15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

181. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í fyrri ræðu sinni sagði hv. þm. A-Húnv., að það mundi vera ætlunin að láta fljóta, eins og hann tók til orða, og í sambandi við það lýsti hann undrun sinni yfir því, að hv. fjhn. gerði ekkert út af þeim till. eða aths., sem vísað væri til aðgerða Alþ. Það var af því, að hv. þm. sagði þetta, sem ég ræddi sérstaklega um aðra aths., sem sé eftirstöðvarnar, og svörin við henni. Hv. þm. A-Húnv. minntist á þetta núna aftur og sagði, að það hefði verið eins og mér hefði fundizt einkennilegt, að þeir hefðu ekki látið sér nægja svörin. Það, sem ég á við, er það, að mér finnst það ekkert einkennilegt, þó að þeir gerðu aths. við eftirstöðvarnar, og það hélt ég að hefði komið greinilega fram áðan, heldur hitt, að þeir skyldu vísa þessu máli sérstaklega til aðgerða Alþ. Nú kemur það líka fram, þegar hv. þm. A-Húnv. ræðir þetta málefni nánar, að efni málsins er það, að honum og hans félögum sýnist, að hér sé athugasemdar þörf, vegna þess að innheimtan sé mjög misjöfn, og þar eð sumum gengur vel að innheimta, mætti draga af því þá ályktun, að hinir gætu staðið sig betur. Um þetta er ég endurskoðendunum alveg sammála. Þótt ekki sé hægt að bera tölurnar saman alveg bókstaflega hjá einstökum innheimtumönnum, þá er það sýnilegt, að hér er misjafnlega að verki verið, og því er ekkert einkennilegt, að þeir gerðu þessa aths., enda er á hverju ári aths. um eftirstöðvarnar, og er það ekki nema gott. Það er atriði, sem aðhald þarf um. En það, sem ég var hissa á, var þetta, hvað þeir meintu með því að vísa þessu máli til aðgerða Alþ., því að vitanlega getur Alþ. ekki átt hlut að því að áminna þessa einstöku embættismenn, sem hér eiga hlut að máli, ef þeir hafa ekki staðið sig nógu vel, heldur er það stjórnarinnar. Þessari aths. átti því eftir hlutarins eðli ekki að vísa til aðgerða Alþ. né ætlast til þess, að fjhn. legði þetta fyrir sem þingmál, heldur átti að vísa þessari aths. til stj. og beina því til hennar að veita í þessu fastara aðhald. Þetta er aðalkjarni málsins. Hér við bætist svo, að þeim mun siður var ástæða til að ætlast til aðgerða á Alþ. út af þessu nú, þar sem Alþ. var nýbúið að gera ráðstafanir til þess að tryggja betur innheimtu söluskattsins, eins og ég benti rækilega á áðan og yfirskoðunarmönnum var kunnugt um. Mér finnst þess vegna, að hv. yfirskoðunarmenn hafi farið skakkt að með því að vísa þessu atriði til Alþ., þar sem þeir hafa ekki nein löggjafaratriði í huga í því sambandi eða neina þingafgreiðslu. Ég botna því ekkert í, hvers vegna hv. þm. A- Húnv. er að ámæla fjhn. fyrir það, að hún hafi ekki gert sérstaka ráðstöfun út af þessari aths., og að það sé kallað að láta „fljóta“ um afgreiðslu málsins, þó að nefndin léti það undir höfuð leggjast.