15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

181. mál, ríkisreikningar

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd í sambandi við eitt atriði, sem fram hefur komið í þessum umr. Það er varðandi fjárstjórn útvarpsins. Það er nú út af fyrir sig ekki nýtt, að mjög sé á hana deilt og henni fundið margt til foráttu. Nú er það ekki ætlun mín að fara að svara neitt almennt fyrir hana. En vegna þess að í vitund almennings a.m.k. er það þannig, að talið er, að mjög mikill hluti af útgjöldum útvarpsins gangi fyrst og fremst til dagskrár þess, þá er nauðsynlegt að leiðrétta þennan misskilning og það þar með, að þær misfellur í fjármálastjórn útvarpsins, sem gagnrýndar hafa verið, séu að kenna því ráði, útvarpsráði, sem með dagskrárstjórnina fer á hverjum tíma.

Árið 1950 hafa heildarútgjöld ríkisútvarpsins samkv. ríkisreikningi orðið tæpar 5 millj. kr. Af því fé hefur 1 millj. og 260 þús. kr. runnið til dagskrár. Ég verð nú að segja, að mig undrar stórlega, að í athugasemd hv. yfirskoðunarmanna skuli þetta orðað þannig, að „fyrir útvarpserindi“ hafi verið greitt 1 millj. og 260 þús. kr. Það er eins og allt það fé, sem veitt hefur verið til allra dagskrárliða útvarpsins, hafi runnið til „útvarpserinda“ einna ! Ég vil nú vona það, að þetta sé aðeins prentvilla í athugasemdum hv. yfirskoðunarmanna, því að það liti mjög illa út, ef þeir hefðu ekki gleggri vitneskju um rekstur þessarar stofnunar en svo, að þeir héldu, að allt féð, sem rennur til allra dagskrárliða, renni til útvarpserinda einna.

Það er rétt, að á árinu 1950 hefur kostnaður við dagskrá farið 160 þús. kr. fram úr áætlun. Það er að vísu allmikið fé, en þegar á það er litið, að á þessu ári var t.d. framkvæmd mikil gengisfelling íslenzkrar krónu og dýrtíð og kostnaður við rekstur útvarps hlaut að hækka eins og kostnaður við annan rekstur í landinu, þá verður þetta nú ekki eins hrikaleg tala og mönnum kynni, ef til vill að virðast. En ég vil taka það fram alveg greinilega, að yfirleitt hefur undanfarin ár verið fylgt áætlun um útgjöld til dagskrár útvarpsins, og í því sambandi vil ég leyfa mér að lesa upp tölur um þær upphæðir, sem varið hefur verið í þessu skyni s.l. tvö ár.

Árið 1951 er áætlað til dagskrár 1 millj. og 200 þús. kr. Á því ári er eytt til dagskrár 1.173.222.68 kr. Það er rúmlega 26 þús. undir áætlun.

Árið 1952 var áætlað til dagskrár 1 millj. 320 þús. kr. Það eru ekki alveg nákvæmar endanlegar tölur, sem liggja fyrir, um hvað eyðslan hefur orðið, en ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að útgjöldin hafi alls ekki farið fram úr áætlun.

Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram, til þess að hvorki hv. þm. né aðrir landsmenn héldu það, að til dagskrár útvarpsins ætti sér stað einhver óhófleg sóun fjármuna, en að því hefur verið látið liggja, bæði hér á hv. Alþingi og ekki síður á öðrum vettvangi. Það er mín skoðun, að til dagskrár sé allt of litlu fé varið, og þeir, sem hafa átt sæti í útvarpsráði um nokkurt skeið, vita það, að útvarpið verður oft og einatt að neita hlustendum sínum um ýmislegt gott útvarpsefni, vegna þess að það er ekki fé fyrir hendi til þess að kaupa það. Það er líka þannig, að margir af beztu fræðimönnum og menntamönnum þjóðarinnar fást alls ekki til þess að flytja erindi fyrir útvarpið vegna þess, hversu lág gjaldskrá þess er. En ég er að sjálfsögðu ekki með þessu að segja það, að útvarpið eigi ekki að fylgja þeirri áætlun, sem á hverjum tíma er gerð um útgjöld þess á komandi tíð, enda þykist ég hafa leitt rök að því, að svo hafi verið gert.

Ég vildi svo aðeins að lokum beina þeirri fyrirspurn til hv. yfirskoðunarmanna, ef þeir taka til máls hér á eftir, hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, að það sé um prentvillu að ræða í athugasemd þeirra, þar sem rætt er um útvarpserindi og hve mikið hafi verið greitt til þeirra.