15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

181. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er eitt atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem mér þykir ástæða til að víkja nokkru nánar að, og það er um óinnheimtar tekjur ríkisins. Það var helzt svo á hæstv. ráðh. að skilja, að hann undraðist það, að við yfirskoðunarmenn létum okkur ekki nægja þær skýringar, sem fram kæmu í svari ráðh. gegn þeirri athugasemd, að við teljum það nokkuð mikið, að það séu óinnheimtar í árslok af tekjum ríkisins hjá innheimtumönnum þess beint 24 millj. Og það var helzt svo á hæstv. ráðh. að skilja, að þarna væri aðallega um söluskatt að ræða. Ég skal játa það fullkomlega, að varðandi söluskattinn sjálfan hefur hæstv. ráðh. gefið fullnægjandi svör, og það er sjálfsagt ekki hægt að fara harðara í innheimtu á neinum tekjum, heldur en hefur verið gert varðandi þennan skatt. En mér hefur virzt það lengi, eins á þessu ári, 1950, að það, hvað er mikið óinnheimt, fari nokkuð mikið eftir því, hvað þeir starfsmenn, sem hlut eiga að máli, séu passasamir með það að innheimta þær tekjur, sem þeim ber að innheimta, því að þetta er ákaflega mismunandi víðs vegar um landið, þótt maður gangi út frá því, sem sjálfsagt er, að það sé mest óinnheimt og líka mestar tekjur, sem þarf að innheimta hér hjá tollstjóranum í Rvík. Við getum sleppt því, að það sé sambærilegt við aðra sýslumenn og bæjarfógeta úti á landi, en gert dálitlar athugasemdir út af því, hversu mikill mismunur er á reikningsskilum varðandi innheimtuna frá hinum einstöku embættismönnum á þessu sviði.

Það eru nú samkv. þessum reikningi óinnheimtar hjá tollstjóranum í Rvík rúmar 17 millj. kr., og er það náttúrlega gífurleg upphæð, og kann að vera, að þar — ég man það ekki svo — sé stærsti liðurinn óinnheimtur söluskattur, en það eru áreiðanlega margir aðrir tekjuliðir ríkisins, sem þar eru óinnheimtir. Hjá lögreglustjóranum á Akranesi eru óinnheimtar 567 þús. og hjá sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu 132 þús. Til samanburðar má taka það, að t.d. hjá sýslumanninum í Húnavatnssýslu eru aðeins óinnheimtar 11 þús. kr. og hjá sýslumanninum í Skaftafellssýslu einungis 6.500 kr. Svona mætti lengi halda áfram. Hjá bæjarfógetanum á Siglufirði eru óinnheimtar 607 þús., hjá bæjarfógetanum og sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu 1.196 þús., hjá sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu, bæjarfógetanum í Hafnarfirði, er það 1.242 þús., og svona mætti lengi halda áfram. Ef maður fer út í þennan samanburð, þá er það auðsætt gagnvart þessum reikningi, eins og raunar oft hefur verið áður, að það fer mjög eftir því, hvað viðkomandi innheimtumenn eru harðir á því að innheimta þær tekjur, sem þeim ber að innheimta, og er þar ekki einasta um söluskattinn að ræða.

Varðandi þá aths., sem hér kom fram hjá hv. þm. N-Ísf. varðandi ríkisútvarpið, þá er það sjálfsagt rétt hjá honum, að það er hér um prentvillu að ræða, að það séu „útvarpserindi“, heldur á að vera fyrir „útvarpsdagskrá“ rétt rúml. 1.200 þús. En varðandi þær varnir, sem hann flutti fyrir hönd útvarpsráðs, þá hefur hann í því efni mikið til sins máls, að það er ekki nema nokkur hluti af öllum útgjöldum ríkisútvarpsins, sem útvarpsráð hefur yfir að ráða, en sannleikurinn er nú sá, að á undanförnum árum hefur það verið allmikið á reiki, hvernig viðskiptin væru á milli útvarpsins sjálfs og útvarpsráðs varðandi dagskrárféð, vegna þess að það fer eftir því, hvað mikið á hverjum tíma er reiknað inn á fasta starfsmenn útvarpsins sjálfs, og það hefur farið sívaxandi að reikna sem allra mest af starfsmönnum ríkisútvarpsins inn á fasta liði, og það auðvitað rýmkar aðstöðuna fyrir útvarpsráð varðandi þann lið, sem sérstaklega er á fjárl. færður undir dagskrárfé.

Ég skal nú víkja hér ofur lítið að því, sem hér er í aths. okkar varðandi útgjöld ríkisútvarpsins, og þar er t.d. til skrifstofukostnaðar. Hann er ákveðinn í fjárl. 325 þús. kr., en hefur orðið 433 þús. kr., það er sem sagt 108 þús. kr., sem skrifstofukostnaður ríkisútvarpsins hefur farið fram úr áætlun fjárl. Þá er það ferðakostnaður innanlands og utan, sem hefur orðið samtals 45 þús. kr. Mætti nefna ýmsa liði, sem ég skal ekki fara út í nú, en m.a. er greitt fyrir bifreiðar 54 þús. kr., og þó er, ef ég man rétt, 4 heldur en 5 bifreiðar, sem ríkisútvarpið átti sjálft á þessu ári. — Svona mætti lengi halda áfram, og geta hv. þm. séð það hér á breytingunum og þeim aths., sem við yfirskoðunarmenn höfum gert varðandi þessa stofnun, að það er síður en svo, að það sé út í bláinn að segja, sem ég hef hér sagt, að umframeyðsla umfram fjárl. hjá þessari stofnun, er meiri í heild sinni, heldur en á sér stað hjá öðrum stofnunum ríkisins. Að öðru leyti sé ég það, að það þýðir ekki mikið að vera að rekja það hér, hvernig með þessa hluti hefur verið og er farið. Maður verður viða var við þann hugsunarhátt, ekki sízt hjá stofnunum ríkisins, að ef þær hafa tekjur á móti, þá séu þær sjálfráðar að því, hvað háum gjöldum þær eyða, án tillits til þess, hvað þær hafa heimild til samkv. fjárl. Þetta er býsna mikið gegnumgangandi regla, þó að þessu leyti sé mjög mismunandi hugsunarhátturinn, sem kemur fram í eyðslunni hjá hinum einstöku stofnunum.