ef það er ekki gert.

Það varð nú ekkert úr því, að við legðum fyrir þetta þing frv. um þetta mál, en þetta er vandamál, og nýrra ráðstafana er þörf. Það er dálítið erfitt að finna lögfestingarreglu í þessu, sem væri heppileg, en það rekur áreiðanlega að því, að það verður að setja í lög aðhald um lánstíma ábyrgðarlána.

Maður hefur orðið var við það, af því að mikil eftirspurn er hér eftir lánum, að þeir, sem lána peninga, hvort sem það eru tryggingarfélög eða aðrir, eru farnir að ganga á það lag að binda peningana til skamms tíma. Þegar þm. eða aðrir koma til þessara aðila og segja: Getum við fengið lán til þessarar og þessarar framkvæmdar, þá er svarið máske: Hugsanlegt er það, en alls ekki til lengri tíma en 10 ára — eða kannske ekki nema til 5 ára. — Svo er pressan lögð á stjórnina og sérstaklega fjmrh. og sagt: Ætlið þið að stöðva þessa framkvæmd — o.s.frv., o.s.frv.? Hér verður því að setja aðhald áður en langt um líður.